Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. Lúk 18.31-34
Biðjum með orðum sr. Hallgríms:
Ó, Jesús, gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér upp teiknað, sungið, sagt og téð, síðan þess aðrir njóti með. Amen.
Leiðtogar hafa verið okkur ofarlega í huga hér í Keflavíkurkirkju í vetur. Í ársbyrjun fengum við þá ágætu hugmynd – að helga veturinn 2008 til 2009 leiðtogum. Okkur leist svo á að vel væri tímabært að stíga það skref þegar þá var komið við sögu, stefnumótun var lokið og unnið af kappi við að gera gott samfélag enn betra. Því ákváðum við að huga að forystunni hér á ýmsum sviðum í starfinu með það að marki að efla okkur öll til frekari dáða.
Leiðtogar þá og nú
Þess ber þó að geta að veröldin var talsvert frábrugðin fyrir einu ári því sem hún er nú. Flest virtist standa traustari fótum. Enn töldu menn sig geta blásið var á gagnrýnisraddir sem fundu að forystu og stjórnun á helstu stoðum samfélagsins. Í því umhverfi voru áberandi leiðtogar frekar eins og punkturinn yfir i-ið. Sjálf höfðum við reyndar ekki í huga afrek á viðskiptasviðinu en höfðum engu að síður nýtt okkur ýmsar hugmyndir úr þeim ranni starfseminni hér til framdráttar.
Nú hefur margt breyst. Leiðtogarnir sem samfélagið hampaði hér til skamms tíma njóta lítilla vinsælda nú svo vægt sé til orða tekið. Í Krossgötuþætti sínum í gær í Ríkisútvarpinu fullyrti stjórnandinn, Hjálmar Sveinsson, að leiðtogum væri vart treystandi. Rakti hann leiðtogafræði þau sem kennd hafa verið í háskólum undanfarin ár. Þar var valdafíknin að sögn samofin forystunni og heiminum skipt upp í þá fáu sem völdin hafa og hina sem eiga að fylgja þeim eftir og elta.
Samkeppnin var allstaðar samkvæmt fræðum þessum: Á milli fyrirtækja, á milli stofnana, já jafnvel á milli skrifborða á sama vinnustað. Hver átti að reyna að ota sínum tota. Þetta átti að skila meiri afköstum og meiri gróða og til skamms tíma benti fátt til annars en að sú væri raunin. Fyrst fengum við fregnir af tugum milljóna sem leiðtogarnir fengu í vasann. Svo hundruðir milljóna. Loks vorum við farin að námunda með þeim fjárhæðum. Þetta virtist skotheld aðferð.
Vorum við of sein á okkur?
Núna taka margir undir þá skoðun að leiðtogum sé vart treystandi. Já, er það ekki dæmi um seinheppni okkar í kirkjunni að fara af stað með leiðtogaverkefni einmitt þegar hugmyndin var að sigla í strand? Það var einmitt þá sem okkur datt í hug að tala um þessi mál – í æskulýðsstarfi, meðal sjálfboðaliða, vinnuhópa, í leshringjum og svo auðvitað því spennandi málþingi sem framundan er í safnaðarheimili kirkjunnar. Dæmigert?
Þessi guðsþjónusta hér ætti þó þegar að hafa gefið vísbendingu um að leiðtogahugmyndin er ögn eldri ársgömul innan kirkjunnar og fjarri því bundin hér við Suðurnesin. Hún á sér líka margar og ólíkar birtingarmyndir – sumar hverjar með öllu öndverðar því sem hér að framan var lýst. Nei, við hlýddum á lesturinn úr hinu forna riti Jesaja frá 6. öld fyrir Krist þar sem spámaðurinn talar til þjóðar sinnar þar sem hún var í nauðung í landi Babýlóníumanna eftir ósigur gegn þeim í stríði.
Leiðtoginn Jesaja
Jesja er einn af mörgum leiðtogum sem Biblían greinir frá og lýsir og í þessum orðum hans má sjá hvernig leiðtogum er lýst í þeirri bók. Upphafsorð textans voru: „Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu, svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.“ Þetta er einmitt hlutskiptið og hlutverkið: að styrkja þá sem þurfa á slíku að halda. Ekki að hrifsa það af þeim sem verðmætt er og eftirsóknarvert, heldur þvert á móti – að veita þeim og efla þá.
Var þessum leiðtoga treystandi? Þarna talaði maður sem helgaði þjónustu sína því að efla hugrekki, kraft og trú þeirra sem mest þurftu á því að halda. Og hann lýsir því jafnframt hversu stöðugur hann er í baráttu sinni og löngun. Einu gildir hvað á dynur, hvernig umhverfið leikur hann – hverjir dæma hann og hvað fólki kann að finnast. Spámaðurinn stendur styrkum fótum og sýn hans er skýr: „Nærri er sá er sýknar mig,hver getur deilt við mig?“ En þetta eru ekki orð þess sem eingöngu hugar að sínum eigin framgangi. Nei, hann er reiðubúinn að þola háðung og raunir, ekki fyrir sig sjálfan, heldur fyrir hópinn sem hann leiðir áfram, fyrir samfélagið sem hann er hluti af.
