Fagna ekki tárin?

Fagna ekki tárin?

Nú eru kveðjustundir í veröldinni. Á flugvöllum og brautarstöðvum. Við útidyr. Á sjúkrahúsum. Við dánarbeð. Fólk faðmast og kyssist. Það er hvíslað kveðjuorðum, blessunaróskum, ástarjátningum. Það er skipst á gjöfum og höndum veifað. Og það er grátið. Sumir kveðjast tímabundið. Aðrir endanlega. Vinirnir taka margt með sér þegar þeir fara. Þeir taka eitthvað úr brjóstum okkar.

[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Jóh.16.5-15

Nú eru kveðjustundir í veröldinni. Á flugvöllum og brautarstöðvum. Við útidyr. Á sjúkrahúsum. Við dánarbeð. Fólk faðmast og kyssist. Það er hvíslað kveðjuorðum, blessunaróskum, ástarjátningum. Það er skipst á gjöfum og höndum veifað. Og það er grátið. Sumir kveðjast tímabundið. Aðrir endanlega. Vinirnir taka margt með sér þegar þeir fara. Þeir taka eitthvað úr brjóstum okkar. Þeir standa upp úr sætum sínum og þó að þeir skilji eftir hita á áklæðinu, ljúfan yl, óm af rödd, daufa mynd og fjarlæga angan, er hluti af okkur farinn með þeim. Við finnum að eitthvað tæmist inni í okkur.

Það eru kveðjustundir og út um allan heim eru yfirgefnar manneskjur sem fylgjast með dyrunum lokast. Eftir stöndum við ein. Í rigningunni. Á götuhorninu. Við rúmið.

Þetta er einmanaleikans heimur. Þetta er heimur yfirgefinna barna, vonsvikinna elskenda, sundraðra fjölskyldna og munaðarlausra gamalmenna. Þetta er heimur skipbrotsmanna, sem ráfa einir um fjörurnar og útilegufólks, sem leitar skjóls í rokinu. Þetta er miskunnarlaus og grimm veröld þar sem alltaf er verið að taka eitthvað frá okkur. Og alltaf verið að skilja okkur eftir. Við erum eina blómið í melnum. Við erum fuglinn sem um haustið varð viðskila við hina. Við erum eina fönnin í fjallinu. Tárið staka á kinninni.

* * *

Sumardagur í Mývatnssveit. Mergð túrista í veitingasölunni. Hamborgarar snarka á grilli og gosvélar suða þegar djúpur dynur berst utan af þjóðveginum. Stórt og klyfjað mótorhjól rennur í hlað. Ökumaðurinn gengur inn, leðurgalli fellur þétt að stæltum karlmannslíkama og hjálmurinn er tekinn niður á miðju gólfi. Suðrænir lokkar falla niður á breiðar herðar og brún augu koma í ljós undan hlífðargleraugunum. Íslensku konurnar í flíspeysunum gleyma rækjusamlokunum sínum meðan þær horfa opinmynntar á það sem stendur þarna í háum stígvélum. Maðurinn litast um og tekur stefnuna á kortasíma. Velur númer og þegar ansað er hinumegin hrópar hann: "Mamma!" "Mamma," segir hann og gervöll Ítalía hljómar í áherslunni á fyrra atkvæðinu. Hann segir þetta eina orð svo innilega og undurblítt og af svo mikilli gleði og feginleika að manni finnst að þessi sonur þurfi ekki að hafa þetta símtal lengra til að segja mömmu sinni það sem segja þarf alla leið frá Íslandi.

Mamma er alþjóðlegt orð. Mamma er eitt það fyrsta sem við segjum. Mamma er orðið sem barnið notar til að brjótast út úr einsemd sinni. Mamma er viðbrögðin við rofi naflastrengsins. "Mamma," segjum við til að vera ekki ein, þegar við þörfnumst annars. Mamma er ekki bara orð. Hver stafur þess er þrunginn eðlislægri þrá. Það er ákall. Mamma er heil bæn. Mamma er skilgreining sem segir meira en þykkar bækur um stöðu mannsins í tilverunni, það ásigkomulag hans, að hann getur ómögulega verið einn og að hann er upp á aðra kominn. Mamma er stórfenglegt orð og sú manneskja sem því er sæmd ber fallegasta og þyngsta titil veraldarinnar.

* * *

Við hrópum á Guð. Hvert er hann farinn? Af hverju skilur hann okkur eftir? Ein og agnarsmá undir ómæli himinsins. Við viljum endilega sækja hann upp í þennan stóra himin eða niður í myrk undirdjúpin. Margháttað trúarbrölt mannkynsins lýsir þessari áráttu okkar. Stundum er það ekki annað en fálmkennd sorgarviðbrögð þess sem hefur misst Guð og er í einsemd sinni að reyna að sækja hann. Með heitum bænum, seiðandi söngvum, tilkomumiklum byggingum og þróttmiklu starfi. En Guð verður ekki sóttur og við erum hrygg, eins og lærisveinarnir í guðspjalli dagsins. Það er ekki hægt að sækja Guð, því hann er ekkert farinn. Hann er hjá okkur, er okkur nær en okkur grunar. Hann er í raun sjálfum okkur næstur. Hann er hjá okkur á svo róttækan hátt að við týnum honum auðveldlega ef við förum að leita hans. Og þá er hann samt ekki farinn.

Hann er kominn, Andinn, Huggarinn, Hjálparinn, sem Jesús lofaði lærisveinunum. Guð er meira en faðir og sonur. Guð er meira en dómur og endurlausn. Guð er nánd. Guð er andi. Og þannig er hann lagður okkur í brjóst, nær og innar en krossmarkið sem við gerum þegar við signum okkur.

* * * Eftir kveðjustundina hefst glíman. Verkafús og kankvís dagurinn býður okkur góðan sig sjálfan þegar næturhúmið hopar. Við fylgjum honum hikandi því við þekkjum hann ekki. Hvern morgun hittum við nýjan. Hvern morgun þurfum við að taka áhættu. Hvern morgun göngum við til þess ófyrirséða. Við sjáum svo stutt, mennirnir. Oftast ekki lengra en sem nemur eigin augnhárum. Við erum kvíðin og áhyggjufull. Treystum ekki lífinu. Framvindunni. Örlögunum. Og þurfum að ganga til móts við þetta allt á lélegum gúmmískóm. Mikið vildum við stundum að við værum betur skóuð. Sæum lengra. Vissum meira. Hægt væri að svipta hulunni af framtíðinni. Til að við gætum sparað okkur eitthvað af labbinu. Forðast keldurnar og pyttina.

"En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann," segir Jesús í guðspjallinu. Og við höldum að andi sannleikans sé kominn til að finna fyrir okkur stystu leiðina og þá greiðustu. En Andinn velur sína vegi. Oft óvænta. Eiginlega alltaf óvænta, því hann er aldrei okkar eign. Hann er ekkert æpodd sem spilar bara uppáhaldslögin okkar. Við forritum hann ekki. Hann blæs þar sem hann vill. Og næst þegar þú ert kominn á kaf í fúadýið skaltu hugsa hvort verið geti að Andinn hafi leitt þig þangað og sannleikurinn sé mögulega einhvers staðar í foræðinu - áður en þú kallar á reipið. Eða þegar þú hreykir þér á hólnum. Líttu niður og athugaðu hvort Andinn sé nokkuð að benda þér að stíga niður til sín - áður en þú biður um básúnuna og að kveikt sé á kösturunum.

* * *

Á vissan hátt er hver guðsþjónusta kveðjustund. Þegar organistinn byrjar eftirspilið og dinglarnir stíga lokadansinn í klukkunum er þessari stund hér lokið. Við fæðumst út úr kirkjuhúsinu og göngum til veruleikans. Við blasir Pollurinn og miðbærinn. Það er fólk í kirkjutröppunum og bílar leggja í Gilið. Eiginlega er það stílbrot að kveðja prestinn við kirkjudyr áður en við leggjum í gilin okkar. Það er nefnilega búið að kveðja okkur. Við vorum blessuð. "Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið." Með þessi orð í eyrunum, með andlit Guðs yfir okkur og náð hans og frið í hjörtunum göngum við til atburða sem verða okkur til happs eða harms.

Og allt um kring er fólk ráfandi um fjörurnar. Það leitar skjóls í rokinu. Er einmana og yfirgefið. Í rigningu. Á götuhornum. Þú ert ekki eina blómið í melnum. Það urðu fleiri fuglar eftir en þú. Stirnir svo ekki á aðrar fannir þarna í fjallinu? Og fagna ekki jafnvel tárin, þegar þau hittast á kinninni?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.