Ástin eða feigðin?

Ástin eða feigðin?

Jónas hugleiddi hlátur álfkonunnar og velti því fyrir sér hvað hann þýddi – var það ástin eða feigðin? Sú spurning mætir okkur á öllum krossgötum lífs og tíða. Hún svífur líka yfir vötnum í textum gamlársdags.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
01. janúar 2020
Flokkar

Þá er komið að einu eftirlætiskvöldinu. Áramótin eru þrungin sterkum tilfinningum. Fátt túlkar þær betur en sálmur Valdimars Briem sem við syngjum hér í lokin. 

Furður og ósköp

Jú, hávaðinn og ljósagangurinn er vissulega óskaplegur á því andartaki sem miðnætti gengur í garð, svo mörgum þykir nóg um. En eins og svo margt annað í menningu okkar eru sprengjur og blys ekki annað en tjáning á því sem býr innra með manninum 

Nýársdagur var hið forna einnig kallaður áttadagur jóla og það var til siðs hér á landi að halda miklar veislur á aðfararnóttu hans. Það mun hafa verið magnaður tími. Einhverjir eiga að hafa sest á krossgötur á nýársnótt og beðið álfa sem áttu að flytja búferlum. 

Jónas Hallgrímsson orti um slík stefnumót í álfadansinum. Þar horfir hann fram til ókominna tíma og spyr sig að því hvað hlátur álfadrottningarinnar merkir:

Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér


Ástin og feigðin, þessar tvær hliðar tilverunnar voru skáldinu hugleiknar og þær andstæður tala til okkar nú á þessum tímamótum. Eitt skeið kveður og annað heilsar. 

Óskapnaður og sköpun

Já, gamlárskvöld hefur verið tími fyrir furður og ósköp. Mögulega á það rætur að rekja til þess þegar fólk hér forðum skapaði einhvers konar glundroða í aðdranganda þess að eitt tímabil tók við af öðru. Það átti að endurspegla ástandið eins og það var fyrir sjálft upphafið – fyrir sköpunina. Skapari gekk ekki endilega inn á autt sviðið og bjó allt til úr engu. Það var miklu fremur að hann kæmi inn í aðstæður þar sem allt var á hvolfi og ekkert var eins og það átti að vera. Sköpun fylgdi skipan, nokkuð sem mannshugurinn leitar eftir í stóru og smáu. Já, skaparinn bjó ekki endilega eitthvað til – það var frekar að hann tæki til.

Og það þótti viðeigandi að endurvekja þetta ástand óreiðunnar þegar áramót nálguðust. Þá máttu þrælar rífa kjaft við húsbændur sína, sem gengu jafnvel beina fyrir þjónustulið sitt. Dýrin áttu að tala mannamál og álfar risu upp úr undirheimum og gengu um á yfirborðinu, eins og Jónas yrkir um. 

Gamlir siðir deyja seint og á okkar dögum eru það mögulega flugeldar og álfabrennur sem kallast á við við þessa hugsun. Þar vantar ekkert upp á glundroðann! 

Svo ekki sé nú talað um hið árvissa íslenska áramótaskaup, þessa kvöldstund eru þau sem njóta mest af auði og völdum dregin sundur og saman í háði. Svo fellur allt aftur í sama farið. Í Kastljósþætti í gær lýstu Þorsteinn Guðmundsson og Reynir Lyngdal, tveir af höfundum skaupsins því svo að grínistar væru alltaf í stjórnarandstöðu – þeir gera grín að ráðandi öflum. Og þeir eiga einmitt þetta kvöld.

Sköpun og endalok

Guðspjallið á gamlárskvöld fjallar um tímamót. Þar er reyndar ekki horft til upphafs heldur einhvers konar endaloka. Að kristnum skilningi eru þau þó ekki lokapunktur alls – heldur eins konar endursköpun.

Þetta er ein þeirra frásagna Jesú þar sem hann boðar hina efstu daga og þau tíðindi eru fjarri því auðveld og smá í sniðum. Þó eru þau sett fram á einhvern hversdagslegan hátt – eða eins og kunnuglegt þema er þessa dagana – sem þar sem von er á miklivægri manneskju heim úr veislu. Hvaða nálgun er þetta? Erum við ekki að tala um þá tíma þar sem jörðin nötrar og himnarnir opnast? Hvaða erindi á saga af taugaspenntum þjónum sem bíða húsbónda síns inn í slíkt samhengi?

