Nóaflóðið og kross Krists
Við vitum öll að kross og upprisa Krists hefur ekki einungis miðlægt vægi í kristinni trú, heldur er kjarni hennar. Sá kjarni er útlagður í öllu lífi, boðun, starfi og dauða Jesú og er umfram allt opinberaður af Guði í upprisu Jesú Krist frá dauðum. Í og fyrir upprisuna greinum við fyrst hve afdrífaríkur – fyrir mann og heim – dauði Krist var og er. Upprisann lýkur upp fyrir okkur hvað fór fram krossinum.
Þrátt fyrir það eða einmitt vegna þess er í guðspjöllunum ekkert dregið úr raunveruleika þjáningar, ótta og dauðastríðs Jesú. Og það snertir okkur. Píslasagan hefur hér sína persónulegu vídd, en hún á einnig alheimslega eða – ef við slettum – kosmólógíska, hlið sem kallast á við sögurnar um syndafallið í 1. Mósebók sem sagan af Nóaflóðinu er hluti af.
Fyrirgefning og nýsköpun
Í Lúkasarguðspjalli er höfðað til hinnar alheimslegu vídd endurlausnarinnar þegar Jesús segir við ræningjann á krossinum: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís“ (v.43). Jesús er hér ekki bara vísa til handan verunnar, heldur til þess veruleika þegar maður og heimur hafa verið endurleystir til þeirra myndar sem Guðs ætlar þeim (sbr. 1 Kor 15.20–28). Í guðspjallinu er það undirstrikað enn frekar, en þar segir: „Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, því sólin missti birtu sína. En fortjald musterisins rifnaði í sundur í miðju.“ (v. 44-45). Greinilegt er af þessari lýsingu að Lúkas vill draga fram að atburðirnir snerta allan veruleikan, jafnt heim sem menn. En við viljum þrengja sjónarhornið og spyrjum: Hvernig tengist það, þeim sem þarna voru og þar með okkur?
Í þessu samhengi skulum við skoða nánar orð Jesú „Faðir, fyrirgef þeim, því vita ekki hvað þeir gjöra“ (Lk 23.34). Þessi orð Krists á krossinum vekja margar spurningar.
En til að byrja með vil ég geta þess að gríska sögnin οιδα (odia), hefur vítt merkingarsvið. Hún getur þýtt það að vita, skilja og þekkja, en líka að sjá eða hafa séð. Af þessu getum við ráðið að þeir sem Jesús talar hér um, skilja hvorki, né geta túlkað það sem þeir hafa gert og hafa fyrir augum. Hvað þá metið afleiðingar gjörða sinna. Við skulum því skoða þetta betur. Fyrir það fyrsta um hvaða aðila er Jesús hér að tala? Og í annan stað: Hvað er það sem þeir vita ekki?
Gjörð og ábyrgð
Þá er það fyrst: Við hverja á Jesú? Menn hafa átt í miklum erfiðleikum með að skýra út þessi orð. Á hann við gyðinga og forystumenn þeirra? Er Jesús að biðja Guð um að sjá í gegnum fingur sér vegna þess ódæðis sem þeir í fávisku sinni framkvæma? Þegar í fornkirkjunni sáu menn að þessi túlkun gæti varla staðist því – sögðu menn – ef Jesú hefði verið bænheyrður af Guði, – sem við verðum að ganga út frá – af hverju var Jerúsalem í kjölfar uppreisnar gyðinga 70 eftir Krist lögð í eyði af Rómverjum? En eyðingin var jafnt af gyðingum sem kristnum túlkuð sem dómur Guðs. Hér er því komið upp þverstæða sem Lúkas guðspjallamaður hefði vart látið standa í Guðspjalli sínu, en eins og við vitum var það skrifað eftir 70.
Aðrir litu svo á, – þá til að gera gyðinga eina ábyrga fyrir aftöku Jesú og höfnum á honum sem Messíasi, – að best vært i að sleppa þessum orðum í píslasögunni. Til eru handrit, – að vísu frekar ung – sem hafa þau ekki, einmitt til að skapa rými fyrir að andgyðinglegar hugsanir og áróður gegn gyðingum.
