Lífsklukkan

Lífsklukkan

Venjulega eru mörg svið vísindanna talsvert fyrir ofan skilning okkar meðalgreindra en þetta skiptið, þegar ég fékk fregnir af verðlaununum á sviði líffræði og lækninga, sperrti ég skilningarvitin. Viðfangsefnið var svo nærtækt, það var ekkert annað en sjálf lífsklukkan sem hinir verðlaunuðu vísindamanna höfðu rannsakað.

Flutt 8. október 2017 í Neskirkju

Jæja, nú voru þeir að veita nóbelsverðlaunin og ekki fór það nú svo að Íslendingar hrepptu hnossið að þessu sinni. Nóbel karlinn vissi hvað hann söng og nú minnumst við hans fyrir framlag til friðar, menningar og vísinda en ekki fyrir að hafa upphugsað hið stórhættulega dínamít. Sjálfur ætti hann að fá æðstu viðurkenningu á sviði almannatengsla fyrir þessa snilldarhugmynd.

Ég veit það ekki!

Venjulega eru mörg svið vísindanna talsvert fyrir ofan skilning okkar meðalgreindra en þetta skiptið, þegar ég fékk fregnir af verðlaununum á sviði líffræði og lækninga, sperrti ég skilningarvitin. Viðfangsefnið var svo nærtækt, það var ekkert annað en sjálf lífsklukkan sem hinir verðlaunuðu vísindamanna höfðu rannsakað. Já, það er þessi tímamælir sem lætur okkur verða ýmist syfjuð eða spræk eftir því hvernig jörðin snýst og við þurfum að borga fyrir það ef við reynum að svindla á henni. Það á ekki síst við eftir að við verðum ríkari að árum.

Lífsklukkan er magnað fyrirbæri Hún lætur ekki bara til sín taka þegar við vökum frameftir við skemmtanir, höngsum yfir bókum, sjónvarpsþáttum nú eða þeysumst á milli tímabelta. Allt líf á jörðinni lýtur takti hennar. Dýr og plöntur taka mið af þessum snúningi og þríeykið kafaði niður í minnstu sameindirnar til þess að fá einhverjar skýringar á þessu ferli sem við höfum vitaskuld þekkt svo lengi. Þar leyndist hvatinn að því sem ræður síðan hinum hversdagslegustu viðbrögðum okkar og svo auðvitað alls kyns hegðun og hátterni annarra lífvera.

Aldrei skyldi maður hætta að dáðst að afrekum á þessum toga – sérstaklega ef viðfangsefnið er svo nærtækt að við værum vís til að velta því ekki fyrir okkur. Vaninn og sinnuleysið drepa alla sköpun en þá kemur þessi stórbrotna spurning: „Já, en hvers vegna?” Það er hún sem knýr okkur áfram til frekari dáða og að baki henni býr yfirlýsing sem er jafnvel enn merkilegri, en hún er svohljóðandi: „Ég veit það ekki!” … „En ég þrái að vita meira”.

Já, viðurkenningin á því hvað við vitum lítið er drifkraftur þekkingarinnar. Á það hafa fróðir menn bent frá dögum Sókratesar sem þótti vera vitrastur allra í Aþenu, því hann vissi hvað hann vissi lítið. Þessi afstaða hefur drifið landkönnuði áfram á öllum sviðum tilverunnar. Og enn getum við lýst þessu yfir, þrátt fyrir að þekkingarleitin hafi opnað okkur nýjar og nýjar dyr vitneskju og þekkingar. Forvitnin lifir enn góðu lífi og sýnir ekki á sér nein þreytumerki: „Það er svo ótalmargt sem við vitum ekki!”

Það getur svo sannarlega verið gaman að vera uppi á 21. öldinni.

Ætla ekki að predika…

„Ég veit það ekki” er einhver mikilvægasta yfirlýsingin og hún lifir góðu lífi þar sem fólk skapar og miðlar einhverju merkilegu. Myndlistamaður sem málar verk á striga setur sjaldnast fram skýringar á því sem hann eða hún hefur skapað. Verkin kunna að geyma óræð form og línur sem eru ekki ýtarleg lýsing á neinu. Nei, það er áhorfandans að túlka og dæma. Og ljóðið á ekki að„merkja heldur vera“. Sú yfirlýsing bandaríska skáldsins Archibald MacLeish markaði stefnuna í upphafi síðustu aldar og Steinn Steinar gerði hana að einkunnarorðum ljóðabálksins Tíminn og vatnið. Ljóðið„er“ og lesandinn gefur því merkingu.

Góður kennari á okkar dögum á heldur ekki að innprenta neitt í koll nemenda sinna. Hann leyfir þeim sjálfum að finna svörin. Hlutverk hans er að vekja áhuga og gera námsefnið aðgengilegt. Já, ætli það sé ekki líka liðin tíð að predikari prediki? „Ég ætla nú ekkert að fara að predika” er einn vinsælasti fyrirvari okkar daga áður en fólk heldur einhverju fram. Ég held það eigi líka við um okkur, sem flytjum stólræður úr ritningunni? Að minnsta kosti á það við um kirkju sem tekur mið af aðferðum Jesú Krists sem spurði og ræddi og leyfði fólki að hugsa. Já, ég er sumsé ekki að predika yfir ykkur en vona að þið sjáið nýja fleti á umfjöllunarefni dagsins.

