Guð sem býr til jólin mín

Guð sem býr til jólin mín

En eitt er nauðsynlegt, sagði Meistarinn forðum við Maríu sem sat við fætur hans og drakk í sig friðinn, ástúðina og gleðina sem streymdi frá birtingu Guðs á jörðu á meðan Marta var að hamast við að útbúa steikina og sósuna og búðinginn og möndlugrautinn.

Rétt fyrir jólin í fyrra var haldið upp á hálfrar aldar vígsluafmæli þessa glæsilega guðshúss, Háteigskirkju, sem Halldór H. Jónsson arkítekt teiknaði á sjötta áratugi liðinnar aldar. Í fyrirlestri sem Garðar sonur hans hélt hér á Gæðastund með eldri borgunum í haust kom fram að Halldór hafi valið sér þrjú einkunnarorð að leiðarljósi við hönnun hússins. Þau eru: Fegurð, hlýleiki og hátíðleiki.

Fegurð, hlýja og hátíðleiki. Við finnum sjálfsagt flest hvernig þessi gildi streyma til okkar þegar við komum hér inn, ekki síst á hátíðarkvöldi sem þessu. Altarismynd Benedikts Gunnarssonar undirstrikar fegurðina sem bogadregnar línurnar miðla, mjúk áferð timburverksins og dumbrauður litur teppisins vekur upp hlýjar tilfinningar og hátíðleikinn skín af gullnu súlunum og hæð hvelfingarinnar. Vonandi nær fegurðinn inn í okkar innsta kjarna svo hlýleikinn fái streymt út, út til sessunautanna og auki þannig á hátíðleik stundarinnar. Tilhlökkun Fyrir ríflega eitthundrað árum orti Benedikt Þ. Gröndal (1870-1938) jólalegt ljóð sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi syngur enn í dag við rússneskt lag. Það heitir Magga litla og jólin hennar og byrjar svona: „Babbi segir, babbi segir: „Bráðum koma dýrleg jól.“ Mamma segir, mamma segir: „Magga fær þá nýjan kjól.“ Tilhlökkunin er mikil að fá nýjan kjól og gjafir eins og bjart ljós og barnaspil, hugljúfu gullin hörpudisk og gimburskel og jafnvel haus á snoturt brúðufljóð. Og ekki má gleyma sætu lummunum, nammi namm! „Hæ, hæ, ég hlakka til,“ syngjum við stór og smá.

Það þarf ekki mikið til að gleðja smáfólkið. Heima hjá mér eru jólasveinarnir nokkuð sparsamir, miðað við sögur sem berast úr öðrum gluggakistum. Lítið endurskinsmerki, tveir tússlitir í einu uns heilum pakka er náð, nokkrir límmiðar, ekki þarf nú meira til að vekja örlitla hamingjutilfinningu í litlum hjörtum. Aðventan býður líka upp á svo margt annað; að tendra ljós á kransi, syngja saman lögin þekktu, sötra kakó úr litríkum bolla, allt þetta smáa sem kveikir gleði og miðlar friði þrátt fyrir myrkrið úti. Á slíkum augnablikum fáum við innsýn í himininn, enda segir í þriðja vísunni í söngnum hennar Möggu: „Hæ, hæ, ég hlakka til, himnesk verða jólin mín!“

Fyrsta versið í ljóði Benedikts Þorvaldssonar Gröndal – sem var systursonur nafna síns Sveinbjarnarsonar – er auðvitað kunnuglegast. Sumt eldra fólk hefur líka sungið næstu tvö vers en svo koma þrjú sem eru minna þekkt. Fjórða og fimmta vers eru svona:

Litli bróðir, litli bróðir lúrir vært í ruggunni, allir góðir, allir góðir englar vaki hjá henni. Hæ, hæ, ég hlakka til honum sýna gullin fín; bjart ljós og barnaspil, brúðuna og fötin mín.

Alltaf kúrir, alltaf kúrir einhvers staðar fram við þil kisa’ og lúrir, kisa’ og lúrir. Kann hún ekki að hlakka til? Hún fær, það held ég þó, harðfiskbita og mjólkurspón, henni er það harla nóg, hún er svoddan erkiflón.