Þessi kenning stenst aftur á móti ekki nægir hér að huga að yfirskriftinni á krossinum: Jesús frá Nasaret Konungur gyðinga. Hún var rituð á hebresku – máli helgihaldsins, latínu – máli réttarfarsins og grísku – máli menningarinnar (Jh 19.20). Í yfirskriftinni er þannig dregið fram að fulltrúar alls mannkyns studdu dóminn yfir Jesú og framkvæmd hans. Þessi sýn er að finna í öllum ritum Nýja testamentisins. Hún er t.d. orðuð svo hjá Páli að syndin og dauðinn kom í heiminn fyrir Adam – sem þýðir maður eða mannkyn – en endurlausnin og nýsköpunin fyrir Krist hinn nýja Adam. „Því hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll. Því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs“ (Róm 5.15). Allt bendir þannig til að Jesú eigi við alla menn með orðunum. „Faðir, fyrirgef þeim, því vita ekki hvað þeir gjöra.“
Innan kristindómsins er vani að líta svo á að Jesú biðji hér sem hinn sanni æðstiprestur og leggi líf sitt í sölurnar fyrir okkur menn. Hugmynd sem höfundur Hebreabréfsins útfærir meistaralega í bréfi sínu (Heb 4.14–16; 5, 7–9;10.1–18), sem lesið var úr áðan.
Syndin og vanþekkingin.
En hvað á Jesú þá í annan stað við með orðum sínum „[…] þeir vita ekki hvað þau gjöra.“ Það sem þeir, þau eða við vitum ekki, snertir veruleika sem mjög erfitt er að koma orðum að. Því það tengist því hvernig eigi að orða, skilgreina eða meta stöðu og tilvist mannsins í veruleikanum. Í ritningunni er það jafnan gert með hjálp hugtakana synd og náð. Þess ber að gæta að þegar talað er um synd í ritningunni má líkja henni við stöðu einstaklingsins í samtímanum. Þar sem hann upplifir sig sem varpað inn í þverstæðufullan og firrtan veruleika. Hann er sjálfur hluti af honum en ræður lítt við. Þetta er gamalt vandamál og er að finna í ritningunni mjög áhugaverðar myndir sem vilja varpa ljósi á þessa tilvistarlegu stöðu mannsins.
Syndafallið og Nóaflóðið
Í kvikmyndahúsum borgarinnar er verið að sýna kvikmynd sem reynir að varpa ljósi á þessa stöðu einmitt með hjálp forsögulegs eða goðsagnakennds efnis sem er að finna í fyrstu 11 köflum og 22 kafla 1. Mósebókar. Í þeim er að finna fornt efni sem er allt frá því um 18 öld fyrir Krist. Það var aftur á móti 5 öld fyrir Krist tekið saman, stílfært og veitt það form sem blasir nú við á síðum ritningarinnar. Fræðimenn telja að hér hafi verið að verki prestarnir er unnu að endurbyggingu og þjónuðu Musterinu í Jerúsalem eftir heimkomu þjóðarinnar og herleiðinguna í Babýlon. Þessar frásögur endurspegla að mörgu leiti erfiða stöðu trúarsamfélags þeirra þá. Ég held að Jesú höfði einmitt til þessa efnis þegar hann segir „þau vita ekki hvað þau gjöra“. Við sjáum á því hve útlegginga saga þessa efnis er gömul og enn lifandi. Hugum aðeins að frásögunum.
Í ritningunni er ekki sagt af hverju syndin eða firring mannlegrar tilveru er? En í henni er aftur á móti leitast við að varpa ljósi á þessa stöðu mannsins. Það er gert með að draga upp myndir af veruleika sem við öll könnumst við m.a. í áðurnefndum frásögum. Veruleika syndarinnar eða firringarinnar er lýst með að sýna hvernig hún spillir sambandi manns og Guðs, manna innbyrðis og mannsins við umhverfi sitt og allan heiminn.
