Verk Heilags Anda

Verk Heilags Anda

Guðspjall: Jóh. 16. 5-15 Lexia: Jes. 42.8-16 Pistill: Jak. 1. 17-21

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að boða Akureyringum fagnaðarerindið um Jesú Krist úr prédikunarstól Akureyrarkirkju. Og það er einnig gleðilegt og góð tilbreyting fyrir kirkjukór Húsavíkurkirkju að fá að syngja hér í þessu fallega Guðshúsi.

Þessi kirkja er hús Guðs. Hér á Guð heima sagði mætur maður eitt sinn. Þessi orð hans síuðust inn í vitund mína með þvílíkum hætti að þau hafa ekki horfið þaðan aftur. Ég tel að það séu forréttindi að fá að vera Guðs barn og fá að ganga á hans vegum og lúta þeim sannleik sem Guð boðar í Jesú Kristi, sínum elskaða syni. Það er ekkert sjálfsagt mál að fá að vera barn Guðs. En Guð hefur í Jesú Kristi komið því til leiðar með því að gefa okkur anda sinn. En sá andi gefur okkur barnarétt. Í þeim anda köllum við "Abba", - faðir. Já, við eigum himneskan föður sem talar til okkar m.a. í gegnum orð sitt í Biblíunni. Þar sem og í skírninni og heilagri kvöldmáltíð mætum við hinum upprisna Jesú Kristi á sérstakan hátt og eigum samfélag við hann. Okkur býðst að eiga samfélag við lifandi Guð frá degi til dags.En höfum við sem skyldi nýtt þetta einstæða tækifæri lífs okkar? Höfum við opnað hjartadyr okkar og boðið Jesú inn?

Lærisveinar Jesú gerðu það. Þeir áttu auðveldara með það en við vegna þess að þeir höfðu Jesú fyrir augunum frá degi til dags í þrjú ár. Þeir hlustuðu á hann, horfðu á hann framkvæma undur og tákn í þrjú ár. En samt skildu þeira bara brot af því sem hann sagði og gerði. Hvað varð þá til þess að margt laukst upp fyrir þeim síðar varðandi persónu Jesú Krists og orð hans og gjörðir? Það var verk heilags anda. En guðspjall þessa Drottins dags fjallar einmitt um verk heilags anda, anda Guðs sjálfs.

Samkvæmt orðum guðspjallsins þá má gera sér í hugarlund hversu óttaslegnir og sorgmæddir lærisveinarnir urðu þegar þeir gerðu sér ljóst að þeir væru að missa Jesú. Þeir héldu það að minnsta kosti en Jesús sagðist þurfa að fara til hans sem sendi hann. Þetta áttu þeir afar erfitt með að skilja. En Jesús sagði þeim að þetta væri þeim fyrir bestu vegna þess að þegar hann færi burt þá myndi heilagur andi, hjálparinn koma. Þegar Jesús var í líkamanum þá gat hann ekki verið alls staðar með þeim. Þá gat hann ekki náð til huga og hjartna og samvisku allra manna alls staðar vegna þess að hann var bundinn tíma og rúmi. En andinn er ekki háður takmörkunum. Hvar sem maðurinn er þar er andinn með honum. Koma andans varð uppfylling eftirfarandi fyrirheitis Jesú Krists: "Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar". Andinn kom því til leiðar að menn geta átt ótruflað samfélag við Guð hvar sem þeir eru staddir. Og Andinn gaf og gefur hinum kristna predikara kraft og hann sér hið prédikaða orð bera ávöxt hjá þeim sem meðtaka það.Jóhannes guðspjallamaður segir að þegar heilagur andi komi þá muni hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Hvað á hann við með þessum orðum?

Í fyrsta lagi þá mun heilagur andi sannfæra fólk um synd sína.

Þegar gyðngar krossfestu Jesú þá trúðu þeir því ekki að þeir væru að syndga. Þeir trúðu því að þeir væru að þjóna Guði. En þegar sagan um krossfestinguna var síðar prédikuð af Símoni Pétri á Hvítasunnudag þá var sem stungið væri í hjörtu þeirra. Þeir gerðu sér þá allt í einu grein fyrir því að krossfestingin var mesti glæpur sögunnar og að synd þeirra hefði valdið henni. Hver er það sem gefur manninum skynbragð um eigin synd? Hver er það sem auðmýkir hann frammi fyrir krossinum?

Einu sinni var trúboði í índiánaþorpi að segja söguna af Kristi með hjálp skuggamynda sem varpað var á hvítan vegg í einu þorpshúsi. Þegar myndin af krossinum var sýnd þá steig einn indíáni fram eins og hann gæti ekki að því gert: "Komdu niður", hrópaði hann. "Ég ætti að hanga þarna, ekki þú". Hvers vegna ætti ásjóna manns sem krossfestur var sem glæpamaður í Palestínu fyri tvö þúsund árum að snerta við hjörtum fólks í gegnum aldirnar og enn þann dag í dag? Þetta er verk heilags anda.

Hann er að kalla fólk um víða veröld til iðrunar og yfirbótar. Margir lifa í dag án samfélags við Guð og vita ekki að Guð hefur fyrirgefið þeim syndir þeirra í Jesú Kristi. Í dag lifa margir við áþján syndarinnar t..d. biturleika. Biturleikinn í garð náungans, Guðs og þjóðfélagsins getur grafið um sig djúpt í afkimum sálarinnar. Heilagur andi vill kalla þennan biturleika fram á yfirborðið og taka hann burt úr sál og lífi viðkomandi manneskju. Margir hafa upplifað þannig kærleika Guðs sem breiðir yfir allan biturleik og tekur hann burt. Guð gefur manninum þannig kærleika í staðinn fyrir biturleikann sem hann tók burt.

Í öðru lagi þá mun heilagur andi sannfæra menn um réttlæti. Hér er átt við að menn verða sannfærðir um réttlæti Krists. Hvað er það?

Réttlæti Guðs er ekki það sama og réttlæti manna. Heimurinn segir: "Hatið óvin ykkar". En Guð segir í Jesú Kristi: "Elskið óvin ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur".

Jesús var krossfestur sem afbrotamaður. Það var réttað í máli hans og hann var fundinn sekur.Gyðingar litu á hann sem illan villutrúarmann og Rómverjarnir litu á hann sem hættulega persónu. Hann var dæmdur til þess að enda líf sitt á krossi. En það var skelfileg aftökuaðferð, mjög þjáningarfull. Þarna var Jesús settur í flokk með glæpamönnum og sagður vera óvinur Guðs.

Hvað breytti þeirri skoðun?

Hvað gerði það að verkum að menn sáu í hinum krossfesta manni son Guðs, eins hundraðshöfðinginn sá á föstudaginn langa. Það var verk heilags anda.

Og ég minni ykkur einnig á söguna af Sál sem ofsótti kristna menn á fyrstu árum kirkjunnar. En þessi Sál var eitt sinn á leið til Damaskus þegar hann heyrir einhvern tala til sín. "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?" Hver ert þú? , spurði Sál. "Ég er Jesús Kristur, sá sem þú ofsækir". Sál var þá sleginn niður af heilögum anda og mátti sig varla hræra. Hann heyrði orðin en skildi þau ekki. Þarna var komið að tímamótum í lífi hans. Þegar hann varð að trúa því sem hann gat ekki sannað og þegar hann varð að samþykkja þegar hann gat ekki skilið. Þetta var verk heilags anda. Við könnumst við þennan mann undir nafninu Páll postuli.

Það má undrum sæta að menn skuli setja traust sitt um alla eilífð á krossfestan gyðing sem sagður er hafa verið glæpamaður. En þetta er verk heilags anda. Það er hann sem sannfærir menn um hið hreina réttlæti Krists. Að baki þeirri sannfæringu liggur sú staðreynd að Jesús reis upp frá dauðum og fór til föður síns. Ég get sagt að það sé staðreynd að Jesús reis upp frá dauðum vegna þess að ég þekki áhrif upprisunnar á aðra. Ég sé að Jesús er að vinna í lífi fólks á allan mögulegan hátt hér á landi og um allan heim.

Í þriðja lagi þá sannfærir heilagur andi menn um dóminn.

Hvað gerir það að verkum að menn eru vissir um það að dómurinn er framundan? Það er verk heilags anda.

Það er hann sem gefur mönnum innri fullvissu um það að við munum öll þurfa að standa Guði reikningsskap. Þegar við horfum til krossins þá sjáum við að höfðingi þessa heims, djöfullinn hefur verið dæmdur og sigraður. Dauðans vald hefur verið brotið á bak aftur með sigrandi lífi Guðs í Jesú Kristi.

Það er einn hlutur eftir sem Jóhannes guðspjallamaður minnist ekki á. Þegar við sannfærumst um synd okkar, réttlæti Krists og dóminn sem framundan er, hvað gefur okkur þá vissu að í krossi Krists sé frelsun okkar fólgin og að í Kristi sé okkur fyrirgefið og að okkur hafi verið bjargað frá dómnum? Þetta er einnig verk heilags anda. Það er hann sem sannfærir okkur um að í þessum krossfesta manni getum við fundið frelsara okkar og Drottin.

Jesús leit svo á að heilagur andi sé andi sannleikans og að verkefni hans sé að færa mönnum sannleika Guðs. Þetta er á máli Biblíunnar kallað opinberun. Þegar Jesús var með lærisveinum sínum þá vissi hann að lærisveinar hans voru ekki tilbúnir til þess að taka á móti öllu því sem hann vildi segja þeim. Það er einungis mögulegt að segja manni það sem hann getur örugglega skilið.

Þegar stærðfræðikennari fer að kenna barni stærðfræði í fyrsta skipti þá setur hann ekki erfitt stærðfræðidæmi fyrir það. Hann reynir auðvitað að kenna því einfalda hluti sem barnið er fært um að læra. Það sama gerði Jesú þegar hann var að kenna lærisveinum sínum.

Það er enginn endir á opinberunum Guðs. Menn vilja stundum takmarka opinberun Guðs eingöngu við Biblíuna. Þeir segja að Guð hafi ekki talað síðan 120 e. Kr., þegar síðasta bókin í Nýja testamentinu var skrifuð. En andi Guðs er alltaf virkur, hann er alltaf að opinbera sig. Það er satt að Guð opinberaði sig á frábæran hátt í Jesú Kristi. En Jesús er ekki aðeins persóna í bók, hann er lifandi persóna í dag og í honum heldur opinberun Guðs áfram er hann starfar í gegnum mennina. Guð er enn að leiða okkur í allan sannleikann um Jesú og það sem hann segir. Hann er ekki Guð sem talaði til ársins 120 eftir Krist og er nú þögull. Hann er enn að opinbera mönnum sannleika sinn.

Ég vona að Guð sé farinn að tala til þín. Hvað rak þig til kirkju í dag? Þú berð e.t.v. harm í hjarta sökum ástvinamissis. Ég vona að þú kallir þá eftir friði Guðs sem er æðri öllum skilningi. Þú ert e.t.v. bitur og reiður út í einhvern. Þá á ég til eitt lausnarorð handa þér. Það er orðið fyrirgefning. Það er ekki auðvelt að fyrirgefa þeim sem hefur sært mann hjartasári en það er nauðsynlegt samt til þess að biturleikinn leggist ekki á sálina. Þá er gott að biðja góðan Guð að fyrirgefa manni syndirnar, létta af hjarta sínu og takast á við nýjan dag vitandi að náð Guðs er ný á hverjum morgni. Ég bið góðan Guð að blessa þennan söfnuð og megi hann úthella anda sínum yfir sérhvern safnaðarmeðlim og kalla hann til virkrar þátttöku í safnaðarstarfinu. Í Jesú nafni. Amen.