Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark. 16:1-7
Gleðilega páska. Gleði og hvíld eru sennilega það sem margir tengja páskum. Þessari hátíð þegar húsin fyllast af fólki hjá sumum en verða kyrrðarstaðir hjá öðrum.
Það voru þung sporin þegar þær gengu til grafarinnar árla morguns á þriðja degi konurnar þrjár. Þær höfðu staðið við krossinn og fylgt vini sínum síðustu andartökin í þessum heimi. Þær voru sorgmæddar og áhyggjufullar. Þær voru með buðk með sér og í honum var ilmsmyrsl sem þær ætluðu að smyrja hann með eins og siður var í landi þeirra. Þær höfðu áhyggjur af því að þeim myndi ekki takast að velta steininum þunga frá gröfinni. Þegar þær komu að gröfinni gleymdu þær áhyggjum sínum en brá mjög. Steininum hafði verið velt frá og ungur maður í hvítri skikkju sá hvað þeim var bruðgðið og sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér“.
Þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme voru fyrstu vottar upprisunnar. Þeim var falin mikil ábyrgð, því maðurinn í hvítu skikkjunni fól þeim verkefni. Þær áttu að fara til lærisveinanna og færa þeim fréttirnar. „Hann fer á undan yður til Galileu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður“ sagði hann við þær.
Og vegna þess að konurnar fóru og fluttu þessi boð erum við saman komin hér í dag. Við höfum bæst í hóp þeirra sem heyrt höfum og meðtekið orðin: „Hann er upp risinn, hann er ekki hér.“ En það er ekki eina ástæðan fyrir því að haldin er hátíð og upprisunnar minnst. Aðalástæðan er sú að hinn upprisni Jesús hefur birst okkur og talað til okkar með einum eða öðrum hætti. Kynslóðirnar hafa vitnað um það og við getum vitnað um það að samfélagið við hinn upprisna frelsara er raunverulegt.
Í gær var sagt frá því í fréttum að fundist hefði handrit af guðspjalli sem ekki hefði verið þekkt. Þar kom fram að Jesús hefði verið kvæntur maður. Þetta guðspjall var skrifað löngu eftir upprisuna og sumir gætu sagt að þarna væri sönnun fyrir því að Jesú hefði verið eins og hver annar maður en enginn Guð. En vitnisburður kynslóðanna um samfylgd sína við hinn upprisna Jesú er sá vitnisburður sem leiðir okkur hingað í dag.
Það er mikið rætt um trú í samfélagi okkar og ekki alltaf af virðingu eða kærleika. Kristin trú á í vök að verjast og við sem kristin erum fáum að heyra það að hinn kristni trúararfur sé samfélaginu ekki til heilla. Samt er börnum kennt að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra. Það eru mótsagnir í trúarumræðunni. Við mannfólkið viljum að virðing sé borin fyrir okkur og skoðunum okkar svo framarlega sem þær meiða ekki eða deyða. Á sama hátt eigum við að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Það virðist þó vera nokkuð algengt að meiðandi athugasemdir eru gerðar við skoðanir og það virðist líka vera ríkt í mannlegu eðli að steypa alla í sama mót. Okkur líkar ekki allt í fari annarra en okkur ber að sýna þeim virðingu og kærleika samt sem áður. Þannig kom Jesús fram við fólk en hann lét það líka í ljós ef honum fannst valdi kærleikans ekki beitt eða réttlætinu ógnað.
Það fylgir því ábyrgð að vera kristin manneskja. Sú ábyrgð að feta í spor Jesú. Að fara eftir orðum hans. Að koma fram við náungann á sama hátt og hann. Að taka upp hanskann fyrir þau sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það er ekki alltaf auðvelt. Það hafa allar kynslóðir kristinna manna reynt. Páll postuli orðar það þannig: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég“.
Þannig er líf okkar barátta. Oftast innri barátta en líka ytri barátta þar sem okkur finnst réttlætið ekki vera til staðar, kærleikurinn fyrir borð borinn eða fyrirgefning ekki tekin gild. Það gengur engin manneskja í gegnum lífið án þess að velta fyrir sér tilgangi eigin lífs eða rökum tilverunnar. Jesús fékk að reyna óréttlæti heimsins og rangar sakargiftir þegar hann var festur á kross og líflátinn. Þá héldu margir að endanlega væri búið að þagga niður í honum sem hafði hrist rækilega upp í samfélagi sínu og borið á borð nýjar hugsanir. En annað kom á daginn. Allt rættist það sem hann hafði sagt um örlög sín, enda hafði það verið skrifað í hans helgu bók. Hann reis upp á þriðja degi og sigraði þar með dauðann. Þessi ógn, dauðinn sem hangir yfir okkur frá vöggu til grafar hafði ekki síðasta orðið. „Dauðinn dó, en lífið lifir“ orti Helgi Hálfdánarson. Og þessa verðum við vör í persónulegu lífi okkar og ekki hvað síst í náttúrunni sem vaknar á vori hverju eftir kaldan veturinn. Upp úr moldinni potast blómin litskrúðug. Undir brúnni moldinni sem virðist líflaus allan veturinn og undan snjósköflunum birtist gróðurinn sem minnir okkur líka á að lífið er sterkara en dauðinn.
