Textar í þjónustu lífsins

Textar í þjónustu lífsins

Það er sem Jesús hafi lokið upp fyrir honum að sú túlkun á grundvallartextum samfélagsins sem kom fram í bón og ákalli þeirra, sé ekki tímabundinn veruleiki, heldur grundvallarafstaða sem leiðir til lífs. Þessum veruleika játast Samverjinn þegar hann kemur til baka eða, eins Jesús orðar það, „gefur Guði dýrðina“.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I Á ferð Jesú til Jerúsalem lá leið hans á mörkum Samaríu og Galíleu. Þau greindu ekki einungis að tvær byggðir eða tvö þjóðarbrot heldur tvo trúarhópa, Samverja og Gyðinga sem vildu sem minnst hvorir af öðrum vita. Þrátt fyrir það – eða kannski af því – að þeir byggðu á sömu trúartextum og menningarhefðum, sem þeir aftur á móti, túlkuðu á ólíkan máta. Hér vaknar einföld spurning: Af hverju?

Til að fá svar við henni, verðum við að átta okkur á því, að þá eins og nú, voru textar – og hvað þá trúartextar, – ekki eitthvað sem menn lásu í menningarlegu tómarúmi. Vissulega segjum við oft: „Ég túlka þetta nú á minn máta og óháð öllu og öllum.“ En svo einfalt er það ekki, því þessi sannfæring er afurð þess frelsis sem mótar vestræna menningu og túlkunarhefð. Og það tók aldir að koma henni á. Því að það að lesa og leggja út af mikilvægum textum voru lengi vel, vel varin forréttindi vissra stétta. Og það lá hörð refsing við að hrófla við þeirri skipan, en því miður er það svo enn í dag í sumum löndum og menningarheimum. Guði sé lof á slíkt ekki við um okkar samfélag og mörg önnur.

En ef við hugsum óháð því, hvernig við lesum mikilvæga texta og þar með trúarlega, þá er ljóst að lestur þeirra og útlegging á sér ekki stað í tómarúmi. Við komum ekki bara með okkar persónulegu reynslu að þeim, heldur erum líka mótuð af menningararfleið, sem hefur áhrif á það hvernig við skynjum og skiljum. Í menningu okkar eru til staðar sterkar hefðir, sem kveða á um hvernig eigi að túlka grundvallartexta samfélagsins. Á þetta jafnt við um veraldlega sem trúarlega texta, hvað þá þegar þeir tilheyra báðum sviðum. Vissulega geta allir lesið þá, en ef túlkun á að teljast réttmæt verður hún að fylgja ákveðnum reglum og vera í vissum farvegi. Það kemur því ekki á óvart að heilu stéttirnar sérhæfa sig í því. Þeirra er að aðlaga þessa grundvallartexta að síbreytilegu samfélagi nútímans og jafnvel breyta þeim. Nærtækt dæmi um slíkt er fjárlagafrumvarp eða lagatextar sem m.a. stétt lögfræðinga vinnur við að túlka og heimfæra inn í líf fólks.

Þetta á líka við um bókmenntatexta. Þar er ekki bara tekist á um hver má og hvernig á túlka þá, heldur getur notkun gæsalappa eins og frægt er orðið, skilið á milli feigs og ófeigs.

Það gefur að skilja að hið sama á við um trúarlega texta, túlkun þeirra getur verið ærið snúið verkefni. Þessu veldur að þeir þarfnast víðrar túlkunar sem virðir – okkur oft framandi – umhverfi sem þeir spretta úr. Túlkunin þarf að vera inntaki þeirra trú í að ryðja lífinu leið. Aðrir vilja frekar túlka þá þröngt. Þeir telja að bókstaflegur skilningur þeirra, – sem tekur stundum lítt tillit til inntaks og uppruna þessara texta – nægi fullkomlega. Það gefur að skilja að slíka nálgun er auðvelt að nota til að réttlæta með aðgerðir til að þrengja að lífi fólks og jafnvel koma á samfélagsgerð sem er lífsfjandsamleg vegna neikvæðara afstöðu til sjálfræðis einstaklingsins. Það er í samræmi við slíka nálgun að fólk er ekki virt sem sjálfráðir borgar, heldur í besta falli meðhöndlað sem undirgefnir þegnar.

Í daglegu lífi er oft mjög erfitt að greina á milli um hvora túlkunina eða nálgunina er að ræða. Því að það sem sumum finnst að segi sig sjálft, finnst öðrum þröng og útlokandi útlegging og öfugt. Þetta er ekki eitthvað sem bundið er við einstaklinga, heldur mótar fjölskyldur, ættir, þjóðarbrot, þjóðir og sumir myndu bæta við menningarheima.

