Skírn Jesú

Skírn Jesú

Það er því hjákátlegt að ímynda sér að maður verði nokkurn tíman nægjanlega góður, guðrækilegur eða kristinn til þess að vera reiðubúinn að þiggja skírn. Náð skírnarinnar er ekkert undir mér komin. Aðeins Guði.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Við erum stödd í óbyggðum Júdeu að leita Jóhannesar sem þrumar yfir öllum sem til heyra um syndugleika mannkyns og hótar öllum eldi og brennisteini sem ekki snúi frá villu síns vegar.

Jóhannes er ævintýraleg persóna, eldheitur prédikari sem er sko ekkert að skafa utan af erindi sínu.  “Þér nöðrukyn”, ávarpa hann hlustendur sína.    Ja – hérna!

Ekki einvörðungu er boðskapur hans beinskeyttur, heldur er framgangsmáti hans og persóna það líka.  Föt hans eru úr úlfaldahári, sem er sennilega ekki mýksti og þægilegasti klæðnaður að bera og hann er með áberandi leðurbelti um sig miðjan.  Mann bókstaflega klæjar við tilhugsunina.

Fyrir nú utan klæðnaðinn, framkomuna og boðskapinn, þá lifir maðurinn á engisprettum og villihunangi þarna í óbyggðunum.

Sannarlega óvenjulegt og fólkið gerir sér sérstaka ferð inn í óbyggðirnar til að sjá og hlusta á hann.  Margir aðhylltust það sem hann boðaði og tóku skírn í iðrun synda sinna í þeirri von að lifa guðrækilegu lífi upp frá því.  Og koma svo aftur ef það gengi ekki alveg upp.

Það væri því sannarlega spennandi að sjá þá tvo hittast, Jesú og Jóhannes skírara. Annar svo greinilega hrópandi boðskap sinn, hálf tryllingslegur ásýndum. Hinn sem af hógværð og látleysi laðar fólk til hlustunar með dæmisögum og mildilegri ásýnd.

Það er einmitt það sem gerist í guðspjalli dagsins.   Þeir ná fundum saman Jesús og Jóhannes.

Jóhannes skírari þekkir Jesú strax.  Hann gerir sér grein fyrir því að þar er sá kominn sem hann er að boða lýðnum að undirbúa sig fyrir.   “Ég skíri ykkur með vatni til þess að þið takið sinnaskiptum en sá sem kemur eftir mig er mér máttugri og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“  (Matt.3.11-12)

Jesús er sá sem koma skal.  Þetta er það augnablik sem Jóhannes trúði að væri í vændum.  Messías er kominn.  Stund sannleikans upp runnin.   Og hvað?  Hvað svo?

Jesús vill taka skírn af Jóhannesi.   Er nema von að Jóhannes sé forviða og finni sig fullkomnlega vanmáttugan til þess að framkvæma það sem Jesús biður hann um. Þarna er Messías kominn, sá sem tekur allt vald á jörðu – og hann vill vera þiggjandi en ekki gefandi.  Sannarlega þarf Jesús ekki á því að halda að hreinsast af syndum.  Vissulega væri það nær að Jesús skolaði syndirnar af Jóhannesi – en ekki öfugt.  Þetta er það sem Jóhannes hefur boðað.  Skírn til að hreinsa gamlar syndir.

En Jesús færir okkur nýjan skilning á skírninni.   Von og trú sem byggir á því að skírnin sé sýnilegt tákn þess að við erum hrein og syndlaus gagnvart Guði fyrir gjöf skírnarinnar. Óverðug, óstyrk og ófullveðja þiggjum við þá bestu gjöf sem við getum nokkurn tíman þegið.

„Lát það nú eftir”, segir Jesús. “Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.    (Matt.3.15)

Skírn Jesú samkvæmt frásögn Matteusar opinberar okkur tvennt.  Annars vegar hver Jesús er og hlutverk hans en hins vegar hvað skírn sé og hlutverk hennar.

Skírn Jesú er lýst með mun áhrifameiri hætti en búast má við um skírn almennt. Í fyrstu finnur sá sem skírnina framkvæmir, Jóhannes skírari, til vanmáttakenndar gagnvart því að skíra Jesú.  Telur mun eðlilegra að Jesús skíri hann en ekki öfugt.  Þarna gefur Matteus í skyn að hér sé á ferðinni annað og meira en venjuleg skírn.  Atburðirnir sem eiga sér stað við skírnina staðfesta þetta enn frekar. Himnarnir opnast og heilagur andi stígur niður af himni í líki dúfu og rödd opinberar að Jesús sé sonur Guðs.  Áhrifameiri getur skírn trúlega ekki orðið.  Boðskapurinn er þessi:  Jesús er sonur Guðs í heiminn fæddur og hlutverk hans er að vinna verk Guðs til frelsunar mönnunum.

