Tímabil sköpunarverksins í kirkjunni

Tímabil sköpunarverksins í kirkjunni

Með því móti vil ég setja umhverfismálin á dagskrá, samhliða því að helga Tímabil sköpunarverksins í kirkjunni frá 1. september til 4. október s.l.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
08. október 2017

Hvernig er það eiginlega, eftir um 2000 ár af kristinni íhugun, þar sem kirkja Krists í heiminum hefur verið að hlýða á, íhuga og biðja í Jesú nafni, að okkur, kirkjunni, hefur í raun tekist að forðast að mestu allt það sem Jesús kenndi? Með þessu er ég bæði að horfa í eigin barm, sem og yfir sögu kristninnar og hinna ólíku kirkjudeilda, lútersku kirkjunnar, kaþólsku kirkjunnar, rétttrúnaðar kirkjunnar, hvítasunnu kirkjunnar og annarra kirkjudeilda.

Trúmennska við boðskapinn

Okkur hefur svo oft tekist að horfa fram hjá kjarna atriðum fjallræðunnar, sæluboðunum, varnarorðum Jesú um að dýrka ekki mammón, skýru dæmisögunum um að lifa lífinu í friði og vinna gegn ofbeldi, boðinu um að elska náungann og einnig óvininn, sem kannski er augljósasta dæmið um það að kirkjan hefur sniðgengið kjarnann í boðskap Jesú Krists.  

Kannski má segja að kirkjan hafi varið mestum tíma sínum í að velta fyrir sér því sem Jesús talaði aldrei um,  til dæmis um fóstureyðingar, getnaðarvarnarpillur og samkynhneigð, svo eitthvað sé nefnt. Jesús talaði aldrei um þessi atriði, en kirkjan í heiminum hefur haft stórar meiningar um þetta í gegnum áratugina.

En ef Jesús sagði eitthvað mjög skýrt, til dæmis að hjálpa fólki í neyð, sbr. söguna um miskunnsama samverjann, þá er tilhneigingin sú að við myndskreytum kannski söguna og setjum upp í hillu en gleymum svo alveg að lifa í anda hennar. Þetta er svo augljóst, við þurfum ekki annað en að líta í okkar eigin barm.  

Ólík sjónarmið styrkja kristnina

Ein af ástæðunum fyrir því að ekki hefur tekist betur til við að miðla lærdómi Jesú um frið og kærleika, er sú að í gegnum aldirnar hefur það einkum verið einsleitur hópur manna sem hefur annast það hlutverk að miðla fagnaðarerindinu áfram til nýrra kynslóða, þ.e. menntaðir hvítir karlar frá Evrópu og N-Ameríku.  

Af því að kirkjan á umliðnum öldum hefur ekki tekið lærdóm Jesú alvarlega, þá er svo komið að fólk er hætt að taka kirkju og kristni alvarlega. Kristnin hefur verið svo mikið í höfðinu og orðunum, í stað þess að vera í hjartanu og verkunum, þ.e. að lifa ábyrgu friðsömu og kærleiksríku lífi þar sem er pláss fyrir alla.

Breytingar eru í loftinu

Það er kannski ekki fyrr en núna á umliðum árum sem kirkjan, þá á ég við kristin kirkja í heiminum, allar kirkjudeildir, er loksins orðin miklu opnari í boðun sinni. Hópar á jaðrinum, hópar fólks sem hafa verið kúgaðir, veita kirkjunni dýrmæta nálgun og nýja sýn á það hvernig skilja beri fagnaðarerindið. Það er verið að enduruppgötva boðskapinn með nýjum augum, þar sem nýjar spurningar verða til og ný sjónarhorn. 

Kirkjan er svo nýbyrjuð að heiðra sjónarmið kvenna, minnihlutahópa, og svo margra hópa sem hafa ekki haft aðgang að völdum eða réttindum.

Í rauninni voru það einmitt fulltrúar þessara þjóðfélagshópa sem meðtóku fyrstir fagnaðarerindið og leyfðu því að umbylta lífi sínu á róttækan máta og miðluðu góðu tíðindum út um heiminn.

Eining kristninnar

Stóru spurningarnar í lífinu um tilgang og merkingu eru nú á dagskrá þar sem rætt er saman milli menningarheima, milli trúarbragða, þar sem friður og virðing er undirtónninn og engin þörf er fyrir andstæðinga, refsingar eða andúð á einstaklingum eða öðrum trúarbrögðum. Það er einhver gríðarleg þörf fyrir djúpa speki og heilagan anda, nú þegar mannkynið telur næstum 8 milljarða einstaklinga.

Það má kannski segja að framtíð okkar verði annað hvort friðsöm eða engin.

Í því ljósi að kristnar kirkjudeildir hlusta nú betur og betur hver á aðra, starfa saman og biðja saman, er nú von á helsta leiðtoga Rétttrúnaðarkirkjunnar hingað til lands. Hans Heilagleiki, Samkirkjulegi Patríarkinn í Konstantínóbel, Bartholómeus 1. verður gestur þjóðkirkjunnar, Alkirkjuráðsins og Hringsborðs norðurslóða á ráðstefnum um umhverfismál og réttlátan frið við jörðina, sem haldnar verða hér á landi í október.

Umhverfismálin

Með því móti vil ég setja umhverfismálin á dagskrá í kirkjunni okkar, samhliða því að helga í fyrsta skiptið í kirkjunni Tímabil sköpunarverksins, Season of Creation, frá 1. september til 4. október s.l. Því ég tel að stund sannleikans sé runnin upp í umhverfismálum. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr, nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C, gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum. 

Í Gamla testamentinu sem og í guðspjöllunum og öðrum ritum Nýja testamentisins kemur fram hvernig Guð leiðir mannkyn til lausnar, frelsis og upprisu, í samræmi við fyrirætlun sína, þ.e.a.s. í samhljóman við Guðs kairos, náðartíð hér í heimi. Í því samhengi er stund sannleikans í umhverfismálum að renna upp. Ég hvet þig kæri lesandi til að hlýða kallinu og láta um þig muna í þjónustunni við sköpunarverkið, lífið og skaparann.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 5. október sl.