Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Mt 11. 25-30
Kæri söfnuður, til hamingju með afmæli kirkjunnar.
Í gær gekk ég í ljósaskiptunum upp kirkjutröppurnar og var að rifja upp gamlar minningar. Neðst í tröppunum rakst ég á sóknarprestinn ykkar, séra Svavar, sem var að taka ljósmyndir af kirkjunni. Hún var næstum því hvít að á að líta því snjódrífan hafði límst utan á turnana og veggina. Það var eins og hún hefði varpað yfir sig slæðu úr hvítu silki eða þunnri ull. Og það var ekki fyrr en ég kom inn í kirkjuna og heyrði kórfólkið æfa tónlistina sem hér er flutt í dag að ég áttaði mig á því að kirkjan hafði sett upp brúðarslörið í tilefni dagsins.
Í dag höldum við upp á 70 ára afmæli Akureyrarkirkju. Hún var vígð 17. nóvember árið 1940. Þá var mikið um dýrðir hér í bæ. Klerkar gengu með helga muni frá gömlu kirkjunni í Fjörunni hingað upp á brekkuna, og í fordyri nýju kirkjunnar tóku forsvarsmenn safnaðarins við dýrgripunum og komu þeim fyrir á sínum stað. Biskup landsins, Sigurgeir Sigurðsson, predikaði við hátíðarguðsþjónustuna og kirkjan var þétt setin og staðið í hverju skoti svo að nokkrir urðu frá að hverfa.
Guðspjall vígsludagsins var úr 11. kafla Mattheusarguðspjalls, það sama og lesið var frá altarinu hér áðan. Biskup gaf predikun sinni þema úr 84. sálmi Davíðs þar sem stendur:
„Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.“
Hann óskaði söfnuðinum til hamingju með þetta glæsilega guðshús sem þá var stærsta kirkja hinnar evangelísk-lúthersku þjóðkirkju landsins. Og víst er um það að kirkjan er fögur og rismikil hér á brekkunni og hún setur sinn sterka svip á bæjarfélagið. Það er sem hún brosi við firðinum og fagni aðkomufólki.
Biskup sagði í predikun sinni: „Mér finnst að með þessari nýju kirkju hafi fegurð bæjarins öðalst kórónu sína.“ Hann bætti við „Og þá ekki síður í innra skilningi.“ Hann dáist að bjartsýninni sem lá að baki því að ráðist var í þessa byggingarframkvæmd á erfiðum tímum og nefnir tryggðina við hugsjónina um að trúin á Guð muni sigra.
Biskup fjallaði um trúna og kirkjuna með þessum orðum:
„Kirkjur þarf að byggja til þess að þær standi oss opnar þegar vér þurfum á hjálp að halda í veikleika vorum og vanmætti. Hjálp til þess að skoða hlutina, atburðina í lífinu, reynslu vora, já, allt lífið frá æðra sjónarmiði, til þess að sýna oss hinn sannasta og besta leiðtoga í daganna þraut: Jesúm Krist...“
Í bréfi sem biskup skrifaði vini sínum eftir vígsluna talar hann um að það hefði verið áhrifamikið að taka þáttí í vígsluathöfninni athöfninni og sérstaklega að finna þann hlýhug sem bæjarbúar sýndu kirkju sinni. Hann orðar þannig að það hafi verið eins og „andleg vakning væri í bænum þennan dag“.
En það voru erfiðir tímar á Akureyri á þessum árum sem og annars staðar. Stríðið var í algleymingi og Ísland heyrði undir konung Danmerkur. „Aldrei hefir oss riðið meira á en nú, Íslendingum“, segir biskup í predikun sinni „að með oss ríki fullkomið bræðralag, samlyndi og samúð og að vér stöndum fast saman um að varðveita frelsi vort og allt sem oss er helgast og dýrmætast bæði í lífi hvers einstaklings og þjóðar heildarinnar. Oss verður að skiljast og verða ljóst, að í andúð og innbyrðis baráttu erum vér ef til vill að glata því sem oss þykir innst inni mest um vert og grafa sjálfum oss og þjóð vorri geigvænlega gröf. Nú þrufum vér um fram allt á trú og siðgæðisþreki að halda.“
Þessi orð eiga við nú ekki síður en þá. Þau eru eins og töluð inn í það ástand sem ríkt hefur hér á landi undanfarin misseri. Sjaldan hefur okkur sem þjóð skort jafn átakanlega samlyndi og samúð og það er sárt að verða vitni að því hvernig andúð og innbyrðis barátta ólíkra hagsmunaafla og stjórnmálaflokka er að naga sundur rætur þeirrar velmegunar og þjóðfrelsis sem tók rúma öld að byggja upp.
Og það er þá ekki síður mikilvægt að við stöndum vörð um kirkjuna og það sem hún boðar þegar veist er að möguleikum hennar til að gera sig gildandi með boðun fagnaðarerindis Krists.
