Öruggur sigur í brothættri tilveru

Öruggur sigur í brothættri tilveru

Páskarnir eru hátíð lífsins. Þeir eru sigurhátíð, vegna þess að lífið ljómar á páskunum. En þeir eru líka hátíð alls sem er viðkvæmt og brothætt í tilveru okkar. Eggið er táknið sem minnir okkur á þetta allt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1. Skyndilega breyttist allt

Reiði.

Doði.

Niðurlæging.

Ótti.

Örvænting.

Sorg.

Vonleysi.

Allar þessar tilfinningar hafa vinkonur og vinir Jesú eflaust upplifað á föstudaginn langa - og margar fleiri þeim skyldar. Aðeins fáir úr vinahópnum megnuðu reyndar að fylgja leiðtoganum sínum alla leið til endalokanna á Hauskúpuhæð, Golgata. Einn þeirra, sjálfur Pétur - sá sem átti að verða foringi lærisveinanna, hafði ekki þorað öðru en að afneita því að hafa þekkt hann, nóttina fyrir dauða hans.

Hópurinn hafði lagt traust sitt á Jesú. Það bar ekki á öðru en að bjart virtist fram undan í fylgd með meistaranum. Boðskapurinn var stórkostlegur. Kraftaverkin voru mögnuð. Hróður leiðtogans barst víða og stöðugt bættist í hóp fylgjenda hans. Að vísu hafði Jesús sjálfur reynt að segja þeim undarlega hluti um að hans biði þjáning og dauði en síðan upprisa. En hver gat skilið svo þungar ræður í miðri gleðinni yfir framgangi meistarans?  Það hlaut að vera áframhaldandi fögnuður í vændum.

En skyndilega breyttist allt. Andstreymið mætti vinahópnum, líkt og þung höggbylgja sem þau fengu hvergi við ráðið. Lífið hafði komið aftan að þeim. Skyndilega var leiðtoginn dáinn og þau sjálf í hættu. Allt var breytt.

Við þekkjum sennilega flest þessar tilfinningar sem ég taldi upp hér í byrjun, í einhverri mynd. Stundum er einfaldlega eins og lífið komi aftan að okkur. Aðstæður okkar geta breyst á svipstundu. Lífið er brothætt.

2. Það sem er brothætt

Ég hóf þennan páskadag snemma í morgun líkt og eflaust fjölmargir Íslendingar, bæði börn og fullorðnir, á því að smakka á páskaeggi. Það er svolítið magnað að hugsa um eggið sem tákn páskanna. Eggið markar upphaf lífsins og framgang þess, nýtt líf. Tilvist okkar allra hófst víst með eggi. En eggið er líka brothætt, eitt það viðkvæmasta sem við getum fundið í ríki náttúrunnar.

Við tölum oft um fjöregg og eigum við eitthvað sem er okkur afar dýrmætt, jafnvel lífsnauðsynlegt, en á sama tíma svo viðkvæmt að þess þarf að gæta vel og hlúa að því.

Við hjónin vorum svo lánsöm að eignast lítinn dreng fyrir tæpum mánuði síðan, annað barnið okkar. Fátt gerir mann jafnmeðvitaðan um hið brothætta í lífinu en að annast um kornabarnið sitt. Konan mín gerir stundum grín að mér fyrir eitt. Ég á það til þegar drengurinn minn er sofandi að laumast að rúminu hans til þess eins að athuga hvort hann andar ekki örugglega! Sennilega er þetta býsna kjánalegt hjá mér og ég geri mér fulla grein fyrir því. En löngunin sem grípur mig til að aðgæta þetta er nánast óviðráðanleg og í sannleika sagt mun ég örugglega halda þessu áfram lengi enn. Lífið er nefnilega viðkvæmt og vissara að halda fast utan um það sem maður veit dýrmætast.

3. Skelfist eigi!

Öll guðspjöllin fjögur í Biblíunni segja okkur frá dauða Jesú og síðustu dögunum í lífi hans. Í gegnum frásögnina skína hinar sáru og erfiðu tilfinningar sem vinir hans og vinkonur gengu í gegnum. Þar skynjum við líka sorg Maríu, sem stóð við krossinn og mátti upplifa martröð hvers foreldris, andlát barnsins síns.En frásögnin, sem guðspjallamennirnir miðla til okkar yfir tíma og rúm, endar ekki við krossinn. Reiðin, sorgin, niðurlægingin og hræðslan eru nauðsynlegir þættir í atburðarásinni, enda eru þetta óhjákvæmilegar tilfinningar í brothættri tilveru á öllum öldum.

En þær eru ekki endalokin.

Sólin hafði ekki náð að klifra upp á himininn þennan sunnudagsmorgun þegar vinkonur Jesú gengu að gröf hans með olíurnar sínar, fullar ótta og örvæntingar yfir því hvernig komið var.Þær vildu ljúka við þann virðingarvott við hinn látna, sem ekki hafði tekist að sinna áður en hvíldardagshelgin gekk í garð við sólarlag á föstudagskvöldinu.

Í gröf Jesú beið kvennanna engill, sem ávarpaði þær með orðunum: Skelfist eigi! 

Kannist þið við þessi orð: "Skelfist eigi - Verið óhrædd"? - Það er ekki að undra, því að þau koma fyrir aftur og aftur í Biblíunni, þegar fluttur er stórkostlegur boðskapur frá Drottni, t.d. þegar hirðarnir á Betlehemsvöllum fá að heyra fréttina um fæðingu Jesú.

Og það voru sannarlega stórkostlegar fréttir sem konurnar fengu að heyra í gröfinni: Þið leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann (Mark. 16.6).

Með upprisunni fá vinir og vinkonur Jesú að upplifa stórkostlegan viðsnúning frá því andstreymi, sem þau höfðu mátt þola.

Í upprisunni breytist sorgin í fögnuð, óttinn verður að djörfung, vonleysið snýst til dýpstu vonar, niðurlægingin hverfur fyrir sigri.

4. Sigurinn

Sigurhátíð sæl og blíð, ljómar nú og gleði gefur. / Guðs son dauðann sigrað hefur. 

Þannig sungum við hér í upphafi messunnar í einum þekktasta páskasálmi þjóðarinnar. Og líka þetta: Sigur þinn oss sigur gefi, sigurhetjan, Jesús minn.

Jesús hefur unnið sigurinn á dauðanum fyrir okkur, sem viljum fylgja honum.

Þess vegna getum við tekið undir orð höfundar Davíðssálmanna, sem lesin voru hér áðan:

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra: „Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk, hægri hönd Drottins er upphafin, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki“ (Sálmur 118.15-16).

Jesús er lifandi frelsari, sem vill leiða okkur áfram í lífinu og veita okkur von og kraft til að takast á við verkefni dagsins. Hann lifir og opnar okkur eilífa lífið með sér.

Andstreymi og erfiðar tilfinningar verða áfram óhjákvæmilegur hluti lífsins, hluti af því að vera manneskja og lifa brothættu lífi. Á sum okkar virðist sannarlega meira lagt en önnur. Megi þau öll vera borin á bænarörmum á þessum páskum, sem svíður undan áföllum og söknuði.

En minnumst þess að sigur upprisunnar ljómar yfir hverju sári og hverju mótlæti tilverunnar. Jesús Kristur hefur sýnt okkur mátt sinn yfir öllu illu í þessum heimi.

5. Ófullkomið tákn

Páskarnir eru hátíð lífsins. Þeir eru sigurhátíð, vegna þess að lífið ljómar á páskunum. En þeir eru líka hátíð alls sem er viðkvæmt og brothætt í tilveru okkar. Eggið er táknið sem minnir okkur á þetta allt.

Samt er eggið líka ófullkomið sem tákn upprisuhátíðarinnar. Sennilega er ekkert tákn, ekkert sem við finnum hér á jörðinni, sem megnar að fanga boðskap upprisunnar til fulls. Í upprisunni er fólgið eitthvað stórkostlegt, sem mannlegur hugur fær seint skilið.

Andspænis öllu því brothætta og viðkvæma í lífinu mætir okkur sigur páskanna. Það er traustur og öruggur sigur, því að Jesús Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Meðtakið postullega blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með ykkur öllum. Í hans blessaða nafni. Amen.