Gott gildismat

Gott gildismat

Já, skelfilegt væri það nú ef vinaleiðin í grunnskólunum miðlaði nú nýjum viðhorfum til barnanna. Hvað ef einhver segði að annað skipti máli en útlitið, að aðrar fyrirmyndir væru inni í myndinni en þær sem birtast í slúðurfréttunum? Hvað ef einhver segði í fullum trúnaði að unglingurinn sé dýrmætur í sjálfum sér og mikilvægur fyrir það sem hann er.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Við fögnum góðum gestum hingað í kirkjuna sem lagt hafa á sig óeigingjarnt starf til þess að miðla því sem dýrmætt er, veitir styrk og leiðsögn. Áhugavert var að heyra af verkefnum þeirra. Ég sýni jafnan fermingarbörnunum Biblíuna – eftirprentunina af Biblíu Guðbrands og bendi þeim á það hve miklu framtak það hefur skilað. Málið sem við tölum í dag hefur varðveist fyrir tilstuðlan þeirrar útgáfu. Orðatiltækin eigum við svo mörg úr þýðingu Odds Gottskálkssonar og siðferðið hefur setið sem hamrastál í ölduróti tíðarandans. Kjölfesta og dýrmætar fyrirmyndir lifa tískustrauma og dynti hverrar kynslóðar.

Trú og gildi

Og dýrmætastur er vitnisburðurinn um heilagan anda og starf hans hér á jörðu – sagan um Jesú og þá von sem hann hefur fært mannkyni. Já, þökk þeim Sveini og öðrum Gídeonmönnum sem hingað hafa komið og heiðrað okkur með nærveru sinni og fróðleik. Okkur er lærdómsríkt að heyra af starfi þeirra og ættum að leggja þeim lið við þeirra heilögu baráttu.

Hverju miðla þeir með verkum sínum? Þeir miðla trúnni og á máli samtímans mætti segja að þeir miðli gildum – ákveðnu gildismati. Verkefni þeirra er að boða og halda lifandi þeim viðmiðum sem Biblían færir okkur og koma þeim áleiðis til þeirra kynslóða sem landið erfa.

Vinaleiðin

Verkefni þeirra fær mig til þess að hugsa um bréfaskriftirnar sem nú ganga manna á milli á netinu og fjallað var um í blöðunum í síðustu viku þar sem foreldri kvartaði undan kristilegu starfi sem fram fer í grunnskóla barna sinna. Vinaleiðin svo nefnda, sem er þar til umfjöllunar, byggir á því að efla börnin og styrkja þau í umhverfi sínu þar sem mælikvarðarnir eru oftar en ekki byggðir á hinu ytra byrði. Engum blöðum er um það að fletta að börnin finna gjarnan fyrir vanlíðan og kvíða í heimi slíkra viðmiðana. Þau skynja einmanaleikann í mannmergðinni rétt eins og hinir fullorðnu og þurfa svo sannarlega að kynnast því hvað skiptir máli andspænis því sem er hismi og hjómið eitt.

Mér verður hugsað til þessa verkefnis nú þar sem Gídeonmenn hafa nú lýst starfi sínu. Því þessi dýrmæti liðsauki sem börnin fá í skólanum verður að mínu mati fyrir óréttlátri gagnrýni. Stuðningurinn sem börnin fá eftir þessum leiðum er túlkaður á versta veg. Honum líkt við pólitíska ítroðslu og látið er í veðri vaka að börnin sitji undir áróðri og ósvífinni innrætingu þar sem þau ræða í trúnaði við kristna manneskju innan veggja skólanna. Hér er mikil hætta á ferðum ef marka má bréfritara og vísunin í pólitíkina leiðir hugann til einræðisríkja þar sem hugsunin er niðurnjörvuð eftir því sem valdhöfum þóknast á hverjum tíma. Menn seilast langt í samlíkingum þar sem börnin fá að deila hugsunum sínum með trúnaðarvini í skólanum.

