Séra Friðrik

Séra Friðrik

Þegar við höfðum farið yfir störf hans og horft á stórgott myndband sem segir sögu hans tókum við upp þráðinn og ræddum um muninn á góðum leiðtogum og þeim sem leiða fólk í ógöngur. Hvar liggur munurinn? Jú, þeir góðu eru hógværir, þeir segja satt, þeir ala önn fyrir sínu fólki. Í þeirra huga snýst starfið um fylgjendurna, fólkið sem treystir þeim. Góðir leiðtogar gera alla í kringum sig betri, heilbrigðari, frjálsari og já eins og okkar maður – móta úr því þá leiðtoga sem geta haldið starfinu áfram. Og þar sækja þeir í þá lind sem trúin er í lífi hverrar manneskju, sönn og uppbyggileg.

Ég er nýkominn úr Vatnaskógi þar sem ég ásamt samstarfsfólki mínu dvaldi með yfir hundrað fermingarbörnum í tvær nætur. Þrjátíu ár eru liðin frá því ég fór fyrst með slíkan hóp og sum þeirra ungmenna sem þá voru með í för, eru sjálfsagt foreldrar fermingarbarna í dag.


Leiðtogar

 

Vatnaskógur er töfrandi staður, raunar geymir hann anga af sögu sem ég leyfi mér að kalla alveg einstaka á íslenska vísu. Þetta var jú hugarfóstur eins merkasta leiðtoga okkar á síðustu tímum – Friðriks Friðrikssonar. Ég fræði börnin um séra Friðrik en áður ég kem mér að efninu, spyr ég þau eitthvað á þessa leið: „hvað gerir einstakling að leiðtoga?“

 

Svörin eru merkilega lík á milli hópa: „Leiðtogar leiða fólk áfram.“ Svona getur gagnsæ íslenskan hjálpað til skilnings. „Þeir stjórna“, segja önnur. Einhver hafa orð á því leiðtogar geti líka haft áhrif til ills og nefna þar holdgerfing bölsins í nútímanum, Adolf Hitler máli sínu til stuðnings. Í fermingarfræðslunni eru öll svör góð þótt þau séu ekki endilega í samræmi við hugmyndir fræðaranna en þessi voru sönn og góð.

 

Svo bið ég þau að horfa í kringum sig, og líta líka heila öld aftur í tímann, því sumarbúðirnar í Vatnaskógi fagna um þessar mundir 100 ára afmæli. Hvað skyldi hafa vakað fyrir séra Friðrik að velja þennan stað fyrir afdrep ungmenna? Hvaða hugsanir skyldu hafa farið um huga hans og fylgdarliðs þegar Eyrarvatnið blasti við þeir skynjuðu að þarna yrði helgireitur þar sem ungmenni gætu nært líkama, anda og sál?


Vatn

 

Predikari nýkominn af þessum slóðum stenst ekki mátið að ræða þær þegar textar dagsins umhverfast um þetta lífgefandi efni sem vatnið er. Spámaðurinn Jesaja talar um „lindir hjálpræðisins“ og það orðalag kallast nú á við sjálft Lindarrjóðrið þar sem húsakynnin standa. Og guðspjallið segir sögu af lauginni Betesda þar sem hópur sjúklinga lá og vonaðist eftir því að fá bót meina sinna við hræringar vatnsins.

 

Já, vatnið, það er ekki að undra að það hafi haft slíkan mátt að hjálpræðið tengist lindum og að langveikir vænti bóta við helga laug. Sú vitund fléttast saman við þekkingu okkar í samtímanum. Þegar vísindamenn leita lífvænlegra slóða í víðáttum alheimsins kanna þeir möguleikann á því hvort einhvers staðar leynist vatn. Það getur, svifið um í lofthjúpi, verið undir þykkri ísskel eða grafið djúpt í iðrum einhverrar plánetu.

 

Slíkur er máttur vatnsins að þar sem það finnst, jafnvel við hinar hrjóstrugustu aðstæður má ekki útiloka að þar leynist eitthvað sem við getum sagt að sé lifandi. Og sjálf vorum við umlukin vatni í móðurkviði bíðum þegar þroski okkar var hvað örastur og vöxturinn mestur.

 

Helgir menn áttu líka eftir að ferðast um lönd og blessa vatnsuppsprettur og læki. Guðmundur góði var sá sem hér á landi stundaði þá iðju af hve mestum móð. Víða um land eru Gvendarbrunnar og Gvendarlækir og sumir eiga að hafa þá náttúru að þorna ekki þótt ekki rigni í langan tíma og jafnvel seytlar úr þeim vatnið þótt nágrennið sé allt í klakaböndum. Þarna mætist helgin og þetta grunnefni lífsins. Og ég get mér þess til að séra Friðrik hafi skynjað að áfangastaðnum væri náð þegar hann sá glampandi vatnsflötinn.


Næmi fyrir umhverfinu

 

Já, þessi leiðtogi sem fermingarbörnin fá að heyra um hafði eitt einkenni sem ég held að margir slíkir eigi sammerkt. Þessi för hans frá hinni ungu höfuðborg inn í óbyggðirnar var hluti mikils ferðalags sem teygði sig í ýmsar áttir. Sú för var ekki óslitin sigurganga. Það var eitt af því sem við ræddum um að mótun leiðtogans felur oftar en ekki í sér mótlæti, bæði persónuleg áföll og svo vitaskuld það sem varð Friðrik hvatning til þeirra dáða sem hann vann – aðkallandi neyð í umhverfinu.

