Úr búðarsloppi í rykkilín

Úr búðarsloppi í rykkilín

Guð gleymir okkur aldrei, hann fær aldrei alzheimer eða elliglöp af neinu tagi. Hann gleymir engum þótt hann geti það. — En getur hann þá gleymt einhverju? Já, hann getur gleymt. Hann gleymir því sem hann hefur fyrirgefið. Í því felst mikil blessun fyrir okkur synduga menn.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Gamall draumur hefur ræzt, draumur um að dvelja hér á Ísafirði í mínum fæðingarbæ, þjóna um hríð sem prestur og hafa ögn meiri tíma til að njóta þessa fagra staðar, mannlífs og náttúru, en hægt er að gera í stuttri heimsókn.

Ísafjörður með sínum háu fjöllum fylgir mér hvert sem ég fer. Vart líður sá dagur að mér verði ekki hugsað „heim“ og sumum syðra þykir dálítið skrítið að ég taki enn þannig til orða tæpum 40 árum eftir að ég fór héðan. Tengslin við Ísafjörð eru sterk. Konan mín sem hefur heyrt mig mæra Vestfirði í áratugi sagði við mig í sumar þegar hún hafði verið með mér hér í bænum og hitt heimafólk: Ég hélt að þetta væri bara svona í þínum huga en nú heyri ég og sé að þið eru öll eins! Já, við erum stolt af Ísafirði.

Mannssálin er undarlegt fyrirbrigði. Hún getur geymt inni í sér heilu fjöllin, firði og hafdjúp, heiðloftin blá og himingeiminn allan. Öll reynsla mannsins rúmast þar inni, góðar minningar og fagrar, en líka þær sem vekja upp vondar tilfinningar og sárar. Allt rúmast það í sál mannsins og getur haft áhrif á heilsu og líðan.

Sem barn og unglingur starfaði ég á sumrum og skólafríum í verslun foreldra minna, var þar fyrst um sinn sendill og færði fólki björg í bú. Enn er ég sendiboði en kem nú með aðra fæðu, er sendur með erindi sem varðar heill okkar allra og hamingju þegar dýpst er skyggnst.

I.

Í guðspjalli dagsins verður maður á vegi Jesú, hann er reyndar borinn í veg fyrir hann. Hann er sjúkur, liggur lamaður á börum og getur sig hvergi hrært. Og það sem vekur furðu þeirra sem á horfðu er að hann læknar manninn með þessum orðum: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Fræðimönnunum var nóg boðið því þetta var guðlast í þeirra augum því enginn gat eða getur fyrirgefið mönnum syndir nema Guð einn. Guðlast var alvarlegt lögbrot á þeim dögum og er reyndar enn. Í íslenskum lögum og flestra landa sem ég þekki til eru ákvæði um það að ekki megi móðga trúarvitund fólks. Nærtækt er málið þegar Danir móðguðu múslima með skopteikningum af spámanninum Múhameð og eru reyndar ekki enn búnir að bíta úr nálinni með það allt saman. Hér á landi hefur lítið borið til tíðinda í þessum efnum og helst til að taka atvik þegar Spaugstofumenn þóttu hafa farið út á ystu nöf í háði sínu og umfjöllun um það sem mörgum er heilagt.

II.

Við lifum á nýjum tímum og nú tíðkast það mjög að ögra öllum gildum. Við viljum vera frjáls, frjáls frá öllu. Frelsishugtakið er oft dálítið misskilið því frelsið er frelsi til hinna góðu gilda og verka en ekki frá þeim. Mannlífið hér á landi hefur breyst mjög á liðnum áratugum vegna ytri áhrifa. Stærstu áhrifavaldar í þeim efnum eru líklega fjölmiðlar og velmegun. Það þarf sterk bein til að þola góða daga, segir máltækið.