Eftir versin um gjafirnar og litla bróður og kisu frá sjónarhóli barnsins beinist hugurinn inná við. Mál er að fara að hátta og lesa sitt Faðir vor. Það er mamma sem heldur sinni mildu og góðu hönd um Möggu litlu sem kúrir sig niður í babbarúm og bíar hana í svefn.
Nú ég hátta, nú ég hátta niður í, babbi, rúmið þitt. Ekkert þrátta, ekkert þrátta, allt les Faðirvorið mitt. Bíaðu, mamma mér, mild og góð er höndin þín. Góða nótt gefi þér Guð sem býr til jólin mín.
Við finnum öryggið sem streymir frá þessari svipmynd úr heimilislífinu hjá þeim Gröndalshjónum. Lítil stúlka hlakkar til jólanna með öllum þeirra ytri gæðum og langar að veita litla bróður sínum hlutdeild í gleðinni. Hún veltir vöngum yfir sálarlífi kattarins sem lætur ekki nálægðina við jólanna lífsglöðu læti hagga sér eitt augnablik (Steingrímur Thorsteinsson). Og svo er hún tilbúin að hátta, full af trúnaðartrausti og biður þess að „Guð sem býr til jólin mín“ gefi mömmu góða nótt.

Guð sem býr til jólin mín „Guð sem býr til jólin mín.“ Þessi hending er alveg dásamleg. Hún segir okkur að það er Guð sem býr til jólin okkar, þín og mín, ekki við sjálf í eigin mætti. Máttur okkar hvers og eins má sín oft lítils gagnvart aðstæðum lífsins. Við erum stundum við það að gefast upp gagnvart þeim verkefnum sem við sjálf eða aðrir hafa úthlutað okkur. Meðan við erum ung erum við oft kraftmikil og finnst við geta gert hvað sem er. En svo með aldrinum dvínar iðulega eigin máttur og vanmáttartilfinning gerir vart við sig. Þá er gott að fylgja visku reynslusporanna 12 sem eiga upphaf sitt í glímunni við áfengisbölið en hafa síðan verið yfirfærð á ýmsan tilfinninga- og tilvistarvanda. Hér eru fyrstu þrjú sporin samkvæmt AA og Al-Anon en orðalag Vina í bata er í hornklofa.

1. Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart áfengi [vegna aðskilnaðar frá Guði] og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi [að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi]. 2. Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð [heil] að nýju. 3. Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, [að láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu Guðs] samkvæmt skilningi okkar á honum.
Að fela líf okkar og vilja Guði. Það er kjarni trúarinnar. Hvort sem við notum orðalagið „umsjá Guðs” eða „handleiðsla Guðs” er merkingin sú sama: Að kannast við að við erum ekki fær um að móta okkar eigin líf, hvað þá annarra, á þann veg sem hollastur er fyrir okkur. Það merkir að vera reiðubúin/n að þiggja, rétta fram hönd eins og barn sem þráir ástúð og stuðning mömmu eða pabba, viðurkenna að við getum ekki búið til hamingjuna eða jólagleðina eða hvað það nú kann að vera upp á eigin spýtur.

Allt eða eitt? Að treysta Guði í fylgir mikill léttir, ekki síst í annríki aðventunnar sem hættir til að einblína á ytri umgjörð - að vera búin að gera þetta „allt“ sem „allir“ eru að tala um. Hvað það er veit nú enginn fyrir víst og hver hefur sína skilgreiningu á því hvað sé nauðsynlegt til að jólin komi nú örugglega í hjörtun. En eitt er nauðsynlegt, sagði Meistarinn forðum við Maríu sem sat við fætur hans og drakk í sig friðinn, ástúðina og gleðina sem streymdi frá birtingu Guðs á jörðu á meðan Marta var að hamast við að útbúa steikina og sósuna og búðinginn og möndlugrautinn. Einhver verður jú að gera það, á því er enginn vafi, því steikarlaus viljum við varla vera á jólunum, eða hvað?

Jú, jú, margt þarf að gera. En jólagleðin er ekki háð þessum ytri aðstæðum. Það er Guð sem gefur jólin, eins og það er Guð sem gefur fegurðina og hlýleikann og hátíðleikann inn í þetta indæla rými hér. Ytri ramminn sem Halldór arkítekt útbjó er sannarlega mikilvægur, eins og ramminn sem við leitumst við í vanmætti okkar að útbúa á heimilinum okkar. Það má segja að ramminn sé farvegur fyrir fegurðina og hlýjuna og hátíðina sem Guð gefur. En gjöf Guðs, nærvera Guðs, nánd Guðs er þó ekki háð okkar framlagi. Það hafa þau reynt sem tekið hafa á móti kærleika Guðs inn í ýmsar aðstæður sem ekki beint eru kjörlendi hátíðar og hlýju og fegurðar. „Hvert fátækt hreysi höll nú er,“ syngjum við um næstu helgi, „því Guð er sjálfur gestur hér.“ Hallelúja, hallelúja. Því segi ég í Jesú nafni:

Góða nótt gefi þér Guð sem býr til jólin mín.
Já, gefi Guð þér fegurð sína, hlýju og hátíðleika í hjarta. Gleðileg jól.