Lífið er helgileikur

Lífið er helgileikur

Við höfum einmitt litið stundarkorn frá tíðindum hversdagsins, að styttu Einars Jónssonar sem einhver furðufuglinn málaði gylltum lit nú á dögunum. Í anda þess næma raunsæis sem einkennir verk listamannsins er dregin upp mynd af hlutskipti hinna jaðarsettu og brottræku úr samfélagi fólks hér forðum. Útlaginn ber látna konu sína á bakinu, með barnið í fanginu og á undan gengur hundurinn.

Lífið er helgileikur – þessi er yfirskrift þáttar sem Ríkisútvarpið sendi út og fjallar um vin okkar hér í Neskirkju, sagnfræðinginn Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur.


Við berum ekki út börn


Hún heimsótti okkur síðastliðið haust og kynnti þar Litla bók um stóra hluti, eins og nýjasta rit hennar heitir. Í því leitast hún við að greina hið stóra samhengi menningar okkar og gilda.

 

Þar deildi hún þeirri skoðun með okkur og hún kom einnig fram í þessum sjónvarpsþætti, hversu mikil áhrif andstaða kristindómsins við útburð barna hefði hefði haft. Þórunn taldi þar liggja skýringuna á mikilli fólksfjölgun í löndum kristinna, sem hefði svo leitt af sér átök og álag á vistkerfið. Þórunn var vitanlega ekki að mæla því bót að fremja slík ódæðisverk sem barnaútburður er. Hér var hún fremur að setja málin í samhengi og vildi með þessu skýra til að mynda, útrás kristinna Evrópumanna til Vesturheims og annarra heimshluta.

 

Já, lífið er helgileikur og lífið hefur að sama skapi yfir sér helgi. Við myndum ekki kjósa samfélag þar sem mannslífið er einskis virði. Slíkan veruleika þekkjum við úr mannkynssögunni. Á tíma alræðisstjórna í Evrópu á síðustu öld risu ráðamenn upp gegn þessu kristna siðferði. Manneskjan væri aðeins hluti lífríkisins og því væru stórfelld mannvíg ekki aðeins réttlætanleg, þau væru nauðsynleg. Það hugarfar leiddi af sér tíma hörmunga sem eru okkur enn í dag víti til varnaðar.


Útlagarnir

 

En vitaskuld var siðferðið sem kirkjan miðlaði, ekki endilega í samræmi við veruleikann sem fólk bjó við. Þrátt fyrir að umhyggjan í garð hinna minnstu systkina væri boðuð í orði kveðnu, fór því fjarri að hún hafi mótað líf og samskipti í samfélögum sem töldust vera kristin. Á tímum vistarbands og gróinnar stéttskiptingar var velferð hinna snauðu lítils metin. Á tímum útlaga og öreiga, var fólk sem hafði reynt að brjótast undan okinu, hundelt um sveitir og öræfi.

 

Þessi veruleiki hefur óvænt minnt á sig undanfarna daga.

 

Við höfum einmitt litið stundarkorn frá tíðindum hversdagsins, að styttu Einars Jónssonar sem einhver furðufuglinn málaði gylltum lit nú á dögunum. Í anda þess næma raunsæis sem einkennir verk listamannsins er dregin upp mynd af hlutskipti hinna jaðarsettu og brottræku úr samfélagi fólks hér forðum. Útlaginn ber látna konu sína á bakinu, með barnið í fanginu og á undan gengur hundurinn.

 

Eymdin skín úr krepptum svip förumannsins en fylginautar hans minna okkur á þær kenndir sem bærast innra með manninum. Það er ástin til konunnar, sem hann vill búa til ærlegrar greftrunar, væntanlega í vígðri mold. Þarna er auðvitað vinurinn besti sem, ólíkt mönnum, spyr hvorki um stétt né stöðu húsbónda síns. Og síðast en ekki síst greinum við umhyggjuna fyrir barninu sem í umkomuleysi sínu gefur lífi hans tilgang og hvetur hann til að láta ekki hugfallast. Ætli það sé ekki neistinn sem heldur útlaganum á lífi?

 

Sagan segir að Halldór Laxness hafi orðið fyrir slíkum hughrifum er hann virti verk þetta fyrir sér að hann settist niður og skrifaði útlínur að nýrri skáldsögu. Sú fékk síðar heitið Sjálfstætt fólk.

 

Útlagar myndhöggvarans Einars Jónssonar er einmitt óður til mennskunnar, og minnir okkur á lífsviljann sem knýr okkur áfram og ástina sem nær út fyrir mörk lífs og dauða. Umgjörðin er hinn manngerði harmleikur sem flokkar fólk eftir mikilvægi og fylgispekt við óréttláta samfélagserð.


Imago Dei

 

Hvaða kemur þá sú hugmynd að lífið sé á einhvern hátt heilagt? Jesús ræðir ekki útburð barna, né heldur postularnir. Hugmyndina um mannhelgi drögum við út úr þeim frásögnum sem við eigum úr Biblíunni, sögum sem greina frá breyskum einstaklingum sem takast á við aðstæður sem við í dag, árþúsundum síðar, ættum að geta sett okkur í.