Ég var með Biblíulestur á Hlíf á föstudaginn og þar hitti ég fyrir fólk sem býr enn að hreinni og tærri barnatrú. Svo hitti ég sama dag á þriðja tug fermingarbarna sem líka eiga sína barnatrú, að minnsta kosti sum þeirra. En hér er ólíku saman að jafna því börn nútímans hafa kynnst ljótleika heimsins í margfalt ríkari mæli í gegnum sjónvarp og tölvuleiki en hin öldruðu hafa gert á allri sinni löngu ævi. Og þá spyr maður sig: Hvað verður um þessa þjóð í öllu þessu flóði upplýsinga og innihaldslausrar skemmtunar sem getur orðið svo yfirþyrmandi að fólk veit ekki lengur hvaðan það kemur eða hvert för er heitið? Þegar börn samtímans verða orðin fullorðin og sest í ráðherrastóla og taka ákvarðanir um heill og hamingju fólks, um sjúka og aldraða, um skiptingu gagna og gæða, um stríð og frið, hvaða viðmið munu þau þá hafa, hvaða lífsgrundvöll, hvaða gildi? Guð gefi að þau styðjist þá ekki við görótt gildin úr heimi kvikmynda og tölvuleikja. Guð gefi að þau eigi þá sem endranær traustan grundvöll til að standa á. Um allan heim gegna trúarbrögð því hlutverki að skapa fólki siðagrundvöll og túlka tilveruna, setja hana í hið stærra samhengi. Kristin kirkja er okkar vettvangur í þeim efnum.

Ég varð stoltur af mínum heimabæ og kirkju þegar ég kom hingað á fimmtudaginn var. Að koma í þetta myndarlega guðshús, hitta hér fyrir fólk sem vinnur að því að fegra og bæta mannlífið, hitta kórfólkið sem syngur Guði lof í helgihaldi kirkjunnar og tryggir að hægt sé að kveðja látna með virðingu og sómasamlegum hætti, fyllti mig trú og von á framtíðina. Í gær fór ég í göngutúr um bæinn og hlustaði á börn syngja í verslunum og bera fram úr sjóði hjarta síns göfgi og menningu, undir styrkri leiðsögn eldri stólpa í menningarlífinu. Vart þarf að taka það fram hversu mikilvægt það er að efla mennskuna og menninguna. Með því að leita mennskunnar, hinnar sönnu mennsku þjónum við Guði. Lífið er guðsþjónusta.

Og lífið hangir allt saman og er hluti af stærri heild, hinu stóra samhengi alls sem er. Og þetta stóra samhengi köllum við Guð. Þegar samhengið riðlast, þegar jafnvæginu er ögrað, sundrast tilveran og það heitir synd á máli trúarinnar. Syndin sundrar og skaðar jafnvægið.

Um þessar mundir held ég 10. Alfanámskeiðið í Neskirkju en þetta námskeið fjallar um grundvallaratriði kristinnar trúar og heitir eftir fyrsta staf gríska stafrófsins - Alfa. Á þriðjudaginn var fjölluðum við um krossdauða Jesú Krists fyrir syndir manna. Í hvert sinn sem ég kenni þennan fyrirlestur upphefjast miklar umræður og vangaveltur. Það brakar nánast í heilanum á fólki þegar syndina ber á góma. Og það sem meira er, okkur er svo tamt að líta á syndina sem einstök verk, einstakar gjörðir eða yfirsjónir. En í raun er syndin ástand að biblíulegum skilningi, brotalöm í lífi allra manna sem síðan kemur fram í misgjörðum og því að okkur tekst ekki að lifa sem skyldi, tekst ekki að vera í fullkomnu jafnvægi við Guð og menn og okkur sjálf. Og þegar þetta ójafnvægi eða mein í sálinni nær yfirhöndinni getur það jafnvel leitt til líkamlegs sjúkleika. En hér þarf að fara varlega og reka varnagla því engin sérstök skýring er til á mörgum sjúkdómum manna og engum um þá að kenna nema því einu að líkami okkar hrörnar og deyr að lokum.

Hverjar sem orsakir fötlunar lama mannsins voru þurfti hann einungis að heyra orð fyrirgefningarinnar til þess að verða heill. Slík undur gerast enn. Fólk eignast nýtt líf, nýja tilvist og framtíð, við það eitt að snúa við af vegi syndar og ójafnvægis og inn á veg heilsu og lífs. Þetta þekkjum við og sjáum allt í kringum okkur. Kraftaverkin eru ávallt að gerast. Fólk rís upp til nýs lífs og nýrra tækifæra. Týndir synir og dætur snúa heim, snúa frá villu síns vegar og finna lífi sínu nýjan grundvöll í trú og virðingu fyrir Guði og öllu því sem heilagt er. Menn geta afklæðst sínum gamla manni eins og Páll postuli orðar það í pistli dagsins þegar hann talar um nýja breytni og viðmið í öllu lífi.

Ég var að skíra í heimahúsi í gær og þar var meðal annarra maður [Kitti Muggs] sem sagði þegar hann sá mig skrýddan:

-Þú varst nú bara í búðarslopp hér áður fyrr. -Já, sagði ég og vitnaði í Pál postula, nú hef ég afklæðst hinum gamla manni og íklæðst hinum nýja.

