Líkþrár maður og sveinn hundraðshöfðingjans

Líkþrár maður og sveinn hundraðshöfðingjans

Jesús er ekki hræddur við að horfast í augu við okkur í því erfiða og skammarlega. Hann er ekki hræddur við að koma nálægt þeim hliðum okkar sem láta okkur halda að við séum ekki þess virði að koma nálægt. Sé skömm eitthvað óhreint þá vill hann gera okkur „hrein“ og losa okkur frá skömminni og því sem hún brýtur niður.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen


Þrír menn komu að hliði himnaríkis og hittu sjálfan Lykla Pétur. Þar var þeim sagt að þeir fengju eina ósk uppfyllta en hún yrði að vera svar við spurningunni. "Hvað viltu að fjölskylda þín og vinir segi við útför þína?" Sá fyrsti segir: "Ég vil að þau segi hve frábær náungi ég hafi verið og að ég elskaði þau og lífið mikið." „Ég vil að vinir mínir segi að ég hafi verið besti vinur sem þeir gátu nokkru sinni átt,“ sagði sá næsti. Eftir að hafa hugsað um stund svarar sá þriðji: „Ég vil að allir segi: Sjáið! Hann er að hreyfa sig, - hann er upprisinn! “


Þessi litla saga er um þá ósk að snúa á dauðann. Já hvað ef til væri einhver ósk sem gæti fært okkur lífið aftur eftir að öllu er lokið? Flest elskum við auðvitað lífið og viljum fá að lifa því, heilbrigð auðvitað og án sjúkdóma og verkja. Eftirmæli okkar veljum við auðvitað sjálf að miklu marki. Lífið sem við lifum og framkoma okkar við annað fólk ræður hvernig það talar um okkur og hvernig það mun minnast okkar.


Í biblíutexta dagsins hittum við tvo menn í neyð. Líkþráan mann sem kemur til Jesú og heiðinn herforingja sem er með veikan svein heima. Báðir hafa þeir heyrt um læknisverk Jesú og í trú og von snúa þeir sér til hans sem þeir vita að getur hjálpað og læknað. Báðir vilja þeir fá Jesú til að snúa á dauðann. Lækna sjúkdóma sem myndu annars verða banvænir. Þeir eru ekki að hugsa um eftirmæli heldur lífið bókstaflega og það að halda í lífið lengur.


Á öllum tímum hafa verið til skelfilegir sjúkdómar. Nú heyrum við af hræðilegum veirufaraldri sem á uppruna sinn í Kína. Við vonum að lækning finnist sem fyrst. Á dögum Jesú var líkþrái eitt það versta sem menn gátu fengið. Þetta var smitsjúkdómur sem lét húðina og holdið rotna svo líkamshlutar féllu af. Þá gátu þeir sem smituðust ekki lengur verið nálægt fjölskyldu sinni og vinum. Og eins og það sé ekki nógu vont þá þurftu þeir sem voru líkþráir að hringja með bjöllu og hrópa „líkþrái“ þegar þeir gengu yfir götuna svo að allt heilbrigt fólk í nágrenni fengi tækifæri til að komast burt svo að það smituðist ekki. Geturðu ímyndað þér eitthvað svo niðurlægjandi og sársaukafullt, bæði líkamlega og andlega? Það er erfitt að vera vísað burt og send í sóttkví. Það fylgdi þessum sjúkdómi mikil skömm. Fólk var talið óhreint og bölvað. Skömm er erfið kennd. Hún skapar mikla vanlíðan og margir finna til hennar.


Texti dagsins segir frá fundi milli Jesú og hins líkþráa. Hvernig gat sá, sem var útilokaður frá snertingu við samferðamenn sína staðið frammi fyrir lækninum mikla? Það var líka spurning hvort Kristur myndi lækna hann. Skyldi Jesús halda eins og farísearnir og jafnvel læknarnir að bölvun sé yfir honum og biðji hann þá að flýja til þeirra staða þar sem holdsveikt fólk bjó, við grafirnar og ruslahaugana?


