Ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó

Ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó

Lagið um það sem ekki má – á ekki aðeins erindi til barna. Nei, lífsgæðin sönnu jafnvel enn frekar í því sem við neitum okkur um. „Ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó.“ syngur barnið í laginu (æ, þarna klúðraði ég þessu) og við getum leikið okkur með það hvernig skaðvaldar heimsins gera einmitt þetta. Taka það sem er litríkt og gefur gott bragð en snúa því upp í andhverfu sína.

Má ég að biðja ykkur um að hugsa ekki um skrúfjárn? Skiptir ekki máli hvort það rafdrifið eða gengur fyrir vöðvaafli handa, stjörnu, flatt, tork eða bitasett. Sameinumst um það í nokkrar mínútur að sleppa öllum hugsunum um þetta tiltekna verkfæri.


Fasta

 

Í dag er fyrsti sunnudagur í hinni svokölluðu lönguföstu. Við vitum sennilega flest hvað átt er við með föstu. Einhver okkar hafa lagt það á sig að neita sér um mat og sitthvað fleira sér til heilsubótar. Mér finnst fróðlegt að rýna í sögu hefðanna og það er vart tilviljun að föstuna skuli bera upp á þessum tíma árs. Ef við hverfum í huganum aftur til fyrri alda þá getum við séð fyrir okkur að þegar vorið var á næsta leyti hefur lítið verið eftir af mat á bæjunum. Afurðirnar af húsdýrunum sem var slátrað að hausti eru löngu uppétnar. Mjólkin úr kúnum er rýr enda heybirgðir senn á þrotum. Og í fjárhúsum og fjósum eru undaneldisgripirnir, bíða þess að afkvæmin komi í heiminn með hækkandi sól.

 

Þá er rétt og eðlilegt að halda í við sig, ekki bara í kjötáti heldur hefur ætti fólk að taka því rólega, ekki vera með óþarfa eril og fyrirgang. Sú var tíðin að fólk þurfti að gæta sín á því að brenna ekki hitaeiningar að óþörfu. Já forfeður okkar og mæður hefðu sennilega rekið upp stór augu ef þau fengju að líta inn í líkamsræktarsal á okkar dögum.


Þroskasaga úr Aldingarði

 

Textarnir við upphaf föstunnar fjalla um það sem ekki má. Eins og tilraun mín hér í upphafi, þá getum við sett frelsi okkar ýmsar skorður. Sagan úr aldingarðinum tekst einmitt á við þá klemmu að það sem er forboðið getur haft eitthvert dulið aðdráttarafl. Þessi saga er til þess gerð að vekja forvitni og leita að túlkun sem fléttast í ýmsar áttir og stundum óvæntar. Fyrir kristnu fólki er þetta lýsing á paradísarmissi, syndafalli, hugvekja um aldingarð og svo andstæðu hans, líf þjáninga og erfiðis.

 

Aðrir, til dæmis Gyðingar lesa hana sem fremur sem þroskasögu, þar sem maðurinn tekur að skilgreina heiminn, gefur dýrunum nöfn, lærir á skil góðs og ills og öðlast vitund á takmörkum sínum og dauða. Aldingarðurinn sjálfur er í raun hálfgerð þoka samkvæmt þeirri túlkun, en það tekur að rofa til þegar orðin myndast. Orðin okkar eru jú til þess fallin að hjálpa okkar að skilja heiminn og okkur sjálf. Og enn erum við að. Þegar við finnum ný fyrirbæri í alheiminum þá fá þau nöfn. Hið sama gildir um smæstu efniseindirnar.

 

Er þetta lýsing á uppvexti. Eru Ada og Eva í fyrstu eins og óvitar, skeytingarlaus um nekt sína, þekkja ekki muninn á réttu og röngu? Já, finna á einhverju skeiði þroskans fyrir blygðun og spéhræðslu? Og gera uppreisn gegn foreldrinu?


