Sáðmaðurinn

Sáðmaðurinn

Margt fólk í samfélaginu er “sáðmenn” í margvíslegum skilningi. Sáðmaður er sá sem dreifir brosi, hlýju og vináttu. Leggur góð orð til mála, hrósar, hvetur og byggir upp. Við eigum að vera sáðmenn, hvert og eitt. Þegar við ölum upp börnin. Þegar við hugsum um foreldra okkar. Ræktum vináttuna og störfum með öðrum á vinnustað okkar. Einmitt í öllu þessu þá er skylda okkar að strá góðu fræjunum án þess að hafa af því áhyggjur hvernig þau muni spíra. Eitthvað gott mun alltaf vaxa og bera ávöxt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Jesús var meistari dæmisögunnar. Hann notaði þetta frásagnarform margoft og sögur hans hafa lifað lengur en flestar aðrar sögur. Þær eru einstakar í sinni röð.  Frásagnirnar eru oft einfaldar að sjá en á þeim eru oftar en ekki margvíslegar hliðar og djúpur boðskapur.  Margar dæmisögur Jesú fá frásagnarmyndir sínar frá landbúnaði og þar koma fyrir kindur og hirðar, úlfar og þjófar. Aðrar sögur hafa víngarða og verkamenn sumar hafa fræ og plöntur. Dæmisagan í dag  er um sáðmann og fræ. Hún samanstendur af tveimur hlutum. Dæmisagan sjálf var sögð til fólksins en skýringin var gefin lærisveinunum í framhaldinu.  Hér bæði segir Jesús söguna og útskýrir hana fyrir völdum hópi. Útskýring Jesú  er síðan gefin okkur líka fyrir tilverknað guðspjallamannsins.

Sáðmaðurinn í dæmisögunni er ótrúlega örlátur á hið verðmæta fræ. Hann stráir frækorninu þannig að dýrmætu kornin falla í alls konar jarðveg. Það myndu sennilega fáir sáðmenn hafa gert á dögum Jesú því fræið var verðmætt og mátti helst alls ekki fara til spillis. Fræunum  hefur verið bjargað í síðustu uppskeru og þau varðveitt vel og vandlega. Frækornin bera í sér lífið sjálf því án þess verður engin ný uppskera og fæðuframleiðslan stöðvast. Það er með þau eins og með eldinn í gamla daga sem aldrei mátti deyja út því oft voru ekki  til eldfæri til að tendra hann að nýju. Við munum e.t.v. söguna af Gretti í Drangey sem varð að sækja sér eld upp á land.  Frækorn er það síðasta sem nokkur eyðir og það sem maður vill alls ekki að skemmist eða fari til spillis. 

Fræið er orð Guðs segir Jesús. Hann ber saman ólíkan jarðveg og mismunandi leiðir fólks sem tekur við orði Guðs. Hvað verður um fræ dæmisögunnar er mynd af því sem gerist þegar fólk heyrir orð Guðs. Dæmisöguna má lesa sem ákall til okkar í dag um að heyra orð Guðs og taka á móti því orði og leyfa því að vaxa og dafna innra með okkur.  Einnig má skilja dæmisöguna sem hvatningu  til lærisveinanna um að halda áfram að dreifa orði Guðs. Sannarlega erfitt verkefni í byrjun og ekki vænlegt til mikils árangurs á þeim viðsjálu tímum.  En boðskapur Jesú er uppbyggjandi og segir að  „eitthvað“ mun falla í góðan jarðveg og það mun bera hundrað sinnum það sem sáð var.  Hin hundraðfalda uppskera er mikill ávinningur og talsvert meira en líklegt er að sáðmaður gæti fengið í landbúnaði.  En sé fræið Guðs orð þá má vænta þess að útbreiðsla  þess verði bæði mikil og hröð. 

Eldri prestur taldi starf sitt hafa skilað litlu. Hann hefði mestalla ævina predikað yfir þessum fáu þorpsbúum sem hann síðan jarðsöng einn af öðrum.  Það fækkaði stöðugt á kirkjubekkjunum í gömlu kirkjunni og engir nýjir bættust í söfnuðinn.  Prestinum fannst að komið væri upp einskonar endatafl þar sem spurninginn væri hvort hann lifði lengur en síðustu safnaðarmeðlimirnir eða að þeir myndu lifa hann. Hvort sem yrði þá væri uppskeran rýr, afrakstur starfsævinnar við boðun orðsins myndi líklegast  deyja með honum og söfnuður hans lognast útaf líka.   Eitt sinn kom þó nýr kirkjugestur í messu.  Presturinn þekkti hann aftur. Þennan mann hafði hann fermt fyrir 30 árum eða svo.  Eftir messu urðu fagnaðarfundir og þá fékk gamli presturinn að heyra um lífsstarf fermingardrengsins.  Maðurinn sagði: “Í fermingarfræðslunni heillaðist ég af því sem þú sagðir mér um Guð og Jesús. Ég eignaðist trú og mig langaði að segja öðrum frá því sem ég hafði fengið.  Það var þér að þakka að ég fór í trúboðsskóla og síðan hef ég verið trúboði í Afríku. Þú sáðir fræum sem ég hef látið vaxa og dreift allstaðar þar sem ég hef getað.”  Og það var satt.   Fyrir starf þessa trúboða höfðu tugþúsundir og hundruð þúsunda tekið kristna trú, byggt kirkjur og söfuði sem stöðugt stækkuðu.  Þannig var starf gamla prestsins ekki til lítils. Hann kom miklu af stað án þess þó að vita það sjálfur.  Uppskeran var meira en hundraðföld!

