Á veginum upp til Jerúsalem

Á veginum upp til Jerúsalem

Hefur þú mætt honum þannig? Hefurðu heyrt rödd hans er hann staðnæmist hjá þér? Það er sú spurning, sem mætir okkur í Guðs orði hér í dag. Hefur hann fengið að taka þátt í lífi þínu og umbreyta því, þér til blessunar og náunga þínum? Því hann kallar okkur öll að fylgja sér á veginum upp til Jerúsalem.

Lúk. 18:31-34

I.

Strax eftir að Jesús hóf opinbert starf sitt kallaði hann tólf menn til fylgdar við sig. Þessir tólf hafa síðan verið kallaðir postularnir, eða sendiboðarnir, hinir sendu. En þótt þeir hafi fengið virðulegan titil, þá skulum við ekki gleyma því, að þetta voru engin ofurmenni, heldur ósköp venjulegir menn. Menn eins og við, þú og ég. Við vitum að nokkrir þeirra voru fiskimenn og a.m.k. einn þeirra var tollari, en engir þeirra munu þó hafa verið sérstakir áhrifamenn í þjóðfélaginu.

Þegar hér var komið sögu höfðu þeir verið með Jesú í nærri þrjú ár, fylgt honum eftir á ferðum hans um landið, heyrt boðskap hans, orðið vitni að verkum hans og rætt við hann um leyndardóma Guðsríkisins. Á þessum tíma hafði hann oftsinnis varað þá við því, að hann ætti eftir að verða framseldur í manna hendur, líða og þjást í Jerúsalem og að lokum verða líflátinn. Og myndi síðan rísa upp á þriðja degi. En lærisveinarnir hvorki gátu né vildu skilja, hvað hann var að fara með þessum orðum.

Í fyrsta sinn, sem Jesús nefndi þessa hluti, hafði Pétur sagt: “Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.” (Mt.16:22). Og næst þegar Jesús nefnir það, hvað biði hans framundan í Jerúsalem þá er okkur sagt, að “þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.” (Mk.9:12). Ekki vegna þess að þeir væru hræddir við hann, því það voru þeir áreiðanlega ekki, heldur vegna þess, að þeir óttuðust það, að orð hans bæri að taka bókstaflega, og það vildu þeir ekki. Þeir gátu einfaldlega ekki höndlað né meðtekið slíkan boðskap.

Eins og allir guðhræddir gyðingar voru þeir vafalaust aldir upp í von um það, að senn myndu rætast fyrirheitin, um komu Messíasar, frelsarans, sem Guð myndi senda til að hrinda oki Rómar af þjóðinni og endurreisa konungsríki Davíðs og Salómons í allri sinni dýrð.

Og sannarlega hafði sú von vaknað hjá þeim, að einmitt hann væri sá sem koma átti. Að hann væri Kristur, Messías, hinn smurði. Og þessi von breyttist smám saman í vissu, þegar þeir urðu vitni að lífi hans og starfi. Því þeir höfðu orði vitni að svo mörgu. Hann talaði eins og sá sem valdið hafði og þeir höfðu séð undur, tákn og stórmerki gerast. Séð niðurbrotna og útskúfaða einstaklinga fyllast fögnuði og gleði, séð nýja von, já nýtt líf, kvikna í sálum einmana og vondapra manna. Séð sjúka og fatlaða læknast og jafnvel látna rísa upp frá dauðum.

Allt þetta, sem þannig gerðist í þeirra eigin lífi og annarra, hafði vafalaust vakið væntingar í brjósti þeirra. Miklar væntingar. Þeir sáu fyrir sér glæsta framtíð í höfuborginni, þar sem allt myndi breytast. Þar var jú að finna alla helstu handhafa hins trúarlega og pólitíska valds og þar myndu hlutirnir gerast. Þar væri því framtíðarvon þeirra manns. Þar yrði hann þekktur, kæmist til valda og áhrifa meðal þjóðarinnar, og þá væri nú ekki verra að tilheyra nánast hópi stuðningsmanna hans.

Þegar Jesús því á þessari stundu, sem frá er greint í guðspjalli dagsins, tekur enn á ný að ræða allt þetta sem biði hans framundan og segir við þá: “Nú skulum við halda upp til Jerúsalem, - nú fer þetta allt að gerast”, þá var eins og þeir væru slegnir blindu. Það var eins og þeir heyrðu ekki orð hans og skildu alls ekki merkingu þeirra. Þau voru þeim hulin. Það var eins og þeir heyrðu aðeins það sem þeir vildu heyra og sæju aðeins það sem þeir vildu sjá. Það sannaðist því á þeim hið fornkveðna, að það er enginn jafn blindur og sá sem neitar að sjá.

