Jóhannes skírari stóð út í miðri ánni Jórdan og skírði þá, sem til hans komu iðrunarskírn. Þannig undirbjó hann fólkið undir komu Jesú, undir komu þess, sem fyrirgefur syndirnar. Jóhannes var ekki eins og fólk er flest, hann var villimannslegur á að líta, borðaði engisprettur og villihunang, og sumir vildu meina að hann væri Messías, hinn eini sanni frelsari.
Jóhannes nýtti sér ekki þann misskilning, heldur þvert á móti, leiðrétti hann með skýrum hætti og gerði fólki það ljóst að hann væri ekki sá sem koma skyldi, heldur ætti fólkið að vænta annars.
Þá var það einn góðan veðurdag að sjálfur Jesús Kristur veður út í ánna Jórdan, kemur þar til Jóhannesar frænda síns og þiggur skírn hjá honum. Það ber merki fegurðar í þessari heilögu frásögn, að hinn elskaði sonur Guðs, setur sig ekki á stall, heldur beygði hann sig eins og aðrir, þrátt fyrir að Jóhannes hafi í fyrstu ekki kunnað við það að skíra frænda sinn iðrunarskírn, syndlausan manninn.
Jesús Kristur vildi með þessu vera mitt á meðal fólksins og ná þannig til þess með þann mikilvæga boðskap, sem hann skyldi útbreiða öllum til heilla. Atburðurinn í ánni Jórdan markaði líka upphaf boðunarstarfs Jesú, sem eins og mörgum er kunnugt var unnið af einskærri auðmýkt og fórnarhug, sem átti sér vissulega ákveðið fyrirheit í því hvernig Jesús kom fram fyrir Jóhannes í ánni Jórdan.
Hann beygði sig og með því atferli var Jesús Kristur þar að auki að tjá þann vilja sinn að vera með fólkinu, ég vil vera með ykkur, hjá ykkur, alla daga, allt til enda veraldar. Sá sem beygir sig í þjónustunni við Drottinn er að segja án orða: Megi Drottinn vera með mér og þér.
Það að beygja sig felur jafnframt í sér lotningu, þetta getur verið mjög falleg athöfn, en jafnfáránleg ef ekkert býr á bak við hana, ef engin einlægni eða sannur hugur fylgir með. Mig langar aðeins til þess að koma inn á þetta að beygja sig, en það ágæta atferli hreyfði við mér á áhugaverðu námskeiði fyrir presta, sem haldið var í Skálholti fyrir fáeinum vikum síðan.
Þar var bandarískur fyrirlesari Gordon Lathrop að nafni. Hann starfaði lengi sem lútherskur prestur, en er nú kominn á aldur og nýtir þá tímann til þess að ferðast vítt og breitt um heiminn, til þess að fræða og gefa prestum holl og gefandi ráð.
Svona í stuttu máli að þá var Lathrop á Skálholtsstað, að fjalla um stöðu prestsins í söfnuðinum og hlutverk hans þar. Þar kom m.a. fram að sérstakt hlutverk prestsins hefur verið í gegnum aldir og allt aftur til kristinna frumsafnaða, að sjá til þess að söfnuðurinn fái að heyra guðspjallið og útleggingu á því, þá skyldi presturinn koma gjöfum safnaðarmeðlima í hendur fátækra, og síðast en ekki síst að þjóna við altarið og sjá þannig til þess að safnaðarmeðlimir fengju þá næringu, sem máltíð Drottins felur í sér.
Það er ekki lítið hlutverk og mjög svo vandasamt og þess vegna var þeirri spurningu einnig velt upp hver ætti að næra prestinn, hver ætti að sjá til þess að hann myndi uppbyggjast, þannig að hann yrði söfnuði sínum til einhvers gagns. Þeirri spurningu ætla ég þó ekki að svara hér, heldur varpa dálitlu ljósi á mikilvægi þess að beygja sig í lotningu, sem reyndar getur verið hverjum presti mikil hjálp og til ríkrar næringar eins og fyrir alla aðra.
