Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Og enginn þorði framar að spyrja hann.
Markús 12.28-34
Gleðilegt að sjá hér ungmenni, sem nú eru að hefja undirbúning fyrir fermingu næsta vor. Þetta verður stór og mikilvægur vetur í lífi þeirra og þess vegna er það líka svo ánægjulegt að sjá hér foreldra með þeim, því það skiptir höfuðmáli að fjölskyldurnar standi saman að svo merkilegri ákvörðunartöku í lífi unglingsins.
Það er óaðskiljanlegur hluti af fermingarfræðslu að sækja kirkju og njóta helgihalds, fyrir utan það, að slíkt þarf heldur ekki einvörðungu að vera bundið fermingarfræðslu, við erum öll alltaf velkomin til kirkjunnar, á öllum stundum lífs okkar.
Okkur er meira að segja velkomið að rölta inn í kirkjuna á virkum degi og eiga þar stund með sjálfum okkur og Guði, tendra ljós, fara með bæn, þakka fyrir allt það sem tilveran felur í sér og draga sig þannig eitt augnblik út úr skarkalanum, njóta athvarfs í kyrrð og ró.
Það eru sönn lífsgæði, það að geta gefið sér og öðrum tíma. Gömul lífsreynd kona, móðir, amma og langamma margra barna, mikil ættmóðir, sagði í skírnarveislu eins af langömmubörnum sínum, að það besta sem við gætum gefið fólkinu okkar væri tími. Það er virkilega hægt að taka mark á konum eins og henni, sem hafa andað að sér lífinu, lært af reynslunni, já það besta sem við getum gefið börnunum okkar, fólkinu okkar er tími.
Og þá víkur sögunni aftur að því hvað það er ánægjulegt að sjá foreldra með börnum sínum hér við guðsþjónustu í dag. Sú samstaða gefur skýr skilaboð þess efnis að foreldrar vilja vita um og vera þátttakendur í því, sem börnin eru að fást við, það kallast uppeldi og meira að segja kærleiksríkt uppeldi, því þegar þú sýnir barni þínu áhuga og verkefnum þess, ert þú um leið að segja ég elska þig, þú skiptir mig máli.
* * *
Afskiptaleysi er það versta, sem við getum boðið fjölskyldu okkar upp á. Maður nokkur að nafni Eli Wiesel, rúmenskur gyðingur, rithöfundur og nóbelsverðlaunahafi, sem hnepptur var í varðhald af nasistum í seinna stríði, og lifði af hörmungar helfarar, lét eitt sinn hafa eftir sér að hatrið væri ekki andstæða kærleikans heldur afskiptaleysið.
Þar höfum við djúpstæða visku, sem sprottinn er af reynslu, því þessi umræddi boðberi friðar, átti margar langar biðstundir í klóm nasista, án þess að yrt hafi verið á hann og án þess að honum hafi verið sýnd sú virðing, sem hver manneskja á rétt á sem sköpun Guðs.
Afskiptaleysi og það að geta ekki gefið af tíma sínum þeim sem manni er annt um, er stórt mein í hverju þjóðfélagi. Við sjáum það á hátterni barnanna ef þau njóta ekki afskipta, þá sýna þau frekar neikvæða hegðun fremur en annað, til þess þó að fá einhver viðbrögð, þar er verið að vekja athygli á tilvist og að tilvistin sé einhvers virði og hafi einhvern tilgang. Hegðun verður, eðli málsins samkvæmt, jákvæð ef einstaklingi er sýndur jákvæður áhugi að fyrrabragði, það liggur nokkuð ljóst fyrir. Getur verið að vímuefnavandi ungs fólks, skemmdarfýsn, ofbeldi og önnur afbrot og vanlíðan stafi af afskiptaleysi? Það er eflaust skýring, sem á fyllilega rétt á sér og er reyndar afar mikilvæg innan um alla skýringaflóruna.
Og þessa útskýringu má m.a. hafa ofarlega í huga þegar komið er saman til þess að vekja athygli á og fjalla um tíð innbrot í hverfinu, þar sem afbrotamenn eru að mestu leyti í örvæntingu að fjármagna neyslu og standa sig gagnvart misjöfnum lánadrottnum, sem eru ef til vill þeir einu sem sýna þeim einhvern áhuga, þó það sé þá ekki nema í neikvæðu samhengi.
