Ungi ríki maðurinn og náð Guðs

Ungi ríki maðurinn og náð Guðs

En fagnaðarerindið felst í því að eilífa lífið er ekki á neinn hátt undir okkur komið og verkum okkar heldur algjörlega undir náð þess Guðs sem megnar allt.

5. Mós 10:12-14 1.Jóh. 2:7-11 Mk. 10:17-27

Biðjum: Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ungi ríki maðurinn fór dapur frá Jesú

Ungi maðurinn í frásögu guðspjallsins er sá eini í guðspjöllunum sem fór af fundi Jesú dapur í bragði.

Mörg komu til hans döpur og niðurbeygð en fengu hjá honum uppörvun og styrk. (eins og gerist enn í dag) Þessi ungi maður kemur fullur áhuga og atorku en fer beygður af því að hann getur ekki uppfyllt það skilyrði sem Jesús setur – eða vill ekki reyna að fara þá leið sem Jesús bendir honum á.

Hann gat ekki orðið lærisveinn Krists af því að það krafðist þess að hann væri alveg heilshugar og gæfi sig Kristi algjörlega með því að sleppa öllu öðru – en til þess var hann ekki reiðubúinn. Sá ungi, ríki hafði vissulega gætt allra boðorðanna sem segja þú skalt ekki.... En það er ekki nóg. Jesús gaf gullnu regluna sem segir „allt, sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ af því að rétt breytni snýst ekki um það eitt að láta ógert heldur að gera, eiga frumkvæði, sýna kærleika að fyrra bragði. Um það snýst kristindómurinn, hann er trúarbrögð orða og athafna, að vera verkfæri Guðs í heiminum. Koma fram fyrir hann og leggja líf sitt í fangið á honum sem ber heiminn á herðum sér, hefur lífi og dauða í hendi sinni og snýr öllu til vaxtar, til upprisu.

Ungi maðurinn segir í svari sínu: ,,Ég hefi aldrei gert neinum neitt illt, alla ævi.” Það var alveg rétt en því var ekki svarað hvað gott hann hefði gert eða hverjum. Kristin trú felur í sér að aðhafast, gera, láta ekki afskiptalaust, sbr. tvöfalda kærleiksboðorðið.

Ritningarlestrarnir fjalla um elsku Guðs

Fyrri og síðari ritningarlestur dagsins, leggja sömu áherslur á sýnilegan og skilyrðislausan náungakærleika sem byggir á elsku Guðs. Eins og segir í þeim fyrri: ,,... og að þú þjónir Drottni Guði þínum af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni...” og í hinum seinni: ,,...sá sem segist vera í ljósinu en hatar bróður sinn, hann er ennþá í myrkrinu...”

Við eigum sem sagt að bera elsku til meðbræðra okkar og sýna þeim kærleika í orði og verki. Vera ljóssins megin í lífi okkar og öllu því sem við komum nærri.

Greinilegt er að ungi maðurinn leit alfarið á lögmálið sem ytri ramma til að fylgja og taldi sig hafa uppfyllt það en hafði ekki skilið dýpt þess og hlutverk, að leiða til fagnaðarerindisins, að leiða til góðra verka í heiminum.

Samt sá hann að honum var enn einhvers vant – eða kom hann hugsanlega til að heyra Jesú svara: „Það er allt í lagi með þig, vinur; þú átt þegar eilífa lífið“?

Jesús svarar honum hins vegar með því að segja: Gott og vel – ef góð verk eru leiðin, skaltu ganga alla leið, gera allt, fórna öllu. Ef þú ætlar að fara leið lögmálsins verðurðu að fara alla leið. En það er löng leið því krafa lögmálsins er óendanleg.

Viðbrögð unga mannsins sýna að Jesús hafði hitt naglann á höfuðið með því að nefna ríkidæmið – eignirnar héldu honum frá því að geta gefist Kristi af heilum hug.

Jesús talar hér í guðspjallinu almennt um ríkidæmið, almennt um þann sem auðugur er.

Það má spyrja, af hverju er það torvelt þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki? Af þessari sögu að dæma og öðrum sambærilegum er það af því að við verðum að vera reiðubúin að sleppa öllu. Sleppa öllu hér í heimi eins og Kristur fórnaði öllu í þágu okkar, eins og sagan boðar okkur í Mattheusarguðspjalli af auðuga manninum sem fórnaði öllu sínu fyrir perluna einu. Sleppa öllu og treysta, trúa, nýta okkar möguleika til að gera öðrum gott, ekki fela góðleikann og allt það mannlega góða og guðlega sem hjarta okkar geymir.

Ríkidæmi tákn um blessun?

Greinilegt er að lærisveinarnir urðu mjög hissa. Það var viðtekin hugsun meðal gyðinga að ríkidæmi væri af hinu góða. Auður var í þeirra huga tákn um blessun. Það gat ekki verið neitt rangt við að vera ríkur, síður en svo.

Auðugur maður verður líka alltaf dæmdur af tvennu: Hvernig hann eignaðist auðæfin og hvernig hann ver þeim.

Lærisveinarnir hafa líklega haldið að það yrði auðveldara fyrir þau ríku að eignast eilíft líf - eins og flest annað - en í Kristi erum við öll jöfn. Þar stöndum við öll jöfn frammi fyrir undri lífsins, því undri að Guð skuli vera til, því undri að orð Jesú skuli vera talað til okkar.

Grundvallaratriðið í guðspjallinu er spurning lærisveinanna: Hver getur þá orðið hólpinn? Því ef þau ríku geta það ekki, hver getur það þá?

