Fjölskyldunetið

Fjölskyldunetið

Þegar við fæðumst... fæðumst við inn í fjölskyldu og fjölskyldan verður eins konar öryggisnet fyrir okkur. Í uppvextinum... þegar eitthvað bjátar á, er kysst á bágtið, huggað og hrósað... við fáum ss stuðning. Við erum öll litlar fjölskyldueiningar sem eru síðan hluti af stærra fjölskylduneti,

Slm 118.25-29, Heb 12.1-3 og Jóh 12.1-16

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Í dag er Pálmasunnudagur... frásögn dagsins fjallar um innreið Jesú í Jerúsalem sex dögum fyrir páska... og valdi ég að beina athyglinni að fjölskyldunni í guðspjallinu. Þegar við fæðumst... fæðumst við inn í fjölskyldu og fjölskyldan verður eins konar öryggisnet fyrir okkur. Í uppvextinum... þegar eitthvað bjátar á, er kysst á bágtið, huggað og hrósað... við fáum ss stuðning. Við erum öll litlar fjölskyldueiningar sem eru síðan hluti af stærra fjölskylduneti, þar sem afar og ömmur bætast inn og frænkur og frændar. Þannig að ef eitthvað óvænt gerist.. hafa flestir... sem betur fer... marga sem þeir geta leitað til.

Á tímum Jesú gegndi stór-fjölskyldan álíka hlutverki og félagsmálastofnun. Tengslin voru sterk á meðan fólk bjó á sama stað en ef að fólk flutti þá varð það að treysta á að fá bara fréttir öðru hverju. Guðspjalls-textinn sem var lesinn áðan sagði frá systkinum sem bjuggu saman. Guðspjallið segir að daginn áður en Jesús fór til Jerúsalem, eða sex dögum fyrir páska hafi hann komið til Betaníu og þegið kvöldverð heima hjá Lasarusi, þeim sem hann reisti upp frá dauðum[1]. Marta og María voru þar líka og það er María sem smyr fætur Jesú með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og þerrar síðan fætur hans með hári sínu. Það fylgdi frásögninni að smyrslin væru 300 denara virði.

Við þekkjum Mörtu og Maríu. Það eru guðspjöll Lúkasar og Jóhannesar sem segja að þær séu systur... en aðeins Jóhannesarguðspjall segir frá bróður þeirra Lasarusi. Guðspjöll Matteusar og Markúsar eru síðan með annarskonar frásagnir sem er hægt að flétta við til að stækka myndina... En hvers vegna virðast systkinin búa saman þó þau séu öll orðin fullorðin... hvers vegna bendir ekkert til að þau séu gift... Á þessum tímum gáfu menn dætur sínar svo fljótt sem hægt var... því annars var hætt við að þær yrðu “skemmd” vara... Eftir að dæturnar voru komnar í hjónaband, voru þær orðnar hluti af fjölskyldu eiginmannsins. Þess vegna var mjög mikilvægt að eiga syni, því þeir höfðu þær skyldur að hugsa um foreldrana í ellinni.

Við getum aldrei komist að afdráttarlausum sannleika um þessa fjölskyldu... en við getum skoðað þá möguleika sem Biblían býður upp á... með því að raða sama brotum úr guðspjöllunum... Lúkas segir okkur að eitt sinn komu Jesús og lærisveinar hans í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. 39Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. 40En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Við þekkjum þessa sögu og svar Jesú þegar Marta kvartar yfir að María hjálpi henni ekki „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu…” Lúk 10.38-41

Þá vitum við að Marta bauð Jesú og lærisveinum hans heim og María settist við fætur hans. Fleiri eru ekki nefndir... en konur og þá sérstaklega ungar konur bjuggu ekki einar á þessum tímum. Jóhannes bætir Lasarusi við söguna í frásögninni þegar hann var reistur upp frá dauðum. Þar kemur fram að hann er bróðir þeirra og þau eru frá Betaníu sem var 15 skeiðrúm eða 2,9 km frá Jesúsalem. Og þar er tekið fram að þessi María er sú sama og smurði Jesú smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu (eins og við heyrðum þegar ritningarlesturinn var lesinn). Í þeirri frásögn var Lasarus, sjúkur og systurnar senda orðsendingu til Jesú:„Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“ Jóh.11:1-3

Þessi orðsending segir okkur að Jesús hafi þekkt systkinin, þó það séu engar frásagnir um það. Skilaboðin sögðu ekkert um hvaða veiki væri um að ræða en hún hlýtur að hafa verið alvarleg… Frásagan nefnir þorpið, Betaníu og þessi þrjú systkini, nokkra gyðinga sem komu til að hugga systurnar þegar Lasarus var dáinn… en það er ekki talað um foreldra. (Jóh. 11:17)  Þetta hefur ekki verið stór fjölskylda á þessum tíma… og frekar einangruð… Marta og María virðast hafa unnið heimilisverkin sjálfar… en ekki vegna fátæktar… það er ekki fátæk kona sem á smyrsl sem eru 300 denara virði… og við vitum frá sögunni um víngarðinn að verkamaður fékk EINN denar í daglaun… þessi smyrsl kostuðu nærri árslaun. 

