Vargatal

Vargatal

Boðorðin tíu eru sannarlega skarpur spegill á manninn. Þau minna okkur á þá staðreynd, að það að vera manneskja er flókin jafnvægislist. Bilið er stutt á milli góðs og ills. Skammt er á milli vina og varga.

Einhvern tímann fyrir alllöngu áskotnaðist mér bók sem fjallar um íslensk rándýr. Vargatal heitir hún og þar er hver vargurinn á fætur öðrum talinn upp, veiðiaðferðum lýst og því hvernig dýrið leggst á aðrar skepnur sem það getur ráðið við. Þetta er býsna skemmtileg lesning og krassandi sem geymir frásagnir af refum, minkum, sílamáfum, örnum, fálkum, smyrlum og ýmsum öðrum dýrum sem vekja ógn í umhverfi sínu. Sjálf eiga þau vitaskuld allt sitt undir því að vel takist til í veiðinni. Lífsbaráttan er hörð og ef ekki tekst að finna og veiða bráðina tekur hungrið við og dagar rándýrsins sjálfs eru taldir.

Hættulegasti vargurinn

Síðasti vargurinn í þessari upptalningu er sá sem langmestum árangri hefur náð í veiðiferðum sínum. Það var satt að segja forvitnilegt við lestur bókarinnar að geta sér til um hvaða kvikindi kæmi næst. Að mati höfundarins var ekkert eins hættulegt umhverfi sínu og það sem síðast var nefnt í bókinni. Já, vargurinn sá er svo algengur að við mætum honum margsinnis á hverjum degi. Þetta er auðvitað maðurinn.

Maðurinn er hættulegasta tegundin sem gengur um á yfirborði jarðar. Forsöguleg dýr, tröllvaxin, brýnd rýtingshvössum tönnum og með hnausþykka brynvörn náðu ekki að beygja umhverfið undir vilja sinn, temja það og laga að þörfum sínum eins og við mennirnir höfum gert. Og sjálf eigum við vart annan eins óvin en aðra fulltrúa sömu tegundar. Leitun er að þeirri ógn sem kostað hefur jafn mörg mannslíf og þær hamfarir sem við mennirnir höfum kallað hverjir yfir aðra. Og nú er svo komið að náttúrufar og mannlegt atferli rennur saman í eitt og stórkostlegar breytingar á umhverfi okkar má rekja til þessa konungs sköpunarverksins sem þreytist ekki á að móta og breyta lífríkinu sem hann er þó hluti af.

Já, vargatalinu lýkur á manninum. Þótt afrek okkar séu glæsileg, mikilfengleg og tilefni endalausrar aðdáunar sýnir sagan að margt býr í fari mannsins og þar leynast kraftar sem geta, ef ekki er rétt með farið kallað ótrúlegar hörmungar yfir umhverfi hans og hann sjálfan.

Manndrápari

Hugurinn leitar til hins dýrslega eðlis mannskepnunnar þegar textar dagsins eru lesnir. Í guðspjallinu talar Kristur til áheyrenda sinna og segir þá eiga manndrápara að föður. Þetta er einn sá texti ritningarinnar sem lýsir Kristi þar sem hann reiðist viðmælendum og talar til þeirra í alvarlegum tón.

Ekki ber á öðru en að Kristur tali hér á viðlíka nótum og gert var í hinu margnefnda Vargatali. Hann ávarpar manninn sem háskalega tegund, sem hann sannarlega er. Augu hans beinast að eigingirndinni og öðrum girndum sem í hjarta mannsins búa og draga hann frá tilgangi sínum og köllun. Og þær loka eyrum hans fyrir kærleiksboðskap hans.

Ramminn utan um breytnina

Lexía dagsins er hins vegar einn sá texti sem hvað mest opinberar fyrir okkur eðli mannsins og þá hættu sem í því felst þegar fólk rýfur þau mörk sem því eru sett.

Boðorðin tíu tala inn í brotinn heim þar sem jafnvægið á það til að raskast eða jafnvel hverfa veg allrar veraldar vegna þess að fólk villist frá tilgangi sínum. Forsendurnar sem þau byggja á er einmitt sá að okkur hættir til þess að gera mistök, sýna ranga hegðun, leita ekki þeirra leiða sem bestar eru. Við tölum gjarnan um þau sem boðorð – en með réttu ættum við að kalla þau bannorð. Eða lýsir það ekki betur inntaki þeirra?