Svar kristinnar trúar er að enginn getur það í eigin mætti, á grundvelli eigin lífs eða með eigin verkum. Hjálpræðið er alfarið gjöf Guðs, náðargjöf, sem þýðir að hún er gefin óháð verðleikum viðtakandans, samkvæmt Páli postula. Það að taka við og lifa í þeirri náð sýnir maðurinn svo með ávöxtum góðra verka sinna.

Setningin um úlfaldann og nálaraugað hefur verið ýmsum ráðgáta í gegnum aldirnar. ,,Tes trimalias” á grískunni hefur verið þýtt nálaraugað. Síðari tíma skýringar hafa stundum verið á þeim nótum að tes trimalias sé borgarhliðið. En sú skýring er seinni tíma tilraun til að draga úr fáránleika samlíkingarinnar. Sennilegra er að Jesús sé að vekja athygli á hinu ómögulega með því að nota mynd sem fól í sér eitthvað alveg fráleitt og gersamlega óhugsandi.

Enda er fagnaðarerindið sjálft fráleitt og óhugsandi út frá lögmáli endurgjalds og afleiðinga sem mestu ræður um almennan hugsunargang fólks, jafnvel enn í dag.

Frásögnin hér er ekki sögð af Jesú til að dásama fátækt og fordæma ríkidæmi enda getur fólk sannarlega orðið þrælbundið einnig af litlum eignum.

Að taka á móti fagnaðarerindinu snýst um grundvallarafstöðu, val, forgangsröðun í lífinu. Það snýst þó fyrst og fremst um náðina, að eiga allt undir Kristi en ekkert undir eigin verðleikum, eignum, stöðu eða neinu slíku sem við byggjum líf okkar á.

Ákefð unga mannsins kemur fram í lýsingu á atferli hans – hann kemur hlaupandi og fellur á kné fyrir Jesú úti á vegi, innan um fjölda fólks.

Miðað við það sem við vitum um fyrstu lærisveina Jesú, sem voru upp til hópa lítt menntað og fátækt fólk, tilheyrði þessi ungi maður þjóðfélagshópi sem fagnaðarerindið hafði þarna varla náð til ennþá. Það hlaut því að vera lærisveinahópnum mikill fengur að fá mann í þessari stöðu, samfélagsstöðu, um borð til sín.

Enda er sagt að Jesús hafi horft á hann með ástúð – sem hann gerir sjálfsagt við flesta, ef ekki alla menn. Líklega sá frelsarinn eitthvað við þennan unga mann sem hann vildi gjarnan hafa í hópi sínum. Samt gat Jesús ekki sveigt af leið, slegið af kröfunni, látið eins og önnur leið væri fær.

Þessi mynd er svolítið skemmtileg að sjá fyrir sér, ungur ríkur maður kemur hlaupandi og fleygir sér fyrir fætur Jesú – en Jesús var þarna nánast orðinn útlægur úr samfélaginu.

Náðin ein

Ungi maðurinn virðist hátt stemmdur tilfinningalega. Jesús vill fá hann til að hugsa um hvað hann sé að gera. Þú getur ekki orðið kristinn á grundvelli tilfinninga í minn garð, aðdáunar eða slíks. Þú verður að horfa til Guðs!

Hinn ríki segir Jesú góðan, þá svarar Jesús honum og segir að Guð einn sé góður. Engu andmælir ungi maðurinn því.

Ungi maðurinn vill vita hvernig hann geti öðlast eilíft líf. Það ber vitni um andlega leit hans. En honum líkaði ekki svarið – og hann er ekki einn um það. Þótt hann vildi heyra svar Jesú var eitthvað annað sem hann vildi enn frekar. Hann valdi að fara burt.

Persónulegur styrkur unga, ríka mannsins var ekki eins mikill og ákafi hans og því fór hann burt hryggur. Hindrun hans var auðlegðin og frekar fórnaði hann Kristi en veraldlegum auði sínum.

Þetta er mjög sterk frásaga, helgisaga. Hvernig talar hún til okkar? Fórnum við einhverju til að fylgja Jesú? – eða fórnum við eftirfylgdinni við hann fyrir eitthvað annað, eitthvað sem við verðum þó að skilja eftir þegar við förum allslaus héðan úr heimi og stöndum allslaus frammi fyrir Guði, skapara himins og jarðar.

Alstærsta vandamál unga, ríka mannsins kemur þó fram í orðalagi spurningar hans: Hvað á ÉG að gjöra....? Hann gefur sér það að hann geti áunnið sér eilífa lífið með eigin verkum en fer á mis við að þiggja það í trú og trausti.

,,Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt.” Þannig svarar Jesús spurningu unga mannsins um eilífa lífið en ungi maðurinn heyrði það svar ekki; hann var farinn. Hann hafði heldur ekki spurt hvernig hann gæti eignast eilíft líf heldur hvað hann ætti að gera til þess að eignast það.

Svarið við því er að þótt þú gerir allt og gefir allt og fórnir öllu þá er það ekki nóg – því á endanum er krafan slík að þú stendur ekki undir henni.

En fagnaðarerindið felst í því að eilífa lífið er ekki á neinn hátt komið undir okkur og verkum okkar heldur algjörlega undir náð þess Guðs sem megnar allt. Náð þess Guðs sem er kærleikans Guð, og ber elsku til okkar allra líkt og góð og heilbrigð móðir ber elsku til barns síns.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.