20+C+M+B+11

20+C+M+B+11

Börnin sem klæðast litríkum klæðum og búa sig ólíkum sérkennum hinna víðförulu tilbiðjenda í því skyni að gleðja fólk með söng sínum og samskotum til fátækra sameina á fallegan hátt táknin sem í stöfunum felast: Hina andlegu blessun og hjálp í líkamlegum efnum.

Víða í Þýskalandi og almennt í Mið-Evrópu tíðkast sá siður á þrettándanum að börn ganga hús úr húsi og safna aurum fyrir fátæka. Kallast þau stjörnusöngvarar, Sternsinger. Klædd sem vitringar, með kórónur eða vefjarhetti og skikkjur, sum dökk yfirlitum, önnur með stjörnu, syngja þau jólasöngva og kríta tákn á dyrastaf húsanna sem þau heimsækja. Táknin eru fyrri hluti ártalsins sem í garð er gengið, 20 að þessu sinni, að viðbættu samlagningarmerkinu, þá upphafsstafirnir C+M+B+ og loks síðari hluti ártalsins, núna 11. Þetta lítur þá svona út: 20+C+M+B+11.

Upphafsstafirnir þrír gætu táknað þau nöfn sem virtingarnir hafa fengið innan hefðarinnar, það er Kaspar, Melkíor og Baltasar. Þeir gætu líka verið stytting á latnesku orðunum Christus mansionem benedicat – Kristur blessi þennan dvalarstað. Blessun Krists Þetta er falleg hefð hjá vinum okkar í rómversk-kaþólsku kirkjunni og felur í sér margþætta skírskotun. Orðasambandið „blessun Krists“ kemur fyrir í Rómverjabréfinu, 15. kafla, versi 29, og virðist út frá samhenginu (v. 27) bæði vera átt við andlegra blessun og hjálp í líkamlegum efnum þegar postulinn segist koma með „blessun Krists í fullum mæli“.

Blessun Krists er sá veruleiki sem fólginn er í hinni drottinlegu blessun, sem var íhugunarefni nýársdags, og hvað getur verið máttugra veganesti inn í nýtt ár en varðveisla, náð og friður Guðs sem horfist í augu við börnin sín og lætur sér annt um þau eins og þau eru?

Víða prýða orðin „Drottinn blessi heimilið“ veggi í húsum þessa lands. Það er sama hugsunin og krítuð er á dyrastafi í Mið-Evrópu í fyrstu viku nýs árs, að lán og gæfa og heill Guðs vaki yfir hýbýlum okkar og fjölskyldum allt árið um kring.

Konungar úr austurátt En hvað með hina skýringuna – að stafirnir séu upphafsstafir vitringa úr austurátt? Ekki er vitnað til nafna vitringanna – eða heilögu konunganna eins og þeir eru víða kallaðir – fyrr en á 4.-5. öld hefðar okkar. Forn armensk sögn segir Kaspar hafa komið frá Indlandi, Melkíor frá Persíu og Baltasar frá Arabíu. Hvernig sem því er farið tákna vitringarir heiðna spekinga sem fyrir þekkingu sína og innsæi sáu tákn nýfædds konungs á himni og lögðu á sig mikið ferðalag til að votta honum virðingu sína. Frá honum þáðu þeir andlega blessun, hinir ríku og virtu frá hinu fátæka og smáa, og lögðu fram hjálp í líkamlegum efnum með gjöfum sínum.

Stafirnir CMB geta í mínum huga vel táknað hvorttveggja, upphafsstafi þessara fulltrúa mannkyns sem lögðu mikið á sig til að veita Jesúbarninu lotningu, og blessun Krists sem umlykur allt sem okkar er. Börnin sem klæðast litríkum klæðum og búa sig ólíkum sérkennum hinna víðförulu tilbiðjenda í því skyni að gleðja fólk með söng sínum og samskotum til fátækra sameina líka á fallegan hátt táknin sem í stöfunum felast: Hina andlegu blessun og hjálp í líkamlegum efnum.

Guði sé lof fyrir Jósef Í guðspjalli þrettándans (Matt 2.1-12), sem er undanfari guðspjalls dagsins í dag, sunnudags milli nýárs og þrettánda (Matt 2.13-15) segir frá leit vitringa frá Austurlöndum að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Sú leit bar þá til Heródesar konungs í Jerúsalem og vildi hann fyrir alla muni komast að því hvar barnið væri að finna í þeim tilgangi að fyrirkoma því. Honum varð ekki að þeirri ósk sinni því vitringarnir fengu bendingu í draumi og fóru aðra leið heim í land sitt.

Í guðspjalli dagsins heyrum við svo um vitrunina sem Jósef eiginmaður Maríu fékk í draumi og varð til þess að hann flúði með Jesú og Maríu til Egyptalands undan hinu illa tortímingarvaldi. Guði sé lof fyrir hinn trúfasta og hlýðna Jósef sem stóð vörð um frelsarann Jesú af myndugleik frá því áður en hann fæddist, eins og sagt er frá í 1. kafla Matteusarguðspjalls.

