Bjargráðin

Bjargráðin

Þegar leiðir Jesú og sjúka drengsins lágu saman þá gat drengurinn ekki tjáð sig en hann átti sér góðan málsvara í föður sínum sem þótti vænt um hann og bar hann á bænarörmum og þráði það eitt að hann myndi læknast af meinum sínum.

Lærisveinarnir, Pétur, Jakob og Jóhannes fóru eitt sinn upp á fjall með Jesú.  Þar sáu þeir löngu liðna menn, Móse og Elía birtast fyrir augum sér þar sem þeir voru að tala við Jesú. Þeir komu við sögu á löngu liðnum tímum í sögu Ísraelsþjóðarinnar. Brátt hurfu þeir og Jesú var einn eftir og hann ummyndaðist fyrir augum þeirra og skein eins og sólin með yfirnáttúrulegum og dýrðarfullum hætti. Ugglaust hefur trú lærisveinanna þriggja og traust í garð Jesú styrkst mjög við þessa yfirnáttúrulegu lífsreynslu en hann sagði við þá að hann væri ljós heimsins.

Hinir lærisveinarnir níu biðu þeirra fyrir neðan fjallið ásamt mannfjölda sem fylgdi Jesú á ferðum hans. Í þessum hópi var faðir sem bað þessa lærisveina að lækna son sinn sem haldinn var illum anda eins og fram kemur í guðspjalli þessa drottins dags.  Þeir báðu fyrir honum en hann læknaðist ekki.   Faðir drengsins varð fyrir miklum vonbrigðum þegar þeim mistókst það og hann ákvað að leita á náðir Jesú þegar hann kom niður af fjallinu og hann ávarpaði hann sem Meistara. ,,Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“  Jesús brást reiður við og upplifði angist og vonbrigði vegna vantrúar mannkynsins. .Hann sagði. ,,Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur?  Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín!

Við kæru Kristsvinir í Breiðholtskirkju skynjum í orðum Jesú að hann er virkilega pirraður í garð lærisveina sinna. Og hann er líka svo lítið ergilegur í garð föður drengsins sem segiir við hann.,,En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“  Þá segir Jesús með nokkrum þjósti að því er virðist.  ,,Ef þú getur!“ Og svo segir hann þessi þekktu orð:,,Sá getur allt sem trúir.“ Þá missir faðir drengsins sig gjörsamlega og hrópar.  ,,Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“  Veikindi sonarins höfðu tekið á hann svo árum skipti og nú virtist lækning vera í sjónmáli. Og hann greip í hálmstráið sem Jesús var honum.

Það er athyglisvert að Jesús virðist ekki hafa farið með bæn þegar hann læknaði drenginn í framhaldi.  Hann hins vegar ávarpaði andann sem var innra með drengnum og hann fór út af honum og drengurinn læknaðist.

Við skynjum að andrúmsloftið var þrungið spennu ekki síst vegna þess að lærisveinunum hafði mistekist að reka andann út af drengnum. Faðirinn var virkilega gramur og vonsvikinn og lætur vonbrigði sín í ljós og Jesús hlustar og bregst við ákveðinn með gagnrýnum og uppbyggilegum hætti.

Á dögum Jesú gerði fólk sama sem merki milli sjúkdóma og andsetningar.  Í dag vitum við betur í ljósi framfara í læknavísindunum.  Við vitum að þessi drengur sem sagt er frá í guðspjallinu var ekki haldinn illum anda. Hann átti hins vegar við alvarlega flogaveiki að stríða sem olli því að hann stirðnaði stundum upp, froðufelldi og gnísti tönnum.  Og svo virðist sem hann hafi átt það til að falla niður fyrirvaralaust í vatn og opinn eld sem gat ógnað lífi hans.En hvað er flogaveiki?

Flogaveiki stafar af truflun í boðkerfi heilans sem veldur stuttum köstum, svonefndum flogum. Flog stendur venjulega ekki lengur en fimm mínútur. Vísindamenn telja að flogaköst eigi sér stað þegar óeðlilega sterk rafboð berast milli heilafrumna. Ekki er vitað með vissu hvers vegna þetta gerist. Ef einhver fær flog þá ættu nærstaddir að leyfa floginu að ganga yfir og láta nægja að tryggja að sjúklingurinn verði ekki fyrir meiðslum og að hann geti andað.

