Samskipti á tímum plágunnar

Samskipti á tímum plágunnar

Til þess að styrkja tengslin verðum við að draga úr þeim tímabundið.

3 sd í föstu 2020. 13. mars. Dómkirkjan. Síðasta fyrir „La Peste.”

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen. 

 

Fordæmalausir tímar – fordæmalausar aðstæður og fordæmalausar aðgerðir.

 

Þessi skilaboð berast okkur þessa síðustu daga á tímum plágunnar; fordæmaleysi er orð dagsins; og þó vitum við að umgangur þessarar veiru er ekki fyrsta plágan sem geisar um heimsbyggðina og hæpið að ætla að hún verði sú síðasta. 

         En hinu er ekki að neita að samskipti manna og þjóða á þessum tímum eru svo mikil og ör, að munurinn á hraða útbreiðslunnar nú og t.d. spænsku veikinnar er vart sambærilegur og breiddist sú spænska þó út með ógnarhraða.

 

Já upp er kominn nýr veiruleikieins og skáldið Valdimar Tómasson hafði á orði og ekki er laust við að ugg setji að manni. 

Ugg, vegna þess að farsóttin slær svo mörg vopn úr hendi manns – við verðum valdssvipt á svo margan hátt. 

 

Auk þess sem að í fárinu rennur kannski upp fyrir mönnum að ekki er allt svo gott við heimsvæðinguna; ég fylgdist með bandarískum þætti um daginn þar sem sérfræðingur á þessu sviði greindi frá því að langflest þau lyf sem Bandaríkjamenn þyrftu á að halda væru framleidd í Kína eða öðrum löndum utan USA. Viðskiptavitið hvetur menn til að lækka framleiðslukostnað; að sjálfsögðu, en óneitanlega getur það haft ákveðna ókosti í för með sér eins og sést af núverandi stöðu. 

 

Valdsviptingin er þó á fleiri sviðum. Við höfum fengið afar góðar leiðbeiningar hvernig best er að verjast veirunni  - og ég get ekki nógsamlega þakkað það frábæra fólk sem hefur leitt þessar aðgerðir – en vandinn er samt sá að maður getur aldrei verið viss. 

 

Hef ég gert allt rétt?

Hef ég gætt hreinlætisins óaðfinnanlega? 

Sprittað og sápað?

Aldrei klórað mér í skegginu á meðan ég reyndi að muna pinnnúmerið áður en ég slæ það inn?

 

Almennir mannasiðir; sem voru einmitt það; bara mannasiðir sem mörgum fannst þeir mættu umgangast af hæfilegri léttúð, eru núna nánast orðnir helgisiðir. Og líkast til er ekki loku fyrir það skotið að við getum séð hreinsunarsiði gyðinganna í öðru ljósi, þar sem smásmyglislega leiðbeiningar um hreinlæti; - að því er manni fannst, - voru á stundum lífsnauðsynlegt ferli til að forðast smit. 

 

Nær gengur maður nógu langt?

--

 

Óvissan er vond. Það er vont að vera ekki viss um hvort aðgerðir manns séu nóg; og það ekki endilega hvað mann sjálfan varðar því mörg okkar telja sig vera sennilega nógu hraust til að takast á við veiruna en hvað ef maður ber smit í aðra – verði jafnvel valdur að alvarlegri veikindum þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu; að ég tali nú ekki um dauða. 

--

 

Ég held að veiran geri fleira en að sýkja fólk. Hún knýr okkur til að horfast í augu við ábyrgð okkar hvers og eins, tengsl okkar við aðra sem við gætum jafnvel verið að styrkja með því að rjúfa þau tímabundið; eða þá að breyta formi samskipta og tengsla. 

En undirliggjandi er svo nánd dauðans í málinu öllu.  

 

Að vísu deyja fleiri úr hungri í þessum töluðu orðum heldur en kóronaveirunni en hungur annarra er því miður fjarlægara okkur heldur en yfirvofandi ógn veirunnar sem gerir sér engan mannamun eftir efnahag, ólíkt hungrinu. 

         Það eru þessi sameiginlegu örlög okkar allra sem draga fram staðreyndina sem við ýtum alla jafna svo mjög frá okkur en skáldið Bubbi Morthens orðaði með erftirminnilegum hætti í dægurlagatexta sem fluttur var á plötunni Geislavirkir: „Þið munuð öll deyja.”