Og þekkjum við ekki raunar öll slíka afneitun þegar betur er að gáð. Hversu oft hefur það ekki gerst, að við þorum ekki, eða megnum hreinlega ekki, að horfast í augu við raunveruleikann, ef hann er okkur of ógnvekjandi eða hræðilegur. Þá lokum við frekar eyrum okkar, augum og raunar allri skynjun, til þess að geta haldið í vonina. Spyrjum einskis, og látum eins og ekkert sé.

Það var einmitt þetta, sem lærisveinarnir reyndu þennan dag. Þeir neituðu hreinlega að horfast í augu við illskuna og dauðann sem framundan beið. Neituðu að horfast í augu við háðið, misþyrmingarnar og kvölina, sem í vændum var. Hann mátti því í raun ganga veginn upp til Jerúsalem einn og yfirgefinn.

Því þrátt fyrir það, að þeir fylgdu honum áleiðis til borgarinnar, þá áttu þeir jú allir eftir að snúa við honum baki, afneita eða flýja.

En tökum eftir því, að þrátt fyrir þetta snéri hann ekki baki við lærisveinunum, öðru nær! Þrátt fyrir breyskleika þeirra, skilningsleysi og afneitun reyndist hann trúr og gekk af kærleika sínum píslargönguna allt til enda. Því allt var þetta jú þeirra vegna, og okkar!

Því tók hann þá með sér upp til Jerúsalem og gaf þeim að lokum sjónina eins og blinda betlaranum, sem setið hafði við veginn þegar þeir lögðu af stað og ákallaði hann um að miskunna sér. Honum hjálpaði hann líka, gaf honum sjónina, þannig að hann gæti fylgt sér. Þetta má vera okkur huggun og staðfesting þess, að jafnvel þótt við séum oft skilningssljó, eins og lærisveinarnir, skiljum ekki lífið og öll þau öfl sem þar eru að verki og lifum því oft í afneitun, þá vill Jesús samt hjálpa okkur. Hann snýr ekki við okkur baki, heldur vill hann hjálpa okkur í baráttu lífsins í stóru sem smáu og gefa okkur sjónina, þannig að við fáum komið auga á þau gildi sem raunverulega skipta máli og varða líf okkar allt og sálarheill, um tíma og að eilífu.

Það var jú einmitt okkar vegna, að hann gekk leiðina alla upp til Jerúsalem og fórnaði þar öllu í okkar stað. Krossgangan og allt það sem henni fylgdi er þannig ekki bara löngu liðinn sögulegur atburður, sem segir frá hryggilegum örlögum ofsótts og kvalins manns fyrir 2000 árum, heldur varðar hún líf og tilveru sérhvers lærisveins, - já, sérhvers manns, enn þann dag í dag, og mun ávallt gera á meðan mannkynið byggir þessa jörð.

II.

Jesús bað fyrir mótstöðumönnum sínum og illgjörð-armönnum á krossinum, bað fyrir öllum mönnum og þá einnig fyrir okkur, mér og þér. Hann bað: “Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.” (Lk. 23:34)

Hann bað og biður enn fyrir okkur hverju og einu og er fús að fyrirgefa, jafnvel þótt við höfum gleymt, afneitað eða snúið við honum baki. Hann biður fyrir blindum og skilningssljóum lærisveinum. Biður fyrir okkur hverju og einu. Hann kemur til okkar og segir: “Nú förum við upp til Jerúsalem”. Hann leiðir okkur að krossi sínum og vill gefa okkur allar þær gjafir sem í honum eru fólgnar. Og því spyr hann okkur eins og blinda manninn forðum: “Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?” (Lk. 18:41)

Þetta er grundvallar spurningin, sem í raun aðgreinir Jesúm Krist frá okkur. Því líf hans allt var þjónusta, þjónusta við okkur mennina. Kærleiksþjónusta hans, sem var og er reiðubúinn til að fórna öllu okkar vegna, og vill gefa okkur allt með sér. Þetta er kjarni fagnaðarerindisins. Þjáningargangan upp til Jerúsalem og alla leið upp á krossinn á Golgatahæð var vegna okkar. Vegna okkar, hvers og eins, og upprisusigurinn á páskum sömuleiðis. Hann kom í þennan heim til að þjóna og gefa!

