"Knúið dyra"

"Knúið dyra"

Guðspjall: Mrk 10.17-27 Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“ Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum Jesú Kristi.

“Það er einhver að banka á útidyrnar.”

“Ha?”

“Það er einhver að banka niðri”

“Hvað er eiginlega klukkan” hugsaði ég með mér en sá að það var bjart úti.

Leit á klukkuna og sá að hún var nokkrar mínútur í sjö.

“Ohh”.

Staulaðist niður stigann og heyrði að það var bankað fast.

Tók hurðakeðjuna frá og opnaði útidyrahurðina.

Fyrir utan stóð stæðilegur maður, sem spurði mig hátt hvort maður með nafni sem ég þekkti ekki byggi í þessu húsi.

Ég neitaði og ætlaði að loka hurðinni þá hann setti fótinn fyrir og studdi með öxlinni á hurðina og varnaði mér að loka. Við þennan yfirgang rann mér í skap og ég bað hann að gjöra svo vel að hætta þessu og ætlaði að loka.

Þá tjáði hann mér að mótstaða af minni hálfu myndi leiða til þess að hann myndi kalla til lögregluaðstoð.

Ég sagðist fagna því mjög og bað hann um að gera það endilega.

En ekki virtist hugur fylgja máli þessum orðum hans, þannig að ég bauð honum að sýna honum vegabréfið mitt og að hann myndi sanna fyrir mér hver hann væri.

Hann félst á það en þegar ég ætlaði að halla hurðinni til að ná í vegabréfið treysti hann mér ekki alveg en ég sagði að þessu yrði ekki nema að ég myndi loka hurðinni og koma aftur með vegabréfið og sýna honum.

Það gerði ég og hann skrifaði niður nafnið mitt.

Ég bað hann þá um nafnið hans og nafn fyrirtækisins sem hann starfaði fyrir.

Það kom hik á hann en ég skrifaði niður upplýsingarnar og hann spurði til hvers ég þyrfti þær.

Ég sagðist ætla að hafa samband við vinnuveitanda minn og láta vita af framkomu hans.

Hann fór þá að skjálfa og ég spurði hvað hann starfaði við og sagðist hann vinna vera “enforcment officer” eða einhvers konar starfsmaður hjá fyrirtæki sem innheimti skuldir.

Ég lokaði þá hurðinni óáreittur. ______________________

Eiginkona mín var á þessum tíma gengin rúma sjö mánuði á leið og okkur var mjög brugðið við þessa heimsókn.

Fannst farið inn fyrir friðhelgi einkalífs okkar.

Ég tjáði frá þessari heimsókn á vinnustað mínum sama morgunn og var umsvifalaust skrifað bréf til lögreglu, yfrmanns viðkomandi fyrirtækis og húseigandans og greint frá málavöxtum.

Kom þá í ljós að maður með því nafni sem var verið að leita að hafði búið í viðkomandi húsi fyrir nokkru og að hann skuldaði hraðasekt.

Húseigandinn sagðist vera búinn að skrifa viðkomandi fyrirtæki og tjá þeim að maðurinn væri fluttur úr húsinu.

Seinna kom afsökunarbréf þar sem yfirmaður fyrirtækisins baðst afsökunar og konunni minni var sendur stór blómvöndur með afsökunarorðum.

Eins var sagt að viðkomandi starfsmaður myndi hafa eftirlitsmann með sér í starfinu vikuna á eftir og líka að hann væri leiður yfir því að hafa valdið ónæði. _____________________

Stef þessarar sögu eru nokkur: til dæmis, virðing, traust, kurteinsi, sannleikur og peningar.

Innheimtumaðurinn taldi sig geta vakið upp fólk, treyst því ekki vegna að hann skyldi innheimta hraðasekt.

Hvað er orðið um heiðarleika?

Hvað er orðið um traust?

Getur þú alltaf gengið út frá því að viðmælandi þinn sé að segja ósatt, sé óheiðarlegur?

Byggjast samfélög upp á óheiðarleika, vantrausti?

Stjórna peningar öllu í þessu lífi?

Þeir stjórna miklu og reyndar of miklu að álti margra.

Fara mannkostir eftir auðæfum? __________________

Að áliti sumra er guðspjallsfrásögnin í dag hörð.

Jesús segir ríka manninum að það sé auðveldara fyrir úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.

Prestur einn var að segja fólki í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni eitt sinn að þessi texti væri snúinn.

Einn “pottormurinn” stakk þá upp á hvort það væri ekki hægt að stækka nálaraugað svo að úlfaldinn kæmist vel í gegnum það! _____________________

Er þetta algengt viðhorf?

Það er að það megi alltaf redda hlutunum, haga þeim eftir því sem manni hentar best í hvað og hvert skiptið?

Ef gatið sé of lítið þá sé um að gea að stækka það bara?

Boðskapur Jesú er sá að það bara einn Guð.

Mammón, peningar eða vantraust eru ekki Guð og eiga ekki að stjórna lífi fólks heldur Guð og trúin á hann segir kristin trú.

Það skiptir Guð ekki máli hvort við eigum peninga eða ekki, hann lítur á hjartað okkar og hvað stjórnar ferðinni þar.

Er það trúin á Guð, sem stjórnar ferðinni eða eitthvað annað, eins og t.d. vantraust eða græðgi?

Maður kveikir varla á útvarpi, sjónvarpi eða les dagblaði að ekki sé þar talað um peninga, hvar sé lítið af þeim, hvar sé mikið af þeim og svo framvegis.

Eins er vinsælt að sá fræjum vantrausts. _______________________

Peningar eru vissulega afl sem stjórna miklu og maðurinn hefur tilhneigingu að gera sjálfan sig að mælikvarða alls, t.d. á sviði fjármála, hæfileika og heilsu. Það er nauðsyn að uppfylla allar þarfir, vera sjáflum sér allt, það er að takast á við í eign mætti kröfurnar um þetta fullkoma líf sem við setjum og okkur og einnig umhverfi okkar. Auðmaðurinn í guðspjalli dagsins gat ekki lagt allt í hendur Guðs, gat ekki gefist Guði af öllu hjarta og allri sálu. Hann gat ekki elskað Guð frarmar öllu Að eignast hina sönnu lífsfyllingu hér í þessu heimi og handan hans. Guð knýr ekki á þínar dyr til að rukka þig um peninga eða til þess að vantreysta þér. Hann vill þig. Þig eins og þú ert, óháð stétt eða stöðu því að fyrir Guði almáttugum eru allir jafnir og ekkert ómögulegt.