Það sem er bannað

 

Og talandi um börn og bönn, þá lenti lagið um það sem er bannað í öðru sæti yfir bestu íslensku barnalögin í kosningu sem Ríkisútvarpið efndi til fyrir nokkrum árum. Sveinbjörn I. Baldvinsson samdi þennan kostulega texta þar sem barnið kvartar undan öllum þeim hömlum sem eru á lífi þess og hegðun: Söngurinn kom fyrst út árið 1977 þegar ég var á níunda ári. Sennilega höfum við verið frjálsari en börn eru í dag. Við vorum líklegri en börn í dag til að „pissa bak við hurð“ og „henda grjóti oní skurð“.

 

Aftur að Adam og Evu. Er þetta söguleg frásögn? Lýsir hún sköpun mannsins á fræðilegan hátt? Hvað með allt hitt sem við vitum? Já, drengurinn kom til móður sinnar og spurði, „mamma hver skapaði manninn?“; „Það var Guð“, svaraði móðirin. „Já, en pabbi segir að við séum komin af öpum.“; Mamman svaraði að bragði: „Það er bara föðurættin þín.“

 

Já hér tölum við um goðsögn sem hefur þá kosti góðra frásagna að ýta undir forvitni og frekari sköpun þleirra sem á hlýða. Höfundarnir leika sér með orðin, skilja eftir eyður, búa til heim sem er svo fjölbreytilegur, litríkur og lifandi að listamenn á öllum aldri hafa dregið hann upp á striga eða pappír.


Fölnandi litir

 

En litirnir fölna í sögulok. Þá birtist okkur önnur mynd: heimur snauður af fjölbreytni og lífi. Kræklóttir þyrnar standa upp úr jörðinni og þangað hverfur maðurinn svo aftur þegar líf hans er á enda: „Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.“

 

Við stöndum í moldarflagi og spyrjum okkur hvað hafi eiginlega komið fyrir. Hvað varð um litina? Hvert fóru björtu tónarnir, af hverju þagnaði fuglasöngurinn, þyturinn í trjánum og lækjarniðurinn? Svona hefur fólk spurt sig í gegnum tíðina og gerir enn.

 

Textinn kallast jú á við guðspjallið, söguna af því þegar Jesú var freistað og er einmitt staddur í slíku umhverfi. Freistarinn  sýndi honum allsnægtirnar og bauð honum að það allt ef hann myndi afneita sjálfum sér og hugsjónum sínum.


Forysta er hættuleg

 

Báðar sögurnar fjalla um leiðtoga, hvor á sinn hátt. Adam og Eva komast til þroska, verða ráðsmenn yfir sköpuninni og gefa dýrunum heiti. Jesús er leiðtoginn sem beinir lífi okkar inn á rétta braut, býður okkur að vera lærisveinar sínir og feta sjálf þann veg sem hann gekk. Biblían dregur upp ákveðna mynd af fólki í þessari stöðu. Við getum orðað hana á þann hátt að að forysta sé hættuleg. Áhrif leiðtogans eru margföld miðað við aðra. Ef hann villist af leið sinni þá er hann ekki einn í háska heldur allt það samfélag sem hann tilheyrir.

 

Hvergi verður hrösunin og fallið jafn skýr og áberandi og í fari slíkra einstaklinga. Ekki þarf annað en að skima yfir sögubækur, heimsfréttir eða jafnvel horfa á okkar nánasta umhverfi til þess að sjá afleiðingar þess þegar forystufólk þekkir ekki takmörk sín. Þegar við horfum í kringum okkur í heiminum í dag birtist okkur sú mynd. Þar sjáum við leiðtoga sem sögðu já við öllum freistingum. Þeir vildu meiri auð, meiri gæði, meira land, meiri völd. Og eyðileggingin blasir við okkur, þjáningar saklausra, sóun verðmæta, já lífvana auðn.

 

Lagið um það sem er bannað – á ekki aðeins erindi til barna. Nei, lífsgæðin sönnu jafnvel enn frekar í því sem við neitum okkur um. „Ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó.“ syngur barnið í laginu (æ, þarna klúðraði ég þessu) og við getum leikið okkur með það hvernig skaðvaldar heimsins gera einmitt þetta. Taka það sem er litríkt og gefur gott bragð en snúa því upp í andhverfu sína. 

 

 „Drottin Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þetta er svar Jesú við tilboðum freistarans og þetta er líka yfirlýsing þeirra sem eiga sér sannan leiðtoga í lífinu og geta sjálfir varðað leiðina inn í betri heim.