En það var ekki fyrr en eftir upprisuna, sem augu lærisveinanna lukust upp og þeir skyldu það loks í raun, hver hann var og til hvers hann kom í þennan heim. Nú fóru þeir loks að skilja boðskapinn, sem var þeim áður hulinn og orð hans fengu alveg nýja merkingu. Þeim varð það nú ljóst, að þeir máttu koma til hans með alla hluti, hvar og hvenær sem er. Því hann lætur sig allt varða, sem okkar er.

Og þessu er í raun nákvæmlega eins varið með okkur mennina í dag. E.t.v. eru augu okkar haldin eins og augu lærisveinanna voru, þannig að allt þetta með þjáninguna, blóðið, krossinn og dauðann hljómar fyrir okkur sem eitthvert trúarbull, eins og ég hefur heyrt það orðað í umræðunni síðustu daga. Og var ekki á dögum postulanna talað um heimsku, eins og við heyrðum í pistlinum hjá Páli hér áðan? Þeir eru vissulega til okkar á meðal, sem vilja vera alveg lausir við það, að einhver fórni lífi sínu fyrir þá. Slíkt hafi þeir aldrei beðið um og það hafi því enga merkingu fyrir þeim. Að þessu leyti líkjast þeir þá lærisveinunum forðum, sem ekki gátu heldur skilið, að Jesús þyrfti að líða þjáningu og deyð, og síðan að rísa upp frá dauðum. Tilgangur þessa alls var þeim hulin.

En fái heilagur andi hans að komast að í hjörtum okkar, fyrir kraft upprisunnar, eins og gerðist með lærisveinanna, þá verður allt nýtt og það sem áður virtist veikleiki og heimska verður okkur kraftur Guðs til hjálpræðis.

Því hér er að finna þann kraft, sem getur breytt hugsun okkar og framkomu, - já, lífi okkar öllu. Hér er að finna það afl sem öllu getur breytt. Þann kraft, sem getur sigrað alkóhólisma og eiturlyfjafíkn. Þann kraft, sem getur huggað syrgjandi hjörtu og endurreist brotin hjónabönd. Þann kraft, sem getur grætt sundruð fjölskyldubönd og fyllt það hyldýpistóm einmanaleikans, sem er að finna í hjörtum svo margra. Hér er að finna þann kraft, sem er meiri en nokkuð það annað, sem heimurinn hefur upplifað. Kraft Guðs, sem getur umskapað sérhvern mann og gert okkur heil. Gefið okkur nýtt líf með sér.

Hann vill við okkur kannast, hvernig svo sem fyrir okkur er komið. Hann vill mæta okkur hverju og einu, þar sem við erum, taka þátt í lífi okkar og deila með okkur byrðum þess. Hann nemur staðar hjá okkur, hverju og einu, eins og hjá beiningamanninum blinda forðum, og spyr: “Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?”

III.

Hefur þú mætt honum þannig? Hefurðu heyrt rödd hans er hann staðnæmist hjá þér? Það er sú spurning, sem mætir okkur í Guðs orði hér í dag. Hefur hann fengið að taka þátt í lífi þínu og umbreyta því, þér til blessunar og náunga þínum? Því hann kallar okkur öll að fylgja sér á veginum upp til Jerúsalem. “Nú förum við upp til Jerúsalem”, segir hann við okkur. Hann talar til okkar hvers og eins og kallar okkur til lífs með sér, til þjónustu við sig, og þar með við náunga okkar. Það er köllun hins kristna manns, að ganga fram til þessarar þjónustu fyrir þann kraft, sem hann einn gefur. Upprisukraft Jesú Krists.

Við erum kölluð til að gefa okkur að hinum þurfandi, sem verða á vegi okkar á sama hátt og hann gerir. Gefa okkur að þeim, sem lifandi einstaklingum sem við berum umhyggju fyrir, - og spyrja þau hvert og eitt: “Hvað vilt þú, að ég geri fyrir þig?” Þetta er okkar köllun.

Og það er ekki af ástæðulausu sem ég undirstrika það hér, að náungi okkar er lifandi einstaklingur, því hversu oft hefur það, því miður, ekki gerst, að við lítum kannski fyrst og fremst á náungann, sem einhverskonar hagstærð eða prósentur! Svona rétt eins og hinum atvinnulausa eða fátæka, svo dæmi sé tekið, líði eitthvað betur, þótt atvinnuleysisstigið sé lágt eða prósentuhlutfall þeirra, sem eru undir fátæktarmörkum sé með því lægsta hjá okkur íslendingum. Eða hverju heldurðu annars að slíkar prósentuæfingar breyti fyrir þann, sem vandinn brennur á? Ekki er hann neinu bættari.

Og hverju breytir það fyrir þá einstaklinga, sem úthýst hefur verið úr Byrginu og settir á götuna, svo annað dæmi sé tekið, þótt stjórnmálamennirnir berji hver á öðrum í sölum Alþingis og reyni að nota eymd þessa fólks sjálfum sér til framdráttar í kosningaham. Og halda menn í alvöru, að þessir einstaklingar séu einhverju bættari, þótt fulltrúar heilbrigðiskerfisins berji sér á brjóst og telji sig geta gert svo miklu betur en Samhjálp eða aðrir fulltrúar trúarinnar? Og hver eru svo ráðin, sem komið er með? Nýjar nefndir og opnar göngudeildir. Þetta er auðvitað gott svo langt sem það nær. En skyldu þessi úrræði duga til að veita þessum einstaklingum, - og taktu eftir að hér segi ég aftur einstaklingum, vegna þess að hér er um lifandi fólk að ræða, fólk af holdi og blóði - skyldu þessi úrræði duga til að veita þessum einstaklingum húsaskjól, fæði, klæði og mannlega hlýju og stuðning, þannig að þau verði ekki úti á mannlífshjarninu eða hrasi um þá steina, sem lagðir eru í götu þeirra og falli því aftur í fjötra fíknarinnar.

Ef menn bera fyrir alvöru hag þessara einstaklinga fyrir brjósti, afhverju var þá ekki bara skipt um lyklavöld og ráðamenn í Byrginu og starfsseminni þar haldið áfram, a.m.k. þar til önnur úrræði höfðu verið fundin fyrir þau sem þar dvöldu. Var virkilega ekki til önnur lausn á því vandamáli, sem upp kom, en að vísa fólki á dyr og læsa síðan á eftir því? Hefur þetta fólk, hafa þessir einstaklingar, ekki komið nógu oft að læstum dyrum, og þá líka hjá heilbrigðiskerfinu!?

Gætum að því, að þeir einstaklingar, sem hrakist hafa út á jaðar samfélagsins, fá ekki úrlausn sinna mála með pólitískum upphrópunum á Alþingi eða með nornaveiðum í fjölmiðlum, sem vilja hækka sölutölurnar eða auka áhorfið. Og allra síst er það nokkur lausn á þessum vanda, að nota tækifærið, eins og gert hefur verið, til að veitast að Samhjálp og öðrum þeim aðilum, sem af náungakærleika og hugsjónaeldi hafa gefið sig að neyð þeirra einstaklinga, sem eru í þeirri aðstöðu, að flestar ef ekki allar dyr kerfisins og samfélagsins eru þeim lokaðar og jafnvel harðlæstar.

Þurfum við ekki þess í stað, að hugsa okkar ráð og hlusta betur á hann, sem kemur til okkar hér í dag og vill ganga með okkur þjáningarbrautina? Hann vill hjálpa. Hjálpa okkur til að horfast í augu við okkur sjálf og leiða okkur áfram. Hann vill gefa okkur sjón, að við getum horfst í augu við vanmátt okkar, mistök, kærleiksleysi og hroka. Þannig að við lærum síðan að nálgast hvert annað, og þá líka hin minnstu og veikustu okkar á meðal, sem systur okkar og bræður. Lærum að standa saman, styðja hvert annað, bera byrðarnar saman og hvert fyrir annað, í anda Jesú Krists og kærleika hans.

Hann vill við okkur kannast, hvernig sem fyrir okkur er komið. Hann snýr ekki baki við neinum, heldur nemur staðar hjá okkur, hverju og einu, og spyr: “Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?”

Biðjum þess, að við mættum fá skilið og skynjað kærleika hans og náð. Biðjum um hjálp hans og fyrirgefningu. Biðjum þess að við mættum læra af honum hvernig við eigum að koma fram hvert við annað. Biðjum þess, að líf okkar mætti bera, þó ekki væri nema ófullkomið endurskin af kærleika hans, sem fórnaði öllu okkar vegna. Hann vill taka þátt í lífi okkar og gefa okkur þann kraft, sem öllu getur breytt. Megi það vera gæfa okkar hvers og eins, að þiggja þennan undrakraft kærleikans, okkur sjálfum og náunga okkar til blessunar um tíma og að eilífu.

Amen.