Hallgrímsmessa

Hallgrímsmessa

Hallgrímsmessa var stefnumótandi. Í dimmum skugga heimsstyrjaldar var stefna mörkuð: um að reisa helgidóm og helga iðkun í minningu þess manns sem þjóðin mat mest sem andlegan föður og sálnahirði í sorg og gleði, um að ausa af lindum þess besta og fegursta sem andlegur arfur íslenskrar þjóðar geymdi, og veita frjómagni þess yfir þurrlendi menningar og samfélags.

Gleðilega hátíð, Hallgrímssöfnuður og allir hollvinir Hallgrímskirkju!

Gleðilega hátíð,

Texti þessa kvölds úr Hebreabréfinu hljómaði hér áðan: “Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” (Hebr. 13.7-10)

Þessi texti hefur jafnan fylgt þessum degi, 27. október. Árið 1942 kom hinn ársgamli Hallgrímssöfnuður saman til sérstakrar guðsþjónustu í Dómkirkjunni á ártíðardegi séra Hallgríms Péturssonar, en hann lést 27. október 1674. Afráðið hafði verið að hafa þann dag kirkjudag safnaðarins og minnast þar Passíusálmaskáldsins og safna fé til byggingar kirkjunnar sem söfnuðinum hafði verið falið að reisa í minningu hans. Þá var sungin sama messa og nú í kvöld, messa sem tekin hafði verið upp úr messusöngsbók þeirri sem Hallgrímur og samtíð hans notaði til að tilbiðja Guð. Séra Jakob prédikaði og þetta vers úr Hebreabréfinu var sungið: “ Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Hallelúja” Og svo voru sungnir sálmar og vers úr Passíusálmunum, eins og nú í kvöld. Hallgrímsmessa hefur síðan verið haldin með sama hætti nánast óslitið árlega á þessu kvöldi allt fram undir þetta. Sálmaskáldsins minnst og safnað var til byggingar kirkjunnar. Mér finnst að það ætti að vera metnaðarmál safnaðarins að halda Hallgrímsmessu í virðingar og þakkarskyni við skáldið, og þá sögu sem að baki er.

Hallgrímsmessa var stefnumótandi. Í dimmum skugga heimsstyrjaldar var stefna mörkuð: um að reisa helgidóm og helga iðkun í minningu þess manns sem þjóðin mat mest sem andlegan föður og sálnahirði í sorg og gleði, um að ausa af lindum þess besta og fegursta sem andlegur arfur íslenskrar þjóðar geymdi, og veita frjómagni þess yfir þurrlendi menningar og samfélags.

Mörgum var lengi í minni áhrifarík útimessa, sannkölluð eldmessa, sem haldin var hér á holtinu í ágústmánuði árið 1944. Innan um óhrjálega bragga og aðrar stríðsminjar hljómaði eldleg baráttuhvatning séra Sigurbjörns sem vitnaði í frásögnina af Nehemía, sem hvatti þjóð sína til að hefja endurreisn hinnar hrundu borgar með því að byggja musteri Drottins. Og þar segir: “Þá sögðu þeir: Vér viljum fara til og byggja! Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins.” Það var þörf brýningar þá, og lengi síðan, því bygging Hallgrímskirkju var umdeild, hún var sannarlega eitt af þeim deilumálum sem klauf þjóðina í andstæðar fylkingar. Margir misstu líka móðinn. Aðrir, Guði sé lof, margefldust við andstöðuna og lögðu sig enn meir fram í þágu hugsjónarinnar um Hallgrímskirkju.

Það voru margir sem vildu “fara til og byggja.” En lóðin lá ekki á lausu. Heimsstyrjöld geysaði, og hér voru herbúðir. Það fannst sumum eldhugunum lítið mál, en vígreif forystukona kvenfélagsins fór þess á leit við biskupinn og presta kirkjunnar að þeir skrifuðu Roosevelt forseta bréf og færu fram á að hann léti rýma þessar herbúðir! Einhverra hluta vegna treystu hin andlegu yfirvöld sér ekki til þess.

