Útvarpspredikun frá Grafarvogskirkju, 25. Sept 2011.
Biðjum! Heilagi Guð! Hjarta mitt er fullt af þakklæti fyrir þínar margvíslegu gjafir og blessanir. En þakklæti hjartans og varanna er lítið eitt og sér, þess vegna gef ég líf mitt í þjónustu þína . Megir þú, heilagi Guð, sjá og finna þakklæti mitt í líferni mínu og allri breytni. Ég lofa þig fyrir það að þú breyttir mér úr engu, í það að vera til. Fyrir það gleð ég mig í kærleika þínum og í samfélaginu við þig. Ég þekki sjálfa mig ekki fyllilega og veit ekki einu sinni hvers ég þarfnast; en þú, Guð þekkir sköpun þína og veist hvers hún þarf með. Ég megna ekki að elska sjálfa mig jafnmikið og þú elskar mig. En ég hef lært að til að elska sjálfa mig, þarf ég af öllu hjarta og allri sálu að elska þann óendanlega kærleika sem hefur skapað mig og sem er þú, Guð. Lát kærleika þinn vera kærleika minn og gef að hann megi hræra við öllum þeim sem mæta mér og styrkja samband mitt við þau sem ég elska mest. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Árið 1980 var sú sem hér stendur aðeins 8 ára gamalt barn, nýflutt í nýtt bæjarfélag, hinu megin á landinu frá þeim stað þar sem hún áður bjó. Flutningurinn var ákaflega spennandi í huga okkar systra, en um leið ógnvekjandi og hristi talsvert upp í annars áhyggjulausri veröld okkar. Þegar á nýja staðinn kom eignuðumst við fljótt góðar vinkonur en margar hindranir þurfti að yfirstíga. Að rata um bæinn var talsverð áskorun, við hættum okkur ekki langt frá húsinu fyrst í stað en smám saman víkkaði sjóndeildarhringurinn.
Á fjórða mánuði á þessum framandi stað komu jólasveinar á dráttarvél í bæinn og drógu á eftir sér risastóran heyvagn, fullan af skrítnum jólaköllum og tröllum. Flest börnin í bænum mættu til gleðinnar. Jólasveinarnir keyrðu um göturnar og börnin fylgdu í gleði sinni, fast á eftir vagninum. Við systur þurftum að hlaupa við fót. Smám saman stækkaði hópurinn og svo kom að jólasveinarnir stoppuðu dráttarvélina og opnuðu vagninn. ,,Gjörið svo vel, krakkar mínir og stígið um borð“ þrumaði voldugur sveinki. Það skipti engum togum, barnaskarinn ruddist í æsingi upp í vagninn.
Ég hafði fengið leyfi til að taka litla systur mína með, en hún var þá tæplega fjögurra ára gömul. Í æsingnum að komast um borð missti ég takið á hönd litlu systur og tók því til við að leita hennar um og í vagninn var komið. Mér til skelfingar var hún ekki um borð. Ég leit aftur fyrir vagninn og viti menn, þarna hljóp hún á eftir vagninum, litlu fæturnir reyndu sig sem mest þeir máttu en bilið í milli hennar og mín breykkaði stöðugt. Nú voru góð ráð dýr. Ég vatt mér að næsta jólasveini, tosaði ákveðið í treyjuna hans og hrópaði eins hátt og ég gat: ,,Jólasveinn, jólasveinn, systir mín komst ekki upp í vagninn“. Sveinki leit hálf letilega aftur fyrir vagninn og svaraði: ,,Hún getur komið upp í á næsta stoppi“. Í örvæntingu minni hrópaði ég á ný: ,,En Jólasveinn, hún er alveg að hverfa frá okkur. Hún ratar ekki. Hún er nýflutt hingað og hún er bara fjögurra ára“. Allt kom fyrir ekki.