Gordon Lathrop þekkti kaþólskan prest, Robert Hovda að nafni, sem lést fyrir rúmum áratug. Robert Hovda hafði mikil áhrif á Lathrop og ekki síst í því ljósi hvernig hann bar sig að í þjónustunni. Lathrop fjallar m.a. um þennan góða vin í nýútkominni bók sinni, sem ber einfaldlega titilinn “The Pastor” eða Presturinn.
Samkvæmt umfjöllun Gordon Lathrop, að þá var Robert Hovda alveg sérstakur leiðtogi í söfnuði sínum, einstakur prédikari, hann var maður málsins og hreif fólk með sér. Hann hafði góða kímnigáfu og kom fram með þeim hætti að fólki leið vel í návist hans. Hann var hins vegar óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós, sem voru alls ekkert alltaf í takt við ríkjandi skoðanir samfélagsins.
Lathrop man eitt sinn eftir Hovda, þar sem hann þjónaði við borð Guðs í litlu samfélagi, sem kom saman í tengslum við samkirkjulega ráðstefnu í New York. Þegar hann nálgaðist altarið, þá beygði hann sig djúpt frammi fyrir því. Ekki nóg með það heldur snéri hann sér við og beygði sig á sama hátt fyrir alþjóðlegu samfélaginu, sem þarna átti þessa helgu stund saman.
Að stundinni lokinni þegar þessi blandaði samkirkjulegi ráðstefnuhópur hafði hlustað á andríka prédikun Hovda sem og haft fyrir augum einlæga þjónustu hans við altari Drottins, þá hafði hópurinn að orði að þarna hefði myndast ein kirkja, okkar kirkja að sögn hópsins og Lathrop vildi líta svo á að atferli Hovda, hvernig hann kom fram í þjónustunni, hvernig hann beygði sig frammi fyrir Guði og samfélaginu, hefði haft rík áhrif á þá sameiningu og samkennd, sem hópurinn fann fyrir.
Í þessu ljósi getum við séð hversu miklu máli það skiptir hver leiðir og hvernig það er gert. Og í þessu ljósi getum við reynt að setja okkur fyrir sjónir hið magnaða skref Jesú sjálfs þegar hann kom fram fyrir Jóhannes skírara og þáði þjónustu frá þeim breyska manni, er fann sig engan veginn þess verðan að þjóna Jesú Kristi.
En það hefur eflaust verið það sem Jesús sóttist eftir, hann sóttist eftir þjónustu þess, sem fann sig ekki verðan að sinna henni, en gerði það samt. Þá verður þjónustan líka eitthvað svo sönn, eitthvað svo trúverðug. Með þeim hætti náði Jesús svo oft að laða fram hið besta í manneskjunni, það á t.d. við um samskipti frændanna þarna úti í ánni.
Lathrop hefur alltaf langað til þess að geta beygt sig á sama hátt og Hovda. Það er vandasamt því slíkt atferli er vandmeðfarið og getur litið einkennilega út t.a.m. í samfélagi þar sem slíkt er ekki mikið iðkað. Í sumum samfélögum er slíkt atferli sett í samhengi við skurðgoðadýrkun og þess vegna hafa málin þróast þannig að margur klerkurinn hræðist það að beygja sig djúpt, kannski rétt hneigir höfuð, ólíkt Robert Hovda, sem virtist alltaf finna sig frjálsan í því að beygja sig djúpt og aldrei virtist hann vera að velta vöngum yfir því hvað öðrum þætti um hann og þetta atferli, sem einkenndi svo mjög líf hans og helgiþjónustu.
Lathrop fjallar einnig um það hvað atferli eins og það sem Hovda viðhafði í þjónustu sinni getur haft sterk og jákvæð áhrif í hinu daglega lífi og hvað það getur vakið upp sæluríkar tilfinningar. Í því sambandi nefnir Lathrop dæmi um húsvörð nokkurn í háskólanum, þar sem hann hefur kennt helgisiðafræði síðustu tvo áratugi. Húsvörðurinn Jonathan heilsaði með þeim hætti að hann lyfti vel upp öðrum handleggnum, veifaði rösklega og beygði sig síðan djúpt með bros á vör.