Túlkun manna jafnt á lagalegum sem trúarlegum textum dregur þannig fólk í dilka. Slíkt hlýtur að vera erfitt í samfélagi sem greindi lítt á milli lagalegra og trúarlegra texta, en það á við um samfélag og samtíð Jesú. Túlkun manna á þessum textum leiddi eins og áður er getið m.a. til aðgreiningar á milli Samverja og Gyðinga. Hér voru mörkin skýr, en leið Jesú lá eftir þessum mörkum útskúfunar.

II

Jesús kemur til lítils þorps á mörkum Samaríu og Galíleu. Þar „mættu honum tíu menn líkþráir“ (v.12). Það er ekkert sagt um hvernig hópurinn er samsettur. Þau greinlegu mörk sem Samverjar og Gyðingar höfðu dregið skipta fyrir þennan hóp engu máli. Því líkþráin virti þau lítt er hún gerði þá útlaga úr mannlegu samfélagi, svipti þá fjölskyldu, ætt og þjóð og kom þeim fyrir á mærum lífs og dauða. Í samtíma Jesú voru líkþráir skilgreindir sem óhreinir og dvöldu í skugga dauðans. Fólki forðaðist þá – enda voru ákvæði lögmálsins skýr: „Líkþrár maður, er sóttina hefir, – klæði hans skulu rifin og hár hans flakandi, hann skal hylja kamp sinn og [þegar einhver nálgast hann, skal sá líkþrái vara þann við og] hrópa ,Óhreinn, óhreinn´! […] Hann skal búa sér“ (3 M13.45).

Þegar hinir holdsveiku mætta Jesú, virða þeir þessi ákvæði, en þeir ávarpa Jesú eins og lærisveinar og kalla: „Jesús, meistari, miskunna þú oss“ (Lk 17.12). Fyrr í guðspjallinu segir frá því, er lærisveinarnir lentu ofviðri á Genesaretvatni, þá hrópuðu þeir til Jesú: „Meistari, meistari, vér förumst“ (Lk 8.24). Tengsl frásagnanna eru augljós.

En hafa ber í huga að erfiðleikar og sjúkdómar þurfa ekki að vera miklir, til þess að við förum að hugsa okkar gang, gera upp atvik og jafnvel líf okkar. Ósjaldan er það gert í samtali við Guð. Hið sama á við um þessa líkþráu menn. Þeir þekktu sálma Davíðs. Í þeim er að finna bænir sem auðvelt var að tengja við neyð þeirra. Þannig segir í 38. Davíðssálmi: „Ódaun leggur af sárum mínum, rotnum er í þeim […] Ég er beygður og mjög bugaður […] Lendar mínar eru fullar bruna og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum“ (Sl 38, 6–8). En þar segir einnig: „En á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn […] Skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín“ (Sl 38.16, 23). Þannig mætti segja að sjúkdómurinn hafi kennt þeim að túlka Ritninguna í samræmi við inntak hennar, það er sem farveg lífs og vonar en ekki nota hana sem efnivið í mörk og múra.

Það má því vel orða það svo að vonin og trúin hafi knúið þessa líkþráu menn áfram og gert að lærisveinum Jesú.

III

Í ákalli sínu „Jesús, meistari, miskunna þú oss“ (Lk 17.12) biðja þeir um það að vera virtir viðlits. Og einmitt það á sér stað. Jesús sér þá og bregst við. Hann sér þá svo að segja með augum Guðs. Þar með er neyðin að stórum hluta yfirunninn og ferli helgunar eða batans hefst. Í Biblíunni er talað um að þegar Guð lítur til mannsins í erfiðleikum hans, hefjist endurlausnarferlið. Þannig leit Guð til lýðs síns í Egyptalandi og leiddi hann síðan út úr þrælahúsinu. Í guðspjalli síðasta sunnudags er þetta tengt við okkur menn, þegar greint er frá miskunnsömum Samverja sem sá mann er fallið hafði í hendur ræningjum og kenndi í „brjóst um hann“ (Lk 10. 33). Bara það að vera virtur viðlits rífur einangrun og einsemd. Við skiljum því vel hvað hér á sér stað, þegar segir í guðspjallinu, Jesús „sá þá“: endurlausnarferlið var hafið.

