Svo er Guði fyrir að þakka

Svo er Guði fyrir að þakka

Guðspjall dagsins í dag fjallar um þakklæti, gleði, trú og traust og lofgjörð. Kunnugleg hugtök sem tengjast tilefninu þegar 25 ára afmælis safnaðarins hér í Grafarvogi er fagnað. Til hamingju með árin 25 og allt það er gerst hefur og framkvæmt hefur verið á þessum aldarfjórðungi.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á 25 ára afmæli safnaðarins 14. sd. e. tr. 21. sept. 2014. Ps 136; Gal. 5:16-24; Lúk. 17:11-19.

Guðspjall dagsins í dag fjallar um þakklæti, gleði, trú og traust og lofgjörð. Kunnugleg hugtök sem tengjast tilefninu þegar 25 ára afmælis safnaðarins hér í Grafarvogi er fagnað. Til hamingju með árin 25 og allt það er gerst hefur og framkvæmt hefur verið á þessum aldarfjórðungi. Það fyrirkomulag sem hér er, kirkja, kirkjusel og 4 prestar í einni sókn hefur sett sinn svip á safnaðarstarfið og þjónustu kirkjunnar hér í hverfinu og gefið þeim sem hér þjóna og starfa tækifæri til að þróa starfshætti sem flestar sóknir landsins eiga ekki möguleika á.

Það er hollt fyrir okkur að rifja upp guðspjallið um hina 10 líkþráu sem mættu Jesú þegar hann kom inn í þorp nokkurt. Þeir báðu hann miskunna sér enda staða þeirra afleit þar sem þeir þjáðust af þeim sjúkdómi er hindrar öll mannleg samskipti. Hætta á smiti er mikil þegar holdsveikin er annars vegar og því voru slíkir sjúklingar útilokaðir frá mannamótum. Þjáning þeirra var því mikil, líkamlega, andlega og félagslega. Ekki bar enn á lækningu þegar þeir fóru að sýna sig prestunum eins og Jesús bauð, en þeir hlýddu samt, enda var þar heilbrigðisvottorð að fá, en ekki hjá lækni.

Fram kemur í guðspjallinu að þeir læknuðust á leið sinni til prestanna og einn snéri við til að gefa Guði dýrðina. Með öðrum orðum einn fór til baka til að hitta Jesú og þakka honum fyrir. Hann vildi bera fram þakklætið. Hinir gerðu það ekki en ekkert bendir þó til að trú þeirra hafi verið minni en þess eina. Þeir gleymdu hins vegar að bera fram þakklætið en það á að vera þeim sem trúa sjálfsagður hlutur. Við sýnum trú okkar meðal annars með þakklæti og gleði.

Að finna fyrir þakklæti og að sýna þakklæti er mikilvægur hluti mannlegrar tilveru. Það eins og annað hefur með hugsunarháttinn að gera. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að sú manneskja sem er þakklát er líklegri til að lifa í sátt við sjálfa sig og aðra en sú sem ekki er þakklát.

Stundum þarf mikið til að við finnum fyrir þakklæti. „Svo er Guði fyrir að þakka“. Þessa setningu höfum við oft heyrt og jafnvel notað hana sjálf. Hún heyrist oft og sést á síðum blaða eftir slys þar sem allt hefur endað vel. Hún heyrist jafnvel af munni fólks sem ekki flíkar trú sinni eða trúarskoðun. Þegar vel gengur er auðvelt að muna eftir Guði. Þegar illa gengur telja margir að Guð sé ekki til. Svo er þekkt að mannskepnan hefur ofurtrú á sjálfri sér þegar vel gengur og telur sig ekki þurfa að leita til æðri máttar.

Þegar gaus í Vestmannaeyjum fyrir rúmum 40 árum var farið að vera með kvöldbænir í ríkisútvarpinu. Nú er aðeins beðið einu sinni að morgni dags. Það sakna margir kvöldorðanna og vilja fá bænina aftur á dagskrá. Nú er aftur komið gos, sem hefur áhrif á daglegt líf fólks þó ekki sé enn mikil hætta á skaða fyrir líf og eignir. Þekkt er sagan af því þegar Skaftáreldar geisuðu og sr. Jón Steingrímsson bað heitt um hjálp Guðs þegar hraunflóðið stefndi á kirkjuna. Sú bæn var heyrð og hraunflóðið stöðvaðist og fór ekki á kirkjuna þar sem söfnuðurinn hafði komið saman.

