Glímutök eru viðfangsefni texta dagsins. Við erum
svo sem ekki óvön rimmum af ýmsum toga. Fátt vekur meiri athygli en átök og ágreiningur.
Berjast,
berjast!
Stór hluti þeirrar afþreyingar sem við horfum á er
einmitt af þeim toga. Við horfum á einbeitta keppendur í íþróttum, berjast til
þrautar í alls kyns viðureignum. Svo myndum við okkur skoðun á því hvorum við fylgjum
að málum og við hvetjum þá af innlifun. Við fögnum ef okkar maður eða okkar lið
vinnur, jafnvel þótt við eigum engin tengsl við þetta fólk sem þarna keppir.
Svo gleymum við okkur yfir frásögnum á margvíslegu
formi sem lýsa togstreitu af einhverju tagi. Fá svið mannlegrar tilveru eru þar
undaskilin. Dóttir mín er til að mynda forfallinn aðdáandi matseldar og þegar hún
heldur á fjarstýringunni þá eru oftar en ekki einhverjir kokkaþættir á skjánum.
Og hafandi horft á þá allmarga af þeim sökum – þá tel ég ljóst að
skipuleggjendur þeirra hafa komist að því að matseld sé miklu skemmtilegri ef
einhver keppni á sér sað. Jafnvel eldamennska snýst upp í æsilega baráttu á
milli einhvers fólks. Það er greinilega ekkert undanskilið!
Þetta er auðvitað merkilegt fyrirbæri – ásókn okkar
í rimmur. Merkilegt fyrir þær sakir að þegar fólk er spurt að því hvað það óski
sér helst í lífinu er svarið oftast af allt öðrum toga. Flestir óska sér hamingju,
öryggis, ferðalaga og að fá tækifæri til að rækta sig og þroska. Fáir held ég
að kjósi sér það hlutskipti að þurfa að heyja hatramma baráttu og slást við féndur
sína upp á líf og dauða. En það er nú samt segullinn á athygli okkar og gaum. Þegar
kirkjunnar menn hvöttu landsmenn hér á öldum áður, til að lesa frekar guðs orð
fremur en krassandi rímur af vopnaskaki og styrjöldum kvað einn gárunginn: „Ekki
er gaman að guðspjöllunum þá enginn er í þeim bardaginn.“ Það skildu greinilega
allir hvað við var átt!
Tvær glímur
Það er nú samt ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Þessir
textar sem við hlýddum á, lýsa einmitt einhvers konar snerrum sem upp hafa
komið á sögusviði ritningarinnar. Glímurnar eru afar ólíkar. Guðspjallið
greinir frá orðaskiptum milli Krists og kanverskrar konu. Fer vel á því að lesa
það hér á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem ber upp á þennan dag, 8. mars. Skömmu
fyrir þessi samskipti hafði Kristur rætt við hrokafulla fræðimenn sem skipuðu efstu
lögin í því samfélag. Þeir komu illa út úr þeim samskiptum. En þessi kona hafði
betur með seiglu sinni og eindregnum kærleika til dóttur sinnar.
Og svo er fjallað um hina nafnkunnu Jakobsglímu. Hún
er dæmi um þessar örsögur sem við kynnumst í helgihaldinu, vinjettur sem geyma
sjaldnast nema lítið brot af heildar frásögninni. Jakob þessi, sem sagan segir
frá, hefur til að mynda verið vel kynntur til leiks þegar þarna var komið sögu.‘
Aðeins
um Jakob
Jakob og Esaú voru tvíburabræður, synir Ísaks og
Rebekku og þar með barnabörn Abrahams og Söru, sjálfra ættfeðra Ísraels. Hér
lásum við um glímu Jakobs við dularfulla veru sem mætti honum í nóttinni en því
fer fjarri að hann hafi verið einhver nýgræðingur á þessu sviði. Á meðgöngunni
hafði móðir þeirra, sem reyndar var háöldruð af vanfærri konu að vera, fundið
fyrir miklum óþægindum. Hún leitaði til Guðs og fékk þá skýringu að tvíburarnir
stæðu í hörkuslagsmálum þarna inni í leginu! Það benti nú ekki til þess að
friður ætti eftir að ríkja meðal þeirra í framtíðinni. Sá spádómur fylgdi með
að sá kæmi í heiminn á eftir hinum, myndi um síðir undiroka frumburðinn – en slíkt
var andstætt reglum í hinu forna samfélagi.
Esaú birtist á undan Jakobi, með mikið rautt hár
en Jakob fylgdi fast á hæla honum – í orðsins fyllstu merkingu því hann mun
hafa haldið utan um hæl bróður síns. Nafnið „Jakob“ merkir einmitt, sá sem heldur
um hælinn. Esaú var karlmennskan uppmáluð, kafloðinn á skrokknum, stundaði
veiðar á meðan yngri bróðirinn allur fínlegri og sinnti garðyrkju.
Bræður
munu berjast
Saga þeirra tveggja er klassískur bræðraharmleikur
sem er jú eitt stefið í þessum fjölmörgu átakasögum sem fólk sækir í. „Bræður
munu berjast“, segir völvan í Eddu í aðdraganda ragnaraka. Það þarf ekki að
undra því hið forna tókust bræður á um föðurarfinn. Á tímum þar sem hagsveiflur
voru með öðrum hætti en við þekkjum úr samtímanum, var jarðeignin höfuðstóll
ættarinnar. Það var til lítils að skipta henni í tvo eða fleiri helminga þegar
kom að því að úthluta henni til erfingja og svo enn frekar við hver
kynslóðaskipti. Þá yrði lítið eftir af ættarveldinu. Þess vegna fékk
frumburðurinn jafnan arfsréttinn og ef þeir yngri undu því illa, var viðbúið að
átök yrðu.