Þessar kveðjur húsvarðarins glöddu Lathrop innilega og komu honum ávallt í gott skap. Hann nýtti iðulega tækifærið þegar hann mætti Jonathan og beygði sig sömuleiðis djúpt og hugsaði ævinlega um leið að það vildi hann að hann gæti orðið eins góður prestur eins og Jonathan var sem húsvörður.
Lýsingar Lathrop á vini sínum Robert Hovda urðu til þess að mér þótti maðurinn sá forvitnilegur og ákvað á umræddu námskeiði að kynna mér hann nánar og ritsmíðar hans. Robert Hovda skrifaði bókina “Strong, loving and wise,”en þar fjallar hann um þann sem leiðir í guðsþjónustunni. Í bókinni segir Hovda m.a.
“Ef við sjáum söfnuðinn og safnaðarhirðinn sem ríkjandi tákn um nærveru Krists, að þá getur einfalt atferli gert meira fyrir helgisiðina okkar heldur en einhver einræða um viðfangsefnið. Þegar sá sem leiðir athöfn hefur beygt sig frammi fyrir altarinu í upphafi helgrar máltíðar, að þá skiptir máli að hann sömuleiðis beygi sig frammi fyrir söfnuði og söfnuður svarar á sama hátt. Slíkt getur verið feimnismál fyrir söfnuðinn fyrst, en hann mun koma til með að venjast því og á endanum læra að meta það.”
Þessi orð Hovda eru umhugsunarverð, því þó svo að siðir eins og þeir sem Hovda lýsir hér, hafi sjaldan tíðkast í lútherskri þjóðkirkju hér á landi, að þá minnir það okkur á þá siði og þær venjur, sem við tökum þátt í í guðsþjónustu safnaðarins og bera allar í sér ríka virðingu fyrir viðfangsefninu.
Við stöndum upp við þá þætti, sem sérstök áhersla er lögð á í guðsþjónustunni sbr. þegar guðspjallið er flutt og þá t.a.m. krjúpum við niður á svokallaðar grátur þegar við tökum á móti altarissakramentinu, við beygjum okkur, er við tökum við Jesú Kristi og gefum þá m.a. til kynna að við erum ekki þess verð að taka á móti honum, en fyrir náð Guðs og miskunn megum við lifa í þeirri trú að Kristur sé tilbúin að koma inn í líf okkar.
Og þegar við berum barnið okkar fram til heilagrar skírnar að þá berum við það einmitt fram, rétt eins og við séum að færa það öðrum, já við erum að færa það Kristi með eftirfarandi bæn á vörum: “Lifandi Drottinn, ég fel þér barn mitt til blessunar, meira að segja þótt þú sért æðri mínum mannlega skilningi.”
Hvað skírnina snertir að þá spilar hún rullu þegar við tölum um samhæfingu huga og atferlis. Þar hreinsast hugur og hjarta fyrir trú á Jesú Krist og haldi sú trú áfram að þroskast og vaxa með hjálp Guðs og góðra manna verður allt það sem við gerum í þjónustunni við Guð trúverðugt og engum framandi. Þá öðlast helgisiðirnir dýpri merkingu í okkar lífi og guðsþjónusta safnaðarins verður hverjum og einum margfalt meira gefandi og lætur ekki af að bera ávöxt.
Jesús Kristur beygir sig niður til mannsins til þess að ná sambandi við hann, til þess að eignast tengsl við hann, til þess að eignast traust hans og hjálpa honum að sjá að það sé hægt að treysta mannssyninum. Jesús Kristur rís síðan upp til þess að gefa manninum innsýn inn í guðdóminn, þar sem himnarnir opnast og andi Guðs stígur niður og rödd velþóknunar hljómar: Þessi er minn elskaði sonur! Amen.