Formlegheit og frelsi

Sem er, merkilegt nokk tengt lífsklukku og túlkun. Guðspjallið færir okkur inn í hið sígilda samtal Jesú við fræðimenn, þessa stétt gyðinga sem, ef marka má frásagnir af þeim, ekki miklar áhyggjur af vanþekkingu sinni. Þeir voru jú kallaðir fræðimenn og litu á það sem hlutverk sitt að gæta að því að allt væri í föstum skorðum. Eins og svo oft þá snerist samtalið um þetta fyrirbæri sem Biblían kallar lögmál. Og í þessu tilviki þá hvort ákvæði um hvíldardaginn og föstur skuli vera í heiðri höfð, sama hvað á gengur.

„Til frelsis frelsaði Kristur okkur”, segir postulinn í pistli dagsins og í lexíunni kemur fram það sjónarmið að Guð láti sig það varða að við sýnum miskunnsemi og séum réttlát, flytjum mál ekkjunnar og verjum munaðarlaus börn. Með öðrum orðum, mælikvarði á siðferði okkar og tilgangsríkt líf er skýr: Það er framkoma okkar við þau sem þurfa á okkur að halda. Í þeim leynist markmið okkar. Ekkjan átti sér jú engan að sem framfleytti henni á þessum dögum og hið sama gilti um munaðarlaus börnin. Þá vaknar skylda í brjósti hvers þess sem telur sig ganga á vegi Guðs. Ekki til að ávinna sér nokkurn hlut heldur til þess eins að fylgja röddu kærleikans.

En ekki hvað?

Jú, að passa upp á formlegheitin. Að fylgja bókstafnum lið fyrir lið, beygja mennskuna undir hin fornu ákvæði, lifa í þeim ótta að ef ekki sé farið eftir reglum um hvíldardaga, föstur og annað slíkt þá muni einhver óáran henda. Raunin er jú sú að hvíldardagar eru okkur dýrmætir og eins og Jesús segir í guðspjallinu þá eru þeir settir fyrir manninn en maðurinn ekki fyrir þá. Lífsklukkan þarf jú sinn rytma, ekki aðeins í birtuskilum sólarhringsins heldur einni á vettvangi vikunnar og ársins.

Hvíldardagar og föstur

Ákvæði um það að taka sér næði frá öllu amstri voru í raun sett þegar Ísraelsþjóð var stödd fjarri heimahögum sínu, ánauðug í landi Babýlóníumanna. Það var á þeim tíma, þegar minnstu munaði að fólkið glataði sérkennum sínum og samstöðu sem þau einsettu sér að leggja frá sér plóga og rekur, hverfa inn í íhugun og hvíld einn dag vikunnar og láta ekki lífið eyðast upp í striti daganna.

Hvíldardagurinn er í raun yfirlýsing, eða jafnvel listaverk, sem skapa manninum svigrúm svo hann geti spurt sig stærri spurninga en hæfir í brauðstriti hversdagsins. Til hvers förum við á fætur að morgni dags og göngum til náðar þegar dagur er liðinn? Til hvers er lifað og hvað liggur eftir þegar dauðinn nálgast? Lífið á ekki allt að snúast um vinnu og það sem við getum keypt fyrir launin okkar. Þar býr miklu meira að baki. Lífsklukkann okkar segir okkur að taka frá tóm fyrir það sem skiptir okkur máli, býr innra með okkur og lætur okkur nálgast Guðdóminn.

Hið sama gildir um föstuna sem hinir upplýstu tóku að tuða yfir. Föstur eru þarfaþing, og á tíma þegar fæðuframboð var takmarkað skipti máli að kýla ekki vömbina á þeim tíma ársins sem undaneldisgripirnir eru einir eftir af á bænum. Fyrir vikið voru ákvæði um að neyta ekki kjötmetis á vorin sett og svo þróuðust þau yfir í hinar ströngu föstur sem tóku á sig ýmsa mynd.

Það merkilega er að í menningu okkar í dag skynjum við æ sterkar þá viðleitni sem Kristur andmælir í texta dagsins. Fólk leitar sem aldrei fyrr í faðm þeirra sem segjast vita allt og skilja ekkert svigrúm eftir fyrir skapandi samtal. Í stjórnmálalífinu spretta upp hópar þar sem yfirlýsingin: „Ég veit það” hefur tekið við af hinni stórkostlegu upplýstu fáfræði. Slíkir leiðtogar mæta okkur hvert sem litið er í pólitíkinni og það er að sönnu áhyggjuefni. Það minnir okkur líka á það hversu sígildur texti Biblíunnar er.

Í guðspjallinu lesum við hvernig Jesús tókst á við þessar hugmyndir og færði manninn í forgrunn. Hann tókst á við þá lokuðu afstaða að öllu svör liggi fyrir og að manneskjan sé aukaatriði en strangar reglur og formlegheit skipti þar öllu máli. Ef við hugleiðum þá þá mætir Jesús okkur með sama hætti og á viðum alla skapandi iðju. Hann skilur okkur eftir með svörin og viðbrögðin og spurningin er sem fyrr: hvernig lifi ég verðugu lífi í öllum þeim sveiflum daga og lífs sem mæta okkur á vegferðinni frá vöggu til grafar.