Glímt við Guð

Glímt við Guð

Stundum tekst maðurinn á við Guð. Hann gerir það þegar hann horfir upp á óréttlætið og þjáninguna sem slær niður þá minnst varir.

Myrkrið er í senn heillandi og ógnvekjandi. Þar sem ljósið ekki skín og augun ekki nema útlínur og form fær ímyndunaraflið lausan tauminn. Þá sést jafnvel ýmislegt sem skotið getur skelk í bringu. Hugurinn leitar merkingar og ef hann fær ekki unnið úr því sem fyrir hann er borið á hann það til að fylla upp í eyðurnar og skapa eitthvað sem ekki er til staðar. „Margt býr í myrkrinu,“ segir máltækið og kunnur útvarpsmaður endar þætti sína á því að segja: „Gætið ykkar á myrkrinu,“ gjarnan eftir safaríkar lýsingar á því sem gerist á mörkum þessa heims og annars.

Einn í myrkrinu

Þetta á ekki síst við ef mannvera er ein á ferð fjarri byggðum. Þar finnur maðurinn mest fyrir smæð sinni og umkomuleysi og þá leynast kynjamyndir í klettum og eyðimörkum. Já, myrkrið er í senn heillandi og ógnvekjandi.

Myrkrið er þó víðar en þar sem sólar nýtur ekki við og raflýsing liggur niðri. Við getum líka kallað það myrkur í lífi okkar þegar við horfum fram á tilgangslausa þjáningu okkar sjálfra og annarra. Þá er eins og upplýst skynsemin komi ekki lengur að notum, ekki frekar en augun okkar geta horft í gegnum sortann.

Fyrsta frásögnin sem hér er lesin gerist um nótt og þar er meira að segja tekið fram að maðurinn, Jakbob, hafi verið einn á ferð. Hann er á flótta undan Esaú bróður sínum sem hafði á sínum tíma selt honum sjálfan frumburðarréttinn fyrir eina grautarskál fyrir og iðrast þess jafnharðan. Þar er víst komin ein ein uppskriftin að mat í Biblíunni – en það er önnur saga! Líf Jakobs er í uppnámi og hann hefur sent þjóna sína til móts við bróður sinn með mikla hjörð dýra sem hann vill færa honum að gjöf. Sjálfur er hann einn eftir, óttasleginn og á flótta. Þá verður hann fyrir þessari árás – um nóttina.

Hver var glímukappinn?

Undir þeim sérstöku kringumstæðum verða þau átök sem sagan greinir frá. Þetta er glíma á milli manns og einhverrar dularfullrar veru sem kemur úr nóttinni og ræðst á hann. Og í raun er sagan sjálf óskýr og margræð. Að reyna að skilja hana er ekki ósvipað því þegar augun eru pírð til þess sjá og greina það sem býr í myrkrinu. Svo margt er látið ósagt um atburðarrásina. Hver var þessi vættur sem mætti Jakob í auðninni? Var það engill? – getum við spurt en það væri mjög í anstöðu við frásagnarhefðir Gamla testamentisins að geta þess ekki sérstaklega ef svo hefði átt að vera.

Af niðurlagi sögunnar er ekki annað að skilja en að maðurinn Jakob hafi glímt við sjálft almættið. Já, það hljómar undarlega í þessu samhengi þar sem Guð er svo miklu stærri og meiri manninum að slík átök gætu átt sér stað. Glíma manns við Guð – hvað væri meira í anda óraunsæis?

Þó er lýsingin á einhvern hátt svo dæmigerð fyrir það hvernig maðurinn tekst á við örlög sín og hlutskipti í lífinu. Hugleiðum þetta kæru vinir og skoðum það hvernig sagan dregur fram það hversu við mætum stundum aðstæðum í tilverunni sem fá okkur til þess að takast á við sjálfan himna smiðinn.

Stundum tekst maðurinn á við Guð. Hann gerir það þegar hann horfir upp á óréttlætið og þjáninguna sem slær niður þá minnst varir. Augu okkar hafa beinst að Hætí þessar vikurnar og við höfum spurt okkur að því hver skýringin sé á því að slíkar hörmungar henda saklausa. Mörg hliðstæð tilvik hafa átt sér stað í gegnum tíðina og jafnan vekja þau upp spurningar. Þá er eins og við hrópum á Guð í gegnum myrkið.

Jakob, sá sem glímir við hina dularfullu veru í myrkrinu var enginn venjulegur maður. Þetta er einn af ættfeðrum Ísraelsríkis – þessarar sundurlyndu hjarðar breyskra manna sem ritningin tekur sem dæmi um það hvernig Guð umfaðmar allt mannkynið.

Er hann ef til vill í sporum mannkynsins í þessum glímutökum? Á átökunum er ekki laust við að hugurinn sé leiddur að stöðu okkar þegar við horfum niður í hyldýpi þjáningarinnar og spyrjum okkur ráðþrota af hverju og hvers vegna Guð hylji sig eins og vera í myrki þegar við köllum á hann. Já, af hverju mætir Guð ekki alltaf bænum okkar og af hverju stöndum við stundum eftir allslaus og yfirgefin?

