Kemur þetta á prófi?

Kemur þetta á prófi?

Langur tími hefur liðið frá því þessi orð voru flutt og mikil þekking hefur safnast upp. En svo merkilegt sem það nú er, bendir allt til þess að ekkert sé manneskjunni dýrmætara til vaxtar og þroska en einmitt þetta - að njóta kærleika sem setur engin skilyrði.

Vorið er komið. Hér á túninu fyrir utan Neskirkju eru vorboðarnir ljúfu sem eins og annars staðar eru ekki mjög ljúfir þessa dagana. Lóurnar setja upp kryppu og hlaupa ógnandi hver að annarri. Þær koma hingað í hundraða þúsunda tali, sagði fuglafræðingur og fara létt með að slá út mennskan íbúafjölda þessarar eyju. Ég heyrði töluna sex hundruð þúsund nú á dögunum og gladdist með sjálfum mér enda er lóan í uppáhaldi hjá mér eins og flestum öðrum löndum Jónasar Hallgrímssonar. Vorboðinn ljúfi, má alveg vera svolítið mislyndur í ótíð eins og hefur verið í byrjun þessa vors!

Vorboðinn bjarti

Þótt við njótum nærveru lóunnar á túninu stóra við kirkjuna er þó annar vorboði okkur jafnvel enn hugleiknari. Hann er fannhvítur að lit og þótt hann sé stundum fyrirferðamikill og óútreiknanlegur er vorklæðanurinn undantekningarlítill til marks um friðsemd og einlæga gleði.

Vorboðar kirkjunnar eru fermingarbörnin. Þau flykkjast hingað inn með hækkandi sól, ásamt fjölskyldum sínum og fylgdarliði. Alltaf verð ég jafn þakklátur fyrir þau og stundum jafnvel undrandi á því hversu þau eru siðuð og prúð þegar fermingardagurinn rennur upp, jafnvel þau sem hafa kostað ómælda athygli og orku í fermingartímum. Því fylgir sérstæð stemmning að standa með hópi fermingarbarna sem hafa raðað sér upp til inngöngu í helgidóminn. Svipur barnanna ber merki lotningar og virðingar fyrir þessari stundu. Full af gleði en líka kvíða, eins og segir í skírnarsálminum. Og við prestarnir reynum að draga fram allt það sem er gleðilegt en minnka áhyggjur þeirra. Já, liðin er sú tíð að börnin þurftu að kunna Helgakver aftur á bak og áfram. Við segjum þeim þvert á móti að vera róleg, jafnvel þótt eitthvað fari ekki alveg samkvæmt planinu. Þau fá að heyra að á þessum degi sem ætíð, megi þau finna fyrir ástinni sem umvefur þau, ástinni sem stafar frá fólkinu þeirra og ástinni sem Guð gefur.

Einhverjar spurningar?

Já, alltaf kemur sama spurningin. Vorboðanir hvítu hafa einatt sömu áhyggjurnar og sama hver hópurinn er, alltaf skal einn eða fleiri spyrja: ,,Hvenær verðum við spurð út í efnið sem við eigum að kunna?” Og svo í framhaldi, ,,hvað gerist ef við getum ekki farið með trúarjátninguna?”, ,,hvað ef við ruglumst?” Af svipnum að dæma er þeim dauðans alvara og elskulegheitin sem klerkarnir reyna af fremsta megni að sýna hrökkva skammt.

Það skal tekið fram að við reynum að vera manngæskan holdi klædd í samskiptunum við þau, ekki síst þegar nær dregur deginum stóra. Sjálf eru þau afsprengi skólastefnu, án aðgreiningar, þar sem hver á að fá kennslu við sitt hæfi og reynt er að spyrna við fótum eftir fremsta megni við allri óeðlilegri samkeppni svo ekki sé nú talað um eineltið andstyggilega. En hugur þeirra er engu að síður haldinn þeim beyg - að ef þau skyldu nú segja nafn Pontíusar Pílatusar rangt í trúarjátningunni, klikka á Litlu Biblíunni eða fara rangt með gömlu fleirtöluna - þéringuna í Gullnu reglunni, tjah, þá setji klerkur í brýrnar og reki þau út úr helgidómnum ásamt öllu þeirra fólki.

