Andlit fátæktar er konuandlit

Andlit fátæktar er konuandlit

Það vill enginn þjást. Konurnar sem eru á flótta með börnin sín vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga vilja eiga annað líf. Konurnar sem eru þrælar klámiðnaðarins, fastar í neti sem þær komast ekki út, stundum seldar mansali – þær dreymir um líf.

Flutt í Grafarvogskirkju, 18. febrúar 2007.

Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.

En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var. Lúk. 18. 31-34

Biðjum: Miskunnsami Guð, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gjörðist hluttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi

Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika í þjónustunni við þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn frá böli og þunga í sínu daglega lífi.

Fyrir þann sama Son þinn Jesús, bróður okkar og frelsara. Amen.

Ég sá heilsíðuauglýsingu um daginn frá Glitni banka. Þetta var mynd af konum sem líklega eru frá Indlandi. Þær héldu á skilti sem á stóð: Stöðvum ofbeldi gegn eiginkonum. Tilefni auglýsingarinnar var stuðningur Glitnis við Unifem.

Í dag er konudagurinn, fyrsti dagur Góu og góður dagur fyrir blómasala. Og þennan dag ber líka upp á föstuinngang í ár. Fastan er sá tími sem kristnu fólki er gefinn til að þjáningu Krists og fórnardauða, skoða í ljósi þess eigið líf, iðrast þess sem miður fór og gera yfirbót, bæta úr því.

Það er við hæfi að upphaf föstu beri upp á konudaginn. Vissuð þið • að konur og börn eru 80% flóttamanna heims • Að konur vinna 2/3 hluta allra vinnustunda en eiga aðeins 1% eigna í heiminum og fá aðeins 10% af heimstekjum í sinn hlut • Að þriðja hver kona í heiminum verður á lífsleiðinni fórnarlamb kynbundis ofbeldis • Að ofbeldi gegn konum eykst til muna á stríðstímum og í kjölfar átaka

Þessar upplýsingar um hlutskipti kvenna er að finna á forsíðu vefsvæðis Unifem á Íslandi. Staðreyndin er nefnilega sú að andlit fátæktarinnar í heiminum er konuandlit, andlit þjáningarinnar er konuandlit. Og á bak við tölfræðina er fólk, bak við 80 prósenturnar er konur sem eiga sér drauma um annað líf.

Í guðspjallinu sem var lesið áðan segir frá því þegar Jesús kallar lærisveinana til sín og gerir grein fyrir áætlun næstu daga:

Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.
Og hver voru viðbrögð lærisveinanna við þessari stefnumörkun? Fögnðu þeir? Reyndu þeir kannski að frekar að malda í móinn? Telja hann af því að fara til Jerúsalem?

Nei, þeir skildu það ekki. Og maður getur velt því fyrir sér hver viðbrögðin hefðu orðið ef þeir hefðu skilið hann.

Hefðu þeir bara sagt ÓK, drífum okkur! Hefðu þeir reynt að hætta við ferðina til Jerúsalem? Yfirgefið Jesú? Eða hefðu þeir sagt: þú hlýtur að vera að grínast? Þeir töldu sig nefnilega vera í vinningsliðinu. Þeir voru með þeim er frelsa skyldi Ísrael – þeir voru með konungi konunganna – og hans yrði mátturinn og dýrðin um síðir.

Þeir höfðu fórnað miklu – yfirgefið allt – til að fylgja Jesú, en þeir væntu þess án efa að þeir uppskæru árangur erfiðis síns. Að þeir væru í vinningsliðinu. Við viljum alltaf vera í vinningsliðinu. Og frá okkar sjónarhóli nú, þá voru þeir það. En þeir skildu það ekki.

Þeir skildu ekki það sem hann sagði en fylgdu honum áleiðis til Jerúsalem. Þar sem allt kom fram. Þar sem Jesús Kristur var handtekinn, húðstrýktur, hæddur og líflátinn.

Það vill enginn þjást. Konurnar sem eru á flótta með börnin sín vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga vilja eiga annað líf. Konurnar sem eru þrælar klámiðnaðarins, fastar í neti sem þær komast ekki út, stundum seldar mansali – þær dreymir um líf. Og við þurfum ekki endilega að leita á svo framandi slóðir, þjáningin er líka til hér í kringum okkur, á Íslandi, í Reykjavík, í Grafarvogi. Ég las í morgun viðtal í Fréttablaðinu við konu sem segir frá erfiðri bernsku, lífi sem ekkert barn á Íslandi á að þurfa að eiga. Líklega höfum við flest heyrt slíkar frásagnir á nýliðnum dögum.

Kristur þekkir veg þjáningarinnar. Við heyrðum áðan lesið úr Jesaja: Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.” Þegar við hugsum um þann veg sem hann gekk og hvernig hans síðustu stundir á jörðinni voru, þá getum við verið viss um að hann veit hvað það er að þjást. Og með því að velja veg þjáningarinnar tekur hann sér stöðu með þeim sem þjást á jörðinni, með flóttafólki, Alnæmissjúkum, konum í ánauð kynlífsþrælkunar, börnum sem líða hörmungar.

Og þar sem Kristur er þar eigum við líka að vera. Fastan er að hefjast – tími til að íhuga og iðrast. Í kvöldlestri þessa sunnudags sem hægt er að finna á vef kirkjunnar, kirkjan.is, og talar spámaðurinn Jesaja um það að fasta og hvernig fasta það er sem Guði líkar. :

“ [..að] hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.”

Er hægt að tala skýrar? Það að Kristur tekur sér stöðu með þeim sem þjást gefur þeim von. Fastan horfir fram til páska, til upprisu, til vonar um nýtt líf. Það stórkostlega við viðtalið sem ég las í morgun er að neyðin og þjáningin átti ekki lokaorðið. Það átti huggunin og vonin. Ég hvet ykkur til að lesa það.

Og verk okkar á föstu er því ekki bara að íhuga, ekki bara að iðrast heldur að láta þessar hugsanir reka okkur áfram til gerða, því að við eigum að vinna verk Guðs á jörð, við eigum að leysa fjötra rangsleitninnar og gefa frjáls hin hrjáðu, miðla hungruðum af brauði okkar, hýsa þau hælislausu, klæða þau klæðlausu.

Það er krafa Krists – ósk hans, gleði hans. Og það á líka að vera gleði okkar. Að vera lausnarmaður, málsvari.

Hvernig við fetum í fótspor Krists og vinnum hans verk meðal þeirra sem þarfnast aðstoðar verður hver og einn að svara fyrir sig. Nú nægir okkur öllum að vera minnt á að Drottinn á við okkur erindi – við eigum að vera hendur hans til hjálpar, munnur hans til málsvarnar.

Saga kirkjunnar frá fyrstu tíð sýnir okkur að kristið fólk á öllum öldum hefur skilið það sem hlutverk sitt að gera gott – að vera náungi þeim sem þarfnast. Og enn er verk að vinna – á það erum við minnt í dag.