Vakið

Vakið

Lífið er ekki sjálfgefið. Það er okkur gefið og við eigum að fara vel með þá gjöf. Það er margt sem rýrir lífsgæðin og því eigum við að halda vöku okkar gagnvart því. Kirkjan er sér meðvituð um það að boðun kristinnar trúar er traustur grunnur farsæls lífs.

Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.

En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ Mark. 13:31-37

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er fagnaðarhátíð hér í Glerárkirkju þegar þess er minnst að 20 ár eru frá vígslu kirkjunnar. Kæri söfnuður, ég óska ykkur til hamingju með afmælið og allt starfið sem hér fer fram og bið Guð að blessa það allt. Aðdragandi byggingarinnar var langur eins og vera ber því það munu vera 43 ár síðan byggingarnefnd var fyrst stofnuð til að undirbúa byggingu nýrrar kirkju hér í Lögmannshlíðarsókn, þó Glerárprestakall hafi ekki verið stofnað fyrr en 12 árum síðar.

Það er hverjum söfnuði nauðsynlegt að hafa samastað fyrir helgihald og safnaðarstarf, því þó fólk hafi flykkst að Frelsaranum sjálfum úti undir berum himni til að hlýða á hann gildir það ekki á okkar ísa kalda landi. Í kirkjunni komum við saman til að lofa Guð og ákalla eins og tekið er til orða í upphafsbæninni og til að heyra hans lífgefandi Orð. Þar göngum við inn í hefðir kirkjunnar og messunnar, sem minnir okkur á að við erum hluti af heild, hinni kristnu kirkju heimsins, hluti af þeim hópi fólks, sem játar trú á Jesú Krist. Hann sendi lærisveina sína út til að skíra og kenna í krafti valds síns og hét þeim að vera með þeim alla daga allt til enda veraldar. Vegna hlýðni lærisveinanna við boði Jesú barst boðskapurinn mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Til okkar hér í dag, sem komum hér saman í húsi hans á afmælishátíð.

Nýtt kirkjuár er hafið. Aðventan, jólafastan er sá tími kirkjuársins þegar við undirbúum okkur fyrir komu barnsins, sem fæddist hin fyrstu jól. Aðventan er tími eftirvæntingar og undirbúnings.

Í guðspjallstexta Markúsar sem lesinn var áðan erum við minnt á að halda vöku okkar og sofna ekki á verðinum. Þessi varnaðarorð geta átt við í mörgum aðstæðum lífsins. Þau geta átt við í persónulegu lífi okkar sem og í þjóðfélagsinu almennt. Við byggingu og rekstur kirkju er nauðsynlegt að halda vöku sinni og gæta þess að fjármagn dugi fyrir framkvæmdum, rekstri og starfi. Það hefur reynst söfnuðum kirkjunnar erfitt á síðustu árum vegna mikils niðurskurðar sóknargjalda sem er meiri en almennur niðurskurður í samfélaginu. Sóknarnefndarfólk um land allt hefur því þurft á útsjónarsemi að halda og árvekni til að tryggja nauðsynlegt viðhald mannvirkja í sókn sinni og stuðning við starfið í söfnuðinum.

Kirkjunnar fólk hefur líka þurft að halda vöku sinni og árvekni varðandi neikvæða umræðu um boðun trúarinnar og mótun hennar og áhrif á börn og samfélag. Sú umræða hefur oftar en ekki einkennst af ótta við gagnrýni þeirra sem aðhyllast ekki kristna trú. Vissulega ber að virða skoðanir fólks varðandi trú og boðun en það verður einnig að muna eftir því að viðmið okkar hér á landi um samskipti og viðmót eru byggð á kristnum gildum sem og grundvöllur hugsunar varðandi lög og reglur. Þjóðin hefur lýst yfir vilja sínum varðandi kristin gildi og viðmið og allt bendir til að hún vilji sammælast um að áfram verði þau í heiðri höfð. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í október gefa það til kynna.

Kirkjan má ekki fyrirverða sig fyrir fagnaðarerindið, þetta góða erindi sem hún hefur verið send með út í heiminn. Erindi sem byggist á elsku Guðs til okkar sem við eigum að bera áfram til náunga okkar. Fagnaðarerindið um komu Guðs í heiminn, sem við minnumst á jólum. Við þurfum vissulega að vera þess meðvituð að halda vöku okkar gagnvart því að koma því á framfæri og standa vörð um það.

Lífið er Guðs gjöf. Við ráðum því ekki hvort við fæðumst, hvar við fæðumst og inn í hvaða fjölskyldu og þjóðfélag við fæðumst. En þegar við erum komin til vits og ára ráðum við mörgu um líf okkar. Ábyrgðin er á okkar herðum að varðveita það líf sem okkur hefur verið gefið. Þakklæti var efst í huga unga mannsins sem naumlega slapp úr eldsvoða í Reykjavík í gær. Eftir honum er haft á vefmiðli: „Maður er ekki einn, þetta er magnað. Ég horfi á lífið öðrum augum í dag. Þetta er nýtt líf.“ Þegar sekúndur skilja milli lífs og dauða þá gerist það oftar en ekki að fólk þakkar og játar. Lífið er dýrmætt og fyrir það ber að þakka.