Kristnin á sér djúpar rætur í þeim jarðvegi sem íslensk menning og samfélag er og það gerir kirkjan ykkar hér á brekkunni einnig. Frá upphafi er hún samofin íslenskri sögu. Heimili fyrstu landnámshjónanna hér í Eyjarfirði, þeirra Þórunnar hyrnu og Helga magra, var kristið þótt Helgi héti á Þór í harðræði á sjó. Og þeir voru fleiri kristnu landnámsmennirnir. Nýjar rannsóknir benda til þess að kristni hafi verið áhrifameiri á fyrstu öld Íslandsbyggðar en Ari fróði greinir frá í Íslendingabók. Hann var talsmaður valdaætta frá Noregi og litu ekki hýru auga til þess að írskir menn höfðu helgað sér hér land frá fyrstu tíð. Líklega eru fáar eða engin þjóð sem hefur búið við samfeldan kristin sið frá því að land var fyrst numið.
Það er því mikilvægt að trúin sem ól af sér samstöðu og samábyrgð, hugsjónir og framtíðarvonir, fái að haldast við í landinu og gefa fólki trú á framtíðina, hugrekki og fórnfýsi til að byggja upp á ný það sem fór forgörðum.
Ég á ekki við að kristið fólk safnist saman og myndi herskara sem stendur vörð um eigin hagsmuni og lætur sig litlu varða um velferð hinna. Nei, kjarninn í þeim kristindómi sem gaf þjóðinni kjark þegar hún braust úr viðjum fátæktar, kúgunar og einangrunar er einmitt umburðarlyndur og frjálslyndur að þessu leyti. Kirkjan er öllum opin, það er grunnstefið í þeirri boðun sem iðkuð hefur verið hér í þessari kirkju og enn lengur í prestakallinu.
Aldamótakynslóðin hér á Akureyri átti skáldprestinn og húmanistann séra Matthías Jochumsson að sálnahirði og vissulega einkenndi mannúðin, samúðin með þurfandi fólki og umburðarlyndið með ólíkum skoðunum alla boðun hans, hvort sem var í sálmum, skáldverkum eða ritgerðum um stjórnmál og menningarmál. Stundum hefur þessi kirkja einmitt verið kennd við séra Matthías, en hús hans, Sigurhæðir, kúrir hér neðar við klettinn sem kirkjan stendur á og blasir við úr gluggum safnaðarheimilisins.
Við undirbúning þessarar predikunar kannaði ég predikunarsafn föður míns sem þjónaði í Akureyrarkirkju öll sín prestsskaparár, samtals 34 ár. Ég tók þá eftir því að hann flutti ekki aðeins afmælispredikanir á stórafmælum kirkjunnar, á tíu eða fimm ára fresti, heldur nánast á hverju ári. Hann elskaði þetta guðshús og notaði oft orðið musteri þegar hann talaði um kirkjuna. Sjálfur man ég vel eftir því hve hann umgekkst altarið, skírnarfontinn og predikunarstólinn af mikilli lotningu. Þjónustan hér og samstarfið við fólkið virtist alltaf vera honum gleðiefni og það var greinlegt að þessi gleði hans var smitandi. Þetta skynjaði ég snemma þótt mér þætti sjálfum ekki alltaf jafn gaman að sitja hér í messu sunnudag eftir sunnudag. Aldrei heyrði ég hann minnast einu orði á að sækja um annað prestakall.
Í þessum afmælispredikunum var faðir minn fremur laustengdur við texta dagsins því að það var kirkjan sjálf sem var textinn hans – kirkjuhugtakið sem hann setti í biblíulegt samhengi á líkingarmáli sem skírskotaði til safnaðarins. Hann ræðir um kirkjuna og trúna í predikun á 25 ára afmæli kirkjunnar og segir: „Maður, sem vaknar til trúar, hefir reist Guði kirkju í hjarta sínu.
Lífið fær guðlegan tilgang. Guðsríkið er á meðal okkar í smáu og stóru, ef við skoðum það frá hinu eilífa sjónarmiði.“
Kirkjan þýðir í raun söfnuður Guðs og hér er sjálft húsið ekki aðalatriðið.
Á 34 ára afmæli kirkjunnar vísar hann til textans sem predikað var út af við vígsluathöfnina. Hann sagði sögu af pílagrími sem var á Akureyri á meðan byggingu kirkjunnar stóð, manni sem enginn vissi nein deili á. Piltur sem alist hafði upp á Stóru-Völlum sem stóð mjög nærri kirkjunni sagði frá því að þessi óþekkti maður hafði komið reglulega með blóm og lagt á ákveðinn stað í byggingunni sem var hrá og ókláruð og gerði þar bæn sína. Og faðir minn leggur út frá þessari sögu og segir:
„Við megum vera stolt af kirkjunni okkar, en kanske er réttara að segja þakklát fyrir að eiga musterið, þennan helgistað... Fókið er kirkjunnar fegursta skraut. Þ.e.a.s. ekkert hæfir betur en fólkið í kirkjunni og er í meira samræmi við eðli og tilgang hússins. Hvort sem við hugsum um okkur sjálf eða kirkjuna, þá ber að sama brunni, kirkjan og fókið á saman, hæfir best hvort öðru.“(„)Einn daginn kom pílagrímurinn ekki aftur. Þannig fer um alla pílagríma. En verkin fylgja þeim. Með bæn sinni eru þeir að byggja kirkjuna, koma fyrir lifandi steinum í byggingunni. Hið sama gerir hver kirkjuvinur með bæn sinni. Hann byggir upp hið andlega. Á þeim grunni rís kirkjan, hin andlega kirkja, musteri hjartans. – Mættum við halda því verki áfram, og byggja þá Akureyrarkirkju á meðan tími er til.(“)