Sömu laun óháð vinnuframlagi?

Sömu laun óháð vinnuframlagi?

Ef við hugsum um Guð sem veitanda, veitanda lífsins og vinnunnar við það, fáum við meiri heildarmynd á þetta allt saman heldur en ef við sjáum okkur bara hvert og eitt í okkar horni að puða. Ef Guð er vinnuveitandinn þá er heimurinn allur einn vinnustaður og við hvert öðru háð.
Mynd

Hvað þurfum við til að geta lifað mannsæmandi lífi? Hvenær höfum við nóg? Hvernig komum við út í samanburðinum við aðra? Hvað er það sem við getum hrósað okkur af? Afrekin eru stór og smá, vissulega, og við megum sannarlega gleðjast yfir því sem vel er gert, bæði hjá okkur sjálfum og öðrum. En stundum er stutt í öfundina. Af hverju fær hún þessa viðurkenningu en ekki ég? Hvers vegna er hann með hærri laun en ég? Þykir pabba vænna um systur mína en mig? Af hverju fæ ég ekki svona? Afhverju ætti ég að gefa með mér af því sem ég hef þrælað fyrir?

Dæmisaga Jesú í guðspjalli dagsins (Matt 20.1-16, sjá hér að neðan)  hristir heldur betur upp í réttlætiskenndinni: Fólkið sem vann bara í klukkustund fékk sömu laun og þau sem höfðu púlað frá morgni til kvölds. Hvernig stendur á þessu? Og við hér í Reykjavík tengjum strax við verkfall Eflingar og baráttu fyrir betri launakjörum þeirra lægst launuðu. Á Jesús við að við eigum bara að gera okkur að góðu hverja þá upphæð sem launagreiðanda þóknast að greiða okkur? Nei, hér er það sem um var samið, einn denar skyldi það vera. Þau sem komu um morguninn sömdu um sömu upphæð og þau sem komu á elleftu stundu. Því var engum gert rangt til. Umsamið kaup var greitt út óháð vinnuframlagi.

Því einn denar var einmitt það sem hver fjölskylda þurfti til að lifa þann daginn. Gilti þá engu hvort fólkið hafði getað unnið allan daginn eða ekki. Denarinn var óháður vinnuframlaginu. Þetta finnst okkur kannski ósanngjarnt. Við viljum að vinnuframlag okkar sé metið að verðleikum. En vinnuveitandinn í dæmisögunni sá bara hvað fólkið þurfti til að geta lifað og séð fjölskyldun sinni farborða, lifað mannsæmandi lífi. 

Denar í daglaun. Það er það sem þú  þarft til að lifa. Um það var samið í byrjun dags og engum gert rangt til þó þau sem síðar komu hafi fengið það sama. Kannski hugmyndafræðin um borgaralaun komi einmitt frá þessari dæmisögu? Hvað þurfa þegnar landsins til að lifa? Greiðum þá upphæð út jafnt, óháð vinnuframlagi. Ég hef reyndar aldrei skilið hvernig það myndi ganga upp, hvernig ættu þá innviðir þjóðfélagsins að halda ef enginn þyrfti lengur að vinna? En það er sjálfsagt búið að finna lausn á því og löngunin til að vinna og skapa yrði væntanlega iðjuleysinu yfirsterkari. Okkur langar líklega fæst til að ,,híma iðjulaus allan daginn", eins og segir í dæmisögu Jesú. 

Myndin af víngarðinum sem Jesús notar á nokkrum stöðum í dæmisögum sínum og líkingum er sterk: Við erum öll verkamenn í víngarði, sinnum öll okkar og erum öll afskaplega mikilvæg til þess að allt gangi upp. Víngarðurinn er lífið sjálft, heimilið, vinnustaðurinn, félagslífið, skólinn, já hvar sem fólk er. Hvort sem við erum úti á vinnumarkaðinum eða ekki erum við í vinnu við að lifa. „Í skóla lífsins“ segja sum okkar sem skilgreiningu á okkur sjálfum á Fasbókinni. „Í vinnu hjá sjálfri mér“ stendur stundum.

