Lögmál haustsins

Lögmál haustsins

Lögmálin blasa við okkur hvert sem litið er. Í litunum laufblaðanna, í oddaflugi gæsanna, í erli smáfuglanna í görðunum okkar. Lögmálið teygir sig inn í hjörtu okkar og við erum minnt á það að nýta vel þær stundir sem okkur eru gefnar.

Jæja, þá fer blessað sumarið að kveðja okkur. Tíminn rennur áfram. Við stöndum á mótum tveggja árstíða, nú sem svo oft áður. Nýtt haust heilsar með öllu því sem haustinu fylgir. Litadýrð gróðurs, fuglarnir safna sér fæðu í görðum og túnum, gæsirnar æfa sitt oddaflug og skólarnir opna að nýju, já börnin mæta með skólatöskurnar sem eru eins og gróðurinn – í öllum regnbogans litum.

Uppskerutími

Haustið er líka tími uppskerunnar. Nú reynir á hversu duglegir garðeigendur hafa verið að skipuleggja matjurtargarðana, reita arfann og hlúa að ávöxtum þeim og grænmeti sem senn verður tekið upp, sett í geymslur og svo borið á borð með stolti. Þetta er tíminn þar sem við fáum að njóta þess sem við höfum undirbúið. Það er ekki lítil áminning í skóla lífsins að finna það hversu mjög það skiptir máli að vanda til verka, löngu áður en von er á gómsætum afurðum upp úr moldinni.

Þessi staðreynd er sjálfsögð og þarf vart að útskýra. Fólk uppsker svo sem það sáir. Garðeigandinn sér nú loks árangur af undirbúningi sem hófst fyrir nokkrum mánuðum. Bændurnir finna enn betur fyrir þessu. Nú reynir á það hvernig jarðvegi hefur verið sinnt, nú eða sauðfénu sem senn kemur ofan af heiðum. Kartöflubændur í Þykkvabænum fylla nú geymslurnar af jarðeplunum, en allt árið hafa þeir þurft að búa sig undir þennan uppskerutíma. Þeir hafa hlúð að moldinni, sett niður útsæðið, reitt arfann og sett áburð á. Þar má hvorki vera of né van. Þetta er auðvitað mikil vinna, sjálfsagt allan ársins hring.

Á haustin sjáum við hvernig við höfum undirbúið okkur. Nemandi sem mætir í skólann á þessum tíma ætti að leiða hugann að því að ekkert fæst nema að hlúð sé að rótum og jarðvegi. Einkunnir verða ekki beysnar í lok skólaannar nema að búið sé að sinna náminu frá upphafi.

Uppskeran á akri Guðs

Þessi sannindi tala til okkar í guðspjalli dagsins. Þar talar Kristur um eina dýrmætustu gjöf Guðs til okkar breyskra manna. Það er sjálf fyrirgefningin. Við erum öll syndug. Það er hluti af eðli okkar að gera mistök, ganga á hlut náungans, spilla því sem gott er. Syndin býr djúpt í manninum og við sjáum það svo vel þegar hið ytra skipulag riðlast, þegar glundroði ríkir í mannlegu samfélagi hversu stutt er í grimmdina. Mannkynssagan geymir ljótar frásagnir af framkomu okkar hvert við annað og víða blasir við ófögur mynd af því hvernig mannkynið hefur gengið á gjafir náttúrunnar, rænt því og ruplað sem átti að veita komandi kynslóðum farborða og tryggja fjölbreytni lífs á þessari jörðu okkar.

Postulinn talar eki um hendur okkar sem geta unnið skaða heldur annað líffæri sem ekki síður getur sært og meitt:

Tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er fulla banvænu eitri.

Af sama munni sem lofsamar Drottin getum við formælt Guði. Hún skapar bæði blessun og bölvun. Og hann bendir okkur á sannindin sem blasa við okkur hvívetna í náttúrunni: Fíkjutréð gefur ekki af sér ólívur. Af trénu vaxa ávextirnir. Upp úr jarðveginum sprettur gróðurinn. Þar sem hlúð er að stofninum verður uppskeran ríkuleg, annars verður hún lítil eða jafnvel engin.