Þegar menn voru skírðir í frumkristni drekktu þeir sínum gamla manni á táknrænan hátt og risu upp úr skírnarlauginni sem nýir menn, afklæddust sínum gömlu fötum og klæddust nýjum, eignuðust nýjan kyrtil, hvítan skrúða réttlætis og hreinleika, sem Guð einn getur gefið. Þetta tákn sjáum við í skírnarkjól barnsins, fermingarkyrtli unglingsins, kjól brúðarinnar, skrúða prestsins, líkklæði hins látna. Við erum sveipuð hvítum klæðum, umvafin hreinleika og elsku Guðs frá vöggu til grafar, vegna þess að Guð elskar þetta líf og ber umhyggju fyrir hverri sál.

III.

Guð umlykur okkur á bak og brjóst og ber umhyggju fyrir okkur frá vöggu til grafar og reyndar lengur, því eilífðin er okkar fyrir heilaga skírn. Þar vorum við vígði himni Guðs. Hann kaus okkur í heilagri skírn með því að setja krossmark við nafnið okkar. Við erum hans og verðum hans. Guð sér okkur hvarvetna. Hann sér okkur á hverju andartaki, á hverri ferð um láð og lög, greinir okkur meira að segja í neðanjarðargöngum og háloftum, sér þá sem hverfa í hafdjúpin eða týnast í óbyggðum, skynjar hvert andvarp, hvert æðarslag alls sem lifir.

Hvert get ég flúið frá augliti þínu, spyr höfundur 139. sálms Biblíunnar. Og svarið er að enginn kemst út úr hinu stóra samhengi tilverunnar. Guð gleymir okkur aldrei, hann fær aldrei alzheimer eða elliglöp af neinu tagi. Hann gleymir engum þótt hann geti það. Það er svo margt sem Guð getur en gerir ekki. Hann getur til að mynda verið óréttlátur en hann er það aldrei. Hann getur hatað en hann vinnur ekki gegn elsku sinni. Guð velur hið góða og hann hefur gefið okkur frjálsan vilja til að velja hið góða. Guð gleymir okkur aldrei.

En getur hann þá gleymt einhverju? Já, hann getur gleymt. Hann gleymir því sem hann hefur fyrirgefið. Í því felst mikil blessun fyrir okkur synduga menn. Guð gleymir því sem við iðrumst yfir og biðjum hann að fyrirgefa okkur. Og þar er gleymska Guðs algjör. Hann hefur því fullkomið minni og fullkomna gleymsku í senn. Einhver orðaði þetta þannig að þegar Guð fyrirgefur þá sekkur hann syndunum í hafdjúpið. Á ströndinni er skilti sem á stendur: Allar veiðar bannaðar!

Oft er spurt: Hvar eru þau sem horfin eru á undan okkur úr þessu lífi? Og svarið er þetta: Þau eru geymd í huga okkar sem munum þau. Þau lifa í minningunum.

En þá liggur beint við að spyrja: Hvað verður þá um þau þegar allir sem þau þekktu eru horfnir? Hver man þau eftir 500 ár? Hver man okkur þegar allir sem eiga um okkur minningar eru líka horfnir? Guð man þau og hann man okkur og það sem er til í huga Guðs lifir að eilífu og það sem Guð gleymir er horfið að eilífu. Í þessu liggur gæfa okkar og gleði. Við erum börn Guðs sem borin erum fyrir fætur hans eins og hinn lami forðum daga og hann segir við okkur sín máttugu orð sem lækna og líkna: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Guðsþjónusta kirkjunnar gengur út á það að lofa Guð og segja fólki frá elsku hans. Sendingin sem ég var beðinn fyrir til ykkar í dag felur í sér máttugan boðskap um elsku og fyrirgefningu, viðurkenningu og skilning á aðstæðum okkar og kjörum. Líf okkar er í hendi Guðs, hendi þess Guðs sem gekk um götur og torg á þessari jörð og reisti fólk upp til nýs lífs. Enn er hann á ferð og mætir okkur í starfi kirkjunnar, í orði prédikunarinnar, í máltíð brauðs og víns þegar hún er í boði og síðast en ekki síst í elsku samferðafólks sem veit og skilur sig vera í þjónustu við lífið og mennskuna. Í öllu þessu er Kristur á ferð. Hann er í för með þér og mér. Kristur er hér og segir enn sem fyrr: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þess vegna getum við borið höfuð hátt því við erum hans um aldur og eilífð.

Dýrð sé Guði, föður og synir og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.