 

 

Ég get ekki að því gert hvað mér verður hugsað til Plágunnar(la peste) efrtir Albert Camus. Frábær saga sem fjallar í grunninn fjallar um það sem öllu máli skiptir í þessari tilveru: Samskipti manna á milli og lífið andspænis dauðanum og leitinni að merkingunni sem ætti eins og að gneista á milli þessara póla.

 

Sögusviðið er Oran - borg í Alsír, fremur óaðlaðandi og banal, hvar fólkið leggur allt kapp á að græða pening en sinnir lítið andlegri rækt. Eða með orðum Camus: 

„..að sjálfsögðu kunna þeir að meta óbrotnar skemmtanir; þeir elska konur kvikmyndir og sjóböð. En þeir hafa næg hyggindi til að geyma sér þessar skemmtanir þar til á laugardagskvöldum og sunnudögum

Þetta er auðvitað helst til karllægur texti hjá honum en lítum fram hjá því í bili.

 

En þrátt fyrir þennan dóm Camus þá getum við samt vitað að þarna er fólk með tilfinningar; fólk sem á í samskptum hvert við annað; misgefandi eins og gengur en samt fólk, með vonir og þrár. Rétt eins og í öllum bæjum og borgum hvert svo sem „menningarstig” þeirra er.   

 

Svo kemur upp plága sem gerir að verkum að borginni er lokað fyrir allri umferð til hennar og frá.  Eins og gefur að skilja eiga þau sem brugðu sér af bæ ekki þess kost að sjá fólkið sitt í borginni fyrr en plágan hefur gengið yfir. Sá aðskilnaður hefur áhrif á hugsanir og tilfinningar þeirra sem í borginni eru. Eða eins og sögumaður bókarinnar segir:

         

Þessi miskunnarlausi aðskilnaður sem enginn sá fyrir endann á hafði komið okkur að óvörum og gert okkur rugluð og ófær um allt viðnám gegn minningum þessarar tilveru, sem var enn svo nálæg og þó þegar svo fjarlæg, en hugur okkar var nú bundinn við hverja stund. Í rauninni kenndum við tvöfalds sársauka; fyrst þess, er var sjálfra okkar, og síðan hins, er við ímynduðum okkur, að fjarlægir vandamenn, sonur, eiginkona eða unnusta yrðu að þola.  Undir öðrum kringumstæðum hefði fólk sjálfsagt fundið útrás í meira yfirborðslífi og aukinni athafnasemi. En drepsóttin þvingaði menn um leið til iðjuleysis…

 

Sársauki tengslaleysisins er yfirgengilegur; ég reikna með að Camus beiti hughrifunum sem af plágunni stafar fyrst og fremst til að magna upp tengslaleysið og firringuna frá því lífi sem maðurinn getur lifað uppréttur og sáttur við umhverfi sitt og sjálfan sig. Að því leyti er hér um myndhverfingu að ræða. En samt sem áður getum vð líka lesið okkur, í núverandi stöðu, svolítið inní texta Camus. 

 Og annars staðar reynir hann að greina stöðu fólksins með eftirfarandi hætti:

 

“Nútíðin gerði okkur óróleg; við vorum óvinir fortíðarinnar og rænd framtíðinni….”

Camus sá að pestin og einangrunin – hið sameiginlega skipbrot – hafði þessi áhrif. 

--

En ég vil halda því fram að maðurinn hafi samt val frammi fyrir angistinni og einangruninni og hún felst í því hvernig við högum samskiptunum og tengslunum og hvort við mætum aðstæðunum með von og trú, frekar en bölmóð og svartsýni. Ég er ekki að biðja um einfeldni og afneitun staðreyndanna heldur viðhorf sem hvetur frekar en letur gott og uppbyggilegt starf.

 

Að við höldum áfram með daglegt líf án þess að afneita því sem er.

 

Að við lítum til hvert með öðru og gætum þess að finna aðrar leiðir að þeim sem eiga á hættu að einangrast; nota þessa blessaða samfélagsmiðla á meðan pestin gengur yfir.

