Auður manngildisins

Auður manngildisins

Guðspjall: Matt. 25. 14 – 30 Lexia: 5. Mós. 8: 7, 10-11, 17-18 Pistill: 1. Kor. 3. 10-15

Fræðimönnum ber saman um að Jesús notaði sögur úr daglegu lífi samborgara sinna þegar hann kenndi lærisveinum sínum og öðrum sem fylgdu honum eftir. Þetta varpar athyglisverðu ljósi á Jesú. Hann settist ekki einungis niður til þess að vera með heimspekilegar pælingar út frá eigin brjósti um guðs ríkið. Hann fékk sér einnig sæti til þess að hlusta á það sem var að gerast í kringum hann hverju sinni.

Dæmisagan sem hann sagði lærisveinum sínum og við íhugum í dag virðist vera einföld. Hún fjallar um ríkan mann sem fór í langt ferðalag í viðskiptaerindum. Áður en hann fór af stað þá fól hann þremur þjónum sínum sem hann treysti best eigur sínar. Hann treysti þeim þó misjafnlega vel. Þetta er ástæðan fyrir því að hann fékk þeim ekki jafn margar talentur.

Tveir þeirra ávöxtuðu talentur sínar en sá þriðji gróf talentur sínar í jörðu. Þið heyrðuð hvað maðurinn gerði við þjóna sína er hann kom til baka. Hann þakkaði þjónunum tveimur er höfðu ávaxtað talenturnar en refsaði þeim þriðja fyrir að hafa ekki ávaxtað talentu sína meðan hann var í burtu. Honum var úthýst út í ystu myrkur.

Hvað vill Jesús segja með dæmisögunni? Það virðist liggja í augum uppi? Við eigum að nýta hæfileika okkar meðan við lifum. Við ættum að tvöfalda eigur okkar. Við ættum að vinna eins mikið og við getum. Er það allt og sumt?

Nei, það getur ekki verið. Ef sú væri raunin þá væri Jesús rétt eins og allir aðrir. Hann væri að biðja okkur að auka jarðneskan auð okkar og líta framhjá persónulegri nærgætni eins og maðurinn í dæmisögunni gerði sem lofaði þjóna sína í hástert sem ávöxtuðu talentur hans en henti hinum út í ystu myrkur sem gerði það ekki vegna þess að hann var hræddur.

Jesús var undrandi í garð þess fólks sem hugsaði einvörðungu um það að þéna sem mesta peninga með öllum mögulegum hætti á nóttu sem á nýtum degi því að hann sá afleiðingarnar. Hann sá að margir voru sviknir og blekktir, misstu svefn, fæðu og drykk, lögðu heilsu sína og líf í hættu, - til þess eins að eignast meira af veraldlegum auði þessa heims. Hann sá hvernig hvernig fólkið var miskunnarlaust og kænt í framgöngu sinni gagnvart náunganum. Hann fordæmdi þetta fólk og kallaði það börn myrkursins, börn dauðans. Jesús sagði að fólk gæti ekki þjónað Guði og Mammon en Mammon er guð efnishyggjunnar. Hann sagði að fólk gæti ekki þjónað Gullinu og mannkyninu.

Við höfum dæmi um þetta úr mannkynssögunni þegar kristnir menn frá Evrópu réðust inn í Latnesku Ameríku fyrir mörg hundruð árum. Þeir drápu þúsundir frumbyggja og gerðu þá sem af komust að þrælum í eigin landi. Mótmæli gegn þessu voru fátíð á þeim tíma. Einn af þeim sem mótmæltu var guðfræðingur að nafni Bartolome de Las Casas. Hann skrifaði eftirfarandi: “Ég segi ekki að þá hafi beinlínis langað til að myrða en ég segi berum orðum að þá langaði til að verða ríkir, þá langaði til að synda í gulli, fyrir verk og svita pyntaðra og þjáðra frumbyggja, með því að nota þá sem hver önnur verkfæri. Afleiðingin var óhjákvæmilegur dauði þeirra”.

Já, þessir kristnu menn drápu ekki vegna þess að þeir voru í eðli sínu vondir einstaklingar. Þeir drápu ekki vegna þess að þeir voru árásargjarnir. Þeir drápu vegna þess að gullið hafði forgang hjá þeim fram yfir allt annað.

Þetta er það sem við getum lært af guðspjalli þessa drottins dags. Auðgildið er víða ofar manngildinu í heiminum.

Þessi rökfræði er enn við lýði í heiminum sem við lifum í þar sem mennskan víkur fyrir auðfengnum gróða.

Hún blasti við mér þegar ég heimsótti frumbyggja byggðir í Ameríku á síðasta áratug. Landsvæðið sem þeir höfðu yfir að ráða var ákaflega rýrt af öllum málmum og jarðvegurinn ekki vel til þess fallinn að vera nýttur til jarðyrkju. Við þekkjum sögu frumbyggjanna hvernig þeir voru miskunnarlaust myrtir og reknir burt af landsvæðum sem voru t.a.m. rík af málmum. Þó að samið hafi verið við þá á einhverjum tímapunkti þá voru þeir sviknir. Það er mikill skuggi sem hvílir yfir sögu Bandaríkjanna að þessu leyti. Frumbyggjarnir eiga enn erfitt uppdráttar og þeir glíma við mörg félagsleg vandamál. Undanfarin ár hafa þeir reynt að hlúa að menningar og trúararfleifð sinni svo eftir hefur verið tekið sem er gott en þeir eru ekki forsíðuefni dagblaða í Ameríku.