Jesú læknar og kennir og fólk safnast saman í kringum hann. Hinn líkþrái þarf að ná fundi þessa manns. Sá líkþrái stendur langt í burtu en hann skynjar eitthvað af því sem Jesús segir. Hann sér að hann leggur hendur á sjúka. Hann sér að sjúkir, blindir, lamir og þeir sem eru nálægt dauða af ýmsum sjúkdómum rísa upp og lofa Guð fyrir lækningu. Trú hans styrkist þegar hann nálgast mannfjöldann. Hann gleymir varúðarráðstöfunum sem hann verður að fylgja. Hann gleymir öryggi landsmanna og óttanum sem allir finna fyrir. Hann hefur aðeins eitt í huga, vonina um að læknast. Hann þarfnast Jesú, kastar sér fram og hrópar: "Drottinn, ef þú vilt, þá getur þú hreinsað mig!" Í þeim orðum felast allar hans óskir, öll hans von.


Jesús öskraði ekki á hann. Hann hljóp ekki burt. Hann var ekki hræddur við að koma of nálægt. Jesús gerði hið óhugsandi. Hann tók á hinum líkþráa manni og sagði við hann: "Ég vil þú verðir hreinn!"

Jesús er ekki hræddur við að horfast í augu við okkur í því erfiða og skammarlega. Hann er ekki hræddur við að koma nálægt þeim hliðum okkar sem láta okkur halda að við séum ekki þess virði að koma nálægt. Og hann vill gera okkur „hrein“. Jesús lagði hönd sína á likþráa manninn. Strax varð breyting og maðurinn læknaðist. Jesús leiðbeindi manninum og bað hann að segja ekki frá því sem gerst hafði, heldur leggja fram í helgidóminum fórn. Ekki var hægt að samþykkja slíka fórn fyrr en prestarnir höfðu skoðað manninn því þeir höfðu úrskurðarvald um heilbrigði og sjúkdóma. Sama hversu tregir þeir voru að gera þetta þá gátu þeir ekki komist hjá þeirri lagaskyldu að rannsaka manninn og lýsa hann heilbrigðan og þar með velkominn aftur inn í samfélagið.


Skömm er eitthvað sem við öll berum með okkur að litlu eða miklu leyti. Skömm getur verið góð og gagnleg. Hún er tilfinningin sem segir okkur hvenær okkar eigin mörk eða mörk annarra eru troðin. En skömm getur líka verið mjög sársaukafull. Hún getur verið óeðlileg og sagt okkur að við séum ekki verðug til að vera elskuð. Skömm veldur sársauka og þjáningu og getur knúið okkur til að draga okkur í hlé áður en aðrir hafna okkur. Það er vont að bera mikla skömm og hana er sem betur fer hægt að losna við. Við losnum við skömm með að tala um hana við hvert annað og við sérfræðinga t.d. sálfræðinga, presta eða lækna. Það er ekki hollt að lifa með skömm. Hún er eins og holdsveikin því hún étur mann upp smám saman.


Ég sá þátt í norska sjónvarpinu þar sem maður var að leita uppruna síns. Langafi hans hafði stungið af frá konu og mörgum börnum í Þrændalögum og farið til Ameríku að talið var. Hann lét aldrei heyra frá sér. Það var mikill sársauki í fjölskyldunni vegna þessa og hvíldi yfir þessu skömm sem varð til að þessi atburður var aldrei ræddur. Faðir hafnar börnum sínum og yfirgefur eiginkonu! Þarna var sársauki og skömm sem lagði skugga yfir alla fjölskylduna áratugum saman. Þetta var leyndarmálið í fjölskyldunni. Afinn stakk af og sögur spunnust um að hann hefði framið einhver afbrot. En hver var sagan? Leit í skjalasöfnum sýndi að maðurinn hafði aldrei farið til Ameríku. Saga hans var sú að hann hafði greinst með holdsveiki og til að færa ekki skömm yfir heimili og fjölskyldu þá sagði hann engum frá. Hann lét sig hverfa algjörlega úr lífi fólksins síns. Fór til Bergen á holdsveikrahæli og eyddi þar ævinni í felum fyrir öllum er áður þekktu hann. Hann valdi það fremur en að láta fjölskylduna sitja uppi með hann sem holdsveiki sjúkling. Hann óttaðist útskúfun og eingangrun barna sinna og eiginkonu. Þau væri betur komin án hans. Þvílík þjáning og vítiskvalir sem þetta hljóta að hafa verið að láta frá sér eiginkonu og börn og lifa þessu hryllilega lífi einangrunar á hælinu. Allt var það út af sjúkdómi og skömm tengdum honum og ótta við dóma annarra.


Fundur Jesú með hundraðshöfðingjanum eða herforingjanum í Kapernaum er undirsaga en á sama tíma saga þar sem Jesús nálgast þá sem ekki tilheyra Ísraelsmönnum, - Guðs útvöldu þjóð. Að Jesús opnar samfélag Guðs fyrir öðrum en Gyðingum er kannski það mikilvægasta í textanum. Það er líka krefjandi, því um leið og Jesús opnar á þetta kemur hann með sterka gagnrýni á erfingja ríkisins, útvalda þjóð Guðs. Hvað verður um það fólk allt sem átti að taka á móti Jesú en gerði það ekki?


Herforinginn byrjar á því að leggja áherslu á að hann sé ekki verðugur Jesú. Hann þekkir fyrirmæli Gyðinga og veit að Jesús verður talinn óhreinn ef hann gengur inn í heiðingjahús. Í ljósi hreinleika og heilagleika Jesú sér hann óhreinleika sinn og syndsemi. Þegar við sem erum syndarar fáum hjálp frá syni Guðs köllum við það náð. Herforinginn þráir þessa náð. “Segðu bara orðin og drengurinn mun læknast.” segir herforinginn því sjálfur hafði hann reynslu af að gefa skipanir sem var hlýtt. Orð hans sem yfirmanns höfðu vald til að breyta lífsaðstæðum annarra. Hann sýnir einfalda og um leið sterka trú á kraftinn sem liggur í orðum Jesú. Þegar orð hans sjálfs gætu haft svo mikinn kraft, hversu miklu meira gætu orð Jesú sem sonar Guðs ekki breytt lífsaðstæðum manna? Sjálfur gat hann ekki skipað Jesú að gera kraftaverk. Hann gat aðeins vonað í trú að Jesús myndi mæla fram læknandi orð. Jesús veitti þessari trú og trausti athygli: Sannlega segi ég yður, ég hef ekki fundið neina slíka trú hjá neinum í Ísrael! Segir hann.


Trú er að treysta því að Jesús geti hjálpað og að treysta því að hann geti fyrirgefið syndir og treysta því að hann geti læknað sjúkt fólk bæði áður og fyrr og líka í dag. Herforinginn fór heim og fann sveininn læknaðan. Í trú fór hann fyrst til Jesú með neyð sína og bæn. Í trú lagði hann fram bón sína til Jesú. Í trú talaði Jesús orð sem læknuðu. Sama getum við gert. Lagt fram okkar bæn í trú og von.


Jesús endar samtalið við herforingjann með því að segja frá því hverjir muni taka þátt í hátíðinni á himnum. Margir Gyðingar ímynduðu sér að þeir, sem afkomendur ættfeðranna Abrahams, Ísaks og Jakobs, hefðu unnið happamiðann sem óháð lifnaðarháttum veitti frjálsan aðgang að Paradís. Heiðingjarnir yrðu hins vegar að standa úti. Jesús segir að þetta sé ekki svona. Hann sagði heiðingja munu koma „frá austri og vestri“ og fara inn í hátíð himinsins. Þannig byrjar Jesús að búa fylgjendur sína undir trúboð meðal þeirra sem ekki voru Gyðingar.


Í gegnum söguna hefur þessi tiltekni biblíutexti verið lagður til grundvallar kenningum um gyðingahatur. Textinn hefur verið notaður til að styrkja þá hugsun að eftir tíma Jesú hafi Gyðingum verið hafnað sem lýð Guðs og skipt út fyrir kristna kirkju. Páll postuli hafnar reyndar slíku í bréfinu til Rómverja. Skilningur hans er skýr að Gyðingum sé ekki hafnað sem þjóð Guðs, heldur að heiðingjarnir í Kristi séu græddir í vínviðinn svo að þeir verði á vissan hátt Gyðingar líka. Hugmynd Páls samræmist því vel hvernig Jesús lýsir himni: fólk mun koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob, aðalpersónunum út ættfeðraveldi Gyðinga. Þetta fólk er við öll sem viljum sjá og heyra Jesú. Engu breytir hver við erum eða hvað við erum að dragnast með. Skömm og hræðslu, veikleika og bresti. Við eigum öll sömu von og líkþrái maðurinn og herforinginn að Jesús Kristur bænheyri okkur og að það verði eins og hann vill.


Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

                    


                                                                                   Eyrarbakkakirkju 26.janúar 2020Guðspjall: Matt 8.1-13
Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“ 


Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“  Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“ Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“ 


Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.