Það stórkostlega við sáðmanninn er nefnilega þetta. Hann sáir en veit ekki hvar eitthvað muni spíra, vaxa og dafna.  Hlutverkið að sá er mikilvægt.  Sáðmaðurinn getur ekki annað en fylgt eðli sínu og stráir  með hægri hendi í taktastri sveiflu fisléttum frækornum sem dreifast víða.

Margt fólk í samfélaginu er “sáðmenn” í margvíslegum skilningi.  Sáðmaður er sá sem dreifir brosi, hlýju og vináttu. Leggur góð orð til mála, hrósar, hvetur og byggir upp. Við eigum að vera sáðmenn, hvert og eitt. Þegar við ölum upp börnin. Þegar við hugsum um foreldra okkar. Ræktum vináttuna og störfum með öðrum á vinnustað okkar. Einmitt í öllu þessu þá er skylda okkar að strá góðu fræjunum án þess að hafa af því áhyggjur hvernig þau muni spíra.  Eitthvað gott mun alltaf vaxa og bera ávöxt. 

Jesús sagði eitt sinn frá manni er sáði illgresi í hveitiakur óvinar sína.  Sumt fólk dreifir illgresi. Það sáir orðum illsku og  öfundar. Kemur illu til leiðar.  Þannig er okkur ekki ætlað að vera. Höfum taumhald á tungunni og veljum góðu orðin en kæfum þau slæmu.

En þá okkur sé ætlað að vera sáðmenn þá eigum við líka að vera jarðvegur.  Við eigum að taka á móti því góða og hlúa að því.  Gefa því jarðveg svo það beri ávöxt.  Verum ekki eins og jörðin við götuna þar  sem andstæðingur Guðs rændi strax orðinu áður en það gat fest rætur. Grýtt jörð leyfir frækorninu að spíra, en aðeins stuttan tíma áður en það visnar. Sumt fólk blómstrar af ákafð og gleði yfir einhverju í stutta stund, en þegar frá líður missir það staðfestuna og áhugahvötina.   

Þyrnar kæfa frækornin litlu, þau eiga aldrei möguleika.  Áhyggjur og auður vaxa eins og þyrnar  í lífi margra og þar getur ekkert annað þrifist.  Biblían á  ýmsar sögur sem sýna hvernig veruleiki efnisinshyggjunnar ógnar vexti og þroska trúarinnar.

Aðalatriðið í þessari dæmisögu er þetta: Orði Guðs er sáð í heiminum. Því er sáð víða og yfir allt og alla.  Ríkulega er því dreift svo allir geti fengið sinn skammt.  Orð Guðs hefur vaxtarmöguleika sem taka fram öllu sem við þekkjum og getum búist við.  Orði Guðs er ógnað í lífi okkar.  Þar er ekki alltaf góður jarðvegur. Við látum oft glepjast af ýmsu í kringum okkur og týnum trú okkar. Við týnum okkur sjálfum líka.

Dagurinn í dag er nefndur Biblíudagurinn. Hann er tileinkaður hinni helgu bók og orði Guðs er hún geymir.  Fyrir orð þeirrar bókar þekkjum við Jesú og sögur hans. Fyrir þá bók eigum við tungumálið okkar íslenskuna. Biblían hefur haft meiri áhrif á allt samfélag okkar en nokkur önnur bók í veröldinni. Ef ég ætti að telja upp allt sem við eigum Biblíunni að þakka myndi mér ekki endast dagurinn, ekki vika og líkast til ekki árið.  Því svo mikil eru áhrifin.

Góður jarðvegur ber ávöxt. Margt fólk hefur heyrt orð Jesú og gert þau að sínum orðum. Í trú, í von og í bæn lifa margir samkvæmt því sem Jesús hefur sagt og boðað. Þar er hin frjóa jörð sem gefur hina margföldu uppskeru. Trú fæðir af sér nýja trúaða einstaklinga. Sáðmaður og jörð vinna sem eitt að því að græða upp mannlífið allt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Prédikun í Þorlákskirkju 16. febrúar 2020.