 

Þversögning er að Veiran lifir vegna þess að við eigum í of miklum samskiptum hvert við annað miðað við stöðuna eins og hún er. Og til þess að styrkja tengslin verðum við að draga úr þeim tímabundið. Í það minnsta að breyta samskiptunum, meðan þetta gengur yfir. Og að við notum það otiumeða tóm/næði til þess að styrkja kjarnastarfsemina, ef svo má að orði komast; nánunstu ættingja og fjölskyldu. 

Grunntengingarnar okkar.

 

Þetta eru ósýnilegu böndin sem við treystum; böndin sem tengja okkur hvert öðru og Guði. Og þrátt fyrir að stofnunum og kirkjum verði kannski lokað eða dregið úr starfsemi þá er hin ósýnilega kirkja samt ennþá til staðar; kirkja sem vill vera eins og hendur Guðs á jörðu.

 

---

         Fordæmalausir tímar – Vafalítið er það rétt og þessi kynslóð hér á landi hefur í það minnsta ekki þurft að glíma við vanda af þessu umfangi áður. 

 

En ég hef fulla trú á að það takist svo framarlega sem við mætum þessu öllu af skynsemi og yfirvegun og æðru– og upphrópanalaust. 

 

Að okkur takist að mæta ótta með skynsemi, óðagoti með þolinmæði og óvissu og upphrópunum lukkuriddara með lærdómi og þekkingu.

 

Og vonleysi með trú!

 

Jesaja spámaður rifjar upp fyrir fólkinu á tímum þrenginganna, orð Drottins: 

 

…Drottinn hughreystir þjóð sína
og sýnir miskunn sínum þjáðu.
En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.“
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,

Þessi skilaboð getum við líka tekið til okkar í þessum þrengingum; að Guð lætur sér annt um sköpun sína og gleymir okkur ekki.

 

Það er líka svo mikilvægt að við höldum í jákvæðni og gleði þótt margt gefi svo sem ekkert sérstakt tilefni til gleði.  

Og að við förum eftir ráðleggingum þessa frábæra teymis heilbrigðisyfirvalda og almannavarna sem ég veit að leggja nótt við dag í baráttunni.

Okkur er óhætt að hlusta á fagmennina og treyst þeim.

- --

Við getum alveg sýnt þá samstöðu sem þarf og „getum tekið höndum saman um það að halda snertingum hvert við annað í algeru lágmarki” eins og það var orðað svo snilldarlega um daginn.

 

---

Ég man ekki eftir því að hafa undirbúið og haldið guðsþjónustu með þá von í brjósti að frekar komi færri en fleiri eða að amk ekki fleiri en hundrað. (Það rétt slapp í dag!)

 

Þetta eru líka fordæmalausar aðstæður. 

 

Biskup hefur gefið út tilmæli til presta þjóðkirkjunnar að ekki verði messað í kirkjum landsins á meðan samkomubann sóttvarnarlæknis er í gildi og að sjálfsögðu munu við hér í Dómkirkjunni verða við því. Á hinn bóginn munum við hafa kirkjuna opna hér eftir sem hingað til þannig og sinna sálgæslu og þau sem hingað vilja koma til að eiga hljóða stund með sjálfum sér og Herranum, þótt ekki verði um skiplagðar stundir að ræða, eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomin. 

 

„Við erum öll almannavarnir” hefur verið slagorð og er það orð að sönnu. Æsingalaust og yfirvegað höfum við tök á því að komast yfir þessa erfiðleika.

 

Verðum að standa saman um það að vera – um stund -  út af fyrir okkur og sérstök, þ.e. hvert í sínu lagi. 

 

Það verður ekki annað sagt en að þessi fasta er undarlegur tími en þessi atburðir skerpa líka fyrir okkur inntak föstunnar, sem er undirbúningur, sjálfsagi og meðlían með þeim sem höllum fæti standa. Ég veit ekki hvort þetta er tilviljun en ef áætlanir ganga eftir þá á samkomubanninu að ljúka um það leyti sem páskarnir ganga í garð. 

 

Upprisuhátíðin – lækningin – lífgjöfin.

 

Það er við hæfi.

 

Upprisan var líka fordæmalaus atburður í mannkynssögunni. 

 

Gleymum því ekki.

 

Það birtir alltaf upp um síðir.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.