Þetta afsakar þó alls ekki gjörðir afbrotamanna, sem valda brotaþolum ómældum skaða og þjáningum, en þessi umræða um afskiptaleysið varpar ljósi á þá braut, sem alltof mörg ungmenni fylgja, vegna þess að þau finna ekki til þess að þau skipti máli í þessari tilveru.
* * *
Og hver er lausnin? Það er kærleikurinn. Það er t.a.m. að ganga saman til kirkjunnar og hlusta á boðskap kærleikans, það er að eiga tíma saman, það er að sýna tilfinningum, orðum og verkefnum barna sinna og ástvina áhuga og ræktarsemi.
Þetta hljómar sem einföld lausn, en hún er það samt sem áður alls ekki, það þarf að hrinda henni í framkvæmd, það þarf stöðugt að minna á hana, því við erum fljót að gleyma, allt kostar þetta vinnu, allt sem maður þarf að rækta krefst vinnuframlags, þolinmæði og ástundunar.
Hins vegar er það nú þannig að sá sem er best til þess fallinn að minna á þessa heillavænlegu lausn kærleikans er frelsarinn Jesús Kristur, sem auðveldar okkur verkið, því hvernig hann fjallar um umrædda lausn er svo einstakt að viðfangsefnið verður fyrir vikið eftirminnilegra, orð Drottins gleymist ekki, það greypist inn í vitund manns, þegar því hefur einu sinni verið sýndur áhugi og lagt hefur verið almennilega við hlustir.
Þess vegna horfum við upp á trúarbarráttu fólks, orð Guðs lætur okkur ekki vera, það skiptir sér af okkur, það fer ekki frá okkur þegar það hefur einu sinni náð inn, margir taka við því í auðmýkt og leyfa því að vinna í sér, leiða sig áfram, móta sig til góðs, aðrir streitast á móti, berjast gegn því, vilja afsanna og hafa gefið sér eigin svör fyrirfram, sem ekki verður vikið frá.
Slík barrátta er erfið, því orðið stendur stöðuglega, bifast ekki, en trúarbarrátta fólks skiptir engu að síður máli, hún er verulega þroskandi ef niðurstaða næst í barráttunni og manneskjan kemst upp úr hjólförunum, sátt við Guð og menn. Trúarbarráttan ber nefnilega vitni þess að Guð lætur okkur ekki afskiptalaus, auk þess sem orðið eilífa birtir með þeim hætti mátt sinn, það lætur ekki af að sá fræjum, er gróa í hjörtum og leiða til kærleiksverka.
Ég spurði fyrir nokkru virtan barna og unglingasálfræðing að því hvað það væri, sem helst vantaði í samfélagið okkar svo unga kynslóðin gæti nú notið sín, tekist á við lífsins vinda og fótað sig vel á gervihnattaöld.
Spurninguna bar ég upp, því ég vissi að þessi sálfræðingur hafði starfað á barna og unglingageðdeild og farið víða með fyrirlestra fyrir foreldra og forráðamenn. Og vitið þið hvað hann sagði? Haldið ykkur nú fast! Hann sagði: Það vantar meiri kærleika. Svo mörg voru þau orð, en ég var heldur ekki að biðja um neinn fyrirlestur.
Allt ber þetta að sama brunni og kjarninn sá sami og það sem meira er, við vitum hver hann er, margir fara vissulega eftir honum, sem betur fer, enda væri þá án vafa allt farið fjandans til, við höfum t.d. foreldra og börn eins og ykkur, sem eruð hér saman í dag, sem finnið til þess að ástvinir skipta máli og samskiptin við þá, þannig verður það líka okkar hlutverk að breiða þá tilfinningu og þann boðskap áfram út öðrum til heilla.
Og nú langar mig til þess að segja ykkur hver er besta leiðin til þess að koma því öllu áleiðis, það er Jesús Kristur, hann hefur talað og talar enn og það megum við vita að það hvernig Jesús færir kærleikann í orð og huga er öllum til hreinnar fyrirmyndar og gerir okkur á allan hátt færari til þess að tjá kærleikann bæði í atferli og orðum.
Það sem þið eruð og verðið vitni að í þessari guðsþjónustu minnir ykkur á gildi kærleikans, því öll sú tjáning, sem á sér stað í guðsþjónustunni markast af elsku, virðingu, trúfesti.
Má vera að þið skiljið ekki allt, náið ekki öllu sem hér er sagt, en þið getið alltaf hugsað sem svo eftir hverja guðsþjónustu, að hér hef ég orðið þátttakandi í samfélagi og orðið vitni að athöfnum og orðum, sem hvetja til virðingar og kærleika.