Staðfesta í þrengingum
Viktor Frankl hugleiðir ólíkt hlutskipti okkar í ritinu Leitin að tilgangi lífsins, sem fjallar um dvöl hans í útrýmingarbúðum nazista. Listin að lifa felist öðru fremur í því að starfa í anda sinna hugsjóna, lifa eftir sinni dýpstu sannfæringu óháð því hvernig heimurinn leikur okkur.
Á milli lestranna sungum við sálminn hans Kolbeins Tumasonar sem er elsti sálmur sem ortur hefur verið á Norðurlöndum svo vita sé. Þar er að sama skapi orðuð sú sannfæring kristins manns að vera þjónn þess sem öllu ræður: „Ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Og með þessum orðum tekur hann örlögum sínum af rósemi og í sátt.
Leiðtoginn er samkvæmt því ekki sá sem klifrar upp pýramídann og ryður frá sér öllum þeim sem á veginum verða. Nei, en hann er engu að síður öflugur. Hann á sér sannfæringu í brjósti og fyrir hana er hann eða hún tilbúin(n) að leggja mikið á sig. Í þessum anda er keppikeflið ekki það að halda sjálfur í stýristaumana og sanka að sér sem mestum völdum. Nei það er þvert á móti. Markmiðið er að þjóna og skapa sem best skilyrði fyrir aðra svo þeir geti vaxið og dafnað. En er það ekki einmitt andstaða forystu og áhrifa? Nei, alls ekki. Þetta leiðir til ósvikinnar forystu og mikilla áhrifa, þó það horfi á málin úr annarri átt.
Hröðun í gagnstæðar áttir
Lítið dæmi: Eitt sinn heyrði ég bílaframleiðanda kynna framleiðslu sína með skemmtilegum hætti. Auglýsingin var einhvern veginn svona: „Flestar bifreiðaauglýsingar segja frá því hversu fljótir bílarnir eru að komast frá 0 og upp í 100. Við höfum ekki mestar áhyggjur af því. Okkur er meira umhugað um það hversu fljótur bíllinn okkar er frá 100 og niður í 0.“ Einmtt það – nokkurn veginn sami hluturinn en samt ekki. Og skipta sekúndurnar og sekúndubrotin ekki einmitt miklu meira máli þegar í þessu tilviki?
Biblían er óður til þeirrar hugsunar að sönn forysta felist í þjónustu, að öll hagkvæmustu ytri skilyrði séu forsenda þess að geta lifað góðu lífi. Hún boðar ekki að hagur okkar felist í því að æða sem fyrst frá 0 og upp í 100 – boðskapur hennar minnir okkur fremu á það hversu mikilvægt það getur verið að komast frá 100 og niður í 0. Lýsing Krists í guðspjalli dagsins á hlutskipti sínu segir þar meira en mörg orð. Kærleikurinn var það leiðarljós sem Kristur sjálfur hafði og vildi miðla til okkar og hann er æðstur alls, eins og postulinn sagði. hlutskipti lærisveins Krists er vel orðað í bæn sr. Hallgríms Péturssonar sem hér var lesin í upphafi – þar sem við miðlum af þeim gjöfum sem við höfum fengið að njóta frá Kristi: „Síðan þess aðrir njóti með“.
Þessi sjónarmið hafa sömu hugtökin – forysta, leiðtogar, stefna og sýn – en horfir á málið úr ólíkri átt. Í báðum tilvikum er talað um áhrif og það að hrinda draumum sínum í framkvæmd. Bókin sem við erum að lesa hér í Keflavíkurkirkju hefst á orðunum: „Tilgangur þessarar bókar er að skapa betri heim.“ Það eru engin smá áhrif sem menn ætla sér að ná fram.
Að skapa betri heim
Já, við ætlum okkur að skapa betri heim og betra samfélag. Er það ekki göfugasta köllun okkar allra? Um leið og við stígum hænufet í þá áttina skynjum við það fljótlega hvers virði hún er. Ekki vegna þess að veskin okkar tútna út eða myndir af okkur fylla opnur fjölmiðlanna. Ekki vegna þess að við skráum nöfn okkar á spjöld sögunnar. Nei, gjörðin sjálf stendur algerlega fyrir sínu og við finnum þegar fyrir því hvernig samviska okkar bregst við. Við styrkjum hinn þreytta og við eflum þá sem eru máttvana.
Já, þessi hugmynd er blessunarlega eldri en svo að hún verði tengd áherslum í starfseminni hér í kirkjunni – en við byggjum á þeim grunni. Og svo þegar hugmyndin um þjónandi forystu barst okkur til eyrna fundum við henni farveg sem er í senn öflugur og markviss. Og nú kæru kirkjugestir fer í hönd málþing hjá okkur í safnaðarheimilinu um þessa hugsjón. Ég hvet ykkur til þess að taka þátt í vinnuhópum og leggja ykkar af mörkum í þeirri hugmyndavinnu sem þar fer fram.
Nú er að sönnu þörf á því að efla og styrkja, bæta samfélagið – já, skapa betri heim.
Flutt í Keflavíkurkirkju við þemaguðsþjónustu: „Leiðarljós og þjónusta“ í tilefni af málþingi um þjónandi forystu sem fram fór í safnaðarheimili kirkjunnar. Sjá: www.thjonandiforysta.is