Flogaveikilyf eru lykillinn að því að halda flogum niðri. Sífellt er verið að bæta meðferð með flogaveikilyfjum og gefur fjöllyfjameðferð besta raun.

Á tímum Jesú fóru samskipti fram með samtölum. Þegar leiðir Jesú og sjúka drengsins lágu saman þá gat drengurinn ekki tjáð sig en  hann átti sér góðan málsvara í föður sínum sem þótti vænt um hann og bar hann á bænarörmum og þráði það eitt að hann myndi læknast af meinum sínum. Fyrst ræddi hann við lærisveinana níu sem biðu eftir Jesú og báðu þá að lækna son sinn.Og síðar ávarpaði hann Jesú og kvartaði yfir því að lærisveinunum mistókst að lækna son sinn.

Kæru Kristsvinir. Mér er hugsað til þeirra sem glíma við langvinna sjúkdóma, ekki síst barnanna og foreldra þeirra sem oft á tíðum fyllast örvæntingu þegar langt virðist vera í lækninguna. Ég þekki foreldra sem misstu dreng sinn úr flogaveiki fyrir tvítugt. Hann var frændi minn.  Við þekkjum öll til fólks sem er að glíma við langvinna sjúkdóma af ýmsu tagi. Og við lesum stundum viðtöl við foreldra langveikra barna í dagblöðum eða á samskiptamiðlum og við dáumst að æðruleysi þeirra gagnvart veikindum barna sinna og við samgleðjumst þeim þegar vel gengur og finnum til samúðar með þeim þegar hlutirnar fara þróast á verri veg.

Sumir foreldrar virðast vera mjög örvæntingarfullir og þrá lækningu og lausn frá fjötrum sjúkdómsins. Aðrir foreldrar virðast ekki geta meir. Sumir hafa töluvert út á þjónustuna að setja sem börn þeirra fá í heilbrigðiskerfinu oft á tíðum vegna manneklunnar sem þar ríkir. Foreldrar barna sem glíma við geðraskanir kvarta stundum yfir lélegri þjónustu sem börnum þeirra er boðið upp á. Aðrir virðast vera ánægðir.  Það er ekki á vísan að róa þegar heilsan er annars vegar. Veikindi geta orsakað spennuþrungið andrúmsloft. Og þegar fjárhagsáhyggjur bætast við þá er víða erfiður róður. Það er ekki á það bætandi oft á tíðum.

Í þessu sambandi er vert að  minnast á það að nokkur félagasamtök skipuleggja og samhæfa stuðning og þjónustu fyrir fjölskyldur barna sem eru alvarlega langveik hérlendis.  Hafa þau reynst börnunum og fjölskyldum þeirra gott bjargráð

Guð hefur skapað forgengilega veröld sem við erum hluti af hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við verðum að sætta okkur við það í sjálfu sér. Í þessari veröld er að finna alls konar sjúkdóma, líkamlega sem andlega sem börn og fullorðið fólk er að glíma við. Það enda ekki allir hlutir vel í þessari forgengilegu veröld. Og við spyrjum þá: Hvar varstu Guð? Hvar ertu Guð?  Við veltum því fyrir okkur hvort það sé Jesús sem ráði því hvort Jón eða séra Jón lifi?  Og við leitum sífellt svara við stóru spurningunum, ekki síst þegar áföllin dynja á okkur því að þá finnst okkur við vera svo berskjölduð. Og við spyrjum þá,  Hvers vegna ég?

Við tilheyrum deyjandi jörð. Við þurfum að feta í fótspor sænsku skólastúlkunnar og tjá okkur um það og bregðast við áður en það verður of seint.  Við þurfum að feta í fótspor föður veika drengsins og viðurkenna vanmátt okkar áður en það verður of seint.  En það er einmitt grundvöllurinn að 12 spora kerfinu, grundvöllurinn að bata til líkama og sálar sem hefur svo gagnvirk áhrif á samskipti við fjölskyldu og vini. En er nema von að við spyrjum stundum.  Er einhver sem hlustar

Bænin er ekki eintal þar sem við tölum við okkur sjálf heldur tölum við við Guð sem hlustar. Við vonum a.m.k. að hann hlusti á bænir okkar. Stundum finnst okkur að hann haldi sig til hlés og skipti sér ekki af okkur. Bænasvarið virðist svo oft vera fjarri okkur. Þá verðum við fyrir vonbrigðum. Það er allt í lagi að vera reiður við Guð sem virðist svo oft vera fjarri okkur. Það er mannlegt að steita hnefana og glíma við Guð í vöku sem draumi. Í bæninni mætum við Guði og hann hefur þetta að segja við okkur. En á sama hátt gleðjumst við óumræðilega mikið þegar okkur finnst við hafa fengið bænasvar og við fyllumst þakklæti í garð Guðs.