Um voðaverk Heródesar ætla ég ekki að fjölyrða í dag, en það er samt ekki úr vegi að rifja upp orð úr hugleiðingu á kyrrðarstund hér í Hallgrímskirkju í byrjun árs 2007 og eiga sér m.a. bakgrunn í 30. desember 2006:

Við sjáum grimmdinni víða stað. Barnamorðin í Betlehem eru því miður ekki eina dæmi sögunnar um slíka ómennsku. Enn þann dag í dag er börnum fyrirkomið – ekki bara á tímum stríðs og herskárra fylkinga... Og stríðsmenn sem kenna sig við réttlæti vilja hefnd, sjá það eitt að hefna smælingjanna, hengja illskuna, „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ (2Mós 21.24-25)... En barnið sem fæddist í Betlehem og komst lífs af vegna þess að Jósef hlýddi hinni undursamlegu bendingu í draumi bendir okkur á aðra leið. Hann sem er hinn eini fulltrúi gæskunnar sýnir okkur hvernig sigra má illskuna: „Þér hafið heyrt, að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina“ (Matt 5.38-39)...

Barnið sem fæddist í Betlehem hélt lífi vegna trúmennsku Jósefs sem lagði á sig hið erfiða ferðalag til Egyptalands með brjóstmylking og unga móður. Jósef gat ekki boðið þeim þau „skip eyðimerkurinnar“ sem hinir velstæðu vitringar stigu á í leit sinni að stjörnubarninu. En eins og þeir hlýddi hann hinu innra kalli og sýndi þar með frelsaranum lotningu sína. María gaf Jesú lífið í meðgöngu og fæðingu. Lífgjöf Jósef fólst í verndinni gegn ytri vá, varðveislu barns og móður á víðsjálverðum tímum.

Gjafir vitringanna Guðspjall þrettándans rís hæst í lýsingunni af því þegar vitringarnir sáu stjörnuna og glöddust „harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru“ (Matt 2.10-11).

Gjafir vitringanna eru tákn um lotningu þeirra. Eins og önnur blessun hafa þær bæði andlega og veraldlega merkingu. Því er stundum haldið fram að þessar verðmætu gjafir hafi haldið lífinu í litlu fátæku fjölskyldunni þann tíma sem hún dvaldi í Egyptalandi. Kannski hafa þær átt sinn þátt í því að Jesús hélt lífi og fjölskyldan gat snúið aftur til Ísraelslands eftir lát Heródesar. Gjafirnar voru því hjálp í líkamlegum efnum, svo enn sé vitnað í Rómverjabréfið.

Andlegt tákn En gjafirnar eru líka andlegt tákn, tákn um tilgang komu Jesú og tákn um tilbeiðslu okkar sem elskum hann. Gullið, hinn æðsti málmur, merkir konungdóm Jesú, reykelsið er mynd bænaþjónustunnar og bendir því á prestsdóm Jesú og myrran er tengd frelsara- og spámannshlutverki hans, en með myrru var líkami hans síðar smurður til greftrunar, svo sem siður var (Jóh 19.39). Allar tengjast gjafirnar græðslu- og læknishlutverki Jesú, því gull, reykelsi og myrra voru – og eru enn – efni notuð í lækningaskyni.

Öll eru þessi efni líka tákn um tilbeiðslu okkar, lotningu fyrir honum sem er konungur, prestur og frelsari. Í tjaldbúðinni í eyðimörkinni – og síðar musterinu í Jerúsalem – voru áhöldin og ljósastikan, þar sem tilbeiðslan fór fram, úr skíra gulli og sömuleiðis lokið á gullslegni örkinni sem geymdi boðorðin 10, grundvöll hins gamla sáttmála. Í 2. Mósebók kafla 25- 31 er þessu öllu lýst nákvæmlega og einnig sagt frá gullslegnu reykelsisaltarinu og heilögu smurningsolíunni, sem meðal annars var gerð úr myrru. Tilgangur alls þessa var að búa verðugan fundarstað Guðs og manns, umgjörð helgaða Drottni, þar sem Guð myndi mæta Móse og tala við hann um allt (2Mós 25.22).

Og hin nýja Jerúsalem, sem lýst er í Opinberunarbók Jóhannesar er „af skíra gulli, sem skært gler væri“ (21.18). Í sömu bók er einnig lýst hinu andlega ríkidæmi sem Jesús Kristur einn getur gefið: „Ég ræð þér að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur... Kauptu líka smyrsl á augu þín til þess að þú getir séð“ (OpJóh 3.18). Og á aðfangadagskvöld erum við minnt á mynd Opinberunarbókarinnar (5.8 og 8.3-4) af bænum hinna heilögu sem gullskálum fullum af reykelsi: „Lát mína bæn vera flutta fram fyrir þig sem reykelsi“ (Hátíðarsöngvar Bjarna Þorsteinssonar).

Við fæðingu Jesú færðist helgidómurinn gullni og dýri, sem bundinn var fyrst við tjaldbúðina og síðar musterið í Jerúsalem og ekki á færi venjulegs fólks að nálgast, inn á svið sem öllum er aðgengilegt. Þarna, við jötu barnsins sem kom í heiminn til að vera þeim sem þiggja vill leiðtogi, bænaráðgjafi og græðari andlegra og líkamlegra meina, getum við kropið með hirðum og vitringum og stjörnusöngvurum fyrr og síðar, umlukin sköpunarverki Drottins. Við veitum honum lotningu og þiggjum blessun hans á sálu og lífi í dag og alla daga. Christus mansionem benedicat.