Já, hvað gerist ef við kunnum ekki efnið?

Þessi hugsun er fjarri því einskorðuð við vorboðana björtu. Hún er inngróin í huga okkar. Ég las eitt sinn frásögn konu sem var nýkomin með stöðu í hinum merka Colombia háskóla Vestanhafs. Hún kenndi þar sálfræði og lýsti því hversu spennt hún var að hefja kennsluna. Þarna var hún jú með hópi sem handvalinn var inn í skólann eftir stöðupróf og alls kyns mat. Hversu skemmtilegar yrðu nú samræðurnar sem færu fram þegar hún opnaði fyriir spurningar að loknum fyrirlestri.

Raunin varð önnur. Vissulega kom upp skógur af uppréttum höndum eftir að hún hafði lokið máli sínu en spurningarnar voru allar af sömu gerðinni: ,,Kemur þetta á prófi?” ha? Við vorum að tala um leyndaróma mannshugans og tilfinninga, rætur hegðunar okkar og mögulegar skýringar á angist og dróma sem getur heltekið manninn - og þetta er það eina sem þið hafið áhuga á að vita um? Kemur þetta á prófi?

Snýst þetta að endingu allt um prófið? Erum við svo rækilega mótuð af baráttu kynslóðanna í grimmum heimi náttúrunnar að allt snýst að endingu um að einn hljóti að tapa ef annar á að vinna. Og þá er það hið harða stöðumat sem skiptir öllu máli. Manneskjan hverfur inn í heim þar sem baráttan er stöðug yfir plássi og fæðu, rétt eins og lóurnar reka upp kryppu og hrekja aðra fugla frá yfirráðasvæði sínu. Prófið er mælikvarðinn sem efstur er í huga, sjálft innihald kennslunnar er aðeins leið að því að ná því marki.

Þessi hegðun lóunnar, spurningar fermingarbarna og háskólastúdenta er af sama meiði sprottin og við það má bæta einu afdrifaríkasta angistarkasti sögunnar. Það var í upphafi 16. aldar. Ungur Ágústínusarmunkur sat í herbergi sínu í turni á klaustrinu þar sem hann dvaldi og lá yfir orðum Páls Postula í fyrsta kafla Fyrra Kórintubréfs - þar sem talað er um réttlæti Guðs. Hversu yfirgengilegt var það óréttlæti sem tengdist hinu meinta réttlæti, fannst munkinum. Sjálfur var hann haldinn þeirri sömu hugsun og að framan er lýst. Hugur hans var bundinn við prófið mikla, það að réttlæti Guðs hlyti að vera af sama meiði sprottið og allt það sem reynsla okkar af heiminum kennir. Hver getur sýnt sig og sannað frammi fyrir hunu fullkomna? Verður ekki hver og ein viðleitni til þess arna, eingöngu fólgin í því að manneskjan sekkur dýpra og dýpra ofan í hyl angistar og vonleysis?

Föstur, sálmar, vökur, bænir, iðrun og yfirbót - þeim mun dýpra sem kafað var ofan í fylgsni sálarinnar blöstu við nýir og nýir þættir sem þurftu úbóta við og veikleikarnir birtust hver af öðrum. Já, hver getur uppfyllt það sem Lúther túlkaði á þeim tíma sem réttlæti Guðs.

Áhyggjurnar voru af þessum meiði sprottnar - ég sem manneskja hlýt að þurfa að sanna mig fyrir Guði, að öðrum kosti er ég fordæmdur. Það er þetta sem lífið og eilífðin snýst um. En svo rann upp fyrir hinum skelkaða munki að boðskapur Biblíunnar af gerólíkum meiði sprottinn.

Réttlæti Guðs

Réttlæti Guðs er ekki það að fólk standist svínþung próf eilífðarinnar heldur byggir það á þeirri forsendu að prófið sé þegar að baki. Og niðurstaðan er góð. Kristur tók á sig þær byrðar sem synd mannsins hefur kallað yfir hann og eftir stendur að maðurinn birtist frammi fyrir Guði eins og hvítþvegin af öllum sínum syndum. Réttlæti Guðs er ekki lögmál. Það er fagnaðarerindi um það að hvert og eitt okkar er dýrmæt sköpun Guðs - endalaust mikilvæg og hversu ófullkomin og breysk sem við erum, þá stöndum við eins og hvítklædd fermingarbörn frammi fyrir hinum almáttuga. Skjannahvít, allt það burtu þvegið sem getur hindrað samfélag okkar við Guð.