 

Hún er orðuð á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar þar sem manneskjan er sögð vera sköpuð í Guðs mynd, ,,Imago Dei" heitir það á tungu Rómverja. Sá tónn endurómar svo í gegnum þetta mikla rit í margvíslegri mynd. Boðskapurinn er oftar en ekki settur fram í sögum, já helgisögum þar sem atburðarrásin miðlar tímalausum sannindum sem eiga jafnmikið erindi við okkur í dag sem þau gerðu í árdaga þegar frásagnirnar bárust fólki fyrst til eyrna.


Ástir og örlög 

 

Hér heyrðum við af því sem nútíminn gæti kallað ástarþríhyrning. Þar var valdajafnvægið ólíkt. Abraham, ættfaðirinn sjálfur átti eiginkonuna Söru. Þrátt fyrir öll fyrirheit um að afkomendur hans yrðu fleiri en stjörnurnar á himnum þá liðu árin og áratugirnir án þess að þeim yrði barns auðið. Og aldurinn var farinn að færast yfir þau. Því hafði hún fært bónda sínum egypsku ambáttina Hagar og ól hún honum soninn Ísmael. Þrettán ár liðu og ekki bar á öðru en að piltur sá yrði eini afkomandi Abrahams.

 

Svo gerðist undrið – Sara fæddi Abraham soninn Ísak – og var það sannkallað kraftaverk. Slík var furðan að Sara mun hafa skellt upp úr þegar hún frétti af því sem í vændum var. Nafnið Ísak er einmitt dregið af sögninni að hlægja. Og já, þarna flæktust málin heldur betur. Nú var Ísmael ekki lengur eina vonin um fjölda niðja, hans var ekki lengur þörf. Staða Söru var öll önnur og þá lesum við af þessu fólskuverki, þessarar ættmóður Ísraels. Hún hrekur Hagar og Ísmael út í óbyggðir þar sem þau átti litla von um að komast af.

 

Frásögnin lýsir því sem næst kemst útburði umkomulauss ungmennis. Móðirin er örmagna úti í eyðimörkinni, vatnið er á þrotum, og drengurinn bíður dauða síns. Þá kemur hið guðlega inngrip. Guð heyrir grátinn úr auðninni og kemur þeim til bjargar.


Lífið er helgileikur

 

Já, lífið er helgileikur. Þessi saga lýsir sterkum tilfinningum. Þótt knöpp sé, þá skynjum við hina sígildu togstreitu þar sem tekist er á um ástir og erfðir. Sara lætur senda þau út í opinn dauðann og ambáttin nýtur engrar verndar. Hún má sín einskis gagnvart þeim sem völdin hafa og hafa örlög þeirra í hendi sér.

 

Þau mæðgin minna um margt á Útlagana sem skyndilega hafa vakið athygli okkar. Saga þessi kallar einmitt fram sterkar tilfinningar. Hún er ein þeirra sem við getum sagt að hafi legið til grundvallar þeim mannskilningi sem boðaði að hlúa bæri að hverju lífi, hversu umkomulaust sem það getur verið.


Þar getur líka leynst vaxtarsproti til framtíðar.

 

Samkvæmt öðrum helgisögnum átti Ísmael þessi eftir að verða ættfaðir annarrar þjóðar, Arabanna. Kóraninn segir hann vera spámann og samkvæmt þeirri hefð mun Ísmael hafa sest að í Mekka þar sem hann ásamt Abraham á að hafa reist hina kassalaga steinbyggingu, Kaaba. Pílagrímar vitja hennar á ferð sinni til borgarinnar helgu og ganga sjö hringi í kringum hana.


Börnin 

 

Hér lesum við um það hvernig varnarleysi hinna smæstu birtist sem dómur yfir heilu samfélagi. Það er í anda þess sem Þórunn kallar kristið siðferði. Biblían dregur upp raunsanna mynd af persónum, hver sem staða þeirra er. Dómur Söru yfir þeim mæðginum, þar sem hún rekur þau í útlegð – er fólskuverk. Sagan er áminning fyrir hvern einstakling og hvert samfélag að snúa ekki bakinu við þeim sem eiga undir högg að sækja.

 

Og já, börnin hafa sérstaka stöðu í kristinni trú, eins og Þórunn minnist á. Hér fyrr í guðsþjónustunni bárum við barn til skírnar, báðum fyrir því og minntum hvert annað á skyldur okkar gagnvart því og hverju því barni sem við getum hlúð að. Ekker endurspeglar með skýrari hætti gildi samfélags en einmitt það hvernig það býr að sínum minnstu systkinum.

 

Börnin kalla fram í okkur vitundina fyrir því hlutverki sem við höfum að gegna og þeim tilgangi sem hvert og eitt okkar hefur í lífinu. Það birtist okkur í sögunni sem hér var lesin og hugleidd. Og það sjáum við á einbeittum svip útlagans.