Eins og fólk er flest?

Eins og fólk er flest?

Andi Jesú er hlýr og góður, umvefjandi og kærleiksríkur – hittir okkur beint í hjartastað og fyllir okkur af lífi, einstökum lífskrafti glaðra Guðsbarna. Og þess vegna erum við ekki eins og fólk er flest.

„Því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ Þannig segir í fyrsta Jóhannesarbréfi (5.4).

Er þetta ekki fallegt? Sérhvert barn Guðs sigrar heiminn. Og svo heyrum við í öðrum lestri sem líka tilheyrir þessum fyrsta sunnudegi eftir páska (Jes 43) orð Drottins: „Enginn hrifsar neitt úr hendi minni.“ Enginn hrifsar þig úr hendi Guðs, þig sem ert barn hans.

Beint í hjartastað Í dag halda vinir okkar í Hjálpræðishernum árlegan bænadag sinn fyrir börnum. Yfirskrift hans að þessu sinni er „Beint í hjartastað“ (e. Rigth at the Heart). Við erum hvött til að taka börnin okkur að hjarta, heima og í kirkjunni og hvar sem er, eins og Jesús Kristur hefur börnin sér við hjartastað, eins og Guð elskar hvert barn og okkur öll sem sín börn.

Svo var alþjóðlegur dagur einhverfunnar í gær, 2. apríl, með hvatningu um að klæðast bláu. Allan mánuðinn verður málefnið í brennidepli en þess má geta að eitt af hverju 88 börnum fæðist með einhverfu. Hjá drengum eru líkurnar fimm sinnum meiri en hjá stúlkum, einn á móti 54. Hafa ber í huga að einhverfa er fötlun, röskun á taugaþroska barna, ekki sjúkdómur. Það er því ekki hægt að lækna einhverfu en með viðeigandi þjálfun er hægt að finna leiðir til að auka lífsgæði og færni. Það er einkum á sviði félagslegrar færni og tjáskipta sem einhverfa hefur áhrif og áráttukennd hegðun getur fylgt röskuninni.

Á heimasíðu leikskólans Engjaborgar segir (http://engjaborg.is/index.php/302-althjodhlegur-dagur-einhverfunnar-blar-manudhur, lesið 2. apríl 2016):

Börn með einhverfu skynja veröldina á annan hátt en aðrir og mæta áskorunum á degi hverjum. Með því að vera meðvituð um vanda barnanna getum við haft áhrif á umhverfi þeirra og hjálpað þeim að takast á við hindranir sem okkur sjálfum gætu þótt lítilvægar en geta reynst þeim mikil þraut. Hafa ber í huga að einhverfa er mjög persónubundin og brýst út með ólíkum hætti. Þeir sem greindir eru með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir - líkt og allir í samfélaginu okkar.
Eins og fólk er flest - hvað er nú það? Þegar ég var barn heyrði ég stundum sagt: „Hann er nú ekki eins og fólk er flest.“ „Hún er nú ekki eins og fólk er flest.“ Ég man að ég velti þessu stundum fyrir mér. Hvernig er að vera „eins og fólk er flest“? Hvernig eru flestir sem ég þekki? Ja, eina sem þau eiga sameiginlegt er að þau eru manneskjur – og að þau eru margbreytileg. Öll þurfum við að anda og borða og drekka og sofa en að öðru leyti erum við bara mjög ólík, bæði að útliti og innra með okkur. Það er því ekkert til, að mínu mati, sem er að vera „eins og fólk er flest.“ Sem betur fer.

Börn og ungmenni og fullorðnir á einhverfurófi eru líka mjög mismunandi. Svona eins og fólk er flest. En það sem við getum gert er að taka þeim og hvert öðru af skilningi og umhyggju eins og frelsarinn sagði við okkur: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“ eða „gjöra“ eins og sagt var hér áður fyrr (Matt 7.12). Þegar – og ekki ef – við erum ekki eins og fólk er flest viljum við helst að við fáum að vera það sem við erum án þess að vera dæmd fyrir það. Það merkir ekki að við leggjum okkur ekki fram, notum margnotuðu afsökunina „Láttu mig vera, ég er bara svona“ til þess til dæmis að þurfa ekki að koma vel fram við aðra. En öll eigum við okkar takmarkanir og þurfum fyrst og fremst sjálf að lifa við það og gera okkar besta í öllum kringumstæðum.

Var Tómas tvíburi á einhverfurófinu? Í guðspjalli dagsins, Jóh 20.19-31, heyrum við um Tómas sem oft er gagnrýndur fyrir að efast um að Jesús hafi raunverulega risið upp frá dauðum. Einn vinur minn sagði mér um daginn frá algengu orðtæki í sinni sveit þegar hann var að alast upp fyrir einhverjum áratugum. Það var svona: „Þú ert eins og Tómas trúarlausi!“ og voru það ekki góð ummæli. Því hver vill vera eins og Tómas trúarlausi?

En í stað þess að einblína á það sem Tómas vantaði, það er skilyrðislausa trú, að „hafa ekki séð og trúa þó,“ eins og Jesús segir (Jóh 20.29) gætum við gert eins og vinir okkar í orþódoxu kirkjufjölskyldunni. Þar er lögð áhersla á það sem Tómas gaf. Tómas var nefnilega fyrstur til að játa Jesú Krist sem Guð og mann á sama tíma: „Drottinn minn og Guð minn!“ (Jóh 20.28) var játningin sem spratt alveg umbúðalaust fram úr huga hans og hjarta. Víst höfðu bæði Símon Pétur (Matt 16.16: „Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs“) og Marta (Jóh 11.27: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn“) játast Jesú á meðan hann gekk um grundu fyrir krossfestinguna en Tómas var fyrstur til að ávarpa Jesú Krist, krossfestan og upprisinn sem Guð.

Gjöf Tómasar Með hlutbundinni hugsun sinni og þörf fyrir að sannreyna hluti, í þessu tilviki upprisu Jesú Krists, fá fyrir henni áþreifanleg sönnunargögn (sjá naglaförin í höndum Jesú og setja fingur sinn í þau og leggja hönd sína í síðusárið, Jóh 20.25-27) gaf Tómas hinum lærisveinunum og okkur öllum stóra gjöf. Gjöfin er sú að við megum vera eins og við erum, líka í trú okkar á Guð. Sum okkar þurfa að sannreyna hluti, sjá Guð að verki, önnur hafa innlifunarfærni sem gerir okkur kleift að trúa þó við höfum ekki séð.

Mestu máli skiptir þó að Jesús segir við okkur öll: „Friður sé með yður!“ (Jóh 20.19, 21 og 26) og gefur okkur anda sinn til þess að við getum fyrirgefið hvert öðru syndirnar (Jóh 20.22-23). Einmitt núna er hann hér, mitt á meðal okkar, barna Guðs, gefur okkur sigur í hverri raun og andar á okkur þessum góða og skapandi anda sínum: „Meðtakið heilagan anda,“ segir hann og andar á okkur - og í okkur svo við getum verið trúuð saman og sigrað heiminn með þeim innri vitnisburði sem Guð gefur (1Jóh 5.12). Og andi Jesú er hlýr og góður, umvefjandi og kærleiksríkur – hittir okkur beint í hjartastað og fyllir okkur af lífi, einstökum lífskrafti glaðra Guðsbarna. Og þess vegna erum við ekki eins og fólk er flest.

Gleðilega gleðidaga.