Þú skalt ekki hafa aðra Guði, þú skalt ekki leggja nafn Guðs við hégóma, þú skalt ekki myrða, stela, drýgja hór, þú skalt ekki ljúga, ekki girnast. „Þú skalt ekki“ hljómar hvað eftir annað og í bakgrunni bannsins er sú vitund að við seilumst einatt út fyrir þau mörk sem okkur eru sett. Ef við skoðum þessi atriði þá sjáum við að sumt á sér ríkari sess en annað. Fyrsta boðorðið og þau tvö síðustu snúast ekki um hendur okkar, eða munn, eða annað það sem við kunnum að gera eða segja. Þau fjalla einmitt um huga okkar og sál. Þetta byrjar jú allt hið innra með okkur.

Vinir eða vargar?

Þetta byrjar með því að við missum stjórnina. Eitthvað tekur völdin í lífi okkar. Svo þversagnarkennt sem það er þá getum við misst stjórnina vegna þess að við þráum um of að stjórna. Stundum gleymist það, að áður en við getum stjórnað öðrum við að hafa stjórn á okkur sjálfum. Hömlulaus þráin eftir meiri völdum, óttinn við að lúta í lægra haldi í baráttunni um takmarkaðar auðlindir getur vel leitt til þess að við sjálf missum stjórnina, breytumst jafnvel í réttnefnda varga sem eira engu í umhverfi sínu.

Við finnum aðra guði. Hvaða guðir eru það? Þessir guðir eru samheiti yfir þau öfl sem stjórna okkur, einstaklingar, peningar, valdafýsn, eitthvað sem við megum hafa samfélag við, jafnvel nýta okkur til góðs – en ekki hleypa því til valda í lífi okkar. Tvö síðustu boðorðin fjalla meira að segja um girndina. Já, girndin fær hálfu stærri sess en hinir lestirnir. Það niðurlag boðorðanna horfir aftur til frásagnarinnar af Adam og Evu þar sem þráin eftir því sem ekki mátti gera bar gleðina yfir því sem mátti gera ofurliði.

Boðorðin tíu eru sannarlega skarpur spegill á manninn. Þau minna okkur á þá staðreynd, að það að vera manneskja er flókin jafnvægislist. Bilið er stutt á milli góðs og ills. Skammt er á milli vina og varga.

Hver ræður?

Ekki þarf mikið út af að bera til þess að við missum fótanna og fetum á rangar brautir. Við þurfum að horfa í eigin barm og spyrja okkur að því hver það er og hvað það er sem stjórnar okkar lífi og beina því inn á þær brautir sem leiða til blessunar.

Þessi hvassi tónn boðorðanna er í raun nærgöngul spurning um það hver haldi um þá stjórnartauma sem eru í okkar lífi. Hver er guð þinn? hvað lætur hann þig gera? Færa hann þig til þess að beita náunga þinn ofríki? Hrifsarðu til þín það sem hann á? Ásælistu mikilvægustu verðmætin hans? eignirnar, orðstírinn, fjölskylduna, jafnvel lífið sjálft? Ertu stöðugt með hugann við það sem náungi þinn á, svo mjög að þú sérð ekki þín eigin verðmæti?

Kristur er ómyrkur í máli þegar hann talar til hinnar guðlausu kynslóðar sem heyrir ekki raustu Guðs sem þó talar frá hjarta hennar og samvisku. Þegar við hlýðum á boðorðin tíu er þar vissulega hvass tónn, endurtekinn eins og sársaukafull högg. En í grunninn býr í þessum texta mikil umhyggja og mikið traust á okkur sem manneskjum. Það sést best á því þegar Kristur var spurður að því hvað skiptir mestu máli í lífi mannsins. Jú, boðorðin eru mikilvægust. En um hvað snúast þau þegar öllu er á botninn hvolft? Eru þau bara boð og bönn um rétta og ranga breytni?

Heilagir syndarar

Marteinn Lúther komst gjarnan svo að orði að maðurinn væri í senn réttlátur og syndari. Í okkur býr margvíslegt eðli. Þegar jafnvægið brestur, þegar mörkin hverfa þá birtist sú hlið sem brýtur niður og deyðir. Sú sem hér hefur verið tengd við varginn, rándýrið sem leitast við að undiroka það sem á vegi þess verður.

Fagnaðarerindi Krists beinir okkur af þeirri ógæfubraut. Og það minnir okkur á að þrátt fyrir takmörk okkar og bresti erum við dýrmæt í augum Guðs. Þar eigum við fyrirgefninguna og leiðarljós kærleikans sem okkur ber að fylgja.