Kraftaverk hvítasunnunnar

Kraftaverk hvítasunnunnar

Þetta lærum við að fyrirgefning syndanna er kraftaverk, verk heilags anda Guðs, æðri mannlegum mætti. En einmitt fyrir anda Guðs getum einnig við lifað í fyrirgefandi hugarfari...

Í bæn sem kennd er við móður Teresu segir:

Þarfnast þú handa minna, Drottinn, til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum? Drottinn, í dag vil ég gefa þér hendur mínar.

Þarfnast þú fóta minna, Drottinn, til að geta vitjað þeirra, sem einmanna eru og án vonar? Drottinn, í dag vil ég gefa þér fætur mína.

Þarfnast þú vara minna, Drottinn, til að geta talað til allra þeirra, sem þrá kærleiksríkt orð og viðmót? Drottinn, í dag vil ég gefa þér varir mínar.

Þarfnast þú hjarta míns, Drottinn, til að geta elskað skilyrðislaust sérhvern mann? Drottinn, í dag vil ég gefa þér hjarta mitt.

Þarfnast þú vara minna – Kraftaverk tungutalsins Þarfnast þú vara minna, Drottinn, til að geta talað til allra þeirra, sem þrá kærleika þinn... Á hvítasunnudag varð mikið undur, kraftaverk Guðs, þegar vinir hins uppstigna Jesú töluðu fagnaðarerindið um kærleika Guðs á tungum þeirra fjölmörgu Gyðinga úr dreifingunni sem saman voru komnir í Jerúsalem vegna hátíðarinnar sem þá stóð yfir. Það var heilagur andi Guðs sem kom þessu kraftaverki til leiðar, kraftaverki sem markaði upphaf útbreiðslu kristninnar til endimarka jarðarinnar. Þess vegna er hvítasunnan bæði hátíð heilags anda og einnig hátíð kirkjunnar, stofnhátíð gróskumestu grasrótarsamtaka heims, sem nú telja um þriðjung mannkyns.

Úthelling andans á hvítasunnudag sem gerði postulunum kleift að boða fagnaðarerindið á framandi tungu birtist með nokkuð öðrum hætti en sú gjöf andans sem greinir frá í síðari ritningarlestri annars hvítasunnudags og um ræðir á nokkrum stöðum í bréfum Nýja testamentisins einnig. Kraftaverk hvítasunnunnar var einstakt, til þess fallið að boða hina nýju trú fulltrúum alls mannkyns. Reyndar eru til frásögur um slíkt þann dag í dag, að Guð hafi gefið kristniboðum orð á heimatungu fólksins sem þeir voru að þjóna, án þess að kristniboðarnir vissu sjálfir hver boðskapurinn var sem kom af þeirra vörum.

Bænamál til uppbyggingar Hitt er algengara að málið sem heilagur andi gefur sé ekki þekkt tungumál heldur bænamál til uppbyggingar þeim sem fær það að gjöf og hinum sem heyra sé það útlagt, svo sem postulinn segir fyrir um (sjá 14. kafla 1. Korintubréfs). Um þennan mun á kraftaverki hvítasunnudags og þeirri gjöf andans sem lesa má um annars staðar í Nýja testamentinu ræðir trappistamúnkur sem heimsótti Ísland fyrir skemmstu, William A. Meninger, í bók sinni The Loving Search for God (New York 1994, sjá bls. 66-72). Í þessari aðgengilegu bók kennir faðir William um bæn hjartans, centering prayer, sem er að dvelja í elsku Guðs orðlaust utan eins orðs, ávarps til kærleiksríks föður. Hann segir tungutal – sem hann þekkir af eigin reynslu – birta hina orðlausu ást sálarinnar til Guðs, sem tungan tjáir upphátt án notkunar hins hefðbundna, vitsmunalega tungumáls.

Það er reyndar ekki alveg ljóst af þeim ritingarstað sem hér er til umfjöllunar (lokin á 10. kafla Postulasögunnar) hvort um var að ræða tungutal í merkingunni bæna- og lofgjörðarmál eða að fólkið mælti á tungu skiljanlega þeim sem á hlýddu. Allur þessi kafli er stórkostleg frásögn af frelsun ítalska hundraðshöfðingjans Kornelíusar og fólks hans og hvergi kemur fram að Pétur og hinir trúuðu Gyðingar sem með honum komu hafi átt í vandræðum með að tala við heimafólkið. En það má liggja á milli hluta því aðalatriðið er þetta: Af tungutalinu var öllum ljóst að heilagur andi Guðs var nálægur. Fólkið miklaði Guð og þó orðin hafi e.t.v. ekki verið skiljanleg hefur merking þeirra í hinu yfirnáttúrulega verið auðskilin trúuðu fólki. Atburðurinn allur var sterkur vitnisburður um nærveru Guðs, að heilagur andi væri kominn yfir fólkið. Og var þá ekkert sem gat varnað þeim skírnar. Drottinn opinberaði dýrð sína í þessu heiðna fólki með svo sterkum hætti að Pétur skildi loks að allir menn ættu jafnan aðgang að kærleikskrafti Guðs.

