Þarf miskunn í þennan heim?

Þarf miskunn í þennan heim?

Þarf meiri frið og kærleika í þennan heim? Er rétt að biðja um miskunn, virðingu?

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.” Amen.

“Á hverjum degi, Drottinn minn, ég bið, Drottinn minn, ég bið um kærleika og frið.

 

Ég bið þig, Drottinn, bægðu myrkri frá, bægðu myrkri frá, svo blindir megi sjá.

 

Ég þarf, Guð minn góður, þína hjálp, Guð minn, þína hjálp að fást við lífið sjálf.

 

Drottinn, leyf þú mér að lifa í sátt, leyf mér lifa í sátt við menn og æðri mátt.”

Bænarorðin eru eftir Kristján Kristjánsson, tónlistarmann eða KK.


Bæn um

 

-   kærleika og frið,

 

-      að myrkrið taki ekki yfir,

 

-      um hjálp Guðs að takast á við lífið,

 

-      að lifa í sátt við fólk og æðri mátt, Guð.


Þarf meiri frið og kærleika í þennan heim?

 

Er rétt að biðja um miskunn, virðingu?

 

Er rétt að standa með þeim, sem brotið er á, gæta að mannréttindum?

 

Vera rödd, þeirra, sem eiga ekki rödd?

 

Biðja um miskunn eins og sr. Mariann Edgar Budde, biskup í biskupakirkjunni í Washington í Bandaríkjunum gerði í síðustu viku?

 

Þarf meiri frið og kærleika í heiminn?

 

Frið á milli andstæðra fylkinga?

 

Miskunn?

 

Er erfitt að sjá leiðir ljósins vegna myrkurs: lyga, græðgi, haturs og fordóma?

 

Þarf miskunn?

 

Trú, von og kærleika?

 

Trúir þú á Guð?

 

“Trúin er ekki að vita.

 

Trúin er að treysta”sagði dr. Sigurbjörn heitinn Einarsson, biskup.

 

Trú er traust.

 

Hverju er treystandi?

                  _________________________

 

Ýmis þjónusta getur tekið á, eins og prestsþjónusta getur stundum gert.

Á tæpum 30 árum, sem prestur hef ég meðal annars: fylgt eftir dauðvona fólki á ýmsum aldri og fjölskyldum þeirra. 

Staðið við dánarbeð.

Jarðsungið til dæmis: föður minn, tengdaföður og fleiri.

Fylgt eftir um lengri eða skemmri veg.

                        _______________________________

Hvernig getur þú þetta?

Í upphafi  þegar ég var spurður svaraði ég í löngu máli og stundum flóknu og skyldi stundum ekki svarið sjálfur.

Nú er svarið komið í eina setningu og ég skil það.

Treysti því.

“Ég get þetta af því að ég trúi á Guð.”

Trúin á Guð er mér leiðarljós.

Öðruvísi get ég ekki þjónað samferðarfólki mínu, sem prestur.

Móðuramma og mamma voru fyrstu manneskjurnar til að kenna mér bænir og að segja mér frá Guði.

Amma var ein af hversdagshetjum þessa lífs.

Átta barna móðir, rak eigið fyrirtæki til að framfleyta fjölskyldunni en afi var langveikur og þess vegna oft frá vinnu.

Það brann ofan af þeim og þau misstu flestar veraldlegar eigur.

Amma horfði á eftir þremur börnum sínum í gröfina en áfram hélt hún og bænin aldrei langt undan í hennar lífi.

Þegar ég sagði henni að ég ætlaði að innrita mig í guðfræði í Háskóla Íslands var hún komin á sjúkrahús.

Amma horfið þá djúpt í augu mér og fór svo með vers úr Passíusálmunum eftir Hallgrím Pétursson. 

„Víst ertu, Jesú, kóngur klár,

kóngur dýrðar um eilíf ár,

kóngur englanna, kóngur vor,

kóngur almættis tignarstjór.“

Sumir, vinanna og í fjölskyldunni klóruðu sér í höfðinu við þessar fréttir um innritun mína í guðfræði eða ráku upp skellihlátur.

En amma fór með bænarvers eftir Hallgrím.

                  _______________________

Ýmsar hugsjónir hafa hrunið í gegnum árin í þessum heimi.

Margvísleg vonbrigði orðið með þróun mála og mannlegan styrk, hegðun og getu, þegar fólk hefur brugðist.

En þá skiptir líferni okkar máli.

Andleg leiðsögn er nauðsyn og kristin trú gefur svo sannarlega ljós í dimmar víddir.

 

Trú, von og kærleika.

 

Traust kemur ekki af sjálfu sér.

 

Manni er ekki þröngvað til að treysta öðrum.

 

Hvernig nálgast þú til dæmis: nýfætt barn?

  

Brosir barnið á móti þér, hjalar og segir eitthvað skemmtilegt, sem þú skilur ekki en veist í hjarta þínu að er gott og hlýtt?

 

Alvöru.

                  ________________________

  

Hvernig komum við fram við hvert annað?

 

Hvernig eigum við að koma fram við hvert annað?

                  

Í pistli dagsins segir:

 

“Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna.

 

Oftreystið ekki eigin hyggindum.

 

Gjaldið engum illt fyrir illt.

 

Stundið það sem fagurt er.

 

Hafið frið við allt fólk, að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.

 

Leitið ekki hefnda.

 

Látið ekki hið illa sigra heldur sigrið illt með góðu.”         

                  _______________________

 

Hvernig öðluðust líkþrái maðurinn og hundraðshöfðinginn í guðspjalli dagsins traust sitt á Jesú?

 

Trú á Jesú Krist?

  

Báðir aðilar komu til Jesú og báðu hann um hjálp.

 

Af hverju?

 

Höfðu þeir séð hann áður og vissu þeir að þeir gætu treyst honum?

 

Hvernig vissu þeir það?

 

Fundu þeir að Guð var með honum?

 

Trú birtist oftar en ekki í umhyggju fyrir öðrum og miskunnsemi.

 

Trú, sem styður, hjálpar og læknar er samstaða.

 

Þar sem slík trú er, þar er leið opin fyrir allt gott.

 

Jesús vill vekja trú bænar og miskunnar.

 

Bænin, miskunnsemi og umhyggjan eru styrkur og sál trúarinnar.

 

Trúir þú því?

 

“Á hverjum degi, Drottinn minn, ég bið, Drottinn minn, ég bið um kærleika og frið.

 

Ég bið þig, Drottinn, bægðu myrkri frá, bægðu myrkri frá, svo blindir megi sjá.

 

Ég þarf, Guð minn góður, þína hjálp, Guð minn, þína hjálp að fást við lífið sjálf.

 

Drottinn, leyf þú mér að lifa í sátt, leyf mér lifa í sátt við menn og æðri mátt.”

 

“Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.” Amen.

 Takið postulegri blessun: “Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélags heilags anda sé með yður öllum.”

Lexía: 5Mós 10.17-21 Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi. Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.


Pistill: Róm 12.16-21 Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.


Guðspjall: Matt 8.1-13 Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“ Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“ Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“ Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“ Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“ Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.