Lítum okkur nær að þessu leyti Ég hlustaði á viðtal við einn af þingmönnum okkar fyrir stuttu síðan sem ræddi um málefni aldraðra. Þingmaðurinn lýsti þeirri skoðun sinni að ef ríkisvaldið hefði fyrir nokkrum árum ákveðið að reisa hjúkrunarrými fyrir aldraða þá væri búið að útrýma biðlistum í dag. Nei, það var annað sem þurfti að hafa forgang sem var miklu stærra í sniðum og gæfi miklu meira af sér í þágu þjóðarbúsins, þ.e.a.s. álverin. Við Íslendingar værum ekki staddir þar sem við værum í dag nema fyrir vinnuframlag þeirra sem nú þurfa á hjúkrunarheimilum að halda.

Þegar gildismatið er slíkt sem raun ber vitni þá á mennskan undir högg á sækja í heiminum. Ef mannúðin og manngæskan hefði ætíð haft forgang hjá sérhverjum kristnum einstaklingi í gegnum sögu kristninnar þá væri öðru vísi um að lítast í veröldinni. Þá ríkti meira réttlæti í veröldinni,meiri friður, meiri félagslegur jöfnuður.

Jesús hlýtur að hafa sagt þessa sögu eins og hann heyrði hana. En hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur hann að hafa gert til þess að koma málstað sínum á framfæri, málstað manngæsku og umburðarlyndis þar sem hann hvetur hvern og einn til þess að nota hæfileika sína hversu stórir eða smáir sem þeir eru til að ríki sitt megi vaxa og dafna, ríki trúarinnar, vonarinnar og kærleikans. Hann sagði þessa sögu til þess að áheyrendur skildu betur viðhorf sín og áform að þessu leyti. Hann hlýtur jafnframt að hafa sagt þessa sögu til þess að benda þeim á að allur jarðneskur auður kæmist ekki í hálfkvist við þann andlega auð sem þeir gætu eignast með trúnni á þann málstað sem hann stóð sjálfur fyrir, guðsríkið í fyllingu sinni

Hugsið ykkur hvernig kirkjustarfið og kirkjan í heiminum væri í dag ef kristið fólk hefði hlúð að því með slíkri eljusemi sem þeir sýna sem reyna að komast yfir auðfenginn gróða. Þá ríkti eflaust meiri manngæska í heiminum og meiri friður.

Guð hefur gefið manninum mismunandi gjafir sem eru allar mikilvægar í mannlífsflórunni. Alla okkar hæfileika, stóra sem smáa eigum við að nota í þjónustunni við Guð. Sú þjónusta er ekki bundin við þennan helgidóm heldur skulum við jafnan minnast orða Krists sem sagði: ”Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra, það gjörið þér mér”. Kærleiksþjónustan er mjög mikilvægur þáttur í samfélagsþjónustunni. Þar vinnur kirkjan mikilvægt verk t.a.m. með heimsóknarþjónustu sinni og hjálparstarfi í garð þeirra sem eiga erfitt uppdráttar vegna örorku, elli og heilsubrests.

Við gerum þá kröfu til ríkisvaldsins að það nýti skattpeninga okkar til að efla heilsugæslu og félagslega þjónustu, ekki síst í garð aldraðra og sjúkra með byggingu hjúkrunarheimila. Aukinn einkarekstur að þessu leyti væri til bóta.

Gróði bankastofnana og stórfyrirtækja gefur tilefni til hugleiðinga um samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna þar sem þau gætu í auknum mæli komið að rekstri t.a.m. hjúkrunarheimila. Hjúkrunarheimilið Sóltún er t.a.m. einkarekin stofnun.

Ég tel að betur sé búið að þroskaheftu og fötluðu fólki á Íslandi en öldruðum, einkum þeim sem þurfa á hjúkrunarrými að halda. En litlum sem engum biðlistum er fyrir að fara gagnvart þroskaheftu fólki sem þurfa á húsnæði að halda. Fyrir stuttu síðan heimsótti ég nýbyggt glæsilegt heimili fyrir fimm þroskahefta einstaklinga á Akureyri. Þessir einstaklingar höfðu áður búið við þröngan kost í gömlu húsi í gamla bænum á Akureyri. Nú bar svo við að sérhver hafði séríbúð með eldhúsi og baðherbergi og stofu. Sameiginlegt rými er í húsinu með stofu og þar er einnig stórt baðherbergi með lyftubaðkari. Fleiri hús sem þessi hafa verið byggð á Akureyri fyrir þroskahefta og fatlaða þar sem einstaklingsmiðuð þjónusta hefur verið höfð að leiðarljósi. Þessar byggingaframkvæmdir hafa glatt mig vegna þess að öllum ber saman um, starfsfólki og notendum þjónustunnar, að sé til mikilla bóta. Þegar má sjá að notendum þjónustunnar líður betur til líkama og sálar og aðstaða starfsfólks er til fyrirmyndar.

Hver einasta manneskja er dýrmætari en gull, dýrmætari en stóriðja því að öll höfum við mismunandi hæfileika til að láta gott af okkur leiða. Öll iðja er manninum mikilvæg hversu lítil sem hún er. Jesús vill fá að nota sérhverja góða iðju til góðs og gæfu og til uppbyggingar fyrir kirkjuna. Kirkjan er ekki aðeins helgidómur sem þessi heldur ég og þú og samfélagið sem við tilheyrum. Við skyldum varast að festast of mikið í heimi efnishyggjunnar því að þá er sú hætta fyrir hendi að við gleymum að við erum sköpuð af Guði til þess að þjóna honum í kærleika. Þá þjónustu innum við af hendi með því að láta gott af okkur leiða í þágu náungans. Leggjum okkar lóð á vogarskálina til að gera þetta samfélag mannvænlegra og sýnum öllu fólki umburðarlyndi, virðingu og kærleika. Amen.