Páskarnir minna okkur á lífið og á allt það er Jesús sagði og gerði og guðspjöllin vitna um. „Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa“ sagði hann og gaf okkur hlutdeild í upprisu sinni. Þessi huggunarríku orð verða áþreifanlega lifandi þegar við stöndum við gröf ástvinar eins og þær gerðu konurnar þrjár, María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme. Í viðbótarútgáfu við sálmabókina sem kom út síðast liðið haust er sálmur eftir Sigurbjörn Einarsson sem ortur er um Maríu við gröf Jesú. Hann lýsir þeim tilfinningum sem bærast í brjósti þess sem syrgir og trúnni sem gefur kraftinn til að halda áfram lífinu.
Nú máttu´ ekki, María, gráta, meistarinn er ekki hér, þar sem þú grúfir og grætur gröfin og myrkrið er.Líttu til annarrar áttar, upp frá harmi og gröf: Ljóminn af lífsins sigri leiftrar um jörð og höf.
Sjá, já, nú sérðu, María, sjálfur er Jesús hjá þér upprisinn, ætlar að fæða allt til nýs lífs með sér.
Syng því í sigurgleði. Syng fyrir hvern sem er: Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.
Reynsla Maríanna tveggja og Salóme hefur væntanlega breytt lífsafstöðu þeirra. Þannig er það einnig með hverja þá manneskju er reynir mátt trúarinnar í lífi sínu. Það þarf að iðka trúnna til að hún komi og reynist haldreipi á lífsins göngu. Í síðara ritningarlestri páskadags talar Páll postuli um súrdeig. Hann talar um gamalt súrdeig og nýtt. Þannig minnir hann á að við getum breytt lífsstefnu okkar. Við getum hvatt hið gamal og farið nýjar leiðir.
Páskaboðskapurinn gefur okkur von og kraft til áframhaldandi göngu á lífsins vegi. Það á jafnt við okkur sem einstaklinga og sem samfélag. Við getum hvert og eitt haft á áhrif á samfélagið. Við höfum leyfi til að láta í okkur heyra ef okkur finnst eitthvað mega betur fara og það hafa margir gert síðast liðnar vikur. Vandi þeirra sem taka ákvarðanir fyrir fjöldann er mikill og orð þeirra og gjörðir valda oft vonbrigðum. Vonbrigðin voru líka mikil hjá fylgjendum Jesú þegar lýðnum tókst að láta dæma hann til krossfestingar. Gleðin var því þeim mun meiri þegar dauðans vald hafði ekki síðasta orðið. Vonin sem kveikt hafði verið í brjósti fylgjenda hans blés þeim bjartsýni í brjóst og gaf þeim kraft til að vinna heiminum gagn og útbreiða þá hugsun að vald kærleikans mætti nota til að bæta heiminn.
Upprisuboðskapurinn á erindi til samfélags okkar nú sem fyrr. Hann fyllir okkur von og gefur okkur kraft til að takast á við verkefnin sem fyrir liggja. Hann gefur styrk þeim er þurfa að taka ákvarðanir og gerir okkur auðmjúk frammi fyrir verkefnum lífsins.
Um síðast liðna helgi vísiteraði ég tvö prestaköll á norðaustur landi. Þar býr kraftmikið fólk sem gott var heim að sækja. Á árshátíð Öxarfjarðarskóla var sýnt leikritið Dýrin í Hálsaskógi þar sem allir nemendur tóku þátt og foreldrar og fleiri spiluðu í hljómsveitinni. Dýrin komu sér saman um að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir. Þetta samkomulag úr leikritinu þekkjum við og ljóst er að það heldur ekki nema allir samþykki það og leggi sig fram um að láta það ganga eftir.
Jesús kallaði lærisveinana vini sína. Hann treysti þeim fyrir boðskap sínum. Hann treysti þeim til að fara og skíra og kenna. Hann treysti þeim til að vera hirðar fólksins síns. Jesús treystir okkur til að bera fagnaðarerindið áfram til náunga okkar og næstu kynslóða. Hann treystir okkur til að fara í sínu nafni til þeirra sem þarfnast kærleika og styrks. Hann treystir okkur til að finna leiðir til að leiða 12.000 börn á Íslandi út úr fátækt og hann treystir okkur til að leita leiða til að uppræta böl fíknar og ofbeldis. Því hann lifir. Hann er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn. Gleðilega hátíð í Jesú nafni. Amen.