Uppfrá því hóf Lúther andóf sitt gegn miðaldakirkjunni, sem honum fannst þvælast fyrir í leit mannsins að þessu samfélagi. Hún gerði alls kyns ytri þætti að skilyrðum fyrir því að manneskjan gæti nálgast Guð sinn og þurfti sannarlega siðbótar við. Síðan eru liðin tæp fimm hundruð ár og enn virðist fólk líta svo á að boðskapur trúarinnar sé sá að við eigum að gera öðrum gott til þess að njóta síðar verðlauna í ríki Guðs.

Þessi textar birtast okkur, nú á björtum maídegi þegar farfuglarnir eru í óðaönn að minna okkur á það hversu gott það getur nú verið, þrátt fyrir allt, að búa á þessari eyju. Þeir fjalla um kærleikann í sinni fegurstu mynd. Þeir birta okkur innsýn í boðskap Biblíunnar til mannsins, og minna okkur á það hvar rætur alls hins góða leynast.

Hinn himneski boðskapur er kunnuglegur - Óttist ekki og verið ekki hrædd, segir í texta Mósebókar. Postulinn Jóhannes orðar þessi tíðindi á skýran hátt: ,,Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.” Hér sjáum við hvernig Biblían lítur á samband manns og Guðs. Við erum þiggjendur í þeim samskiptum. Guð lætur ást sína streyma til okkar, hann tekur á móti okkur eins og við erum, skilyrðislaust. Þegar við rýnum í Biblíuna og spyrjum, hvað við eigum að kunna, hvað gerist ef eitthvað fer úrskeiðis, hvort hitt eða þetta komi á prófi, er svarið alltaf það sama. Hafðu ekki áhyggjur. Ekki óttast. Ekki vera hrædd. Þið eruð dýrmæt hvert og eitt, börn Guðs sem þurfið ekki annað en að rétta út faðminn og taka á móti þeirri gjöf sem fagnaðarerindið er.

Siðfræði kærleikans

Sú siðfræði sem verður til í kjölfar slíkrar afstöðu byggir ekki á lögmáli endurgjalds og þeirrar lundar að fólk þurfi að vinna sér inn prik hjá almættinu. Nei, Kristur orðar hana í guðspjalli dagsins. Boðorð hans er ekki það að við vinnum hvert öðru góðverk, ekki að við leggjum fram eitt og annað sem kann að þóknast honum - heldur segir hann: ,,Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.” Vináttan er kjarni kristins siðferðis þar sem frjálsir einstaklingar sýna hver öðrum kærleika án þess að spyrja að því hvað þeir fái í staðinn og án þess að reikna út hvaða skilyrði fólk hefur uppfyllt til að njóta þeirrar ástar.

Langur tími hefur liðið frá því þessi orð voru flutt og mikil þekking hefur safnast upp. En svo merkilegt sem það nú er, bendir allt til þess að ekkert sé manneskjunni dýrmætara til vaxtar og þroska en einmitt þetta - að njóta kærleika sem setur engin skilyrði. Barn sem elst upp við þá vissu að það er mikilvægt í augum foreldra sinna, án þess að þurfa að sanna sig í hvívetna, er líklegt til þess að móta með sér heilbrigt sálarlíf og geta gefið af gnægð hjarta síns til samferðafólks. Á þessu byggir sýn Biblíunnar á manninn. Hún hvílir á þeirri forsendu að til þess að geta raunverulega elskað, þá þurfum við að sjálf að njóta ástar og kærleika.

Og mitt í birtu hins íslenska vors þar sem lóan syngur söng sinn um dýrðina þá skulum við njóta þess að vera elskuð, með kostum okkar og göllum og miðla svo þeirri elsku til þeirra sem að okkur standa, nær og fjær.