Frelsun mannsins er óhugsandi nema fyrir skírnina. Jesús áréttar fyrir okkur nauðsyn þess að skíra.  Skírn Jesú er fyrirmynd okkar í þessu efni að öllum ber að taka skírn.  Hjálpræði án skírnar er eins og trú án vonar.   "Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni  föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.  Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar." (Matt. 28:18b-20).

 Okkur ber að skíra og taka skírn.  Um það hefur kristinn maður ekkert valfrelsi.  Ef hann hefur trú, þá tekur hann skírn.   Þarna þarf ekkert að velta vöngum yfir því hvort trúin sé meiri eða minni.  Sterkari eða veikari.  Skírnin er í raun upphaf þess að lifa í kristinni trú.

Hana þarf því aldrei að endurtaka.  Syndirnar tók Jesús sjálfur á sig.  Þá fórn þarf ekki að endurtaka.  Skírnin er gjöf sem Guð gefur þér.  Hana getum við varðveitt í lífi okkar og minnst þess að við þáðum gjöf skírnarinnar án þess að hafa til þess unnið.

Það er því hjákátlegt að ímynda sér að maður verði nokkurn tíman nægjanlega góður, guðrækilegur eða kristinn til þess að vera reiðubúinn að þiggja skírn.  Náð skírnarinnar er ekkert undir mér komin.  Aðeins Guði.  En ég get leyft skírninni að vera stöðuga minningu þess að ég tilheyri Guði, söfnuði hans og kirkju með því að meðtaka og viðurkenna þá náð sem skírnin veitir.

Það gerum við fyrir líf okkar og trú.  Af skírn Jesú drögum við þann lærdóm að Guð er nálægur, faðir, sonur og heilagur andi.  Sonurinn sem steig í vatnið, faðirinn sem talar og heilagur andi sem birtist sem dúfa af himnum.

Signingin er minning skírnarinnar.  Þegar við signum okkur þá minnumst við þess að við lifum stöðuglega í náð skírnarinnar.

Fyrrum sóknarbarn Digraneskirkju, Kristinn Hallsson, söngvari, sem er látinn, segir frá atviki í ævisögu sinni sem bar til þegar hann var ungur.   Þannig var að hann hafði setið yfir ánum um daginn.   Eina ána vantaði þegar heim var komið svo hann þurfti að fara aftur að leita hennar.  Svo ég vitni beint í æviminningar hans:  

“Þegar gengið var heim bæjartröðina lá leiðin framhjá gömlu hesthúsi.  Þar hafði mér verið sagt að maður hefði hengt sig á síðustu öld og þarna væri reimt.  Sem ég nú nálgaðist hesthúsið fannst mér ég verða var við einhvern að baki mér og hugsaði að þarna mundi sjálfsmorðinginn vera kominn.  Gífurleg hræðsla greip mig, en um leið rifjaðist upp að amma Anna Benediktsson hafði einhvern tíma sagt, að lenti ég í svona málum skyldi ég bara signa mig.  Ég flýtti mér því að signa mig í bak og fyrir og hélt síðan ótrauður áfram, án þess að vera nokkurn skapaðan hlut smeikur.  En þegar ég kom heim hafði ærin auðvitað löngu gefið sig fram sjálf.  Ég mun hafa verið níu ára þegar þetta var, og þessi upplifun varð til þess að styrkja mig enn frekar í trúnni.”
Kristin skírn er ekki það sama og skírn Jóhannesar.  Munurinn þar á milli felst aðallega í því að skírn Jóhannesar er framkvæmd svo oft sem þurfa þykir.  Það er að segja, skírnarþeginn lætur skíra sig eins oft og hann vill og sérstaklega ef honum finnst hann hafa fallið frá trúnni.

Kristin skírn er aðeins framkvæmd einu sinni.  Guð tekur við skírnarþeganum í Guðsríkið við skírnina en þarf ekki að taka við honum aftur og aftur.   Sá sem einu sinni hefur þegið náðargjöf skírnarinnar, þarf ekki að biðja um hana aftur.  Hún er honum þegar gefin.   Hann þarf aðeins að varðveita hana í hjarta sínu.

Þessi munur er Jóhannesi skírara ekki ljós.    Hann leit svo á að maðurinn leiti hreinsunar í skírn finnist honum hann vera brotlegur gagnvart Guð.  Hvernig gat hann skilið það að Jesú Kristur, sonur Guðs, syndlaus og heilagur maður, ætti að taka við skírn af hendi hans.  Þetta var honum óskiljanlegt.   Jóhannesi fannst að Jesús ætti að veita sér þessa hreinsun, þessa syndaaflausn en ekki öfugt.