Í fyrstu sögunni af aldingarðinum í Eden, er greint frá falli mannsins eða Adam – sem þýðir maður – frá Guði. Fallið er að maðurinn vill verða eins og Guð án þess að hafa hugmynd um hvað í því fellst? Hann vill vera sjálfum sér allt og álítur í framhaldi af því, að honum séu engin mörk sett. Hann eigi rétt á öllu og rétt til að gera allt. Og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Í frásögunni er greint frá því hvernig maðurinn kalla bölvun yfir jörðina með þessari kröfu sinni og hvernig hún spillir öllum samböndum manna í milli, jafnt innan fjölskyldunnar og samfélagsins. Þrátt fyrir það víkur blessun Guðs ekki frá manninum.
Önnur frásagan greinir frá fjölskylduharmleik. Í henni er að finna viðvörunarorðin „Ef þú gerir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gerir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni“ (1M 4.7). Maðurinn svo að segja gefur sig aftur á móti syndinni á vald og tapar enn frekar áttum. Kain drepur Abel, en Guð dregur úr bölvuninni og gefur honum merki um að engin megi drepa hann.
Afleiðingar þessarar áráttu mannsins lita allt samfélagið eins og kemur fram í orðum afkomanda Kain, Lemek, í þriðju frásögunni en þar segir Lemek: „Menn drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu sem ég fæ. Verði Kain hefnt sjö sinnum þá skal Lemeks hefnt verða sjötíu sinnum sjö“ (1M 4.23–24).
Í loka sögunni fyrir syndaflóðið er greint frá því er englar kvænast dætrum manna. Hér er ekki verið að ræða hver má giftast og hver ekki, heldur verið að draga fram að sköpunin og þau lögmál sem hún lýtur eru að gefa sig. Stoðir veruleikans eru að bresta. Flóðið er afleiðing þess að Guð sleppir hendinni af manninum sem vill vera sem Guð án þess að hafa hugmynd um hvað það hefur í för með sér. Þar segir þar á einum stað „illska mannsins er mikil á jörðinni og allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ (1M 6.5). Hér er ekki átt við einhverja skipulagða illsku, mun fremur verið að vísa til hvernig maðurinn misnotar allt það góða sem hann á og veröldin hefur upp á að bjóða og lætur það snúast gegn sér. Og neitar síðan að horfast í augu við það.
Þessi frásögur eru ekki að lýsa einhverjum fornaldar fyrirbærum heldur veruleika sem blasir við okkur daglega. Hér er af nógu að taka. Nægir bara að huga að skýrslu sameinuðu þjóðanna um þau áhrif sem umhverfisspjöll mannsins hafa nú þegar á lífríkið og lífsmöguleika alls lífs á jörðu. Samt er ekki hlustað. Annað dæmi um almættis þrá mannsins er að einkalíf fólks er fótum troðið, ekki er bara réttlætt það að hlustað sé á öll samtöl og tölvusamskipti fólks, heldur aðgangur að öllu þeirra lífi. En blessun Guðs yfirvinnur alltaf bölvunina. Því í lok sögunnar af flóðinu segir Guð við Nóa að hann muni ekki sleppa taumnum af manninum „Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.“ (1M 8.22).
Blessun og bölvun
Kross Krists og upprisa hans, er einmitt túlkuð innan ritningarinnar í ljósi þessa fyrirheits. Þegar Jesús segir „Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra“ (Lk 23.34). Hér því meira á ferðinni en þegar Pétur spurði Jesú „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínu, […] Svo sem sjö sinnum? Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ (Mt 18.21–22). Líka meira en í boðorðinu um að elska óvini sína og að biðja fyrir þeim (Lk 6.27–28). Jesús vísar hér til þess sem koma mun. Í guðspjallinu snýr Jesús sér að illvirkjanum sem iðraðist og segir: „Sannanlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís“ (v.43). Hann talar hér um veruleika endurlausnarinnar þegar maður og heimur hafa tekið á sig þá mynd sem birtist okkur í hinum upprisna. Þetta eru orð sem eru sögð við okkur líkt og við ræningjann, mitt í okkar lífi sem er stundum mótað af erfileikum og þjáningu, en líka af von, gleði og þakklæti. Því Jesús veit og eins öll boðun hans og líf vitnar um að blessun Guðs yfirvinnur alla þjáningu og bölvun. Í þessari vissu segir Jesú síðan. „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.“ Þannig felur hann sig í dauðanum sama Guði og hann treysti í lífi sínu.(v. 46).