Undirbúningur

Stundum finnst mér við mennirnir gleyma þeim sannindum sem búa að baki starfi jarðyrkjumannsins og bóndans. Það er til lítils að vænta góðrar uppskeru ef undirbúningi er ekki sinnt. Myndi nokkur bóndi sofa á sínu græna eyra yfir vetur, vor og sumar með það í huga að leggja þeim mun harðar að sér þegar haustið er gengið í garð? Það væri nú kyndugt að ætla að ráðast með offorsi á garðana og akrana ef engu hefur verið þar sáð! Hið sama gildir fyrir námsmanninn. Ekki stoðar það að láta bækurnar liggja óhreyfðar og námsefni ólesið með það að marki að mæta í svakastuði í prófið og ætla að leggja alla orkuna í að svara spurningum úr námsefni – sem aldrei hefur verið lesið og lært.

Þetta er undirtónninn í boðskap Krists til okkar á þessum haustlega sunnudegi. Boðskapur hans strýkur okkur stundum um vangann í mildi sinni og takmarkalausum kærleika til okkar syndugra manna. Hann hefur margsinnis sýnt okkur fram á það að Guð fer ekki í manngreinarálit og þegar við mætum lausnara okkar í kærleika og auðmýkt verða syndir okkar léttvægar í augum Guðs sem tekur við okkur inn í ríki sitt. Hversu mikil blessun er að eiga slíkan fjársjóð í hjarta sínu sem trúin er?

Þannig segir í Davíðssálminum sem hér var lesinn:

Stöðugt vonaði ég á Drottin og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.

Í Biblíunni eru þessar gjafir Guðs kallaðar náð. Það er náðin sem mætir okkur ný á hverjum degi og við finnum það hvernig birtir í lífi okkar þegar við tökum við henni. En þessar gjafir eru á margan hátt eins og gjafir jarðar. Þar sem engu er til sáð verður ekkert uppskorið.

Lögmálið nær upp til himna

Þess vegna standa orð Jesú í guðspjalli dagsins sem hörð áminning til okkar manna að lögmál lífs og jarðargróðurs geta líka teygt sig upp til himna.

Annað hvort er tréð gott og ávöxtgurinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.

Hið sama á við um tungu okkar – orðin sem við flytjum spretta af gnægð hjartans.

Já, þegar Kristur talar um orðin okkar þá spyr hann ekki bara hvernig þau hljóma heldur horfir hann dýpra og lítur niður í þann jarðveg þaðan sem orðin spretta. Er hann ríkulegur og hefur honum verið vel sinnt? Eru orðin okkar með öðrum orðum til uppbyggingar? Græða þau og styrkja? Veita þau hlýju og vernd? Eða spretta þau upp af örfoka melum þar sem engu hefur verið sinnt og ekkert fær þar vaxið nema þyrnar og illgresi?

En jafnvel þótt við hallmælum mönnum og jafnvel sjálfum frelsaranum, veitist okkur náð Guðs til fyrirgefningar. Jesús hins vegar setur mörkin við þá sem hallmæla heilögum anda.

Með því er átt við þá sem hafna þeirri gjöf Guðs sem fyrirgefningin er. Heilagur andi starfar mitt á meðal okkar. Hann er að verki þegar við söfnumst saman í nafni Krists. Þar miðlar hann gjöfum sínum til þeirra sem við þeim taka. En stundum erum við of plássfrek, hávær og skeytingarlaus til þess að geta tekið við náðargjöfum Guðs. Við formælum því sem gott er og veitir okkur hinar dýrmætu gjafir.

Þá verður uppskeran okkar rýr. Við stöndum í berangri svartra sanda þar sem ekkert grær og engu verður safnað í geymslur og hlöður.

Valkosturinn er okkar. Lífið er ekki léttvægt, kæru vinir. Nú er haustið runnið upp enn eitt skiptið og við finnum hvernig gangur náttúrunnar fylgir þeirri forskrift sem lífinu er sett. Lögmálin blasa við okkur hvert sem litið er. Í litunum laufblaðanna, í oddaflugi gæsanna, í erli smáfuglanna í görðunum okkar. Lögmálið teygir sig inn í hjörtu okkar og við erum minnt á það að nýta vel þær stundir sem okkur eru gefnar. Og uppskera svo ríkulegar gjafir Guðs þegar hinn sanni tími uppskerunnar rennur upp og við mætum skapara okkar.