Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég þakka fyrir að fá að fagna með ykkur, kæri söfnuður þegar haldið er upp á 25 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Það er hverjum söfnuði nauðsynlegt að hafa góða aðstöðu og blessað Guðshús til að koma saman í. Til hamingju með kirkjuna ykkar og afmæli hennar. Megi Guðs blessun ávallt hvíla yfir henni og starfinu öllu. Fyrir kirkjunnar hönd vil ég líka þakka öllum þeim sem hér þjóna og starfa sem og öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg við byggingu kirkjunnar og viðhald hennar í gegnum tíðina.
Í dag er þriðji sunnudagur í föstu en jafnframt æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar. Æskulýðsdagurinn hefur verið haldinn í meira en hálfa öld fyrsta sunnudag í mars ár hvert í söfnuðum landsins. Þau sem voru börn á fyrstu árum æskulýðsdagsins eru væntanlega orðin afi og amma í dag ef ekki langafi og langamma enda líður tíminn hratt og sífellt hraðar eftir því sem árin líða að okkur mörgum finnst.
Það er fasta. Hún hófst á öskudaginn og minnir á pínu og dauða frelsarans. Hún er því sorgar- og iðrunartími. Á föstunni ætti okkur að gefast tækifæri til að hugleiða líf okkar, hugsa um Jesú og tengsl Guðs og manns. Ritningartextar föstunnar sem lesnir eru í kirkjum landsins minna á að líf Jesú allt var barátta. Þeir minna líka á það að þó hann hafi látið lífið á krossinum, var hann samt sigurvegari ljóssins og lífsins. Það ætti að vera okkur hvatning ef við glímum við mótlæti í lífi okkar, að minnast þess að Jesús háði sína baráttu en sigraði og ruddi þannig brautina fyrir okkur til lífs í ljósi.
Í guðspjallstexta dagsins úr Jóhannesarguðspjalli talar Jesús við Gyðingana og álítur þá frekar treysta hinu illa en Guði. Hann vitnar í þann tíma þegar hið illa sótti að honum og lærisveinarnir stóðu við hlið hans. Hið illa notar jafnan þá aðferð að rangtúlka sannleikann og umsnúa honum til að sannleiksgildið sé dregið í efa. Þegar fræi vantraustsins hefur verið sáð er auðveldara að gera lygina trúverðuga.
Hið illa getur verið aðlaðandi og vingjarnlegt, jafnvel haft að hluta til rétt fyrir sér og verið með orð Guðs á vörum. Það liggur í leyni einkum þegar vel gengur og við erum ekki á varðbergi og notar gjarnan eitthvað gott og jákvætt til að fella okkur. Við sjáum í Biblíunni hvernig Jesú var freistað. Ef þú ert Guðs sonur þá skaltu sanna það var sagt við hann. Í guðspjallinu í dag segir Jesús við viðmælendur sína: „Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki”? Þessi orð eru umhugsunarverð. Það er stundum eins og okkur veitist auðveldara að trú því sem sagt er en því sem raunverulega er. Veröldin er því miður þannig að ekki er öllu treystandi og ekki öllum treystandi. Samt megum við ekki lifa í ótta eða vantrausti til samferðamanna okkar og því mótar reynsla okkar af samskiptum við fólk og kerfi afstöðu okkar, viðmót og framgöngu. Sennilega göngum við flest fram í trausti þar til annað kemur í ljós, en þá getum við líka verið illa brennd og þurft tíma til að jafna okkur og læra að treysta á ný.
En við getum alveg treyst orðum Jesú og orðum Biblíunnar um Guð og mann. Þeim orðum megum við treysta, fara eftir og bera áfram til samferðafólks og næstu kynslóða. Það er besta veganestið sem við fáum á fyrstu árum okkar og endist ævina á enda. Þar er styrk að fá, hvatningu, von, því orð Guðs hefur alltaf áhrif eins og Jesaja spámaður orðar svo vel í bók sinni: „Eins og regn og snjór fellur af himni og hverfur ekki þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina, gert hana frjósama og gróandi, gefið sáðkorn þeim sem sáir og brauð þeim er eta, eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því”. Orð Guðs hefur áhrif okkur til góðs, því megum við treysta og orðin í lexíu dagsins, sem lesin voru úr 2. Mósebók í Gamlatestamentinu hljóma kunnuglega þó textinn sé ævaforn. Boðorð Guðs eru okkur þekkt, en þau eru stundum nefnd umferðarreglur lífsins.