Þegar stríðinu lauk og byggingaleyfi var gefið var fyrsta skóflustungan að kirkjunni tekin í byrjun aðventu. Það var vonartákn, friðartákn. Þannig vil ég sjá Hallgrímskirkju, sem vonar og friðartákn. Ég minnist Hallgrímsdagsins fyrir hálfri öld. Kvenfélag Hallgrímskirkju, sem alltaf stóð fremst í flokki að fjáröflun til kirkjunnar, efndi til merkjasölu. Og við bræður vorum sendir út í hausthraglandann með merki, með mynd af líkani kirkjunnar, til að selja í hverfinu. Mér er í fersku minni móttökur þar sem greitt var fyrir merkið með brosi á vör og velvild. Ég man líka skammir og fúkyrði út í þessa framkvæmd, og sölumaðurinn litli hrökklaðist sneyptur burt, ábyrgur fyrir einhverri ægilegri svívirðu. Maður undrast nú sá tilfinningahiti og æsingur sem beindist gegn þessari framkvæmd, sem menn fundu allt til foráttu. Nú er Hallgrímskirkja stolt og prýði borgarinnar, og allir vildu Lilju kveðið hafa. Brýningin hér í útimessunni á Skólavörðuholti forðum var ekki aðeins um að reisa kirkjuhús, heldur reisa við borgina, fegra mannlífið, efla menningu og manndóm. Og það hefur ræst á Hallgrímskirkju. Áhrif hennar má víða sjá í menningu, list, kirkju og samfélagi. Guði sé lof fyrir það.

Svo kom að því fyrir tuttugu árum að dyrum þessa fagra helgidóms var lokið upp og hátíðarþröng og helgir hljómar fylltu tignarlegar hvelfingar Hallgrímskirkju. Vigdís forseti flutti ávarp, og eins kirkjumálaráðherra, Jón Helgason. Hermann Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar, sem lagt hafði líf og sál í þessa framkvæmd, bar krossinn sem lagður var á altarið og Pétur biskup hóf upp hendur sínar og helgaði þetta hús: Hér er Guðs hús, hér er hlið himinsins. Sannarlega er Drottinn á þessum stað! Langþráður draumur hafði ræst. Þetta var sannarlega ógleymanlegt andartak okkur öllum sem þar vorum.

Ég minnist daganna sem á undan fóru, það var sannarlega kapphlaup við tímann og æði tvísýnt. Skömmu áður var leiðtogafundurinn í Höfða. Þar lék Hallgrímskirkja lykilhlutverk. Það hefði verið vandkvæðum bundið að sjónvarpa beint frá fundinum út í heim, ef turnsins hefði ekki notið við. Og þá rifjaðist upp það sem réði því að turn Hallgrímskirkju var í upphafi hafður svo hár sem raun ber vitni. Því réði ekki tildur og hroki kirkjunnar manna, eins og stundum var látið heita, heldur krafa í forsögn hugmyndasamkeppninnar um Hallgrímskirkju, sem haldin var að frumkvæði Dómkirkjusóknarinnar og kirkjumála ráðuneytisins árið 1929. Þar var áskilið að kirkjan skyldi taka 1200 manns í sæti og hafa háan turn sem nýst gæti vegna væntanlegs víðvarps. Hljótum við ekki að undrast þá framsýni? Og látum það minna okkur á að kirkjan vill vera bandamaður þess besta sem tækniþróun og skynsemi mannsins áorkar til að bæta lífið, styrkja og efla.

Kvöldið eftir vígsluna var Hallgrímsmessa sungin í nývígðri kirkjunni. Þá prédikaði séra Ragnar Fjalar og tjáði gleði okkar yfir þeim langþráðu tímamótum sem vígsla kirkjunnar markaði. Þó var mikið eftir. Orgelið mikla, kirkjubekkirnir og prédikunarstóll komu á næstu árum. Áratugur leið áður en gengið var frá umhverfi kirkjunnar, það var lengi smánarblettur á borginni, nú er það sannkölluð borgarprýði. Ríki og borg og kirkja tóku höndum saman um að fullgera Hallgrímstorg og umhverfi helgidómsins. Það er þakkarefni. Nú eru vonir bundnar við það að sömu aðilar bindast samtökum um að ljúka viðgerð á turninum sem lengi hefur verið tímabær.

Áberandi þáttur í byggingu Hallgrímskirkju hefur verið hlutur almennings að fjármögnun. Ég minntist á Kvenfélagið, sem óþreytandi stóð að hverskonar fjáröflun, og lagði mikið að mörkum til búnaðar kirkjunnar, skrúða og prýði. Hollvinir Hallgrímskirkju hafa verið örlátir á gjafir og sáu til þess að byggingarsjóðurinn tæmdist aldrei alveg. Hann var reyndar eins og mjölskjóla og viðsmjörskrús ekkjunnar í Sarepta, sem sagt er frá í fyrri Konungabók, og aldrei þraut. Mér finnst að það hafi einmitt verið ekkjurnar og hin kyrrlátu í landinu sem reistu Hallgrímskirkju. Mér finnst það óumræðileg gæfa að hafa fengið á þjónustutíma mínum hér að taka á móti mörgu fólki sem kom með gjafir sínar, smáar og stórar, áheit, minningargjafir, kærleiksgjafir, til Passíusálmaskáldsins, til kirkjunnar, til frelsarans krossfesta og upprisna, í minningu ástvina sem birtu bar af minningu þeirra, til þess mikla Guðs og miskunnsama sem lífið gefur og alla gæfu. Sú blessun hefur verið yfir þessum helgidómi að bænir þess fólks hafa umvafið hann og borið uppi þá þjónustu fyrirbæna, boðunar og umhyggju sem hér hefur verið veitt. Það hefur verið óumræðileg gæfa að kynnast því og komast í snertingu við það. Guð blessi það og þau ótal mörgu, lífs og liðin, nær og fjær.

Í kvöld komum við saman til að minnast og þakka. Við viljum virða hvatningu postulans að minnast leiðtoga vorra sem Guðs orð hafa til vor talað, við blessum minningu hirða Hallgrímskirkju sem gengnir eru inn í lofsönginn á himnum, og þökkum þjónustu þeirra, og við blessum þá hamingjumenn aðra sem veittu forystu í málum þessarar kirkju og safnaðar. Guð launi það og blessi þá. Og við komum saman til að fagna yfir framtíð sem kristinn söfnuður hér í borg, framtíðarsýn til þess heims og lífs þar sem vilji Guðs er og ræður, hið góða, fagra og fullkomna. Hallgrímskirkja, þjóðarhelgidómurinn, er ekki aðeins minnismerki um dýrlegan mann, leiðtoga og hirði, sem lagði þjóðinni ljóð í munn og bæn á hjarta. Heldur lofgjörð til þess lausnara sem hann vitnaði um og er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Og áminning um að orð hans og vilji fái mótað samfélag og menningu. Þúsundir ferðamanna koma hér í kirkjuna, fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Það er mikið tækifæri til boðunar. Gleðilegt er líka að sjá það góða starf sem unnið er að því að rækta og treysta samstarf kirkjunnar og skólanna hér, og laða börnin hingað inn. Það er mikið þakkarefni og eins það hve margir eru reiðubúnir að leggja sitt að mörkum til þeirrar uppbyggingar með trúfesti sinni, bænalífi, helgihaldi, boðun og menningarstarfi. Guð launi og blessi það allt. Megi auglit hans vaka yfir Hallgrímskirkju og blessa íslenska þjóð. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Hallelúja.