Án þess að hafa augun af litlu systur sem varla var nema lítill depill í fjarska, hrópaði ég af öllum kröftum: ,,Ég vil ekki vera hérna, stoppaðu vagninn, jólasveinn, ég vil ekki vera hérna“. Nú náði ég athygli jólasveinanna, vagninn var stöðvaður og mér boðið að stíga út. Ég hljóp eins og fætur toguðu aftur til litlu systur og fékk hana fljótt í fangið mitt. Fögnuður okkar var sannur, báðar grétum við, og voru tárin knúin kærleika, en blandin eftirsjá eftir dýrðinni úr jólasveinapokunum o g ótta frammi fyrir því mikla lánleysi okkar að komast kannski aldrei aftur heim til mömmu og pabba. Við vorum viltar.
Skemmst er frá að segja að heim komumst við eftir dágóðan göngutúr um bæinn og misgáfulegar bollalengingar um það hvort beygja ætti hér eða þar. Mjúgkur var móðurfaðmurinn, ógleymanleg lyktin heima í litla húsinu og þrátt fyrir að yngsta systirin væri ekki nema eins árs gömul, þreyttumst við hinar ekki af því að lýsa fyrir henni því sem fyrir augu hafði borið í svaðilförinni miklu. Það var ekki laust við að sú sem hér stendur finndi sig vaxa þennan dag, daginn sem hún tók umhyggju og ástúð gagnvart litlu systur fram yfir gleðina á jólavagninum og dýrðina úr strigapokunum. __________________________________________________________________________________________________________________________
Um daginn sat ég aftast í strætó, strætisvagninn var næstum alveg fullur og engin sæti laus. Þegar ég var búin að vera í honum í nokkurn tíma kom gömul kona inn með 3 troðfulla bónuspoka með sér. Hún gekk inn í strætóinn og var ekkert með svakalegt jafnvægi svo hún var alltaf næstum því dottin en engum datt í hug að styðja hana eða standa upp fyrir henni svo hún gæti sest. Hún stóð í smá stund með pokana sína þrjá og svo datt hún en enginn virtist kippa sér neitt upp við það. Hvað er eðlilegra en gömul kona að detta í strætó? Eigum við ekki bara að láta hana liggja þarna?
Ég stóð upp og hjálpaði henni upp og með pokana aftast að sætinu sem ég sat í, ég leyfði henni samt auðvitað að sitja þar. Ég stóð og loks bað konan mig að ýta á takkann, ég gerði það og hjálpaði henni síðan út úr strætó með pokana. Þegar ég ætlaði aftur inn því ég var ekki nærri því komin heim, tók strætóinn af stað og keyrði burt, ég var meira að segja með annan fótinn inni þegar strætóbílstjórinn fór að loka hurðinni. Þurfti ég svo að bíða í hálftíma eftir næsta strætó.
Er fólk nú til dags í alvöru svona dónalegt? Er fólki alveg sama þó aðrir stórslasi sig? Þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem ég verð vitni að eitthverju svona dæmi. Fólk! Hugsið um aðra líka, ekki bara um rassinn á sjálfum ykkur! Ef þið sjáið lítið barn grátandi sem hefur dottið af hjólinu sínu eða eldra fólk burðast með hluti eða að fara eitthvert endilega hjálpið þeim því þið eruð ekki bara að gera þeim greiða heldur ykkur sjálfum líka! Höfundur: Telma Ósk (birt á bleikt.is)
Án nokkurs vafa, fann hún sig vaxa þennan dag, hún Telma Ósk, stúlkan sem steig út fyrir þægindahringinn sinn og opnaði fyrir þann hugsunarhátt að lifa kærleikanum í verki. __________________________________________________________________________________________________________________________
Við erum stöd við Betestad laug, rétt hjá hliðinu þar sem sauðféð var leitt til fórnarathafna í Jerúsalem. Árið 1960 fundu fornleifafræðingar laugina, svo að við vitum nákvæmlega í dag hvar þessi atburður átti sér stað. Hvíldardagurinn er í hávegum hafður og hefur í raun stöðu mikilvægasta og heilagasta hátíðardagsins í dagatali Gyðinga þess tíma. Hann hófst við sólarlag á föstudagskvöldi og endaði við sólarlag á laugardagskvöldi. Helgaður hvíld frá amstri daganna.