Samandregið má segja að tungutal, eins og það birtist í Nýja testamentinu og þann dag í dag hjá kristnu fólki í flestum kirkjudeildum um allan heim, hafi einkum tvennan tilgang: Að koma á yfirskilvitlegan hátt á framfæri skilaboðunum um óendanlegan kærleika Guðs til þeirra sem ekki skilja á annan veg og svo hitt, að byggja upp trú einstaklingsins sem gjafarinnar nýtur, móta persónuna í kærleika og gera hana færa um að lofa Guð án þeirra takmarkana sem mannleg hugsun setur. Þeirrar náðar hef ég notið og varðveiti sem eina af dýrmætum perlum míns persónulega trúarlífs.

Þarfnast þú hjarta míns - Kraftaverk fyrirgefningarinnar Þarfnast þú hjarta míns, Drottinn, til að geta elskað skilyrðislaust sérhvern mann... Það er merkilegt að skoða samhengið í þeim þremur ritningartextum sem okkur eru gefnir til íhugunar í dag. Allir gefa þeir skýrt til kynna samhengið á milli fyrirgefningar syndanna og þess að Guð birtir mönnunum sjálfan sig. Í Jesajatextanum (Jes 44.21-23) er talað um að Guð feyki burt afbrotunum, endurleysi og birti þannig dýrð sína:

Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi, syndum þínum eins og þoku. Hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig. Fagnaðu himinn, því að Drottinn hefur gert þetta, gleðjist, undirdjúp jarðar. Hefjið fagnaðaróp, þér fjöll, skógurinn og öll tré í honum, Því að Drottinn hefur endurleyst Jakob og birt dýrð sína í Ísrael.

Guð hefur feykt burt afbrotum þínum og mínum, endurleyst okkur og birt okkur dýrð sína. Eina rökrétta svarið er fögnuður, gleði, lofgjörð til Guðs í orði og verki – að ógleymdri hinni orðlausu tilbeiðslu sálarinnar frammi fyrir skapara sínum.

Í litlu Biblíunni og framhaldi hennar, Jóh 3.16-21, kemur fram að birting Guðs í Jesú Kristi er til frelsis, ekki dóms:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Svo elskaði Guð þig og mig að hann gaf okkur son sinn að við í trú á hann höfum eilíft líf og séum leyst frá glötun.

Og í Post 10. 42-48a er beint samhengi á milli ræðu Péturs um fyrirgefningu syndanna og þess að heilagur andi kemur yfir fólkið:

Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna. Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu.

Það er heilagur andi sem sannfærir um synd og réttlæti og dóm, heyrðum við lesið fyrir skemmstu (Jóh 16.8). Það er andi Guðs sem opinberar manninum stöðu hans, fær hann til að sjá sekt sína en gefur um leið gjöf réttlætisins í Kristi, færir fyrirgefingar- og endurreisnargjöf Guðs, hverjum sem þiggja vill. Og sú náð er svo yfirfljótandi að krafturinn streymir fram, kraftur Guðs í táknum og undrum, bæði fyrr og nú.

Þetta lærum við að fyrirgefning syndanna er kraftaverk, verk heilags anda Guðs, æðri mannlegum mætti. En einmitt fyrir anda Guðs getum við einnig lifað í fyrirgefandi hugarfari: Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum (Matt 6.12). Það sem manninum er ómögulegt, því getur Guð komið til leiðar.

Þarfnast þú handa minna og fóta minna – Kraftaverk kirkjunnar Þarfnast þú handa minna og fóta minna, Drottinn, til að geta hjálpað sjúkum og vitjað þeirra sem eru einmana... Tilurð kirkjunnar er sannarlega líka kraftaverk. Sama má segja um vöxt hennar og viðgang. Enginn mannlegur máttur gæti staðið að baki þeim víðtæku áhrifum til betrunar veröldinni sem kristindómurinn hefur komið til leiðar. Víst hefur kirkjufólki oft orðið ýmislegt á. Víst eru verk mannanna oft vond. En þar sem Guð er tilbeðinn í anda og sannleika svo notuð séu orð Jesú til konunnar við brunninn (Jóh 4.23-24) á ekkert að þrífast sem ekki þolir dagsins ljós. Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð (Jóh 3.20).

Okkur er ekki ætlað lítið hlutverk. Við eigum að vera hendur og fætur, munnur og hjarta Guðs hér á jörð. Verum það sem við erum, þiggjum til þess hjálp Guðs, kraft anda hans, miklum hann öllum tungum í anda og sannleika, alls staðar!

Drottinn, í dag vil ég gefa þér hjarta mitt.