 

Hann leit í kringum sig í samfélagi sem átti engin úrræði fyrir börn. Þetta gátu allir séð og skynjað en það var einkum næm skynjun hans sem kallaði hann til þessa hlutverks.

 

Þetta greindi hann. Börn sem gengu um í reiðileysi í þéttbýlinu, foreldrarnir unnu myrkranna á milli, ef þeirra naut þá en við og stoðkerfi samfélagsins átti engin úrræði. Þess vegna fór hann af stað með félagsstarf sitt sem hann byggði á kristilegum grunni. Það var þess frjálslynda trúarafstaða að alls staðar þar sem okkar minnstu systkini nytu hjálpar og stuðnings – þar væri sannur kristindómur að verki.

 

Og hann hafði annað sem gerði hann að þeim stórbrotna leiðtoga sem hann var. Hann þekkti sín mörk. Hann vissi hvar styrkleikar hans lágu en ekki síður hitt hvar hann þurfti aðstoð sér færara fólks. Þess vegna bjó hann til leiðtoga, hvern af öðrum. Suma hafði hann menntað í kvöldskóla – það gátu verið umkomalausir piltar sem hefðu að öðrum kosti ekki átt bjarta framtíð. En þeir áttu eftir að leiða starfið svo áfram.

 

Hvaða eiginleikar bjuggu þar að baki. Þetta ræðum við líka – einmitt sá kostur sem kann að hljóma eins og þverstæða í augum þess sem sér fyrir sér forystufólk í glampa valda og vinsælda – nefnilega auðmýktin sem býr djúpt í sálu leiðtogans.


Réttlátur heimur

 

Textinn úr Jesaja talar líka um atburði sem muni gerast „á þeim degi“ þar sem spámaðurinn horfir fram til betri tíma. Hann horfði líka upp á systkini sín sem glímdu við sára neyð. Ekkjan og munaðarleysinginn áttu sér fáa málsvara í heimi þar sem hin sterku hrifsuðu til sín auðinn. En röddin sem flutti erindi Guðs tók málstað þeirra og kallaði það ekki góðverk að rétta hlut þeirra. Nei, þar lá sjálfur tilgangur hvers einstaklings og hverrar þjóðar. Erindi hans var því pólitískt. Það var eins og djúpt í undirvitundinni blundaði sýn á réttlátt samfélag.

 

Já, „á þessum degi“ vísar ekki til annars heims eða annars tilverustigs, heldur þess lífs sem fólk átti hér á jörð, innan um moldina og steinana, sem voru sumir hverjir hvassir og harðir.

 

Páll postuli talar með sama hætti um lífið sem hann „lifir hér á jörðinni“ eins og hann kemst að orði. Þar ber aftur að sama brunni. Trúin er vitund um um eitthvað æðra – og þetta æðra er samofið hugsjóninni um réttlátan heim þar sem við hlúum að þeim sem standa höllum fæti.


Vatnið í Betesda

 

Það er inn í þessar aðstæður sem guðspjallsfrásögnin talar. Hér lesum við um sjúkan mann og úrræði Jesú við veikindum hans. Sagan er ögn frábrugðin þessum hefðbundnu lækningarsögum. Oftast er það svo að hinir veiku koma að eigin frumkvæði til Jesú, ávarp þeirra kallast á við upphaf messunnar eins og það hefur verið frá öndverðu: „Miskunna þú oss!“ Já, það er í krafti vitundar okkar um eigin veikleika sem við leitum hjálpar og hið sama gildur um þörf okkar eftir samfélagi við aðra.

 

Hún grundvallast líka á því að við viðurkennum takmörk okkar, berum þá auðmýkt í brjósti sem opnar augu okkar fyrir því að við þurfum á öðrum að halda. Og þessum sögum lýkur með því að trú þessa fólks bjargaði þeim.

 

En hér kveður við annan tón. Hinn sjúki þekkir ekki til Jesú og viðbrögð mannsins í lindinni við hjálpræðinu eru ekki þakklæti. Nei, þvert á móti, hann lætur ógert að þakka það hjálpræði sem honum hlotnaðist. Og meira en það – hann svíkur manninn sem læknaði hann í hendur fjandmanna hans. Þetta verk leiðir því til þess að upp hefjast harðar deilur þar sem Jesús er vændur um að hafa brotið gegn ákvæðum hins stranga lögmáls sem setti hegðun fólks miklar skorður.

 

Eftir þetta hjálpræðisverk þarf Jesús að standa fyrir svörum fyrir að hafa læknað á hvíldardegi og sett sjálfan sig í þetta sérstaka samband við Guð. Hér sjáum við kristallast þá sýn og þá fyrirmynd sem Jesús átti eftir að verða fólki á borð við séra Friðrik.

 

Þegar við höfðum farið yfir störf hans og horft á stórgott myndband sem segir sögu hans tókum við upp þráðinn og ræddum um muninn á góðum leiðtogum og þeim sem leiða fólk í ógöngur. Hvar liggur munurinn? Jú, þeir góðu eru hógværir, þeir segja satt, þeir ala önn fyrir sínu fólki. Í þeirra huga snýst starfið um fylgjendurna, fólkið sem treystir þeim. Góðir leiðtogar gera alla í kringum sig betri, heilbrigðari, frjálsari og já eins og okkar maður – móta úr því þá leiðtoga sem geta haldið starfinu áfram. Og þar sækja þeir í þá lind sem trúin er í lífi hverrar manneskju, sönn og uppbyggileg.