Við höfum séð það síðustu vikur að þó þekking mannkynsins og geta hafi aukist mjög þá vitum við ákaflega lítið. Vísindamenn sem leggja nú nótt við dag að safna upplýsingum og auka þekkingu sína geta ekki gefið fullnægjandi svör við spurningum sem upp koma varðandi það hvað er á seyði undir jökli og hver framvinda verður. Sumt er á mannlegu valdi, annað ekki. Við verðum að vera auðmjúk fyrir náttúrunni og sköpunarverkinu. Það hefur áhrif að biðja, jafnvel fyrir því að hraunið nái ekki til byggða eins og Jón Steingrímsson reyndi eða að hraunið loki ekki höfninni, eins og Vestmannaeyingar reyndu og fyrir því að gos í og við Vatnajökul valdi ekki skaða á mannfólki eða skepnum. Það er hroki að taka ekki tillit til þess krafts sem býr í sköpunarverkinu og að halda því fram að við getum allt og vitum allt.

Í dag er minnst umhverfis- og loftslagsmála í kirkjum landsins og í þessum töluðu orðum stendur yfir loftlagsganga hér í Reykjavík. Markmið göngunnar er að knýja á um minni losun á gróðurhúsalofttegundum, en tilefnið er að á þriðjudaginn munu leiðtogar heimsins funda í New York um loftlagsbreytingar.

Það er margt sem gæta þarf að í heimi hér. Náttúruvernd er eitt, skilningur okkar á hegðun náttúrunnar annað. Virðing fyrir henni og gjöfum hennar skiptir líka máli. Við megum heldur ekki gleyma höfundi lífsins, skaparanum. Það var aðeins einn sem snéri aftur til að gefa Guði dýrðina segir í guðspjalli dagsins. Við getum tekið það til okkar. Við eigum að lofa þann Guð sem Jesús birti okkur og boðaði og ganga örugg til skyldustarfa okkar, ekki sem sjúkir einstaklingar heldur heilbrigðir. Það er nefnilega hægt að vera sjúkur þó maður sé ekki veikur. Það er hægt að vera svo neikvæður og forhertur að það hefti daglegt líf á einn eða annan hátt.

Líkþráu mennirnir 10 sem komu til Jesú voru í fjötrum sjúkdóms síns. Þeir trúðu á Jesú, treystu honum fyrir lífi sínu og að hann gæti gert þá heila. Þeir vildu líka vera vissir um að þeir fengju vottorð hjá prestunum sem vitnaði um það að þeir væru heilir og gætu tekið fullan þátt í þjóðfélaginu.

Sókn er landfræðilegt fyrirbæri. Hér í Grafarvogi var tekin sú ákvörðun að hverfið skyldi vera ein sókn. Kirkja var byggð sem heldur utan um alla starfsemina. Hingað kemur söfnuðurinn, til fundar við Guð sinn og nærist af orði hans og fær úrlausn mála sinna. Hinir tíu líkþráu komu ekki til Jesú. Jesús kom til þeirra. Og þannig er það einnig í dag. Jesús kemur til okkar með huggun í sorg, styrk í þrengingum, vegvísa þegar óvissan nær tökum á okkur, andlega næringu, sem skiptir líka máli í daglegu lífi okkar eins og sú líkamlega. Við getum eins og mennirnir líkþráu beðið hann um miskunn.

Einn snéri til baka til að bera fram þakklætið. Trúnni fylgir þakklæti og trúnni fylgja ávextir sem vitna um trú okkar. Í pistli dagsins eru þeir taldir upp, kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.

Gjörðir okkar mannanna vitna ekki alltaf um elsku okkar til Jesú. Ójafnvægi ríkir víða. Ófriður og styrjaldir, bort á mannréttindum, óábyrg umgengni við náttúruna, fátækt og skortur á kærleik. Hinir 10 líkþráu voru útilokaðir í samfélaginu sökum sjúkdóms síns sem var smitandi. Í okkar samfélagi hefur verið reynt að útiloka trú og kirkju frá hinu opinbera rými og hefur það birst í mörgum myndum. Ein er sú að banna Gídeonfélögum að gefa Nýja-testamentið skólabörnum á skólatíma. Annað er að reyna að taka bænahald af dagskrá útvarps allra landsmanna. Afleiðingar þessa eiga eftir að koma í ljós en líklegt er að undirstöður þjóðfélagsins verði veikari þegar vísvitandi er verið að útiloka einn þátt mannlegrar tilveru frá því að vera sýnileg í samfélaginu. Þá er hætta á að ávextir andans gleymist og við hættum að muna eftir þakklætinu sem er svo nauðsynlegur farangur á hamingjuleiðinni.

Ég óska Grafarvogssöfnuði til hamingju með árin 25 og vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við uppbyggingu safnaðarins og aðstöðunnar fyrir hann, fyrir framlag sitt til eflingar Guðs kristni í samfélaginu.

„Lofa þú Drottin, sála mín“ segir í lexíu dagsins. Af trúnni sprettur þakklætið, gleðin, traustið, lofgjörðin. Höfundur Davíðssálmsins sem er lexía dagsins ber fram lofgjörðina. Kristnir menn allra tíma bera fram lofgjörð og taka undir með skáldinu:

„Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til“.