Og Jesús segir við þá: „Farið og sýnið yður prestunum“ (v.14). Þetta þarfnast skýringa. Margar gerðir húðsjúkdóma sem í dag hafa ekkert að gera með líkþrá, töldust það í samtíma Jesús (3 M 14). Og það var vandaverk að kveða upp úr um hver taldist hafa sjúkdóminn. En einmitt það féll í verkahring presta. Þeir greindu hver var hreinn og óhreinn eða hefði sjúkdóminn. Hann eða hún gat þar með ekki tekið þátt í daglegu lífi samfélagsins. Prestanna var líka að ákveða hvort viðkomandi væri laus við sjúkdóminn eða orðin hreinn. Jesús virðir þessi ákvæði lögmálsins, en setur túlkunina á þeim í farveg lífs og vonar þegar hann segir: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Það þarf ekki meira. En lækningunni er lýst með eftirfarandi orðum: „Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir“ (Lk 17.14). Í trú komu þeir til Jesú og í trú halda þeir af stað og á göngunni öðlast þeir heilsu á ný. Að öllum líkindum hafa þeir farið og sýnt sig prestunum og fært þá fórn sem lögmálið kvað á um og verið teknir inn í samfélagið á ný. En frásagan heldur áfram.

IV

Í guðspjallinu segir: „En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur og gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?´ Síðan mælti Jesús við hann: ´Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér“ (v. 15–19).

Það er löng hefð fyrir því að túlka þessi vers á þann veg, að stilla þakklæti Samverjans upp andspænis vanþakklæti hinna níu. Í lífi okkar reynum við hve þakklæti er dýrmætur eiginleiki og hvað fágætt það er að einhver færi það í orð. Hvað ætli það séu margir nemendur sem snúa við og koma til kennara sinna að námi loknu og þakka þeim fyrir það sem þeir lögðu á sig fyrir þá. Það er einkennilegt hvað við eigum erfitt með að sýna þakklæti, hvað þá að orða það við velgjörðamenn okkar. Þetta er stórmerkilegt ef við hugum bara að því hve þakklætið veitir mikla gleði og er stór gjöf.

Jesús bendir á þetta og þegir ekki yfir vanþakklætinu er hann spyr okkur öll: „Hvar eru hinir níu?“ (v. 17). Vanþakklætið er sem sé veruleiki sem ber að taka eftir og á að nefna á nafn, til þess að það hindri okkur ekki í lífi og starfi. Því eins og við vitum lætur Guð jafnt rigna á réttláta sem rangláta. En það er annar þáttur í frásögunni sem vert er að huga að.

Líkþráu mennirnir rákust á þá múra sem mismunandi túlkun manna á textum Ritningarinnar höfðu reist m.a. annars milli Samverja og Gyðinga. En þeir reyndu einnig hvernig holdsveikin gerði þá aðgreiningu merkingarlausa. Í þessari stöðu í skugga dauðans varð bænamál Davíðsálmanna að inntaki sameiginlegrar bænar til Jesú. Allt í einu vék þröng túlkun, sem njörvaði hafði lífið niður við ákvæði og lög, fyrir víðari túlkun er leitaði leiða fyrir líf og von. Spurningin er hvort hún hafi haldið?

Við getum vel ímyndað okkur að hinir níu sem fylgdu boði Jesú hafi fært Guði þá þakkarfórn sem lögmálið bauð. Farið síðan heim og aðlagað sig aftur að þeirri túlkunarhefð sem mótaði þeirra fyrra líf.

En einn áttar sig á breytingunni og snýr við. Hann fer aftur til Jesú sem er á mörkum Samaríu og Galíleu. Samverjinn gengst við þeim veruleika sem hann tilheyrði og þeirri stöðu sem hann er núna í og fellur „fram á ásjónu sína […] og þakka[r]“ (v.16). Í bæn lítur hann til baka og til neyðar sinnar og þakkar Jesú fyrir endurlausn sína. Samverjinn hafði öðlast nýjan túlkunarlykil eða afstöðu til veruleikans og hún birtist nú sem þakklæti og trú á Jesú Krists.

Það er sem Jesús hafi lokið upp fyrir honum að sú túlkun á grundvallartextum samfélagsins sem kom fram í bón og ákalli þeirra, sé ekki tímabundinn veruleiki, heldur grundvallarafstaða sem leiðir til lífs. Þessum veruleika játast Samverjinn þegar hann kemur til baka eða, eins Jesús orðar það, „gefur Guði dýrðina“. En takið eftir, þetta er ekki eitthvað sem á bara við á mörkum lífs og dauða, heldur á að móta allan hans veruleika. Því segir Jesú við Samverjann: „Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér“ (v. 19). Samverjinn heldur nú af stað til síns daglega lífs. Hann hefur stigið skrefið frá dauðanum til lífs, sem er nú hluti af því lífi sem við eigum í Kristi. Þannig er guðspjall þessa sunnudags sem kennslustund í því hvernig á að túlka trúarlega texta til að þjóna lífi, í stað þess að nota þá til njörva það niður, hvað þá til að hlekkja fólk eða reisa múra milli manna. Höfum það í huga í Jesú nafni Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.