Busl, börn og Bethesda

Busl, börn og Bethesda

Vatn nærir okkur, heldur okkur hreinum, læknar og líknar. Vatn er undirstaða lífsins á jörðinni og sjálf erum við vatn að sjö tíundu hlutum. Það er ekki laust við það að maður upplifi þessa fljótandi vídd í sjálfum sér og tengslin við náttúruna og almættið þegar maður hlustar á busl og gleði við Eyrarvatn.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I. Varla er hægt að ímynda sér fegurri haustdaga en daga síðustu viku. Tveimur af þessum yndislegu dögum varði ég í Vatnaskógi með fermingarbörnum komandi vetrar. Haustlaufið skartaði sínum fegurstu litum í rauðu, brúnu og grænu og þegar rútan hafði silast upp brekkuna yfir í Svínadalinn tók Eyrarvatnið á móti okkur í allri sinni dýrð. Veðrið var stillt í vikunni og þess venga gátu þeir krakkar sem vildu farið út á árabát, hjólabát eða kanó, og sum hver í fyrsta sinn á ævinni.

Það er eitthvað stórmerkilegt við vatn og vatnshljóð. Við erum svo rík af hreinu vatni á Íslandi að við gleymum stundum að veita því eftirtekt og dást að því. Og samt er eitthvað svo róandi að vera nálægt vatni, horfa á síkvikt vatnið, finna með höndum og fótinn iðuna í ám og vötnum. Við njótum þess að drekka vatn þegar við erum þyrst og það er gefandi að vökva skrælnaða jörð að liðnum heitum sumardegi. Vatn nærir okkur, heldur okkur hreinum, læknar og líknar. Vatn er undirstaða lífsins á jörðinni og sjálf erum við vatn að sjö tíundu hlutum. Það er ekki laust við það að maður upplifi þessa fljótandi vídd í sjálfum sér og tengslin við náttúruna og almættið þegar maður hlustar á busl og gleði við Eyrarvatn.

II. Guðspjall dagsins gerist við rennandi vatn, vatn sem engill Drottins hreyfir við Betesdalaugina í Jerúsalem. Í sumum handritum er sagt frá hræringu vatnsins þegar engillinn kemur niður og hreyfir það, en þessar línur um engilinn og lækningamátt hræringar vatnsins vantar í elstu og áreiðanlegustu handritin. Sagan segir frá lömuðum manni sem hafði legið lengi við laugina í Betesda. Hann hafði verið veikur í 38 ár. Hann hafði beðið lengi eftir tækifærinu til að drífa sig ofan í vatnið eftir að það hrærðist, en það var alltaf einhver annar á undan honum, einhver sem hafði meiri mátt í fótum og höndum en hann og gat nýtt sér vatnið. Og dag einn kemur Jesús til vatnsins samkvæmt guðspjallinu. Honum verður starsýnt á þennan veika mann sem fáir aðrir höfðu tekið eftir og hann spyr hann að því hvort hann vilji verða heill.

Þegar ég kem heim með hjartað fullt af birtu og hreinu vatn og glöðum krökkum frá Vatnaskógi og les þessi orð um veika manninn hjá lauginni í Betesda, þá fer ég að hugsa um allt það fólk sem ekki fær að njóta vatnsins. Fáir búa eins vel og vi hér í Grafarholtinu og Úlfarsárdal sem getum rölt yfir að Reynisvatni hvenær sem við viljum. Ég fer að hugsa um fólkið sem býr í þurrum löndum, fólk sem býr við mikla fátækt fjarri hreinum vatnsbólum, fólkið sem ekki hefur aðgang að vötnum, ám og fossum vegna þess að ríkt fólk er búið að kaupa upp bestu jarðirnar. Í fyrra komu gestir frá Úganda á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og heimsóttu söfnuðinn í Grafarholti og ég fór með þeim að skoða Gullfoss og Geysi. Þau höfðu aldrei farið að fossi og það var ekki vegna þess að það væru ekki stórfenglegir fossar í landinu þeirra, heldur vegna þess að það kostaði svo mikla peninga að fara að fossunum. Það er nefnilega ekki sjálfsagt að hafa aðgang að hreinu og streymandi vatni og fá að njóta þess að sulla í vatni án þess að borga krónu fyrir það.

Kannski erum við dálítið eins og fólkið sem getur alltaf farið ofan í laugina þegar vatnið hrærðist og þau eru eins og hinn lamaði maður sem ekki kemst í laugina vegna allra þeirra fjárhagslegu, landfræðilegu og stéttlægu hindrana sem lagðar eru í götu þeirra. Við erum ekkert merkilegra eða betra en þetta fólk, en samt búum við við aðstæður sem það getur ekki ímyndað sér nema í draumi. Og þess vegna eigum við að þakka fyrir vatnið okkar, blessa vatnið okkar sem við drekkum og njótum og gleðjumst yfir og buslum í. Og það getum við gert hvort sem okkur finnst veröldin leika við okkur að öllu leyti og allar stundir eða ekki. Kannski gæti ég bara hætt þessari prédikun núna og sent ykkur heim með þessa mynd um það hvað við eigum að vera þakklát fyrir vatn. En þegar Jesús kemur að Betesda lauginni þá horfir hann ekki bara á þau sem njóta vatnsins og hins sem þurfa að láta sér nægja að dreyma um það. Hann gengur til þeirra sem eru í síðarnefnda hópnum. Hann fer til mannsins sem aldrei komst neitt og hann segir: “Viltu verða heill?” Jesús lætur sér þannig ekki nægja í sögunni að vorkenna veika manninum og tala um það hvað hann eigi bágt, heldur gerir hann eitthvað í málinu, kemur veika manninum á fætur og lætur sér annt um það að hann lifi heilbrigðu, syndlausu lífi. Fyrst spurði hann manninn hvort hann vildi verða heilbrigður. Svo sagði hann við manninn að hann væri orðinn heill.

II. Vilt þú verða heilbrigð og heilbrigður? Nú ert þú orðin heil. Nú ert þú orðinn heill. Þessar skrýtnu setningar Jesú eru sagðar við laugina Betesda þar sem vatnið skvettist og hrærðist og síðan í helgidóminum. Og það er eitthvað ljómandi fallegt við það að tengja saman staðina tvo þar sem spurningunum var varpað fram, stað vatnsins og stað helgidómsins. Á fáum stöðum er vatnið eins áberandi þáttur í helgidómnum eins og einmitt í þessari kirkju, Guðríðarkirkju, þar sem laugarnar tvær í Liljugarðinum og Geislagarðinum ramma inn allt kirkjuskipið. Og svo stendur skírnarfonturinn við anddyri kirkjunnar og minnir okkur á að við erum heil vegna þess að við eigum Guð sem elskar okkur og vill hjálpa okkur í því að lifa góðu og heilu lífi. Skírnin er tákn um þessa elsku Guðs til okkar, elsku í vatni, elsku sem er yfir og allt um kring eins og Eyrarvatn á góðum degi í Vatnaskógi. Og í Jóhannesarguðspjalli er Jesús stundum kallaður lifandi vatn eða sá sem gefur lifandi vatn.

Pistillinn sem var lesinn fyrir okkur áðan úr Galatabréfinu orðar þessa hugsun um tengsl vatnsins, skírnarinnar og hins heilaga vel þegar Páll postuli segir:

Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. Í skírninni erum við gefin Guði sem hefur áður gefið okkur sig.

Við mætum hinu lifandi vatni þegar við horfumst í augu við það sem við gerum rangt og heyrum spurninguna og svarið, viltu verða heill? Viltu verða heilbrigður? Nú ertu heil. Nú ertu heill. Við erum heil, ekki vegna þess að við séum fullkomin, heldur vegna þess að Kristur lifir í okkur og nærir okkur með sínu lifandi vatni.

Og við nærumst af þessu vatni sem við erum skírð upp úr, vatninu sem er undirstaða alls lífs og allrar sköpunar. Við skírumst bara einu sinni, en við höldum áfram að mæta hinu lifandi vatni hér og þar á lífsleiðinni í hvert skipti sem við finnum Guð og þökkum Guði fyrir allt það sem við þiggjum og njótum.

Hið lifandi vatn er ekki bara fyrir þau sem geta komið sér ofan í Betesdalaugina og hafa aðgang að hreinu vatni og hræringum þess. Þannig er hið lifandi vatn og skírnin ekki eðlisólík hinu rennandi vatni í Betesdalauginni eða Eyrarvatninu. Táknin sem við lesum út úr vatninu, tákn hins heilaga er öllu heldur það sem gefur öllu vatni dýpt og merkingu, vekur okkur til meðvitundar um þau sem ekki eiga vatn og brýnir það fyrir okkur að koma þeim til hjálpar.

Hið lifandi vatn sem er Jesús Kristur er gersemi sem allt fólk má eiga og þakka og njóta, hvort sem það lifir við ríkidæmi eða fátækt, hvort sem það er þurrt eða rigningasamt í landinu þeirra, hvort sem fossarnir eru í einkaeign eða almenningseigu. Hið lifandi vatn spyr okkur hvort við viljum taka þátt og segir okkur heil og sendir okkur síðan af stað til að hjálpa öðru fólki að komast ofan í vatnið þegar það hrærist og lifa hinu góða lífi.

III. Ég stóð við bátaskýlið í síðustu viku og horfði á fermingarkrakkana sulla í vatninu. Það heyrðist busl og hlátur og köll, sumir óðu, aðrir réru og hjóluðu og enn aðrir príluðu upp á pramma. Náttúran umvafði okkur í allri sinni dýrð og það kom yfir mig einhver gleði yfir lífinu og tilverunni og öllu því vaxandi, spriklandi lífi sem við eigum í unglingunum okkar. Ég vona, kæru fermingarbörn, að þið hafið skemmt ykkur eins vel í Vatnaskógi eins og ég gerði og að þið komið heim með bjartar minningar af vatni, bátum og busli eftir þessa viku. Takk börn fyrir góða daga. Takk foreldrar fyrir góða og skemmtilega krakka Takk Vatnaskógur fyrir að taka á móti okkur Takk sóknarnefnd og héraðssjóður fyrir að hjálpa okkur að borga ferðina Og takk Guð fyrir skírn og fermingu, fyrir fallega haustdaga og lifandi vatn. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.