Já… það eru þessi smyrsl… Í guðspjalli dagsins sagði Jesús að María hafi geymt þessi smyrsl til greftrunardags hans… Öll guðspjöllin eru með frásögn af konu sem smyr Jesú með smyrslum eða olíu. Frásagnirnar eru ekki nákvæmlega eins… en hin þrjú guðspjöllin segja Jesú vera í mat í húsi Símonar líkþráa… eitt guðspjall segir Símon vera farisea. Markús[2] og Jóhannes nota sama orðalag … konan er með ómenguð dýr nardussmyrsl sem voru 300 denara virði. Ef Jesús var í mat í húsi Símonar líkþráa… þá hefur Símon greinilega læknast... Það er ekkert sem hefði einangrað fjölskyldu meira en holds-veiki. Þeir sem voru með líkþrá/holdsveiki…  voru útilokaðir frá mannlegu samfélagi, sam-kunduhúsum gyðinga og musterinu… og sjúkl-ingar sem voru haldnir þessum sjúkdómi, áttu samkvæmt lögum Móse að halda sig fjarri manna-bústöðum og kæmi einhver nálægt þeim á þjóð-vegunum urðu þeir að hylja andlit sín og hrópa: óhreinn, óhreinn, til að vara aðra við að koma of nálægt.[3]

Þarna var Jesús í mat hjá Símoni… sem er kannski líkþrái maðurinn sem Markús segir að Jesús hafi læknað.[4]… Þegar Símon sér konuna smyrja fætur Jesús, þá segir hann ekkert… og ég velti því fyrir mér!... gat hver sem er gengið inn í hús hans og smurt fætur Jesú… eða var þessi kona, dóttir Símonar?… Símon segir ekkert en hugsar… að ef Jesús vissi hvað hún væri syndug, myndi hann ekki láta hana snerta sig… við erum búin að fá að vita í öðru guðspjalli að þetta er María… Er María kannski bersynduga konan sem menn vildu grýta fyrir hórdóm???  Settist hún við fætur Jesú þegar Marta bauð honum heim… til að hlusta á hann af því að það var hann bjargaði henni frá dauða???

Við vitum að þegar menn segja frá eða skrifa sögur… getur sjálfur atburðurinn verið mikil-vægari í hugum þeirra en að segja frá nafninu á persónunni… Kannski erum við að raða saman frásögn af harmleik einnar fjölskyldu en ekki frásögum margra, einstakra og óskyldra einstaklinga… Ef við drögum sögur guðspjallanna saman í eina, þá getur farise-inn Símon líkþrái verið sá sem Jesús læknaði af holds-veiki og faðir systkinanna. Þó Símon hafi læknast, þá hefur hann fengið viðurnefni sem viðheldur ótta og minnir stanslaust á þennan hræðilega sjúkdóm. Fjölskyldan gæti hafa einangrast vegna þess að fólk var almennt hrætt við smit… þess vegna voru systkinin ógift… María með hórdómsbrot og Lasarus gæti hafa dáið úr holdsveiki…

Við þessi áföll hefur fjölskyldunetið hrunið… það sem átti að vera björgunarbátur varð sjálfhelda… hvergi hægt að fá hjálp.  Þó Símon hafi læknast… var ekki hægt að losna við fortíðina… Samfélagið heldur sér í hæfilegri fjarlægð… og fjölskyldan er áfram einangruð… einmana… EN þrátt fyrir þessi áföll átti fjölskyldan VIN, sannan, traustan vin… sjálfan Frelsara alheimsins, Jesús … og Lasarus svo kær Jesú, að systurnar senda orðsendinguna:„Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur” Jesús er vinur okkar allra, haldreipi okkar í erfiðleikum eða mótlæti… og hefur alltaf tíma fyrir heimsókn…

Nú hafa verið settar hertar sóttvarnarreglur enn einu sinni… 10 manna samkomutakmörk almennt en öfugt við sóttvarnir á tímum Jesú… þegar sýktir urðu að fara út fyrir bæinn… þá getum við verið heima hjá okkur. Við upplifðum í upphafi covid-faraldursins fyrir ári síðan,  hvað það var erfitt fyrir fólk að vera aðskilið frá fjölskyldunni, samt höfum við alla þessa tækni, síma og tölvur til að hringja myndsímtöl… Þar að auki er séð um að halda okkur vel-upplýstum um framvindu mála og við höfum vel menntað hjúkrunarfólk með færni til að takast á við flesta sjúkdóma… Í ótta og óvissuástandi erum við samt sem áður nokkuð örugg…og nú verðum við að takast á við þetta ástand aftur… og eins og áður… komumst við fyrr í gegnum þetta, ef við stöndum saman.

Stundum lítur allt vel út á yfirborðinu en undir er sársauki og einmanakennd sem fáir sjá... Við reynum ýmislegt á lífsleiðinni, sem markar okkur... en guðspjall dagsins minnir okkur á að við erum ekki ein í baráttunni... Við eigum sannan, traustan vin sem við getum alltaf leitað til, hann styrkir okkur og hjálpar okkur að styðja aðra. Þrátt fyrir áföll eða erfiðleika skulum við reyna að njóta samvistanna við hvort annað í kærleika, eins lengi og við getum...

Í síðari ritningarlestrinum erum við hvött til að þreyta þolgóð það skeið sem framundan er og erum minnt á, að Guð er með okkur og við minnumst þess í dag, pálmasunnudag... að Jesús gekk í gegnum þrautirnar fyrir okkur... til að fullkomna verkið sem hann var sendur til að uppfylla... Þetta var allt gert fyrir okkur... Við eigum að horfa til upprisu Jesú, því vegna hennar eigum við kost á að rísa upp á efsta degi.   

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Net-messa, upptaka í Brjánslækjarkirkju,  https://www.youtube.com/watch?v=7PlKUeAJ3BY&t=3s

[1] Matt 21:17… Jesús hafði náttstað í Betaníu. [2] Mrk 14.3-9; 3Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. 4En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? 5Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana. Matt 26.6-13; En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa. Lúk 7.36-50 …Jesús í mat í húsi fariseans Símonar (v.40) [3] Biblían 2007: orðaskýringar bls. 23 [4] Mark 1:40 Maður nokkur líkþrár kom til Jesú, féll á kné og bað hann: „Ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ 41 Og Jesús kenndi í brjósti um manninn,[ rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“