Önnur glíma

Var þetta ekki hlutskipti kanversku konunnar sem fjallað var um í guðspjallinu sem hér var lesið? „Drottinn minn, miskunna þú mér“ hrópaði hún til hans. Hann svaraði henni í fyrstu engu orði. Bæn konunnar fékk ekki áheyrn í fyrstu. Þegar Jesús loks svarar henni bendir fátt til þess að konan fái áheyrn. „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af kyni Ísraels“ segir hann. Konan var jú af annari þjóð.

Lýkur frásögninni þar? Nei, sú er ekki raunin, ekki frekar en var með glímu Jakobs þar forðum þegar hann tókst á við Guð og menn og hafði sigur. Eftir frekari orðaskipti breytir Jesús afstöðu sinni. Já, konan hafði sigur í glímu sinni við hann. Ekki vegna þess hversu máttug hún var, né heldur sökum klókinda sinna. Heldur vegna þess að hún lét ekki af bænum sínum. Hún átti í hjarta sínu þennan brennandi kærleika sem var í raun sá styrkur sem dró hana áfram og lét hana ekki bugast eða gefast upp þótt ekki liti svo út fyrir að hún fengi uppfyllingu bæna sinna.

Glímt við Guð

„Þú hefur glímt við mann og Guð og haft sigur“ sagði veran í nóttinni. Það er eins og Kristur stigi inn á sjónarsvið hins Gamla testamentis árþúsundum áður en atburðir Nýja testamentisins áttu sér stað. Kristir menn lesa Biblíuna með það í huga að hún bendir á Krist.

Og umgjörð sögunnar – dimm nóttin – skilur svo mikið eftir fyrir huga okkar að vinna úr. Jafnvel þótt Jakob hafi verið genginn úr mjaðmaliðnum og hafi því misst mikinn mátt, gafst hann ekki upp. Trúin hélt honum gangandi og fyrir tilstilli hennar vann hann sigurinn stóra. Hranaleg orð Krists við konuna eru líka eins og óljósar myndir sem birtast í gegnum sortann. Þetta er ekki sá Kristur sem birtir okkur kærleika Guðs, sá sem fyrirgefur, líknar og styður. Nei, þarna horfir móðirin fram á hina huldu ásjónu Guðs sem svarar ekki í fyrstu með þeim hætti sem við myndum óska. Er það ekki myrkrið djúpa sem mætir okkur í tilgangslausri þjáningu?

Þessar tvær söguhetjur guðsþjónustunnar ættu að vera okkur fyrirmyndir. Þau eru báðir sigurvegarar í ótrúlegri glímu. Trúin okkar er ekki áreynslulaus kyrrseta þar sem allt rennur fram fyrir augu okkar eins og á færibandi. Þar er lífið ekki málað í rósrauðum litum og myrkrið þurrkað út eins og í einni andrá. Trúin er mikil glíma. Hún felur í sér átök og knýr okkur til þess að horfa í eigin barm og taka ákvarðanir sem oft eru órafjarri þeirri hegðun sem þægilegust er og öruggust.

Eitt af því þyngsta sem mætir trúaðri manneskju er ekki átök við djöfla og dauða eða vítiskvalir þessa heims og annars. Nei það er þögnin og myrkrið sem stundum mætir okkur þegar við hrópum í angist okkar og fáum ekkert svar. Eina haldreipi okkar í þeirri rimmu er – eins og sögurnar bera með sér – bænin: „Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur.“ segir í pistli dagsins.

Hversu römm var þessi glíma sem frásagnir dagsins fjalla um? Var hún hugsanlega eins og faðir kljáist við afkvæmi sitt – meira til þess að sjá hvað í það er spunnið? Sú spurning sækir á hugann.

Við sigrum ekki Guð með eigin mætti, hvorki vöðvaafli né skynseminni sem játar sig svo rækilega sigraða þegar við horfum fram á hin hinstu rök tilverunnar. Nei, ritningin dregur upp mynd af Guði sem er andstæð þeirri sem svo margir höfðu áður dregið upp. Sjálfur birtist hann okkur hvað best á krossinum þegar myrkur grúfði yfir öllu og Kristur hrópaði: „Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig?“ Glíman var ósvikin og krossinn er eitt skýrasta merki hennar. Hér eru engin ódýr svör eða lausnir. Hér er það hið frelsandi orð sem mætir manninum, talar til hans þeim orðum sem sá gerir er sjálfur hefur gengið í gegnum þjáningu, höfnun og einsemd og hlotið fullan sigur.

Þegar Jakob taldi sig vera glataðan og kraminn af hinni dularfullu veru var hann í raun í fangi Guðs. Sú er og raunin í lífi hins trúaða þegar hann horfir upp á vonleysi þjáningarinnar og heyrir engin svör við bænum sínum. Þá er Guð oft nær en hann grunar.

Lexía: 1Mós 32.24-30

Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Guðspjall: Matt 15.21-28

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“

Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“

Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu