Hús og andi

Hús og andi

Ég spurði nýlega afgreiðslukonu í bókabúð í Svíþjóð að því hvernig stæði á því að svo mikil ásókn væri nú í sumarbústaði vítt og breitt í kringum stórborgirnar, eins og hún hafði tjáð mér. Hún svaraði að bragði að það væri vegna þess að fólk væri yfir sig þreytt á malbikinu, hávaðanum og hraðanum sem fylgir lífi í stórborg okkar tíma. Við fetum okkur hægt en ákveðið í þessa átt hér einnig.

Í textanum úr Gamla testamentinu sem lesinn var áðan segir:

Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim. Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð. Esekíel 36. 26-28

Þessi aldni texti sem hefur verið lesinn upp í margar aldir í samkunduhúsum og kirkjum vítt og breitt um heiminn á vel við á þessum tímamótum og þessum stað. Textinn dregur fram þá sýn að ekki sé sjálfgefið að við höfum hjarta af holdi og lifandi anda, heldur kunni hjarta okkar að vera sem steinn og andinn slokknaður í brjóstum okkar. Ætíð sé þörf á að biðja Guð um nýjan anda og nýtt hjarta, af því að við erum úr hans hendi, börn hans dýrmæt og undrasmíð. Sá styrkur og sú góða skapandi hugsun sem helgur andi gefur okkur kemur frá Guði og er gjöf er við tökum við opnum huga af hógværð, í trú og trausti, lítillát. Það er "andi sannleikans, sem mun sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur", eins og Jesús segir í guðspjalli þessa dags, fjórða sunnudags eftir páska.

* * *

Það er gleðiefni fyrir mig að fá að vera hérna með ykkur í dag, í þessu aldna guðshúsi sem í látleysi sínu og tign hefur staðið hér í byggðinni í Innri Njarðvík í 120 ár.

Ég hef oft áður stigið í þennan stól hér, árin þrettán sem ég þjónaði þessari sókn og nágrannasókninni í Ytri Njarðvík. Ég á góðar minningar héðan, og kynnist fólki sem unni þessari kirkju af heilum hug og lagði mikið á sig til að gera þessa litlu kirkju að stórum helgidómi. Hingað leitar fólk á gleðistundum við skírn, fermingu, hjónavígslu og á stundum hryggðar, við útför ástvinar. Aðrir koma hingað til einveru og bænagjörðar þar sem kyrrðin og helgi hússins hafa leitt hugann að dýpsta leyndardómi lífsins sem falinn er í hjarta Guðs.

Kirkjan hér stendur í miðjum kirkjugarði og svo hefur verið frá því elstu heimildir greina frá, í 800-900 ár. Kirkjan og garðurinn hafa alltaf notið þess að eiga þennan reit saman og birta hins himneska ljóss er skín frá altarinu hefur flætt um glugga og dyr og breitt birtu sína yfir grafreiti og blessað þá er kvatt hafa þennan heim. Þannig er það víða að kirkja er í miðjum garði. Ég er sannfærður um að kirkjugarðurinn hér hefur haft mikil áhrif á viðhorf fólksins til dýpri skynjunar á lífshlaupi okkar allra frá vöggu til grafar, ekki síst barnanna sem hér hafa leikið sér í næsta nágrenni og mætt fólki við gröf sinna nánustu.

Margur er elst upp í stórborgum erlendis hefur aldrei séð lík eða líkfylgd og varla gröf. Nú er kirkjugörðum komið fyrir í útjöðrum byggðanna, við deyjum á stofnunum fjarri heimilum okkar og sérstakar kirkjur og útfararstofur annast fyrir okkur umsjá allra hluta. Það á við á mörgum öðrum sviðum mannlífsins og er margt til farsældar fyrir okkur. Ekki skal framþróun og tæknin vanmetin og þessi kirkja hefur nýtt sér hana. Það vakti nokkra athygli á sínum tíma þegar byrjað var að sjónvarpa hér milli kirkju og safnaðarheimilis eins og gert er hér í dag. Átti sr. Páll heitinn Þórðarson þátt í að innleiða þá tækni á þessum litla stað. Hann kvaddi þennan heim skyndilega, maður í blóma lífsins, og hvílir hér í garðinum við hlið sóknarbarna sinna. Blessuð sé minning hans og allra annarra sem hér hvíla.

* * *

Garðurinn og þessa kirkja gætu sagt okkur marga og mikla sögu um einstaklinga, um þróun byggðar, um iðju og athafnir mannsins á rúmum hundrað árum. Þessi kirkja hér við sjóinn og kirkjuvíkina hefur ekki alltaf verið svo glæsileg sem raun ber vitni. Á tímabili var hún nánast að glata sínu hlutverki og var nýtt til margvíslegra annarra hluta en Ásbjörn bóndi Ólafsson hafði í huga og aðrir hér í sókninni sem komu við smíði hennar í upphafi. Kirkjan fékk sína endurreisn og fyrir tilstilli góðs fólks náði hún aftur að gegna þjónustunni við hið helga orð, veita styrk og alúð við lifandi og látna. Nýr kafli varð í sögu þessarar kirkju í kringum aldarafmæli hennar. Þá ákvað sóknarnefndin að ráðast í mikið þrekvirki sem var að endurgera kirkjuna eins og hún var, þegar hún var vígð sunnudaginn 18. júlí 1886, eða því sem næst. Enginn einn stendur að slíku þrekverki en varla held ég að sé hallað á nokkurn þótt sagt sé að Helga Óskarsdóttir, sem þá var formaður sóknarnefndarinnar, hafi verið hjartað að baki þeim kraftmikla slætti. Sóknin hér hefur ætíð átt kraftmiklar konur og skilningsríka eiginmenn sem einnig hafa lagt sitt að mörkum. Þar er safnaðarheimilið besti minnisvarðinn hinna síðari ára um dirfsku og kraft sóknarbarnanna hér.

Altaristaflan hér í kirkjunni sem er af krossfestingunni er sett inn í íslenskt landslag. Sagan segir að listamaðurinn, sem ólst hér upp fjarri foreldrum sínum hafi ekki átti góðar minningar héðan. Einhvern veginn finnst manni það skína í gegn í myndvali hans. En handan krossins má greina mikla birtu í mynd hans sem er í takt við hið heilaga orð er fjallar um hina himnesku birtu sem yfirsterkari er öllu myrkri.

Gamla altaristaflan sem hér var í kirkjunni við vígslu hennar var af skírninni, og er sú tafla glötuð eftir því sem ég best veit. Við hverja skírn er þess minnst að Guð sé með okkur alla daga allt til enda veraldar og hann muni aldrei yfirgefa þann sem til hans kemur. Svo segir hinn upprisni Kristur við lærisveina sína. Guðspjallstextar kirkjunnar sem lesnir eru árið í kring taka mið af sögunni um Jesú frá vöggu til grafar, til upprisu og nýrrar vonar um nýjan anda og eilífðina með Guði, skapara himins og jarðar. Saga Krists verður fyrst lifandi veruleiki fyrir okkur er við göngum honum við hlið og gerum sögu hans að okkar. Guðspjall dagsins staðsetur okkur eftir páskana, eftir krossfestinguna og upprisuna að dögunum fram að uppstigningunni og úthellingu heilags anda er tekur við á hvítasunnunni.

* * *

Saga þessi um hinn krossfesta og upprisna frelsara manns og heims á í vök að verjast og er ekki lengur sú er "gefur lífinu lit" eins og auglýsingin segir. Ég veit eiginlega ekki hvaða saga það er sem við miðum okkur við, hvaða lífsspeki og lífssýn gefur tóninn. Kannski er viðmiðun manneskju okkar tíma helst sú er verðbréfamarkaður birtir eða skjár sjónvarpsins sýnir okkur. Þannig virðist manni sem hin hörðu gildi sem möl og ryð eyða vera altaristafla nútímans. Þangað beinum við sjónum okkar dag hvern og beygjum okkur fyrir þeim boðskap, stundum full ótta, stundum full gleði og nýrrar vonar. Boðskapur textans frá spámanni Gamla testamentisins til sinnar þjóðar var að sú þjóð muni erfa landið sem gleymir ekki uppruna sínum, minnist samkomulagsins við skapara sinn og lausnara, um að hlýða boðorðum hans og varðveita orð hans. Svo verður einnig sagt um þessa byggð hér og um allar sveitir okkar litla lands. Hlutverk þessarar kirkju er það sama og ætíð að halda utan um þetta heilaga orð og hjálpa okkur til að beina huga og hjarta til himinsins til þess að finna þar hjartslátt sannleikans, tón hins sanna lífs um kærleika, réttlæti, frið og sátt við alla menn.

Ég spurði nýlega afgreiðslukonu í bókabúð í Svíþjóð að því hvernig stæði á því að svo mikil ásókn væri nú í sumarbústaði vítt og breitt í kringum stórborgirnar, eins og hún hafði tjáð mér. Hún svaraði að bragði að það væri vegna þess að fólk væri yfir sig þreytt á malbikinu, hávaðanum og hraðanum sem fylgir lífi í stórborg okkar tíma. Við fetum okkur hægt en ákveðið í þessa átt hér einnig.

* * *

Mikill uppgangur er hjá okkur og hér sem annars staðar í okkar landi má sjá merki um stórhug, uppbyggingu og miklar framkvæmdir til framfara og heilla fyrir íbúana. Ekki skal það vanmetið en aldrei má samt gleymast að maðurinn lifi ekki á brauði einu saman. Maðurinn lifir þar sem andi Guðs blæs okkur í brjóst hug til góðra verka, þar sem hjartað er uppfyllt af gæsku og fórnfýsi, þar sem fyrirgefningin er ríkur þáttur í mannlífinu, þar sem þess er gætt að ég er ekki steinn heldur lifandi hold, barn sem þroskast og dafnar meðal þeirra sem vilja hlusta á mína sögu og umvefja mig ást sinni og umhyggju.

Ég eins og aðrir eigum okkar gleðistundir og tíma áhyggna, ótta, vonbrigða og sorgar. Ef við leggjum þá sögu fram fyrir altarið, andspænis sögu Jesú Krists, skynjum við að okkar líf, okkar saga gleði og sorgar, er saga sem Guð hefur skapað með okkur og vill leiða allt til enda. Þá fyrst erum við á réttum stað með líf okkar, þeim stað þar sem orð hans er boðað og nærvera hans tilbeðin, þar sem við þráum að finna að hjarta okkar slær í takt við höfund lífsins og lausnara svo við og aðrir megum njóta til hinstu stundar. Megi þessi kirkja hér fá að gegna áfram því hlutverki fyrir mannlífið hér, unga sem aldna, um ókomin ár. Svo gefi okkur Guð, faðir, sonur og helgur andi. Amen.