 „Ó, gefðu Guð, oss meira puð“ sungu Jónas og Jón Múli Árnasynir hérna um árið: „Því það er okkar æðsta sæla að þræla og þræla...“ Ekki er nú víst að við tökum öll undir þau orð. En ef við hugsum um Guð sem veitanda, veitanda lífsins og vinnunnar við það – sem á eins og öll vinna sínar góðu og gefandi stundir getur líka verið bras og þras – fáum við meiri heildarmynd á þetta allt saman heldur en ef við sjáum okkur bara hvert og eitt í okkar horni að puða. Ef Guð er vinnuveitandinn þá er heimurinn allur einn vinnustaður og við hvert öðru háð.

Í öðrum ritningarlestri dagsins (Jer 9.22-23) stendur: 

Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn. 

Við sem þykjumst vera eitthvað af því að við erum svo vitur eða sterk eða rík erum bara alveg eins og öll hin, jú jú misvitur, misöflug og misauðug, en alveg eins að því leyti til að við erum hvert öðru háð. Við þörfnumst öll réttvísi og góðgirni og þann auð sækjum við til Guðs sem gefur okkur einmitt það sem við þörfnumst, denar á dag, einn dag í einu.

Við tölum um mannsæmandi laun sem miðast kannski við framfærsluvísitölu eða önnur viðmið og hefur fólk örugglega mismunandi skoðanir á því hvað teljast mannsæmandi laun. En þessi denar á dag sem um ræðir í dæmisögunni merkir ekki bara launakjör heldur lífið í heild sinni, hvað þurfum við til að lifa? Hvers þörfnumst við til að geta talist búa við mannsæmandi kjör? Þegar grannt er skoðað er það ekki bara en vissulega einnig, að hafa í sig og á og geta veitt börnunum sínum það sem önnur börn fá, til dæmis ákveðna tegund af úlpu sem kostar dálítið marga tíuþúsundkalla. Sæmandi lífskjör ná líka til annarra þátta eins og þess að geta notið sín félagslega, leyft sköpunarkraftinum að flæða og finna frið í hversdagslegu amstri.

Við ræddum í fermingarstarfinu hér í Grensáskirkju í gær hvað það er merkilegt að Jesús segist vera ljós heimsins og svo segir hann við okkur að við séum ljós heimsins. Guð gefur okkur það sem við þörfnumst, Jesús er okkar ljós, og síðan eigum við að bera ljósið áfram, gefa áfram af því sem við höfum þegið. Þannig er gangverkið í víngarðinum, við erum hendur og fætur Guðs í þessum heimi sem nær út fyrir öll manngerð og náttúruleg landamæri. Og við erum lánsöm að fá að gefa með okkur af denarnum okkar.

Þannig er veraldlegur auður, vel þjálfaður líkami og slatti af háskólagráðum ekkert meginatriði þegar gáð er að raunverulegum lífsgæðum. Þetta getur allt verið gott og meira að segja blessað en það sem gildir í raun er hjartalag okkar og sátt við Guð og menn. Gildi lífsins felst hvorki í puði, tuði né stuði. Jesús er í dæmisögu sinni að benda okkur á það sem öllu máli skiptir, að heyra boð Guðs um að vera með í víngarðinum, í himnaríki, í ríki Guðs, eiga hlut í andlegum verðmætum. Þá skiptir engu hvort við dettum inn á elleftu stundu, rétt fyrir lokun ef svo má segja. Líf okkar er jafnverðmætt í augum Guðs hvort sem við höfum pjakkað lengi í víngarðinum eða ekki.

Hættan er sú að við sem teljum okkur hafa verið að störfum fyrir Guð lengur en aðrir setjum okkur á háan hest gagnvart hinum sem ef til vill gefa Guði líf sitt seint og um síðir. Aðvörun Jesú beinist hér sem víðar að faríseum og fræðimönnum Gyðinga en þau gætu allt eins átt við okkur í dag sem til dæmis tímum ekki að hleypa öðrum að þeim lífsgæðum sem formæður okkar og forfeður hafa byggt upp. Þá gleymum við því að þeir og þau og hin og þessi og við hérna erum öll jafn dýrmæt. Engin þörf á öfund. Við erum í þessu saman. 

Tökum því fagnandi á móti náð Guðs inn í líf okkar, náð Guðs sem er gjöf kærleikans og umhyggjunnar, gjöf Guðs sem veitir okkur einmitt það sem við þörfnumst, denar á dag til að deila með öðrum.


Guðspjall: Matt 20.1-16

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

   Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“