Ég vil benda þér hlustandi góður á einn þátt guðsþjónustunnar, af mörgum góðum, sem sýnir með óyggjandi hætti að hér sýnum við öll þá framkomu, sem birtir þann kærleika er aldrei fellur úr gildi. Það er sá þáttur guðsþjónustunnar þegar við beinum huga okkar í bæn til Drottins.
Við lútum höfði, sem bendir augljóslega á það að við erum ekki ein, við hneigjum okkur í virðingu frammi fyrir Guði er lífið gaf og erum þar með að tjá elsku okkar og traust.
Við leggjum hendur okkar saman, sem er annað tákn þess að við aðhöfumst ekkert annað meðan við hugsum til Guðs, sem skapaði himinn og jörð og þá er það stundum sem við krjúpum við bænagjörð, þar sem við krjúpum í auðmýkt, því líf okkar og limi leggjum við í hendur Guðs, sem allt vald hefur á himni og jörðu, sem sagði í Jesú Kristi að við skyldum elska sig af öllu hjarta, sálu, huga og mætti.
Þannig eru það ekki bara orðin, sem við tjáum í bæninni, er lýsa elsku okkar og virðingu, heldur jafnframt atferlið og þess vegna skiptir það svo gríðarlega miklu máli hvernig við hegðum okkur og komum fram við stundir sem þessar hér í dag, þetta eru helgar stundir þ.e.a.s. þær eru alveg fráteknar fyrir Guð og fyrir okkur, hér svölum við þorsta trúarinnar, hér æfum við okkur í því hvernig við komum fram fyrir Guð og hvort annað.
Og þegar við höfum notið þeirra forréttinda að fá að verða vitni að og þátttakendur í hverri guðsþjónustu getum við óhrædd sungið og beðið, eins og við komum til með að gera í lok þessarar guðsþjónustu: „Héðan burt vér göngum glaðir, Guð úr þínu húsi nú, allt vér þökkum, elsku faðir, enn er hér oss veittir þú: lífsins orða ljósið bjarta, læknismeðal sjúku hjarta, endurnæring, hressing, hlíf, huggun, svölun, kraft og líf.“
Kærleiksboð Jesú Krists eyðir afskiptaleysi, sem er enn verra en hatrið, það læra börnin hér í kirkjunni í vetur, þau fá að muna það að við göngum ekki framhjá náunga í neyð, við göngum ekki framhjá hindrunum lífsins, heldur tökumst á við þær.
* * *
Á morgun flýg ég til Kenýa, til þess að kynna mér starf kristniboða í Pokot héraði, ég hef lesið lýsingar á því hvernig það var fyrir vestræna kristniboða að koma fyrst til Pokot. Þar þurftu þeir bæði að takast á við nýjar og erfiðar aðstæður sem og sálarkima framandi heims og íbúa.
Það voru þungir tímar, en kristniboðarnir höfðu orðið heilaga, því svo elskaði Guð heiminn, og boð Krists, farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum og í þessum lýsingum tala þeir allir um orðið, sem lét þá ekki vera og hvatti þá áfram þrátt fyrir mikið mótlæti upphafsára kristniboðsins í Pokot. Nú eru þarna blómlegir söfnuðir og fólk finnur sig frjálst í Jesú Kristi, það hefur margt frelsast undan oki galdra og andlegra refsinga.
Nú fæ ég ásamt nokkrum starfsbræðrum mínum að kynnast þessu starfi og ávexti þess, það eru forréttindi, sem ég er Guði mínum þakklátur og er þegar orðinn spenntur að miðla af þeirri reynslu minni. Bið ég þess að Guð blessi þessa för.
Það sem skiptir máli er að hafa það í huga allar stundir, að allt verður til fyrir kærleiksboð Jesú Krists, það skapar að nýju og kæri söfnuður, þið öll sem hér eruð og þá ekki hvað síst foreldrar og verðandi fermingarbörn, nú hvet ég ykkur til þess að nýta ykkur þennan mikilvæga vetur til þess að sameinast í þessu kærleiksboði, leyfa því að leiða ykkur áfram og móta og styðja til sameiginlegra verkefna í tengslum við dýrmætan undirbúning fermingarinnar og þar höfum við guðsþjónustusókn fremsta í flokki. „Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“