Sögur sem enda illa

Sögur sem enda illa

Kæri söfnuður. Ég ætla að segja ykkur sögur í dag. En áður en við komum að þeim er ég með eina tilkynningu og eina viðvörun. Tilkynningin er þessi. Þessari prédikun lýkur ekki í dag. Við gerum hlé. Og við ljúkum henni eftir tvo sólarhringa að morgni páskadags.

IMG_1096

Kæri söfnuður.
Ég ætla að segja ykkur sögur í dag.
En áður en við komum að þeim er ég með eina tilkynningu og eina viðvörun.

Tilkynningin er þessi.
Þessari prédikun lýkur ekki í dag.
Við gerum hlé.
Og við ljúkum henni eftir tvo sólarhringa
að morgni páskadags.

Viðvörunin er þessi.
Sögurnar sem ég ætla að segja eru engar Hollívúddsögur.
Þetta eru ekki sögur sem enda vel eða fallega.

Þetta eru ljótar sögur.
Krosssögur.

Þetta eru sögur sem enda illa.

Kæri söfnuður.
Þessi prédikun er ekki við hæfi barna.
Ekki frekar en föstudagurinn langi.

Misnotkun

Jenny var bara barn þegar hann misnotaði hana í fyrsta sinn.

Hann.
Pabbi.

Hann kom að kvöldlagi, lagðist á hana, fór þangað sem ekki má. Snerti þar sem ekki má. Þetta var í fyrsta sinn, en ekki það eina. Á kvöldin var hann ófreskja. Á daginn var hann pabbi sem hvatti litlu prinsessuna áfram. En hann hélt áfram.
Misbauð henni.
Og í hvert skipti dó hún.
Örlítið.
Meira.

Svo varð hún fullorðin og hann hafði ekki lengur áhuga. Og hún fór að heiman. Hitti eigin mann. Á sínum aldri. Hann var ekki góður maður. Ekki frekar en pabbi. Og reiðin ólgaði innra með henni. Og eitt sinn, þegar hann fór yfir strikið, sagði hún. Hingað.
Og ekki.
Lengra.
Og hún myrti hann.

Krossinn er að bera ofurliði.
Krossinn er markaleysi.
Krossinn er ljótur.

Stríð

Strákurinn var bara barn að aldri þegar þeir komu.

Það var kvöld.
Þau vissu af stríðinu, en það hafði verið fjarlægur veruleiki.
Þau höfðu heyrt ljótar sögur af hersveitum sem fóru um, rændu, rupluðu, myrtu.
En þorpið þeirra var afskekkt.
Þeir komu þetta kvöld.
Og þeir þeir svívirtu konurnar.
Þeir tóku mennina.
Og drengina. Og þeir drápu þá.

Alla nema hann.
Því þeir fundu hann ekki.
Svo fóru þeir.

Hann sá þetta. Og hann mundi það. Og hann geymdi það í hjarta sínu.
Og þessa nótt varð svarta hárið hans hrímhvítt. Og hann talaði aldrei framar.
Hann sá þetta.
Hann sá þetta allt.

Krossinn er stríð.
Krossinn er dauði.
Krossinn er ranglæti.

Slys

Sonurinn var bara barn að aldri þegar mamma dó.

Þau voru á leið í frí, pabbi og mamma og hann. Pabbi og mamma höfðu rifist í bílnum. Það var eitthvað með flugmiðana. Svo mamma stoppaði bílinn á hraðbrautinni og ætlaði að fara út úr bílnum til að kíkja í töskuna en um leið og hún hafði opnað og stigið út kom trukkurinn og keyrði yfir hana.
Og hún dó.
Um leið dó framtíðin sem þau höfðu átt saman.
Fríið sem þau ætluðu í þegar slysið varð.
Dagarnir þegar mamma átti að taka á móti honum heima, með kakóbolla sem yljaði kroppinum og brosið sem yljaði hjartanu.
Fermingardagurinn.
Brúðkaupsdagurinn.
Dagurinn þegar fyrsta barnið hans myndi fæðast.
Mamma var dáin.
Lífið var breytt.
Hann vissi það. Á svipstundu.
Hún dó.

Krossinn eru draumar sem aldrei rætast.
Krossinn er sársauki og vonleysi.
Krossinn er tilgangsleysi.
Og krossinn er sorg.

Krossinn
er
staðreynd

Staðreynd föstudagsins langa.

Og þegar við segjum söguna af krossinum á föstudaginn langa,
þá er krossinn
saga sem endar illa.

Þeir krossfestu hann.

Hann dó.

Og það er engin dýrð.

Engin.

Ekki núna.

Amen.

Guðspjallið

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Jóh 19.16-30