Hann segir:  ""Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!"  Jesús svaraði honum:  "Lát það nú eftir.  Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti."  Og hann lét það eftir honum." (Matt.3:14b-15)

Lét Jóhannes þetta eftir honum vegna þess að hann var sannfærður?  Nei, það held ég ekki.

Ég held að Jóhannes hafi gengist inn á það að skíra Jesú vegna þess að þó svo hann fyndi sig ekki þess umkominn að skíra hann, þá var hann þess enn síður umkominn að hafna bón hans.

Skírn Jesú staðfestir það að til þess að öllu réttlæti sé fullnægt þá ber að taka skírn.  Auk þess sýnir skírn Jesú okkur að það skiptir engu máli hvort við teljum skírnarþegann hafa meiri eða minni þörf á því að skírast.  "Ef okkur finnst undarlegt að skíra hvítvoðunga sem ekkert hafa brotið af sér, þá getum við allt eins spurt sem svo:  "Hvers vegna þurfti þá Jesús að taka skírn þar sem hann hafði heldur ekkert brotið af sér?"

En vegna skírnar Jesú þá eru slíkar spurningar marklausar og óþarfar.  Jesús var syndlaus maður og var skírður.   Ef Jesús taldi þörf á því að taka skírn, hvað þá með alla aðra?

Hið sama getur átt við um þá sem láta sér fátt um finnast að sækja kirkju.  Jesús áréttar það við okkur, bæði með boðun sinni og framferði, að okkur ber að ástunda helgihald kirkjunnar.   Allt frá því að hann var 12 ára gamall höfum við frásögur af því að hann tók þátt í helgihaldinu.   Í Lúkasarguðspjalli segir Jesús við Jósef og Maríu eftir að þau höfðu leitað hans í 3 daga:  "Hvers vegna voruð þið að leita að mér?  Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?" (Lúk.2:49).  Þetta var í Jerúsalem.

Í Nasaret opinberaði hann við ritningarlestur hver hann væri.  En það er athyglisvert að lesa þá frásögn.  Þar segir:  "Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa."  (Lúk.4:16).

Sömu sögu er að segja um aðrar borgir.  Alls staðar þar sem Jesús fór, þar fór hann á hvíldardeginum í helgidóminn.  Í Kapernaum prédikaði hann og læknaði og í lok 4 kafla Lúkasar segir:  "Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu."

 Ef Jesús taldi sér þörf á að vera í musteri Guðs á hvíldardeginum, hvernig getur þá nokkur kristinn maður talið sér trú um að það skipti hann ekki máli hvort hann sækir kirkju eða ekki?   Slíkt er afneitun og sjálfsblekking. Nema menn telji sig vera guði og þurfi ekkert á kirkjunni eða kristinni trú að halda.    Það verður hver að eiga við sjálfan sig.

Útvarpsguðsþjónustur eru tækifæri þeirra sem ekki eiga þess kost að sækja kirkju að heyra Guðs orð lesið og prédikað og opnar þeim glugga til kirkjunnar sem annars eiga þess ekki kost að tilheyra söfnuði Krists á helgum degi.   Guð getur blessað þig sem á Guðs orð hlýðir með því að mæta þér líka fyrir tilstilli útvarps eða sjónvarps.   En það er samt eins og að sjá gegnum glugga.  Jesús undirstrikar þetta samfélag með orðunum:  “Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“  (Matt.18.20)

Skírnin gefur okkur fullvissu þess að við tilheyrum þessum hópi.  Við erum hluti af samfélagi heilagra fyrir náðina sem veitt er í skírninni.

Í stað þess að leita fyrirgefningar og sáttar við Guð með því að skírast aftur og aftur, eins og skírn Jóhannesar skírara gerir ráð fyrir, þá hafa kristnir menn annað til þess.   Altarisgönguna.  Hún er tækifæri okkar til þess að leita sátta við Guð og þiggja fyrirgefningu hans, eins oft og við viljum.   Það eru engin takmörk fyrir því hve oft við göngum til altaris.  Við getum farið oft á dag, ef því væri að skipta. Altarisgangan er nefnilega blessunarríkasta tækifærið sem kristinn maður hefur til sáttagjörðar við Guð -og Guðs við syndarann.

 Þessi eru sakramenti kirkjunnar okkar.  Skírn og kvöldmáltíð.  Skírnin og altarisgangan. Við munum aldrei skilja til fulls þá blessun sem hvoru tveggja getur veitt okkur.  Við munum aldrei öðlast fullnaðar vissu hvernig náð Guðs er óþrjótandi – en við getum þegið þá blessun fyrir trúna á Jesú Krist.  Fyrir skírnina og kvöldmáltíðina.  Þá dugar það eitt að segja:  “Takk, Jesús”.   “Náð þín nægir mér.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.  Amen.