Þessi texti minnir okkur á þá staðreynd að sjálf erum við undir ægisvaldi tímans. Árin koma og fara, kynslóðirnar gera það líka eins og við sungum hér um í upphafi. Á þessa staðreynd minnir Jesús okkur og bendir jafnframt á að heimsmynd breytist í einni svipan. Skyndilega stöndum við á nýjum stað og allar forsendur eru gerbreyttar. Og við fáum nasarsjón af þeirri undrun og furðu í þessum texta þar sem Jesús talar um að komi húsbóndinn að þjónum sínum vel undirbúnum – já, þá muni hann sjálfur búa þeim veisluborð og þjóna þeim. Jesús hvetur okkur til að vera viðbúin, halda vöku okkar.

Hvernig gerum við það? Jú, með því að falla ekki í dróma skeytingarleysis og andvaraleysis gagnvart þeirri skyldu sem við berum hvert til annars. Elfur tímans rennur með sífelldum breytingum en vanafestan getur verið slík að mannkyn veður áfram í villu sinni. Það er ekki að undra að margar fréttaveitur völdu þá sænsku Gretu Thunberg, manneskju ársins í heiminum. Hún vill vekja okkur af værum blundi – minna okkur á að þau tímamót kunna að renna upp að aðgerðir okkar og góður vilji duga ekki til að bjarga jörðinni. 

Hið sama gerir Ásta Júlía Friðbjörnsdóttir listamaðurinn sem sýnir nú á Kirkjutorginu. „Þú ert í hættu“, „Það flæðir að“, „Snúið við tafarlaust“ – þessi skilaboð sendir hún með morse-tungumálinu, með ljósaseríum í gluggum og steingervingum á veggjum. 

Gamlárskvöld með öllum sínum tengingum í forna sögu og siði minnir okkur jú á það að mannkyn á sér sameiginlega rætur og uppruna. Það sem þykir sérstakt í einni menningu á oftar en ekki hliðstæðu á öðrum sviðum. Sá er gangur mannlífsins. Og enn mikilvægara er að hafa það í huga að fortíð okkar er ekki aðeins af sama meiði sprottin. Við deilum líka hvert með öðru, þeirri framtíð sem bíður okkar. Kæruleysi gagnvart þeirri staðreynd er um leið brot á gullnu reglunni sem Jesús sagði vera æðsta markmið okkar og tilgang. Verum ekki sofandi því við vitum ekki hvenær á okkur reynir. Þetta er boðskapurinn á mótum tveggja ártala. 

Ástin og feigðin

Sú sameiginlega vitund talar til okkar á þessu mergjaða kvöldi þegar við syngjum um árið sem er liðið, þökkum gjafir þess og styrk Guðs í öllu mótlæti. Við spyrjum líka hvað það er sem bíður okkar í mistri hins ókomna. Jónas hugleiddi hlátur álfkonunnar og velti því fyrir sér hvað hann þýddi – var það ástin eða feigðin? Sú spurning mætir okkur á öllum krossgötum lífs og tíða. Hún svífur líka yfir vötnum í textum gamlársdags. Erum við reiðubúin því að taka á móti Kristi og kærleiksboðskap hans – eða fljótum við áfram sofandi að feigðar-ósi? 

Á komandi tímum verður vafalítið margt sem við fáum engu ráðið um og breytt. Annað mun verða á okkar færi að hafa áhrif á. Og fyrir því á hugur okkar að halda vöku sinni. Vissulega eru mörk tveggja ártala ekki óbreytanleg og heilög. En þau minna okkur á tímans straum og minna okkur vonandi á það sem Kristur boðar í guðspjallinu – að vera viðbúin, láta ekki sinnuleysið kæfa mennskuna og það dýrmæta sem í brjósti okkar býr. Biðjum þess að komandi ár verði farsælt og gjöfult og að sjálf megum við verða þeirrar gæfu aðnjótandi að velja góða kostinn í lífinu.