Þennan tiltekna dag var hópur fólks búið að koma sér fyrir við Betesda laug, í þeirri góðu von og trú að það mætti finna lækningu meina sinna. Fólk trúði því að einu sinni á ári flygi engill hjá og hrærði við vatni laugarinnar. Sá sem fyrstur kæmist ofan í vatnið eftir hræringu þess, myndi fá bót allra sinna meina, svo til mikils var að vinna. Við getum rétt ímyndað okkur hvort ekki hafi verið komið kapp í mannskapinn.
Við laugina er maður sem hefur verið sjúkur í 38 ár. Hann hafði reynt allt til að öðlast góða heilsu á ný en enginn komið honum til hjálpar. E.t.v. hafði fjölskylda hans yfirgefið hann. Nú lá hann þar í þeirri góðu von og trú að hann kæmist fyrstur ofaní. Hann var staðfastur. En því miður komst hann ekki óstuddur ofan í og enginn virtist gefa sig að honum. Veiki maðurinn þekkti ekki Jesú og hafði því ekki hugmynd um, hver það var sem ávarpaði hann og spurði: Viltu verða heill?
Þetta var undarleg spurning. Jesús sá manninn bíða þarna við laugina og sá að hann var einn þeirra sem biðu lækningar. En hann sá meira, hann greindi örvæntinguna í augum hans. Jesús steig innar, nær manninum, inn í hans kjör. Kannski hefur enginn ávarpað hann með þessum hætti í öll þessi 38 ár. Spurningin fól í sér löngun til að skipta máli í lífi annars manns.
Vonlítill hefur tónninn í röddu mannsis verið, þegar hann svaraði með þessum orðum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér“.
Við getum sett okkur sjálf í stöðu veika mannsins og prufað að vera þau sem þurfa á hjálp að halda. En við getum líka sett okkur í stöðu Jesú Krists og verið þau sem sjá lengra. Þau sem eru opineyg á neyð náungans. Þau sem skipta máli. Þau sem eru tilbúin að skipta út gómsætum gjöfum jólasveinsins fyrir systurfaðminn. Þau sem standa upp í strætó fyrir þeim sem eru þreytt. Þau sem eru ávallt tilbúin til að stíga út fyrir þægindahringinn í nafni kærleikans.
Gefum okkur að við séum tilbúin til að taka stöðu Jesú í dag. Að við séum tilbúin til að stíga inn í tilveru sem er knúin áfram af kærleika. Gefum okkur að sporin sem Jesús Kristur steig hér í þessu lífi séu sporin sem okkur voru ætluð!
Með þá staðfestu í brjóstinu skulum við halda áfram að skoða guðspjallstexta dagsins. Við horfum á manninn í vanmætti sínum við laugina. Kannski hefur fjölskylda hans fyrir löngu gefist upp. Hann er aleinn. Hann kemst ekki nógu hratt yfir, hann situr, barmar sér og er í uppgjöf. Þá göngum við til hans og spyrjum: ,,Viltu verða heill?“ Og svarið felur í sér staðfestingu á því að maðurinn vilji verða heill, hann geti það bara ekki vegna fötlunar sinnar. Í öll þessi ár hefur honum ekki lánast að verða fyrstur ofan í vatnið. Hann hefur misst vonina.
Við sem höfum ákveðið að taka okkur stöðu Jesú Krists, við stígum innar og gerum okkur gildandi í lífi náungans. Ef hann hefur tapað voninni, þá verðum við vonin hans og við heyrum okkur segja: ,,Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“
Hvað gerist í lífi okkar, þegar við stígum út fyrir þægindahringinn, göngum þvert á óskráð samskiptalögmál, lifum kærleikanum og staðsetjum okkur í annarra manna kjörum? Jú, hinir fara að gjamma um okkur.