Þegar tveir bílar lenda í árekstri í umferðinni er það oft vegna þess að annar ökumaðurinn braut umferðarreglurnar. Það er talað um að vera í rétti eða órétti. Og einatt er talið betra að vera í rétti. Þá er tjónið líka bætt og útgjöldin lítil sem engin.
Umferðarmerki eru sett upp til að vernda líf okkar og það eru einnig umferðarreglur, sem t.d. banna okkur að aka hraðar en ákveðið hámark segir til um.
Boðorðin eru grundvöllur mannlegra samskipta. Þau eru okkur til leiðbeiningar á lífsins leið. Þau minna okkur á hvað við eigum ekki að gera og samfélagið væri betra ef allir færu eftir þeim. Þau hvíla á ákveðnum grundvelli sem er Guð sjálfur. Við beinum sjónum okkar að honum og þá getum við breytt rétt gagnvart náunga okkar.
Börn eru ekki há í loftinu þegar þau þurfa að læra umgengnisreglur og muninn á réttu og röngu. Og þó börn læri ekki boðorðin 10 fyrr en þau eru komin til vits og ára þá er löngu áður farið að kenna þeim það sem er gott og hollt fyrir þau og samfélagið sem þau búa í. Umferðin hefur sínar reglur og lífið hefur sínar reglur. Þær reglur eru boðorð Guðs. Við þurfum að læra margar reglur í lífinu. Ef við stundum íþróttir þá gilda þar ákveðnar reglur. Í fótbolta gilda ákveðnar reglur, í golfi gilda ákveðnar reglur og fleira mætti telja. Það er reyndar merkilegt að fara hring á golfvelli og sjá og finna hve vel reglunum er fylgt eftir hjá öllum sem þar spila. Það virðist ekki vera vandi að fara eftir þeim. Umferðarreglur lífsins, boðorðin eru aðeins 10 en samt eigum við stundum erfitt með að fara eftir þeim. Kannski er það vegna þess að við gleymum að tileinka okkur fyrstu boðorðin sem fjalla um Guð og viljum fara beint í hin sjö. Það kann ekki góðri lukku að stýra vegna þess að þá vantar okkur alla tengingu. Þá er sem við séum í lausu lofti og eigum erfitt með að stjórna gerðum okkar. Við erum líka minnt á að við eigum aðeins að hafa einn Guð og eigum ekki að búa hann til sjálf. Það er nefnilega hægt að búa sér til aðra Guði og það fleiri en einn. Við treystum Guði og treystum á Guð. En við getum líka treyst á annað sem ekki er traustsins vert, svo sem peninga og völd. Og við getum farið að dýrka annað en Guð svo sem eignir og vinsældir.
Í fyrstu boðorðunum erum við minnt á að beina huga okkar og lífi til Guðs, nota nafn hans til að þjóna hinu góða og gefa okkur tíma til hvíldar og uppbyggingar. Þá eigum við auðveldara með að halda hin boðorðin sem beinast að náunga okkar. Og í þessu felst að við eigum að bera virðingu fyrir Guði og náunganum.
Boðorðin hvetja okkur jafnframt til að líta í eigin barm. Skoða okkur sjálf og spyrja okkur spurninga um eigið líf. Hvernig það er, hvort við viljum breyta því og hvað við viljum fá út úr því. Og frammi fyrir boðorðunum getum við velt því fyrir okkur hvernig við myndum bregðast við í þeim aðstæðum sem þau lýsa.
Yfirskrift æskulýðsdags Þjóðkirkjunnar árið 2013 er „Hendur Guðs – hendur okkar”. Með þessum orðum erum við minnt á að öll erum við kölluð til þjónustu við Guð og þar með náungann. Þessi yfirskrift er í anda orða Jesú er hann segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“. Guð hefur okkar hendur til að vinna sín verk hér í heimi og til þess erum við kölluð að vinna hans verk. Við höfum öll eitthvað að gefa. Við erum ólík, höfum mismunandi hæfileika og eiginleika, sjáum veröldina frá mismunandi sjónarhóli, en öll erum við minnt á það að þjónusta okkar er ekki aðeins þjónusta við náungann heldur einnig Guð.
Látum boðorðin minna okkur á Guð, náunga okkar sem þarfnast okkar og að þakka fyrir lífið sem Guð gaf okkur og biðja hann að hjálpa okkur að fara vel með það í dag og alla daga.
Megi söfnuðurinn hér í Víðistaðasókn í Hafnarfirði, áfram koma saman hér í þessu fallega Guðshúsi og eiga hér góðar og gefandi stundir í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði á 25 ára afmæli kirkjunnar. Lexía: 2Mós 20.1-3, 7-8, 12-17; Pistill: Opb 2.8-11; Guðspjall: Jóh 8.42-51.