Sú var og raunin með þessa tvö. Síðar meir átti
Jakob eftir að véla frumburðarréttinn af bróður sínum er hann bauð honum
sársoltnum linsubaunasúpu, í skiptum fyrir allan arfinn. Ísak, faðir þeirra var
orðinn hrumur og blindur og til að fá staðfestingu á því að Jakob væri nú
orðinn réttur erfingi setti hann geitarskinn á handlegg sinn. Svo þegar Ísak
strauk höndinni eftir skinninu talda hann að Esaú væri þar mættur. Hann veitti
honum því blessun sína og Jakob hafði með prettum náð frumburðarréttinum.
Þetta er minnir á lýsingar á einhverju illmenni úr
þessum þáttum sem við sjáum á skjánum. Þannig eru líka persónurnar í Biblíunni.
Þetta eru einstaklingar af holdi og blóði og sálarlífið er margslungið. Hluti
okkar leitast við að byggja upp og svo er það annað sem rífur niður. Þessi
mannsmynd tengist syndafallinu og þeirri sjálfsvitund sem af því sprettur. Við
vitum af takmörkum okkar og þjáningu og allt tengist það hugmyndum okkar um
tilvistina, takmörk hennar og eðli.
Og það er einmitt efni dagsins. Glíma, átök og það
sem við köllum á slæmri íslensku – ströggl. Hér er ekki gefið til kynna að
lífið sé á einhvern hátt einfalt og leit okkar að æðri sannleika sé
fyrirhafnarlaust. Þetta er vendipunkturinn í sögu Jakobs – sem átti svo eftir
að verða einn af ættfeðrum Ísraelsþjóðar. Þessi breyski maður tekst á við
dularfulla veru í nóttinni. Glíma hans minnir á frásagnir úr menningararfi
okkar – söguna af Þór og elli kerlingu eða Gretti og Glámi. Gleymum því ekki að
þær voru ýmist ritaðar í klaustrum eða á kirkjustöðum og höfundarnir þekktu vel
til frásagna á borð við þessa. Var þetta einhvers konar yfirbót fyrir syndir
hans? Glímdi hann við Guð og sigraði? Hann gekk laskaður frá leiknum og
haltraði allar götur síðan en nafnið sem hann fékk Ísrael – merkir einmitt sá
sem hefur glímt við Guð.
Öryggissvæðið
Já, þessir textar lýsa ólíku hlutskipti en flestir
myndu kjósa sér. Og spyrja má: er það rétt að vilja öryggi og hamingju sem
endanlegt markmið? Eða eru þau gæði kannske frekar afrakstur þess að við
höfum tekist á við þær áskoranir og sigrast á þeim? Krossinn sem er í hávegum
hafður í kirkjunni er ekki tákn um velsæld og fyrirhafnarlaust líf. Hann er
þvert á móti áminning til okkar að tilveran gerir til okkar kröfur. Þegar við
horfum á þetta einkennistákn kristninnar verða skilaboðin ekki þau að við eigum
að velja gleði og sælu. Þau eru miklu fremur þau að við ættum að hugleiða hvaða
þrautir það eru sem við erum tilbúin að taka á okkur.
Já, hver er sá sársauki sem þú vilt axla? Hvaða glíma
er það sem þú ert tilbúin að heyja?
Því lífið er alls ekki sanngjarnt. Okkur ætti að
vera það ljóst, þegar við í samfélagi – já öryggis og velsældar – sendum börn
og fjölskyldur þeirra út í dauðans óvissu. Hver vill taka á sig fórnir fyrir
þetta fólk? Og baráttudagur kvenna – hversu mörg voru þau tárin sem baráttufólk
fyrir jafnrétti kynjanna úthellti til að ná þeim markmiðum?
Veldu þér þraut
Veldu þér ekki öryggi og hamingju! Því hvort
tveggja er aðeins afrakastur þess sem þú hefur þegar unnið þér inn. Veldu þér þraut,
veldu þér fórn, veldu þér vettvang þar sem þú er tilbúin að standa og falla með
því sem þú trúir á og vilt berjast fyrir.
Við lifum á tímum þar sem litið er á sársaukaleysi
sem mannréttindi. Þeir tímar eru fullir af þverstæðum. Fjöldi fólks er háður
neyslu á ópíóðum og lyfjum sem deyfa tilfinningar, minnka næmi okkar fyrir
umhverfinu, því okkur er talin trú um það að þrautir séu eitthvað til að
forðast. Samt sækir mannshugurinn í átök og þau birtast okkur á hinum ólíklegustu
stöðum eins og dæmin sanna.
Textar Biblíunnar sem tala til okkar í dag segja
okkur þvert á móti að glíman sé hið eðlilega hlutskipti fólks sem er af holdi og
blóði, glíman við Guð eins og sú er Jakob háði, glíman við Krist eins og í
tilviki kanversku konunnar. Og þegar við stöndum frammi fyrir því að braut okkar
er þyrnum stráð og það verkjar á þeirri göngu, þá skulum við hugleiða það hvert
hún leiðir. Vel má vera að við enda þeirrar vegferðar bíði okkar hnoss sem er
æðra og merkilegra öllum þægindinum – nefnilega sú kennd að við höfum með lífi
okkar sannarlega skipt máli og komist nær þeim tilgangi sem okkur er ætlað að
uppfylla.