Fólkið við Betestalaug var ekkert frábrugðið fólkinu sem byggir jarðarból í dag. Því þótti í besta falli óþægilegt að maðurinn skyldi fara að brasa við það á hvíldardegi að bera rekkju sína heim og í versta falli hin argasta hneisa að Jesús skyldi hafa læknað mann á hvíldardegi. Pupullinn var rígbundinn í hefðir og gegnsýrður af kröfum hins alvitra en óagaða almannaróms. Þarna hugsaði hver um sinn hag. Fólk ruddist fram fyrir næsta mann án þess að velta fyrir sér hvort þar leyndust einstaklingar sem væru í meiri þörf fyrir lækningu. Það lét eigin þarfir ganga fyrir. Sá sem tekur sér stöðu Jesú Krists og elskar Guð fyrir að hafa gefið sér lífið, lærir að elska sjálfan sig og líta á sjálfan sig sem dýrmæta gjöf. Sá hinn sami finnur fljótt fyrir þeirri knýjandi þörf að elska alla. Sá sem tileinkar sér slíkt hugarfar verður kærleikur Guðs á meðal manna. __________________________________________________________________________________________________________________________
Svo horfum við á lífið okkar eins og það er í dag og sjáum oftar en ekki óöguð samskipti. Íslenskt samfélag er óagað. Við verðum að kenna börnum okkar aga og vera sjálf agaðri í uppeldishlutverkinu. Hvers vegna er börnum alltaf boðið fyrst að veisluborðinu? Við eigum að nýta tækifærin sem gefast til að aga börnin okkar og kenna þeim virðingu, kurteysi, eftirvæntingu, tillitssemi og fórnarlund. Ef börnin okkar læra að bjóða ættarhöfðingjunum fyrst að veisluborðinu, þá læra þau allt þetta í senn. Fegurst af öllu því, er virðingin fyrir eldra fólki. Tilvera okkar er of mikið lituð af þeirri tilhneigingu að hver og einn hugsi bara um sinn hag. Fólk er á þönum í leit að meiri hamingju og aukinni hagsæld. Við gerum okkur svo upptekin af eigin framgöngu í lífinu að við gleymum að gefa okkur tíma til að stíga innar. Lifum of hratt til að taka eftir þeim sem sitja eftir og komast ekki fetið. Gleymum að stíga nær þeim sem við elskum mest. Meira að segja sunnudagsmáltíðin er í hættu. Menn hrinda af stað átaki til að standa vörð um sunnudagsmáltíð fjölskyldunnar. Við verðum að gefa okkur tíma til að vera nær þeim sem við elskum mest. En við verðum líka að æfa okkur að hlusta eftir þeim sem í máttleysi sínu geta varla hvíslað eftir hjálp.
Sá sem tekur sér stöðu með Jesú Kristi gefur sér tíma til að elska í raun. Það að vera meira saman er það eina sem í raun og veru skiptir máli. Þau sem þurfa að glíma við erfiða sjúkdóma þekkja þetta. Þá er gjarna það fyrsta sem kemur upp í hugann, þegar greiningin er komin, að nú verði fjölskyldan að taka sig saman og fara að vera meira saman. Svo ef hinn veiki á ekki afturkvæmt til heilbrigðis og deyr af sjúkdómi sínum, verður fjölskyldan svo þakklát fyrir að hafa virkilega gefið sér tíma til að vera saman. Hugsið ykkur sorgir þeirra sem gáfu sér ekki tíma!
Jólasveinninn á vagninum, sofandi pupullinn í strætóinum og eiginhagsmunaseggirnir við Betestalaug eru okkur áminning um það að lækningin verður ekki fyrr en við tökum okkur stöðu með hinum veika. Lækning á afskiptaleysi, sinnuleysi, eigingirni, samskiptaleysi og hraða samfélags kemur ekki fyrr en við tökum okkur stöðu með kærleikanum. Við könnumst öll við svarið: ,,Æ, ég hef ekki tíma núna!“ En því miður er það rangt svar. Við höfum öll tíma, einmitt núna. Okkur er öllum skammtaður jafn mikill tími í núinu, á þessu andartaki. Þetta er aðeins spurning um það hvernig við nýtum andartakið. Þar höfum við val. Við eigum ekki að þurfa að missa ástvin til að fatta að við vildum ekkert meira en akkúrat það að vera saman.
Trúðu á tvennt í heimi tign sem æðsta ber. Guð í alheims geimi, guð í sjálfum þér.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.