Innrætingin er margvísleg

Já, menn hafa áhyggjur af innrætingu og skilaboðum. Þær áhyggjur eru réttmætar og ætti enginn að skella skollaeyrum við þeim tíðindum sem okkur berast úr skólakerfinu af skelfilegum afleiðingum þess áróðurs sem börnin verða fyrir nánast hverja vökustund dagsins. Ég þóttist skynja afleiðingar slíkra verka í gær á fundi með foreldrum hér í sveitarfélaginu

Hafa menn séð tölurnar úr nýjustu könnun á lífsgildum og lífsháttum unglinganna okkar? Það verður fróðlegt að kynnast viðbrögðum samfélagsins þegar þær verða gerðar opinberar. Ætli nokkur amist við því þótt drengir í sjötta bekk verji að jafnaði 30 klukkustundum á viku fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna? Þær tölur koma fram í könnun þessari. Þetta slagar upp í meðalvinnuviku launþega. Menn ræða það nú í fullri alvöru og að gefnu tilefni að opna deildir á meðferðarstofnunum fyrir þá sem eru orðnir háðir tölvuspilum.

Mótsagnarkenndar upplýsingar

Umtalverður hluti barnanna er ósáttur við þyngd sína en drekkur sykraða gosdrykki nánast á hverjum degi, leggur sjaldan á sig líkamlegt erfiði og svona mætti áfram telja. Hvaðan skyldi þessi mótsagnarkennda hegðun vera sprottin? Hvaða skilaboð eru börnin okkar að fá? Hverjar eru fyrirmyndirnar og hver eru lífsgildin? Hver skyldi vera orsökin fyrir því að aðeins helmingur stúlkna í 10. bekk snæðir morgunmat áður en lagt er af stað í skólann? Standa þær fyrir framan spegilinn með snyrtivörurnar í stað þess að borða þessa mikilvægustu máltíð dagsins?

Tölur geta gert okkur skelkuð, súluritin geta verið ógnvænleg og svo er einnig með það sem þarna kemur fram. Ekkert vakti þó meiri ugg í brjósti þess sem hér stendur þegar farið var yfir niðurstöður þessar en tölurnar yfir kannabisneyslu stúlkna í 10. bekk í þessu ágæta sveitarfélagi – Reykjanesbæ. Fimmta hver stúlka hefur, á sinni stuttu ævi, prófað hass eða önnur kannabisefni.

Fyrirmyndir

Já, skelfilegt væri það nú ef vinaleiðin í grunnskólunum miðlaði nú nýjum viðhorfum til barnanna. Hvernig fer nú fyrir okkur ef kæmi þaðan eitthvað mótvægi við allan hafsjóinn af skilaboðum sem börnin okkar fá og skilar sér vafalítið í hegðun þeirra og lífsmynstri. Hvað ef einhver segði að annað skipti máli en útlitið, að aðrar fyrirmyndir væru inni í myndinni en þær sem birtast í slúðurfréttunum? Hvað ef einhver segði í fullum trúnaði að unglingurinn sé dýrmætur í sjálfum sér og mikilvægur fyrir það sem hann er.

Kirkjan miðlar jákvæðum boðskap til þeirra sem vilja leggja við hlustir. Í sunnudagaskólanum í síðustu viku bentum við börnunum á það að sagan um Miskunnsama Samverjann gæti allt eins gerst á skólalóðinni. Þar getur verið að margir þurfi á kröftum þeirra að halda. Og við fengum á móti sögur af krökkum sem lagðir voru í einelti, skildir útundan eða áttu erfitt af öðrum sökum. Þarna fengu börnin mikilvæga fyrirmynd – mann sem lagði sig fram um að bæta líðan þess sem orðið hafði fyrir skelfilegu áfalli.

Hefðum við átt að láta þá sögu ósagða af ótta við að koma skilaboðum að hjá börnunum? Það er eins og sumir haldi að tómarúmið taki við ef engu er miðlað. Jú, svo kann að vera í sumum tilvikum. Tómarúmið kann að fylla sál þess sem ekki fær að hlýða á jákvæðan boðskap. En það er svo margt sem sækir í tómið og áður en varir er það fullt af alls kyns óþarfa og óhollustu.

Rétthugsun hvers tíma

Hvað sögðu fræðimennirnir um Jesú í guðspjalli dagsins? „Hann guðlastar!“ Af hverju sögðu þeir það? Jesús læknaði mann sem var lamaður og gat sér enga björg veitt en fylgdi ekki þeim viðmiðum sem við lýði voru. Og Jesús tengdi saman í einni setningu þá hugsun að manneskjan er ein heild – líkaminn og sálin – þetta eitt. „Syndir þínar eru fyrirgefnar,“, sagði hann. Hann reisti hann við um leið og hann færði honum heim sanninn um kærleika Guðs sem er æðri öllum skilningi og maðurinn fékk mátt á ný.

„Hann guðlastar!“ sögðu fræðimennirnir – fulltrúar rétttrúnaðar, rétthugsunar síns tíma.