Jakob var órólegur. Hræddur. Og hafði ríka ástæðu til. Hann hafði frétt að Esaú bróðir hans væri á leið á móti honum með 400 manns. Og Esaú hafði ástæðu til að vera reiður. Jakob hafði svikið út úr honum frumburðarréttinn og blessun föður þeirra. Það var svosem ekkert launungarmál að ekki höfðu þeir skilist í vinsemd. Nú er nótt. Þeir munu mætast á morgun. Jakob veit að hann má sín ekki gegn ofurefli, hann hefur skipt heimafólki sínu og búfénaði í tvo hópa og vonar að annar sleppi, verði ráðist á þá. Þetta er bakgrunnur sögunnar sem er lexía okkar í dag.
Jakob flytur um nótt fjölskylduna yfir fljót en verður sjálfur eftir – einn í myrkrinu. Og hann glímir. Glímir við einhvern sem hann veit ekki hver er. En Jakob gefur sig ekki í glímunni og neitar að sleppa manninum þegar dagar. “ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,” segir Jakob. Hann ætlar ekki að gefast upp.
Af hverju vill hann fá blessun?
Við hvern glímdi Jakob?
Þessi saga af Jakobsglímunni hefur lengi orðið innblástur skáldum, myndlistarmönnum og heimspekingum að ógleymdum guðfræðingum. Hvað er Jakob að glíma við þessa lengstu nótt lífs síns. Nóttina sem hann bíður eftir að allt sem hann á verði að engu, bíður blóðugra hefnda bróður síns.
“Þú hefur glímt við Guð og mann,” segir veran og nefnir hann Ísrael sem gæti þýtt “hann sem glímir við Guð” eða “hann sem heldur út gegn Guði”. Og Jakob veit sjálfur hvað gerðist – hann nefnir staðinn Penúel sem þýðir “andlit Guðs”. Hann glímdi við Guð, hann sá andlit Guðs og lifði.
Hann fékk þá blessun sem hann þráði sem var sátt við Esaú.
Var Jesús dónalegur?
Kanverska konan var líka örvæntingarfull. Dóttir hennar var alvarlega veik – haldin illum anda og mjög kvalin, er lýsingin. Hún hafði greinilega heyrt um Jesú og ávarpið sýnir að hún trúði að hann gæti hjálpað – Drottinn – herra - sonur Davíðs.
Og hvað gerir Jesús? Hann lætur eins og hann heyri þetta ekki. En konan gefst ekki upp. Eins og Jakob sem glímdi alla nóttina, þá er hún reiðubúin að berjast.
Lærisveinarnir vilja reka hana burt. Hún var kona og útlendingur og að auki með hávaða.
“Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt,” segir Jesú. Hún lætur ekki segjast: “Drottinn, hjálpa þú mér!”
Er Jesús dónalegur? Mér fannst það nú eiginlega fyrst þegar ég skoðaði þennan texta. Hvernig stendur á því að Jesús, sem jafnan mætir öllum, og einkum þeim veiku í guðspjallinu af innsæi og gæsku, er svona kuldalegur. Sér hann ekki að konan þjáist af því að dóttir hennar þjáist. Fátt er erfiðara fyrir foreldra en horfa á börnin sín þjást og fá ekkert að gert. Ekkert nema biðja. Og það gerði hún svikalaust. Hún var tilbúin að leita allra leiða. Erum við það ekki þegar börnin okkar þurfa hjálp? Og þessi maður, sem hafði læknað svo marga. Hún vissi að hann gat hjálpað. Hún trúði því.
Jesús sér trú hennar og hann býður henni í leik. Hann dregur upp mynd af kvöldverði í húsi þar sem fjölskyldan situr við borð og heimilishundar liggja undir því og sitja um hvern þann mola sem hrynur.
Ég er sendur til Ísraelsmanna – meðal þeirra á ég að vinna, segir Jesús. Þeir eru börnin sem eiga að fá brauðið mitt. Konan skilur líkinguna greinilega ekki sem móðgun heldur sem tækifæri til samræðu. Hún hendir hana á lofti og útfærir. Hún bendir á að hundarnir fái nú samt þá mola sem hrynja af borðinu og ekki sé rétt að neita þeim um það. Hún stendur þarna og heldur í Jesú eins og Jakob sem forðum hélt í Guð og sagði “Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig.” Hún veit að Jesús getur læknað dóttur hennar, að jafnvel bara brot af blessun hans nægir.
Mikil er trú þín, segir Jesús. Hún var bænheyrð.
Í fangi Guðs
Þessar tvær kröftugu sögur sem mæta okkur í messunni í dag draga upp ólíkar myndir en fjalla þó um sama efnið. Að gefast ekki upp í bæninni, að vera staðföst.
Það er ekki alltaf auðvelt. Ef til vill er það auðveldast þegar við getum ekkert annað. Þegar við mætum veikindum og neyð sem við getum ekki ein unnið bug á. Þá þurfum við að treysta. Á einn eða annan hátt mæta okkur slíkar aðstæður í einhvern tíman lífinu að við erum einskis megnug sjálf. Og það koma líka tímar sem við erum ósátt við þá niðurstöðu sem við sjáum og þá glímum við líka við Guð – og stundum mann.
Glíman við Guð getur mætt okkur á fleiri vegu. Hún getur snúist um efann um Guð, höfnun á Guði.
Stundum erum við að glíma við okkur sjálf, ófullkomleika okkar, öll okkar ómögulegheit. Ósátt við okkur sjálf verðum við ósátt við Guð og þá Guðsmynd sem okkur finnst sífellt dæma okkur. Þá glímum við við Guð og mann, rétt eins og Jakob forðum.
Þýskur biskup sagði af sér í vikunni vegna þess að hann hafði verið staðin að umferðarlagabroti. Hann hafði alltaf hvatt til þess að kirkjan væri trúverðug og því sagðist hann ekki telja sér fært að gera annað en segja af sér við þessar aðstæður. Biskupinn, sem er kona, var einnig í forsæti fyrir kirknasamtök mómælenda í Þýskalandi svo að segja mætti að fall hennar væri hátt. En þegar hún sagði af sér sagði hún: “Það hefur alltaf verið trú mín að við föllum aldrei dýpra en í hendi Guðs.”
Í erfiðleikunum, niðurlægingunni, sorginni, óttanum erum við í hendi Guðs. Þegar Jakob háði baráttuna við samvisku sína, glímdi við ótta sinn og skynjaði sig einan, í glímunni alla nóttina - þá var hann í raun og veru í fangi Guðs.
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“ Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Matt 15. 21-28Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“ 1Mós 32.24-30