Við tökum kannski ekki alltaf eftir bænasvarinu. Það getur t.d. komið til okkar í góðu fólki sem Guð sendir til okkar, t.d. heilbrigðisstarfsfólkinu sem er tilbúið að hlusta á okkur og hjálpa okkur að takast á við lífið og tilveruna í blíðu og stríðu.

Ég lét þess getið að flogaveikilyf eru lykillinn að því að halda flogum niðri. Þannig er einnig um aðra sjúkdóma að lyfin geta haldið sjúkdómum niðri þótt þau lækni sjúkdómana ekk.

,,Heiðra lækninn fyrir þjónustu hans, segir í 38 kafla Síraksbókar, - frá hinum hæsta kemur honum lækningagáfa. Drottinn lét jörðina gefa af sér lyf og hygginn maður forsmáir þau ekki. Með þeim hefur hann læknað og linað kvöl, lyfsalinn nýtir þau til að blanda lyfin. Drottinn lætur aldrei af verki sínu, frá honum berst heilsa um gjörvalla jörð. Lækning veitir lífgjöf.“  Þetta eru falleg orð í Síraksbók og við erum svo sammála þeim. Við berum virðingu fyrir lækninum okkar og þökkum honum fyrir góða þjónustu í okkar garð. En læknirinn tilheyrir líka þessari forgengilegu veröld og hann er því líka mannlegur og ófullkominn. Læknar leggja sig yfirleitt alla fram um að hlusta vel á skjólstæðinga sína en hugur þeirra er reikull og athyglin stundum eftir því

Mér finnst athyglisvert í guðspjalli dagsins að Jesús virðist hlusta í stað þess að biðja fyrir synimannsins að hann fái lækningu meina sinna.  Hann hlustar á andvörp föður drengsins sem játar trú sína og sýnir honum hluttekningu og skilning þegar hann getur ekki meir í raun og veru. Og hann sýnir honum fram á það að Guð einn ræður við þetta. Og þetta getum við öll tekið til okkar. Að Guð er ætíð með okkur jafnvel þótt okkur finnist að hann haldi sig víðsfjarri

Í einum sálmi íslensku sálmabókarinnar er Guði lýst sem föður andanna, sem frelsi landanna, sem ljósi, lækni, sem líknargjafa og huggara.  Að sönnu er Guð að baki alls sem lifir. Hann er grunntónn allrar tilveru. Hann er sá sem hann er og hann gefur okkur trúna.

Sá getur allt, sem trúna hefur, segir Jesús í guðspjalli dagsins. (Mark. 9, 23).

Þetta orð á við á öllum tímum.  Hvers vegna getur sá allt sem trúna hefur? Af því að trúin breytir innsta eðli mannsins. Hún endurskapar dýpstu þrá hjartans. Trúin skapar hugarfar Jesú hjá þeim sem trúna á.

Hvað er trúin? Hún er persónulegt samband við lifandi frelsara Jesú Krist í trausti og kærleika. Trú er lífssamfélag við Jesúm.  Þess vegna vill .trúaður einstaklingur aðeins það, sem Jesús vill, þegar allt kemur til alls.  Við megnum allt í samfélaginu við Jesú. Þótt við eigum töluvert langt í land hvað þetta varðar en við trúum því að við getum náð því takmarki og við tökum þá undir orð föðurins sem sagði við Jesú. ,,Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“  Við segjum þá við Guð.  Við trúum að þú hafir mátt til að gjöra mikla hluti.. Við erum þess fullviss að þú stendur sem sigurvegari yfir allri neyð lífsins og líka minni neyð. Gef okkur djörfung á stund neyðarinnar. Leyfðu okkur að koma enn á ný upp að krossi þínum og heyra orðið frá vörum þínum.  ,,Verið hugrökk, í sárum mínum er lækning og í blóði mínu er hreinsun að fá."

Sæll er sá sem lifir í trú, umvafinn kærleika Guðs og hefir himinninn fyrir takmark.

 Mrk 9. 14 -29
 Flutt í Messu í Breiðholtskirkju 13 október 2019.
  sr Sighvatur Karlsson, settur héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra