Með Jesú upp til Jerúsalem

Með Jesú upp til Jerúsalem

Samt skildu þau ekki til fulls hver hann var, ekki fyrr en eftir upprisuna. Það er einmitt það sem við höfum fram yfir þau, á þessum stað þar sem horft er fram til atburðanna í Jerúsalem. Við vitum að með þjáningum Jesú sem enduðu í krossfestingu hans var ekki öll sagan sögð.

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. Lúk 18.31-34

Nú förum við upp til Jerúsalem Nú förum við upp til Jerúsalem, sagði Jesús við þá tólf, það er lærisveina sína þá, nú förum við upp til Jerúsalem, segir hann við okkur hin fjölmörgu, lærisveina dagsins í dag. Kirkjuárið er ramminn um trúariðkun okkar, þetta dásamlega fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir því að við fylgjum Jesú á lífsleið hans, fetum leið guðspjallanna með innlifun í líf Jesú á hverri tíð. Og núna er tíð píslargöngunnar að renna upp, föstutíðin framundan með upphafi á öskudegi og passíusálmalesturinn hafinn í útvarpinu – umþenking guðrækileg Herrans Jesú pínu og dauða.

Ef Jesús að þér snýr Sá Passíusálmur sem hefur haft mest áhrif á trúarlíf mitt er tólfti sálmurinn, Um iðrun Péturs. Í sálminum á undan greinir frá þrefaldri afneitun postulans, sem Kristur vildi byggja kirkju sína á og áminning hins tvöfalda hanagals. Hanagalið minnti Pétur á aðvörun Jesú í aldingarðinum og vakti honum blygðun og beiskan grát. Í líkingu sr. Hallgríms er hanagalið samviskan, sem aðeins særir og kremur. Það er hins vegar hið ljúfa augnaráð Drottins sem vekur sanna iðrun - leysir, friðar og græðir særða sál:

Ef Jesús að þér snýr með ástar hóti, líttu þá hjartahýr honum á móti.

Gráta skalt glæpi sárt, en Guði trúa, elska hans orðið klárt, frá illu snúa.

Það var þeim hulið Uppreisn og fljótfærni Péturs kemur við sögu í frásögn Markúsar af orðum Jesú um þjáningu og líflát Mannssonarins, sambærilegum þeim sem við heyrðum í dag úr Lúkasarguðspjalli (og enn frekar orðunum í Lúk 9.21-27, sjá einnig Lúk 9.44-45). Hjá Markúsi er því lýst hvernig Pétur fór að átelja Jesú fyrir að tala um þjáningu, líflát og upprisu, en Jesús ávítaði hann og sagði þessi frægu orð: Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er (Mark 8.33, sbr. Matt 16.21-23).

Í guðspjalli dagsins er þessa atburðar ekki getið, heldur hins sem áður hafði komið fram hjá Lúkasi, að lærisveinarnir skildu ekki hvað Jesús átti við. Á þeim stað segir beinlínis (Lúk 9.45): Það var þeim hulið til þess að þeir gætu ekki skilið það. Þeir hvorki skildu né skynjuðu þann veruleika sem fram undan var og svo virðist að þeir hafi hreinlega ekki átt að skilja það. Enn var stundin ekki komin að leiða þá í allan sannleikann (sbr. Jóh 16.13), því andinn var enn ekki gefinn þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn (Jóh 7.39).

Að hugsa um það sem Guðs er Okkur finnst ef til vill að lærisveinarnir sem fóru með Jesú til Jerúsalem hafi haft margt umfram okkur. Þeir – og þau, því að konur voru vissulega einnig í þessum hópi, þó færri séu nafngreindar en karlar – umgengust Jesú dags daglega, drukku í sig orðin af vörum hans, urðu vitni að kraftaverkum hans. Samt skildu þau ekki til fulls hver hann var, ekki fyrr en eftir upprisuna. Það er einmitt það sem við höfum fram yfir þau, á þessum stað þar sem horft er fram til atburðanna í Jerúsalem. Við vitum að með þjáningum Jesú sem enduðu í krossfestingu hans var ekki öll sagan sögð. Dauðinn átti ekki síðasta orðið. Lífið hafði vinninginn – og hefur enn í dag.

Það er með því hugarfari, hugarfari upprisunnar, sem við sláumst í för með Jesú og lærisveinunum á för þeirra til Jerúsalem. Stundum er skilningur okkar takmarkaður, skýla yfir hjörtum okkar, eins og segir í 2. Korintubréfi (sbr. 2Kor 3.14-18). En þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt. Það er í fylgd með hinum upprisna og dýrlega Drottni, í anda Drottins, að við sjáum og skiljum, kannski fyrst svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en um síðir augliti til auglitis (1Kor 13.12). Já, sá sem gengur í myrkri og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn (Jes 50.10). Heilagur andi Guðs sviptir hulunni af skilningi okkar. Andi Guðs kennir okkur að hugsa um það sem Guðs er. Andi Guðs gefur trúna.

Lærisveinatunga, lærisveinaeyru Upphafsvers lexíu dagsins úr fimmtugasta kafla Jesaja (Jes 50.4-5) minna á hlut okkar í ferli trúarinnar. Trúin er að sönnu gjöf, það er Drottinn Guð sem gefur, vekur og opnar:

Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum. Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt svo að ég hlusti eins og lærisveinn. Drottinn Guð opnaði eyra mitt...

En við getum lokað á þessa gjöf, svæft hana, hafnað henni. Viðbrögð okkar skipta augljóslega máli:

og ég streittist ekki á móti, færðist ekki undan.

Streitumst ekki á móti, færumst ekki undan gjöfum Guðs, þiggjum bæði lærisveinatungu - að við höfum vit á að styrkja hin mæddu með orðum okkar - og lærisveinaeyra - að við tökum eftir eins og lærisveinar gera. Höfum opin okkar andlegu eyru og þiggjum þannig skilning á verki Jesú og vanda mannanna.

Þjáningar Jesú Í versunum áfram í lexíunni er spádómur um þjáningar Jesú, einn af nokkuð mörgum í Gamla testamentinu (Jes 50.6):

Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt, huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.

Á dögunum horfðum við sr. Birgir með fermingarbarnahópnum hér í Hallgrímskirkju á mynd, byggða á Jóhannesarguðspjalli. Þar koma berlega fram þær þjáningar sem Jesús Kristur leið okkar vegna og var mjög áhrifaríkt að sjá þær túlkaðar á sjónvarpsskjánum. Nútíminn er helst læs á myndir, frekar en texta, og kannski áttum við okkur betur á því hvað Jesús lagði á sig okkar vegna þegar við sjáum það með eigin augum, ef svo má segja.

Hallgrímur Pétursson nýtti sér líka ákveðið myndmál í Passíusálmunum, aldagamla innlifunaraðferð, sem byggir á því að slást í för með Jesú, ganga með honum píslarveginn, standa undir krossinum með Maríu, móður Drottins (Ps 37.8):

En þeir, sem Jesúm elska af rót, undir krossinum standa, Herrans blóðfaðmi horfa á mót, hvern þeir líta í anda. Trúar og vonar sjónin sett sár hans og benjar skoðar rétt. Það mýkir mein og vanda.

Með Jesú í lífi, dauða og upprisu Þessi er staða trúaðs manns, karls og konu jafnt, hjá Jesú, með Jesú í lífi hans, þjáningum og dauða – í nánd upprisumáttarins. Í þeirri nærveru verður jafnvel hið óskiljanlega skiljanlegt, hið hulda sýnilegt. Það sem í augum heimsins er merkingarlaust og heimskulegt verður að krafti og speki fyrir anda Guðs, eins og segir í pistli dagsins (1Kor 1.22-24): Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingjum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs

Og hinni særðu sál er endurómun orðanna í Jesaja 50.8-9 í áttunda kafla Rómverjabréfsins uppreisn æru og trausts:

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur.

Ó, Jesú, að mér snú Nú förum við upp til Jerúsalem. Gefum okkur þennan föstutíma sem framundan er til að fylgja Jesú á veginum, biðja hann um að opna innri augum sýn til himna, vekja eyra til eftirtektar, tungu til styrkjandi orða.

Segjum með séra Hallgrími (lokaversin í 12. Passíusálmi, sjá sálmabókina nr. 309):

Ó, Jesú, að mér snú ásjónu þinni. Sjá þú mig særðan nú á sálu minni.

Þegar ég hrasa hér, hvað mjög oft sannast, bentu í miskunn mér, svo megi eg við kannast.

Oft lít ég upp til þín augum grátandi. Líttu því ljúft til mín, svo leysist vandi.