Við eigum að halda vöku okkar og sofna ekki á verðinum segir í guðspjalli Markúsar. Það er margs að gæta, enda ábyrgð okkar mikil. Við þurfum að halda vöku okkar gagnvart heilsu okkar, umhverfi okkar og neyð náungans.

Á aðventu stendur Hjálparstarf Kirkjunnar fyrir söfnun ár hvert og núna er safnað fyrir brunnum í nokkrum löndum Afríku þar sem Hjálparstarfið hefur ásamt fleirum tekið að sér að tryggja íbúunum hreint vatn. Kjörorð söfnunarinnar er hreint vatn gerir kraftaverk. Hjálparstarfið sinnir einnig innanlandsaðstoð fyrir þessi jól eins og árið um kring því náungi okkar er bæði sá sem er við hlið okkar sem og bræður og systur í öðrum löndum, sem lifa við skort.

Í guðspjalli dagsins erum við minnt á endalok alls sem er en jafnframt á Orð Drottins sem varir að eilífu. Lífið er ekki sjálfgefið. Það er okkur gefið og við eigum að fara vel með þá gjöf. Það er margt sem rýrir lífsgæðin og því eigum við að halda vöku okkar gagnvart því. Kirkjan er sér meðvituð um það að boðun kristinnar trúar er traustur grunnur farsæls lífs. Trúin tryggir okkur ekki eilífa hamingju eða líf án áfalla en kristin trú tryggir okkur traustan grunn í daglegu lífi okkar og til að standa á ef áföll og óhamingja knýja dyra hjá okkar.

Það barn sem lærir bænir og sögurnar um Jesú eignast fjársjóð til lífstíðar. Þeim fjársjóði vill Kirkjan miðla og stuðla að trúarlegu uppeldi barna í landi okkar, þeim til blessunar og Guði til dýrðar. Því hvernig svo sem lífið leikur okkur þá mun Jesús ekki sleppa hendinni af okkur og fyrir trú finnum við það. Það er sá fjársjóður sem mölur og ryð fá ekki grandað og enginn getur tekið frá okkur. Gagnvart þeim fjársjóði verðum við aldrei gjaldþrota.

* * *

Í dag er 2. sunnudagur í aðventu. Víða hefur verið sungið í dag um leið og kveikt var á öðru kertinu á aðventukransinum: Við kveikjum tveimur kertum á og komu bíðum hans, því Drottinn sjálfur soninn þá mun senda' í líking manns.

2. kertið á aðventukransinum er kallað Betlehemskerti og minnir á fæðingarbæ Jesú. Þegar við kveikjum á kertum aðventukransins færum við okkur nær jólunum, fæðingarhátíð Jesú, enda þýðir orðið aðventa, koma Drottins. Á aðventunni gefst okkur tækifæri til að undirbúa komu hans bæði á veraldlega vísu og eins innra með okkur. Biblutextar aðventunnar hjálpa okkur til að hugleiða líf okkar og lífsaðstæður. Við speglum okkur í þeim og fáum þannig kærkomið tækifæri til að laga það sem betur má fara og vera ánægð með það sem við sjáum.

„Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða“ segir Jesús í guðspjalli dagsins. Orð Guðs getur verið beitt. Það hreyfir við okkur og fær okkur til að hugsa. Hugsun okkar er undirstaða lífsskoðunar okkar og göngunnar á lífsins vegi. Við erum minnt á Orðið hans sem aldrei líður undir lok, er alltaf til staðar. Orðið er ekki bara beitt heldur einnig hvetjandi, styrkjandi, huggandi.

Orð Guðs er grunnur alls þess er fram fer hér í þessu húsi, sem frátekið var fyrir hann til að söfnuðurinn mætti koma hér saman og lofa hann og ákalla og til að heyra hvað Guð vill tala við okkur í Orði sínu. Allt starfið sem hér fer fram byggist á þessu Orði, sem boðað er, bæði í orði og í verki, því trúin nærist af Orðinu en birtist í heilsteyptu viðmóti og góðum verkum.

Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: „Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar“ segir í lexíu dagsins, sem lesin var hér áðan úr spádómsbók Jesaja. Postulinn hvetur okkur til að varpa ekki frá okkur djörfung okkar í pistlinum, sem einnig var lesinn hér áðan. Já, Orð Drottins færir okkur djörfung og kjark til að takast á við erfið vandamál sem og daglegar annir.

Hvatningarorð guðspjallstexta dagsins er: Vakið. Kæri söfnuður. Haldið vöku ykkar gagnvart öllu því er ykkur er trúað fyrir í þessu húsi. Haldið vöku ykkar gagnvart því starfið er hér fer fram. Haldið vöku ykkar gagnvart lífi ykkar og náunga ykkar. En fyrst og fremst haldið vöku ykkar gagnvart Orði Guðs sem aldrei líður undir lok hvernig svo sem allt velkist í heimi hér.

Til hamingju með kirkjuna ykkar. Guð blessi ykkur, kirkjuna og starfið allt, í Jesú nafni. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.